Author Archive

Flestir andvígir aðild

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn hefur óbreytta skoðun á Evrópusambandinu, lízt ekki á gripinn. Svipað og vinstri grænir. Að auki hefur flokkurinn tækniskoðun, komna frá Birni Bjarnasyni. Felur í sér, að kosið verði tvisvar. Fyrst um, hvort semja skuli, og síðan, hvort samþykkja skuli. Rammara en hjá vinstri grænum, sem gera ráð fyrir einni atkvæðagreiðslu. Báðir flokkarnir þola þjóðaratkvæði, en munu sjálfir mæla gegn aðild, þegar þar að kemur. Tveir af þremur stóru flokkunum eru þannig andvígir Evrópuaðild, en þola tækniferlið. Aðild er Evrópu er því enn fjarlægari draumur Samfylkingarinnar en áður.

Marklaus sárindi kröfuhafa

Punktar

Ríkisstjórnin, Seðlabankinn og sjálfur landstjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins voru sammála. Töldu ekki ástæðu til að halda uppi gjaldþrota Spron til að gleðja erlenda kröfuhafa. Þess vegna hvarf Spron af vettvangi. Erlendir kröfuhafar þykjast sárir. Þeir geta ekki ætlazt til, að Seðlabankinn haldi uppi gjaldþrota banka, meðan kröfuhafar velta vöngum. Geta ekki heldur ætlazt til, að íslenzk stjórnvöld taki fjárhagsþátt í vangaveltum kröfuhafa. Spron keyrði sig sjálfur á hausinn með fjárglæfrum að hætti stóru bankanna. Seðlabankanum bar ekki skylda til að halda einkavæddum græðgisbanka á floti.

Aldrei neinir úrslitakostir

Punktar

Gylfi Arnbjörnsson játar mistök Alþýðusambandsins. Forseti þess segist hafa átt að setja vanhæfu ríkisstjórninni stólinn fyrir dyrnar miklu fyrr. Við þetta má bæta, að Alþýðusambandið setti þeirri stjórn aldrei úrslitakosti. Frjáls umræða þjóðarinnar á veraldarvefnum og öflugir útifundir hvolfdu ríkisstjórninni, ekki ASÍ. Forseti og hagfræðingar þess vöktu athygli fyrir fylgispekt við vanhæfa ríkisstjórn. Sennilega var það vegna stuðnings þeirra við Samfylkinguna. Alþýðusambandið gaf eftir launahækkanir í von um, að vanhæf ríkisstjórn sæi til sólar. Hún gerði það aldrei og hrökklaðist frá.

Gylfi og Enron og járnin

Punktar

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra talar mál, sem þjóðin skilur. Hann dregur ekki styttri stráin, heldur líkir stóru bönkunum við Enron. Það fyrirtæki sérhæfði sig í fölsun bókhalds og endurskoðunar, loftbólum í marklausum eignum, svo sem viðskiptavild. Í þetta vantar, að forstjórar Enron og endurskoðandans Anderson voru leiddir í járnum til gæzluvarðhalds. Og síðan dæmdir í langa fangavist. Enginn bankastjóri og enginn endurskoðandi hefur enn verið settur í járn hér á landi. Það stafar af, að rannsóknum stýra vanhæfir nefndaformenn, er líta nánast á milljarða fjárglæfra sem strákapör.

Sitja uppi með tjónið

Punktar

Rangt er hjá Kára Arnóri Kárasyni, framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins Stapa, að vanhæfnisstjórnin hafi skaðað lífeyrissjóðina. Hún ábyrgðist sparifé. Hún setti líka fé í að draga úr tjóni eigenda peningamarkaðabréfa. Það átti Geir Haarde aldrei að gera, en það kom ekki niður á lífeyrissjóðunum. Þeir áttu skuldabréf, sem bankarnir höfðu gefið út og gátu ekki borgað, þegar þeir fóru á hausinn. Það var tapað áhættufé, hvort sem vanhæf ríkisstjórn kaus að sinna sumum eigendum pappíra frekar en öðrum. Lífeyrissjóðirnir sjálfir keyptu pappírana ótilneyddir í stað þess að sýna varfærni í viðskiptum.

Myrkraverk Steingríms

Punktar

Gera þarf gegnsætt, hvaða fjármálastofanir fá fyrirgreiðslu skattgreiðenda, hvers vegna og með hvaða kjörum. Hvers vegna fá VBS fjárfestingarbanki og Saga Capital neyðarlán og aðrir ekki? Hvers vegna borga þessir aðilar 2% vexti meðan allir aðrir borga okurvexti að hætti Alþjóða gjaldeyrissjóðsins? Hvers eiga skattgreiðendur framtíðarinnar að gjalda, börnin okkar? VBS og Saga tóku fullan þátt í græðgisrugli og hefðu átt að fá að verða gjaldþrota í friði. Ráðuneyti getur ekki í kyrrþey valið út einhver gæludýr til að styðja. Við þurfum að sjá rökin, lýsum annars frati á Steingrím Sigfússon.

Persónukjör eftir kosningar

Punktar

Svo fór, sem vitað var, að ekki nægði einfaldur meirihluti á Alþingi til að taka upp persónukjör. Frumvarpið verður að bíða næsta þings. Þá verður það væntanlega að lögum. Allir flokkar aðrir en Flokkurinn styðja málið. Og þá mun Flokkurinn ekki hafa þingmannafjölda til að stöðva það. Kjósendur skilja, að málið næst ekki fram núna, enda hafa prófkjör verið notuð hjá fjórflokknum. Frumvarpið um persónukjör er ein helzta ástæða þess, að Samfylkingin mun illa geta endurnýjað samstarf við Flokkinn eftir kosningar. Til slíks stendur að vísu hugur ýmissa frjálshyggjumanna í þingliði hennar.

Mistækur Helgi í Góu

Punktar

Helgi Vilhjálmsson í Góu auglýsir gegn spillingu lífeyrissjóða. Það er rétt hjá honum eins og ótal öðrum, sem það hafa gert. Síðan hvetur hann sjóðina til útleigu húsnæðis fyrir aldraða, sem líka er gott mál. Samt er ekkert samband milli spillingar og skorts á leiguhúsnæði. Skrítnust finnst mér áherzla Helga á, að vegna þessa megi rýra höfuðstól lífeyrissjóða. Þar vegur hann að grundvallarfor sendu lífeyrissjóðanna. Þeir mega ekki rýra höfuðstól sinn undir neinum kringumstæðum. Spilling frjálshyggjunnar leiddi þá út í taprekstur. Slíkan taprekstur má ekki framlengja að tillögu Helga í Góu.

Viljum losna við kúlufólkið

Punktar

Við viljum ekki hafa kúlufólkið í pólitík, bönkum og fjölmiðlun. Við viljum ekki gráðuga fólkið, sem hélt sig geta eignazt frítt tugi og jafnvel hundruð milljóna með svindli og sjónhverfingu. Með því að bankar tækju marklaus veð í eignalausum einkahlutafélögum. Við viljum losna við bankastjórana Finn Sveinbjörnsson og Birnu Einarsdóttur. Við viljum losna við pólitíkusana Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttir og Tryggva Þór Herbertsson. Við viljum losna við fjölmiðlunginn Björn Inga Hrafnsson. Viljum, að kúlufólkið fari að gera annað. Okkur verður óglatt af að sjá það í pólitík, bönkum og fjölmiðlum.

Trúnaður langt umfram getu

Punktar

Ár er síðan Geir Haarde, Ingibjörg Sólrún og Árni Mathiesen vissu um yfirvofandi hrun. Þeim þótti það svo leyndó, að þau sögðu ekki einu sinni bankaráðherranum frá. Stöðvuðu ekki IceSave. Eftir hálft ár hrundu bankarnir og ríkisstjórnin hélt áfram að klóra sér í haus. Þremenningarnir eru núna löngu síðar hættir í pólitík. Hafa axlað pólitíska ábyrgð sína með semingi, en hafa þó ekki beðist afsökunar. Þetta var það, sem í vetur var kallað vanhæf ríkisstjórn. Þetta var virkilega vanhæft fólk, sem hafði verið trúað til starfa langt umfram getu þess. Slík vanhæfni fylgir oft fámennum þjóðum.

Vafasamir endurskoðendur

Punktar

Líta þarf á fleiri en bankastjóra og yfirmenn í bönkum. Þeir létu eigendur bankanna og gæludýr þeirra greipar sópa um bankana og gerðu þá gjaldþrota. En fleiri komu að málinu. Þekkt endurskoðunarfyrirtæki gerðu glæpamönnum kleift að ræna og rupla og að koma þýfinu undan í skattaskjólum. Þau léku hér á landi sama hlutverk og Arthur Anderson LLP lék hjá Enron vestanhafs. Undarlegast í málinu er, að kallað er í þessi sömu fyrirtæki, þegar endurskoða þarf eigin svínarí þeirra sjálfra og skipa þarf í skilanefndir banka. Bólufyrirtæki eins og KPMG eiga ekki að koma nálægt björguninni.

Dalai Lama og fótboltinn

Punktar

Suður-Afríka bannaði komu Dalai Lama til landsins. Hann átti að taka þátt í ráðstefnu um kynþáttaágreining. Fyrir bragðið neita Desmond Tutu erkibiskup og FW de Klerk, fyrrum forsætis, að taka þátt í ráðstefnunni. Nelson Mandela er enn að hugsa sig um. Ferðabannið stafar af miklum viðskiptum Kína og Suður-Afríku. Kína lagðist hart gegn komu hans og fékk að ráða. Ráðstefnan er á vegum Alþjóða knattspyrnusambandsins, sem hefur með banninu komið sér í sanngjarnt pólitískt klandur. En Dalai Lama kemur sem betur fer til Íslands í júní. Hann er einn af virtustu fyrirlesurum heims, víðast aufúsugestur.

Lifa með sverðinu

Punktar

Sönnunargögn hlaðast upp um glæpi ísraelska hersins í stríði hans gegn Gaza í upphafi ársins. Gögnin eru birt í Guardian í dag. Þau fela meðal annars í sér vísvitandi barnamorð. Ég treysti mér ekki til að endurbirta þau ósköp. Minni hins vegar á, að ég hef áður haldið fram, að glæparíki móti fórnardýr sín. Glæpir Ísraels gegn Palestínumönnum síðustu áratugi minna í vaxandi máli á glæpi þýzku SS-sveitanna í Austur-Evrópu. Ísrael hefur smám saman líkzt meira og meira fyrrverandi kvölurum Gyðinga. Ísrael valdi sér dauðans leið SS-sveita. Þeir, sem kjósa að lifa með sverðinu, falla fyrir sverðinu.

Græðgisbanki verðlaunaður

Punktar

Steingrímur Sigfússon ráðherra ber ábyrgð á 26 milljarða króna neyðarláni til VBS fjárfestingarbanka. Ofan á annað eru börn okkar og barnabörn veðsett fyrir vonlausu láni til enn eins gjaldþrota græðgisbankans. Ég hélt, að nóg væri komið af slíku, og þá fær maður þetta í hausinn. Við slíkar aðstæður er grundvallarkrafa, að allir bankastjórar og aðrir yfirmenn séu látnir fjúka. Að minnsta kosti áður en 26 milljarðar eru afhentir. Það var ekki gert. Fyrsta verk gráðugs Jóns Þórissonar bankastjóra daginn eftir gjöfina var að bjóða í líkið af Spron. Fyrir 26 milljarða af peningum skattgreiðenda.

Góðir skattar og frábærir

Punktar

Góð er tillaga vinstri grænna um endurvakinn hátekjuskatt, en frábær er tillaga flokksins um hærri fjármagnstekjuskatt. Hann er núna aðeins 10% og á að hækka í 14% samkvæmt tillögunni. Það er raunar lág tala í samanburði við 38% skatt á launatekjur. Sama prósenta ætti að vera í skatti á tekjur af fjármagni og vinnu. Hófsamur er 3% viðbótarskattur á tekjur yfir 500 þúsund og 8% viðbótar skattur á tekjur yfir 800 þúsund. Nærtækara er þó að setja hærri skattprósentur á enn hærri tekjur. Í framhjáhlaupi er þó hætt við, að lítið fáist úr skattþrepum í samanburði við við hærri fjármagnstekjuskatt.