Author Archive

Örmagna þjóð vanhæf

Punktar

Ísland er svo örmagna af rótgróinni spillingu, að eingöngu útlendingur gat tekið við Seðlabankanum. Svo lítið traust er eftir í samfélaginu, að enginn Íslendingur gat tekið við. Límið er gersamlega farið eftir áratuga óstjórn Sjálfstæðisflokks, fyrst með hjálp Framsóknar, síðan Samfylkingar. Verið getur, að stjórnarskráin banni útlendinga, en það sannar þá, að hún er ónýtt plagg. Hún nær ekki yfir þá staðreynd, að Íslendingar eru vanhæfir til að vera fullvalda þjóð. Enn styðja 25% kjósenda Sjálfstæðisflokkinn, sem er sameiningartákn spillingar ráðamanna og tröllheimsku almennra flokksmanna.

Leikriti forsetans lokið

Punktar

Fallin eru leiktjöld Ólafs Ragnars Grímssonar forseta. Eftir langvinna ást þjóðarinnar er hann skyndilega orðinn óvinsæll. Stuðningur við hann hefur hrunið með hruni þjóðarinnar. Margt af því, sem hann hossaði sér á, hefur snúizt gegn honum. Myndirnar af honum með útrásarvíkingum á þeysireið um heiminn, eru orðnar að búmerangi. Forseti útrásarvíkinga er orðinn að forseta fjárglæframanna. Tilraunir hans til að endurhanna ímynd sína hafa ekki tekizt. Frægðargræðgi hans við myndun nýju ríkisstjórnarinnar varð mörgum ljós. Leikriti Ólafs Ragnars Grímssonar er lokið.

Jóhanna og Ingibjörg semja

Punktar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vill áfram vera formaður Samfylkingarinnar. Vill hins vegar víkja fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur í sæti á lista flokksins. Sem þýðir væntanlega, að þær leiði hvor sinn lista. Ingibjörg vill, að Jóhannna verði forsætisráðherraefni flokksins eftir kosningarnar í vor. Enda er raunar óvíst, að Ingibjörg hafi styrk flokksmanna til að sækjast eftir því. Röðun á lista ráða þær ekki prívat og persónulega, prófkjörin ráða því. En samkomulag þeirra mun ráða ferðinni og er til þess fallið að efla fylgi flokksins. Er liður í, að Samfylkingin mæti með hreint borð til kosninga.

Ómar er þjóðargersemi

Punktar

Gott er, ef Íslandshreyfing Ómars Ragnarssonar semur við annað afl í pólitík um aðild að því. Ómar er þjóðargersemi, sem hefur meiri innsýn í náttúru og umhverfi en aðrir Íslendingar. Komið hefur í ljós, að hann selur samt ekki nógu vel til að komast einn síns liðs á þing. Á lista með öðru fólki getur salan hins vegar gengið vel. Gott er, að Samfylkingin taki við Ómari, því að gerðir flokksins í umhverfismálum hafa vægast ekki verið frambærilegar. Með Ómari innanborðs er líklegra að efndir verði í samræmi við loforð. En fari hann ekki fram, verða umhverfismál jafnt illa haldin hjá flokknum sem fyrr.

Tvöföld afneitun öfga

Fjölmiðlun

“… öfgamenn, sem telja sig vera í stríði gegn meintri heimsvaldastefnu Bandaríkjanna, kveiktu í fjórum stórmörkuðum …” Svo segir Fréttablaðið í dag. Annað hvort “telja menn sig vera í stríði gegn heimsvaldastefnu” eða þeir “eru í stríði gegn meintri heimsvaldastefnu.” Ekki tvær afneitanir í senn, ekki tvöföld afneitun. Höfundi textans, aa, er svo mikið í mun að setja gjá milli sín og vinstri öfgamanna, að hann sést ekki fyrir í texta. Þar fyrir utan var alls ekki sýnt fram á, hverjir kveiktu í stórmörkuðunum. Pólitísk viðhorf skriffinna skína oft í gegn í fréttum.

Gallaðar skoðanakannanir

Punktar

Löngum hafði ég mesta trú á könnunum Fréttablaðsins, enda voru þær oftast nálægar kosningaúrslitum. Efast hins vegar um gildi þess, að minnka fjölda óákveðinna með því að spyrja þá ítrekað um líklegan flokk og sérstaklega um Sjálfstæðisflokkinn. Þannig var svarhlutfalli lyft úr 53% í 69%. Ég efast líka um könnun, sem ekki tekur á boðuðu framboði þeirra, sem hröktu fyrri ríkisstjórn frá völdum. Ég held, að fylgi flokkanna sé ofmetið í könnuninni, einkum Sjálfstæðisflokksins. Draga þarf nokkra þingmenn frá flokkunum vegna þessa. Mikilvægt er, að kannanir taki á sérstæðum skilyrðum líðandi stundar.

Lestarstöð frjálslyndra

Punktar

Guðjón Arnar Kristjánsson er bjartsýnn maður. Frá upphafi hefur Frjálslyndi flokkurinn verið eins konar lestarstöð, þar sem menn koma og fara. Að þessu sinni hafa flestir málsmetandi menn sagt skilið við flokkinn. Guðjón Arnar er hinn hressasti og segir mann koma í manns stað. Eflaust er það rétt hjá honum. Samt telur hann sig þurfa að halda aðalfund flokksins í kyrrþey, svo að fólk ómaki sig ekki þangað. Skoðanakannanir gefa flokknum litla von um þingmenn. Guðjón Arnar hefur mátulega mikla bjartsýni til að stjórna afskekktri og fáfarinni lestarstöð.

Öygard var ekki í Vöku

Punktar

Fínt er að fá Norðmann í Seðlabankann. Svein Harald Öygard er ekki skyldur neinum Íslendingi eða tengdur, guði sé lof. Hann er ekki á framfæri neins flokks eða hagsmuna. Hann er ekki í Sjálfstæðisflokknum og hefur ekki verið í stjórn Vöku. Mikil tilbreyting er að fá hæfan seðlabankastjóra eftir algera og blinda vanhæfni síðustu ára. Vonandi líður Öygard enga séríslenzka sérvizku í bankanum. Vertu velkominn. Meiri efasemdir hef ég um Arnór Sighvatsson sem aðstoðarbankastjóra. Hann hefur árum saman verið of mikið tengdur algeru og blindu aðgerðarleysi Seðlabankans í bankasukkinu.

Jóhanna tekur við flokknum

Punktar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er afburða greindur stjórnmálamaður. Slíkum er stundum hætt við að líta niður á sitt nánasta umhverfi. Ingibjörg var ein af þeim, lokaðist inni í fílabeinsturni. Áttaði sig hvorki á hruninu né á eftirleiknum. Fjarvera hennar vegna veikinda kom losi á virka flokksmenn. Þeir studdu í hjarta sínu andófið. Tök Ingibjargar á flokknum brugðust örlagakvöldið 21. janúar í Þjóðleikhúskjallaranum. Þar fundaði Samfylkingin undir búsáhaldabarsmíðum og brennum og fór á taugum. Stjórnin féll, Jóhanna Sigurðardóttir tók við sem flokksstjóri og hefur til þess yfirburðafylgi.

Fæddir gamlir og ættgengir

Punktar

Framsókn er farin að dala í könnunum eftir kúfinn af nýjabrumi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Flokkurinn tapaði á sérstöðu Höskuldar Þórhallssonar í seðlabankamálinu. Mig grunar líka, að hann hafi verið hvattur af nokkrum fjárplógsmönnum, sem telja Framsókn vera sinn pólitíska arm. Flokkurinn tapaði líka á tillögunni um 20% niðurfærslu skulda. Hagfræðingar hökkuðu hana í sig og kjósendur létu ekki ginnast, samkvæmt nýjustu könnun. Ég held, að Framsókn eigi erfitt með að búa til skil milli gömlu og nýju Framsóknar. Mörg nýju andlitanna eru fædd gömul og sum eru raunar bara ættgeng.

Geir umlar enn

Punktar

Ekki veit ég, hvers vegna hinn verkkvíðni Geir Haarde heldur blaðamannafund út af Davíð Oddssyni. Hann gat að minnsta kosti ekki svarað spurningum um sex viðtöl við Davíð. Virtist þó játa, að þau hafi átt sér stað. Málið er undarlegt. Á sama tíma og prentaðar skýrslur Seðlabankans sögðu frá góðri stöðu bankanna, segir Davíð prívat frá vondri stöðu þeirra. Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tóku ekki mark á honum. Hafa líklega trúað skýrslum bankans betur en tali bankastjórans. Það eitt sýnir, hversu fráleitt er að hafa virkan pólitíkus í forsvari fyrir Seðlabankanum.

Latur saksóknari hrunsins

Punktar

Við þurfum strax að fá að vita, hvaða pólitíkusar fengu hvaða sértækar fyrirgreiðslur í bönkunum. Við þurfum að fá að vita það fyrir prófkjör. Því er ófært að hafa latan saksóknara bankahrunsins. Ólafur Þór Hauksson virðist bara raða skjölum. Hefur ekki sýnt neitt frumkvæði, hefur ekki kallað fyrir Davíð Oddsson. Sá fullyrti þó, að hann viti um nokkur hundruð aðila, sem hafi fengið sértæka fyrirgreiðslu. Brýnt er vita strax, hvaða pólitíkusar eru í þeim hópi. Ekki er nóg að frétta það eftir prófkjör. Fjölmiðlar þurfa að spyrja Ólaf Þór alvarlegra spurninga um vinnuhraða og vinnuplan hans.

Þrætubókarlist Davíðs

Punktar

DV birtir í dag mörg dæmi um órökrétta þrætubókarlist Davíðs Oddssonar í Kastljósi. Sum orð hans voru smjörklípa, önnur voru rauðsíld. Yfirfærsla á spyrjandann var algeng og sóknarvörn ekki síður. Lesið listann á DV.is ykkur til skemmtunar. Dæmi eru: Fjöldi fólks, sem ekki vill náta nafns síns getið, hefur leitað til mín og sagt mér, að það treysti engum betur en mér. Allir treysta Seðlabankanum, því að hann einn hélt öllu gangandi. Þetta vita þeir, sem þekkja málið og vilja kynna sér það. Margt á eftir að koma í ljós, sem sýnir, að ég hef alltaf haft rétt fyrir mér. Næstu spurningu takk.

Ingibjörg ekki í náð Davíðs

Punktar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir neitar að hafa fengið meintar aðvaranir Davíðs. Samkvæmt því er eingöngu um samtöl hans og Geirs að ræða, þegar Davíð þykist hafa varað munnlega við hruninu. Á sama tíma og hann sagði skriflega, að allt væri í lagi með bankana. Þeim hershöfðingjum frjálshyggjunnar ber að vísu ekki saman um orðalag. En Geir viðurkennir með flóknu orðalagi, að einhver slík samtöl hafi átt sér stað. Ef þetta er rétt, hef ég haft Ingibjörgu Sólrúnu fyrir rangri sök. Hún ber bara sömu ábyrgð á hruninu og aðrir ráðherrar, en ekki sérstaka ábyrgð fyrir að hafa verið í náð Davíðs.

Landhreinsun tortímandans

Punktar

Þjóðinni léttir að heyra, að tortímandinn er farinn úr Seðló í síðasta sinn. Saga hans í pólitík var löng og skelfileg. Sem forsætis setti hann upp peningakerfi með nánast engu eftirliti, svonefnda frjálshyggju. Síðan sá hann um, að Seðlabankinn notaði ekki tæki, sem hann gat beitt til að hafa hemil á bönkunum. Loks gaf hann út prentaðar skýrslur um, að allt væri í lagi með bankana. Á sama tíma segist hann hafa varað Geir Haarde prívat og persónulega við stöðu bankanna. Viðtal hans í Kastljósi var samfelld hríð af rökleysum og dylgjum og smjörklípum og rauðsíldum. Landhreinsun er að honum.