Author Archive

Okurbúlan 10-11

Punktar

Alþýðusamband Íslands segir, að 10-11 sé okurbúla. Það kemur heim og saman við mína reynslu. Fór þar inn um daginn, því að búðin var í sama húsi og fyrirtæki, sem ég heimsótti. Mér féllust hendur, þegar ég sá verðið. Fór út án þess að kaupa neitt. Sigurður Reynaldsson framkvæmdastjóri er hins vegar ósáttur við verðkannanir Alþýðusambands. Segir það vanhæft til slíkra verka. Talar um 5% af könnuninni, gerir að 95%. Notar eins konar smjörklípuaðferð. Könnunin er samt rétt að nánast öllu leyti. 10-11 er ótrúleg okurbúla. Er það eftir athugasemd Sigurðar eins og hún var fyrir hana.

Endursamið um IceSave

Punktar

Enginn hefur umboð til að skuldsetja þjóðina fyrir hundruð milljarða vegna IceSave. Ábyrgð ríkja á innistæðum nær aðeins til sjóða, sem myndaðir voru í því skyni. Það segir tilskipun Evrópusambandsins. Samningamenn sambandsins, Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og Bretlands heilaþvoðu samningamenn Geirs Haarde fyrr í vetur. Fengu þá til að samþykkja miklu meiri ábyrgð. Endurskipa þarf í samninganefndina, setja þar menn eins og Stefán Má Stefánsson prófessor og Lárus L. Blöndal lögfræðing. Auk þess ber að líta á, að Bretastjórn skaðaði endurgreiðslugetu bankans með því að setja hann á hryðjuverksskrá.

Persónukjör tekst ekki

Punktar

Persónukjör verður ekki í næstu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn er á móti því framfaramáli eins og ýmsum öðrum. Málið er þess eðlis, að um það þarf að nást víðtæk samstaða, enda er lítill tími til stefnu. Smám saman mun koma í ljós á næstu vikum, að flokkurinn er dragbítur á framfarir í landinu. Hann mun ekki heldur endurnýja í þingmannaliði sínu. Heldur mun hann enn treysta á þá, sem hafa orðið sér til mestrar skammar í umræðunni að undanförnu. Enda sýna skoðanakannanir ótrúlega mikið fylgi flokksins, þrátt fyrir átakanlega ríkisstjórn Geirs Haarde. Kjósendur flokksins eru litlir breytingasinnar.

Gylfi og góða veðrið

Punktar

Gylfi Magnússon hefur slegið í gegn sem ráðherra. Hann talar mál, sem fólk skilur. Sem er óvenjulegt með mann, sem kemur úr háskólakennslu. Fólk trúir því líka, að hann sé að reyna að gera sitt bezta. Það áttar sig á, að kominn er til skjalanna maður, sem ekki reynir að ljúga í síbylju. Sem ekki miðar orð sín eingöngu við að sefa reiði fólks á líðandi stund. Hann er alger andstæða við forvera sinn, Björgvin Sigurðsson, sem talaði tóma froðu út í eitt. Skynsamleg stjórnsýsla Gylfa á mikinn þátt í að skapa gott veður um nýja ríkisstjórn. Tími ópólitískra fagráðherra er risinn.

Gamli tíminn enn við völd

Punktar

Stjórn nýja Kaupþings seldi vildarvinum lúxusbíla fyrirtækisins án útboðs. Þannig fékkst ekki markaðsverð fyrir bílana, heldur brunaútsöluverð. Það er gott dæmi um, að stjórnir nýju bankanna eru óhæfar. Enda líta þær á starf sitt sem herfang. Eru skipaðar út á flokkahollustu í tíð ríkisstjórnar Geirs Haarde. Slík vinnubrögð eru úrelt. Nú vill fólk heiðarleika og starfshæfni. Það vill fólk, sem ekki er á framfæri flokka. Mikilvægt er að skipta strax út þessum bankaráðum og bankastjórnendum. Og ráða í þess stað eftir faglegu mati í eðlilegu umsóknarferli. Gamli tíminn er enn við völd í glæpabönkunum.

Tugmilljarðar týnast

Punktar

Er ekki kominn tími til að höfða mál gegn stjórnendum og eigendum gömlu bankanna? Þeir misnotuðu bankana til að afla fjár til margvíslegra glæfra. Notuðu krosseignarfélög og aflandseyjar til að hafa fé af eigendum innistæðna og komast yfir erlendan gjaldeyri. Síðustu vikurnar hafa margir fjárglæfrar þeirra komið í ljós. Nú síðast skúffufélög Ólafs Ólafssonar á eyjunni Tortola. Ljóst má vera, að eignarhaldi útrásarvíkinga á bönkunum var meira eða minna beitt til lögbrota. Þess vegna þarf að hefja málarekstur til að endurheimta stolið og undanskotið fé. Annars týnast tugmilljarðar.

Tryggvi Þór á rétta hillu

Punktar

Ég fagna, að Tryggvi Þór Herbertsson verður þingmaður Flokksins. Þar á hann heima. Er frægastur hagfræðinga fyrir að hafa ævinlega rangt fyrir sér. Fyrst man ég eftir honum, er hann vann við Háskóla Íslands undir dulnefninu Hagfræðistofnun. Þar samdi hann skýrslur í anda frjálshyggjunnar í þágu stjórnar Davíðs Oddssonar. Varð brátt vinsæll af fjárglæframönnum og fékk að stýra slíku fyrirtæki. Það gekk illa hjá honum. Frægastur varð hann fyrir skýrsluna, sem sagði nokkrum dögum fyrir hrunið, að allt væri í fínasta lagi. Núna segir hann ríkissjóð nánast skuldlausan. Fínt mál fyrir Flokkinn.

Óskar Bergsson á fullu

Punktar

Óskar Bergsson framsóknarmaður hélt 25 flokksbræðrum sínum veizlu á kostnað útsvarsgreiðenda í Reykjavík. Hann er ekki einn um þessa spillingu, sem var samþykkt af borgaryfirvöldum. En Óskar er alltaf fremstur í flokki í slíkum málum. Taldi einu sinni heppilegt að vera báðum megin borðsins í málum verktaka. Sem fulltrúi verktaka og sem eftirlitsaðili borgarinnar. Hefur alla tíð tekið hagsmuni verktaka fram yfir hag útsvarsgreiðenda. Óskar er erkitýpa gamaldags stjórnmálaspillingar. Enn á fullu. Í boði Sjálfstæðis.

Andvígir auknu lýðræði

Punktar

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru andvígir frumvarpi Framsóknarflokksins um kosningu til stjórnlagaþings. Þeir vilja ekki, að stjórnarskránni sé breytt í átt til lýðræðis. Kjósendur flokksins hafa heldur ekki áhuga á málinu. Þeir heimta ekki aukið lýðræði, telja það nóg fyrir. Þeir eru vanir að kjósa greifa, sem tekur að sér að hugsa fyrir alla í flokknum. Þeir vita ekki, hvað þeir eigi að gera við aukið lýðræði. Þeir vilja bara sterkan foringja, helzt eins og Davíð, en ekki eins og Geir. Umræða um stjórnlagaþing, sem setji nýja stjórnarskrá, er framandi kjósendum og þingmönnum flokksins.

Einæði Lýðveldisbyltingarinnar

Punktar

Lýðveldisbyltingin er of upptekin af stjórnlagaþingi. Telur það allra meina bót. Það semji þjóðínni nýja stjórnarskrá. Þar séu settar skorður við fólsku pólitíkusa, búið í haginn fyrir réttsýni og heiðarleika. Ég held, að formin séu aldrei merkari en innihaldið. Meira máli skiptir til skamms tíma að skipta út pólitíkusum í almennum kosningum með persónuvali. Fá nýja, er fara að óskum þjóðarinnar. Mér finnst það vænlegra til skyndiárangurs. Í haust má svo kjósa sérstaklega til stjórnlagaþings til að semja betri stjórnarskrá. Til ills er að láta breytta stjórnarskrá skyggja á pólitískt uppgjör í vor.

Google og Wikipedia

Punktar

Google ber af öðrum vefslóðum, leitarvél, sem svarar öllum spurningum þínum. Þú finnur þar nothæfar vefslóðir fólks og fyrirtækja, stofnana og félaga. Það er ekki bara leitarvél, einnig safn fimmtíu forrita. Svo sem kortasafnið Google Earth, fréttirnar News Google, myndasafnið YouTube, pósturinn GMail, útlitsforritið GoogleDocs, teikniforritið SketchUp. Margir nota Google til allra sinna netþarfa. Næstmerkasta vefslóðín er Vikipedia, sem helzt líkist alfræðiriti. Þótt villur komi þar fram, eru þær oftast lagaðar strax. Prófanir sýna, að Wikipedia er eins rétt og Britannica og margfalt stærri.

Kosninga-kínverji Geirs

Punktar

Birting tölvupósta frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum til forsætisráðuneytisins eyðir ágreiningi Jóhönnu Sigurðardóttur og Geirs Haarde. Það var sjóðurinn, sem tregðaðist við að losa leyndarhjúpinn um afstöðuna til frumvarpsins um Seðlabankann. Ráðuneytið bað um, að leynd yrði aflétt og fékk því framgengt. Í gærkveldi birti ráðuneytið tölvubréfin, sem eyða efa í málinu. Geir fór með rangt mál og einnig Birgir Ármannsson. Þeir hafa ekki beðist afsökunar og munu ekki gera það, því að það er ekki þeirra stíll. Enginn þarf lengur að efast um orð Jóhönnu. Málið var kosninga-kínverji Sjálfstæðisflokksins.

Nordal er gift álverinu

Punktar

Ólöf Nordal er gift forstjóra Alcoa á Íslandi. Sem slík náði hún þingmennsku norðaustanlands fyrir Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum. Síðan hafa menn séð, að álverið á Reyðarfirði var ekki sú framtíð, sem kjósendur þar eystra væntu. Hún ætlar því að flytja sig frá sveitavarginum og bjóða sig fram í Reykjavík. Ólöf er ekki bara þingmaður Sjálfstæðisflokksins, heldur sérstakur vildarþingmaður Moggans, sem linnulaust birtir greinar hennar á leiðarasíðunni. Engum þingmanni hefur Mogginn hossað eins á kjörtímabilinu. En Ólöf er vanhæf til að setja lög í þágu útþenslu Alcoa til Húsavíkur.

Evrópa er bitbeinið

Punktar

Það er meira en að segja það að gera ráð fyrir samstarfi Samfylkingarinnar og Vinstri grænna eftir kosningar. Evrópusambandið skilur milli flokkanna tveggja. Annar er eindregið fylgjandi Evrópu og hinn er eindregið andvígur henni. Kannski er hægt að ná einhverju samkomulagi til skamms tíma um að fara í viðræður við sambandið án skuldbindinga. En það yrði aldrei langlíft samkomulag. Mjög erfitt er að þoka landinu í átt til Evrópu meðan tveir af fjórum stjórnmálaflokkum eru beinlínis andvígir aukinni aðild að Evrópu.

Davíð lafir enn

Punktar

Hvaða skrípaleikur er þetta? Davíð Oddsson er kallaður á fund til að tjá sig um frumvarp, sem snýst um að reka hann. Þar segir hann, að frumvarpið snúist um Eirík Guðnason, ekki um sig! Ríkisstjórnin og Framsókn lofuðu þjóðinni að reka Davíð og hafa ekki hunzkast til þess enn. Daglega er verið að japla, jamla og fuðra um málið á þingi. Góðu hættið þessu rugli og farið að gera það, sem allir bíða eftir. Erlendir sjóðir og seðlabankar, sérfræðingar og innlend alþýða. Að reka Davíð, basta. Svo einfalt er málið og á að vera búið fyrir löngu. Draga þarf Davíð út og skipta um læsingar í bankanum, strax.