A. Kaupmannahöfn

Borgarrölt, Kaupmannahöfn

Litla heimsborgin

Ferðamenn úr öllum heimshornum hafa borið Kaupmannahöfn þá sögu, að hvergi sé betra að vera gestur en einmitt þar. Hin lífsglaða borg er ein hin vingjarnlegasta í heimi, opinská og alþjóðleg, án þess að hafa glatað dönskum siðum, hefðum og menningu.

Strøget, København 3

Strøget

Danir hafa tamið sér áhyggjulausa framkomu heimsmanna, stríðnislega gamansemi prakkara og listræna dirfsku handverksmanna. Þeir hafa opnað upp á gátt glugga sína til umheimsins og eru þó engum líkir.

Auðlindir eiga þeir fáar, aðrar en hugvitið, sem bezt kemur fram í heimsfrægum listmunum. Allt verður að gersemi í höndum þeirra, gler, leir og viður, silfur, stál og skinn. Og hvergi er betra að sjá þetta en einmitt í Kaupmannahöfn.

Strøget, København

Strøget

Ekkert er þar stærra eða í sjálfu sér merkilegra en í hvaða annarri heimsborg. Til eru stærri kastalar, söfn og fornminjar, garðar og verzlanir. En slíkir áningastaðir ferðamanna hafa sérstakt, danskt aðdráttarafl í Kaupmannahöfn.

Og svo er það lífið sjálft, sem dregur ferðamenn til borgarinnar, er endurspeglar nútímann, blíðan og stríðan í senn, allt frá vonleysi fíkniefnaneytandans upp í hófsama lífslyst. Í þessari bók munum við einkum staðnæmast við hið síðarnefnda.

Hér flýtur bjór og vín með góðum mat. Hér er samvera og einvera á kaffihúsum og krám, í göngugötum og görðum. Hér er notalegt að vera, því að gestir að utan eru yfirleitt fljótir að finna hinn danska takt.

Næstu skref