Torsótt hundahreinsun

Punktar

Kannanir MMR og Gallup á fylgi flokkanna eru nánast samsíða. Smávægilegur munur er á tímasetningunni, Gallup-könnunin 14-22.apríl og MMR-könnunin 22.-26.apríl. Báðar eiga þær að ná til afleiðinga aflandseyjamála. Samkvæmt þeim hafa Píratar 27-29% fylgi, Sjálfstæðis 27-28%, Vinstri græn 14-18%, Framsókn 11%, Samfylking 8-10% og Björt framtíð 3-5%. Það stingur í augu, að flokkar spillingar hafa ekki tapað fylgi frá marzkönnunum, Píratar hafa tapað og Vinstri græn unnið á. Fréttir af spillingu og svínaríi hafa ekki fælt fleiri kjósendur frá bófunum. Hafa fundið sinn botn í 40%, fara ekki neðar. Pólitísk hundahreinsun verður torsótt.

Landlausa forsetafrúin

Punktar

Hjónabandið á Bessastöðum er sérkennilegt. Ólafur Ragnar hefur aldrei spurt Dorrit Moussaieff, hvar hún eigi heima. Taldi hana eiga heima í Bretlandi, en Bretland kannast ekki við hana. Hefur aldrei spurt hana, hvort fjármál hennar gætu skaðað embætti forsetans. Taldi hana ekki eiga aflandspeninga. En hún höndlar ekki bara með föðurarf sinn í skattaskjóli, heldur er hún líka sjálf skráð fyrir slíku fé. Forsetafrú Íslands ferðast á íslenzkum diplómatapassa, en á hvergi heima og veit ekkert um eigin peninga. Er ekki að verða efni í sögu af Mata Hari 21. aldar? Hvurslags no-no-no-no-no hjónaband er þetta á Bessastöðum?

Nei, nei, nei, nei, nei – og þó

Punktar

Virtasta dagblað Þýzkalands, Süddeutsche Zeitung, stærst á eftir Bild Zeitung, gerir grín að Ólafi Ragnari forseta. „Nein, nein, nein, nein, nein – oder doch“ segir það yfir þvera forsíðu. Verra verður það ekki. Arthúr Björgvin Bollason fékk erfiðar spurningar á fyrirlestri sínum í München og segir: „Það, sem Íslendingar ættu að fara hugsa um, er, að þessir atburðir síðustu missera, og núna með forsetann á forsíðu stórblaðs, hafa skapað mynd af þjóðinni, sem er farið að minna á einhvern frumstæðan þjóðflokk“. Ólafur hefði getað byrjað setningu sína á orðunum: „Mér vitanlega hefur …“ Tapaði sans fyrir takmörkunum sínum og varð þjóðinni til skammar.

Süddeutsche Zeitung

Taktísk hugsun

Punktar

Í stöðu aðdraganda forsetakosninganna geta fylgismenn Andra Snæs hugsað dæmið á ýmsa vegu. Sumir segja hann sinn mann með skýra sýn. Þeir muni standa með honum í kjörklefanum. Aðrir segja hann skorta séns. Betra að kjósa næstskásta kostinn til að fella drekann. Taktísk hugsun, góð eða vond eftir atvikum. Fátt er vitað um Guðna, en fólk telur hann tæpast nálgast Ólaf Ragnar í skepnuskap. Sú hugsun er eins konar frumstæð útgáfa af raðvali, Andri Snær nr. 1 og Guðni nr.2. Búið að gefa sér, að kostur 1 náist ekki, og fara beint í kost 2. Því miður virðist Guðni sýna lítinn áhuga á nýrri stjórnarskrá og náttúru Íslands. Það er vont.

Logið um innhaldið

Punktar

Leyniskjölin úr TTIP leynisamningunum sýna ekki bara yfirgang stórfyrirtækja. Sýna líka, að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins laug að þingi sambandsins um stöðu mála í viðræðunum. Eftir uppljóstrun Greenpeace má búast við, að allt fari á hvolf á þinginu og úti um alla Evrópu. Jean-Claude Juncker, forstjóri sambandsins, verður enn einu sinni kjöldreginn fyrir svindl og svínarí. Skiptir okkur máli, því Ísland er aðili að viðræðum um TISA, hliðstæðan leynisamning á Fríverzlunarsvæðinu. Alltaf kemur skýrar í ljós, að TTIP og TISA fela í sér, að auðræði stórfyrirtækja leysir lýðræði af hólmi. Þessir samningar eru landráð.

FRÉTTIN

Ríkinu kennd markaðsfræði

Punktar

ETA, Eftirlitsstofnun EFTA-ríkja, varar íslenzk stjórnvöld við að niðurgreiða orku til stóriðju. Samræmist ekki samstarfi Evrópuríkja. Orku skuli selja á  markaðsverði. Leggur fram línur um verklag til að finna markaðsverð. Tilefnið er Kárahnjúkavirkjun. Niðurgreiðir orku til Alcoa Fjarðaáls samkvæmt fjörutíu ára landráðasamningi. ETA vill, að strax verði hafið ferli til að leiðrétta orkuverðið. Ríkið hefur einn mánuð til að fallast á þá kröfu. Að öðrum kosti muni ETA opna formlega rannsókn um næstu áramót. Að venju kemur allt réttlæti á Íslandi frá Evrópu. Án aðhalds að utan væri stolið hér öllu steini léttara.

Guðni getur fellt Ólaf

Punktar

Reynist skoðanakönnun Frjálsrar verslunar rétt, markar hún þáttaskil í slagnum um forsetaembættið. Fáist svipuð útkoma frá ábyrgum og viðurkenndum aðila, þarf að hlusta á upplýsingarnar. Könnunin bendir til, að Guðni Th. Jóhannesson eigi möguleika á að leggja Ólaf Ragnar Grímsson. Andri Snær Magnason er hins vegar með mun minna fylgi, þótt allir þrír skari fram úr öðrum. Þá kæmi sterklega til álita, að Andri Snær dragi sig til baka til að efla líkur Guðna. Hann er álitinn eins konar miðjumaður, sem flestir sætta sig við. Að vísu á hann eftir að tjá sig um stórpólitísk mál. En Andri Snær er talinn of róttækur og Ólafur Ragnar dinglar í snöru skrautlegrar tækifærastefnu.

Lýðræðistýran dofnar

Punktar

Flest bendir til, að sem heild vanti Íslendinga reisn til að endurreisa lýðræði í rústum auðræðis. Bakslagið hófst, þegar hálf þjóðin kaus bófaflokka 2013 til að stjórna landinu. Enn hafa bófaflokkarnir þriðjungs fylgi, þótt gegnrotið innihaldið megi öllum ljóst vera. Útifundir á Austurvelli fjara smám saman út. Klappstýra útrásarinnar og varðhundur auðgreifa verður endurkjörinn forseti. Í haust hefja bófarnir brunaútsölu á eigum þjóðarinnar. Enn er árlega stolið tugum milljarða undan skiptum í þjóðarbúinu. Í næstu alþingiskosningum fórna auðgreifar milljarði til að hindra endurreisn lýðræðis úr rústum auðræðis.

Brunaútsalan mikla

Punktar

Þrá Bjarna Benediktssonar aflendings í hraða brunaútsölu ríkiseigna fer saman við þrá hans í frestun kosninga. Vill vera fjármálaráðherra, þegar handvalin brunasölunefnd hans höndlar með einkavæðinguna. Í brunaútsölunni er meiningin að selja 500 milljarða eignarhald á Landsbankanum og Íslandsbanka. Á sama tíma og selja þarf 300 milljarða stöðugleikaeignir og erlendar krónueignir. Ljóst er, að aflendingar einir geta boðið í svo gífurleg verðmæti. Þar mun margt fara fyrir slikk og það er stefna Bjarna. Ekki liggur á að selja allt þetta í grænum hvelli. En hagsmunir Bjarna og félaga hans ganga fyrir hagsmunum þjóðarinnar.

Góð Von í Hafnarfirði

Veitingar

Frambærilegu veitingahúsin í Hafnarfirði eru orðin tvö. Auk Tilverunnar í miðbæ er komin Von við fiskihöfnina. Von er skemmtilegar hönnuð sem matarhús og með opið inn í eldhús. Bæði feta troðnar slóðir í matreiðslu. Tilveran með fleiri fisktegundir. Bæði hafa þau fisk dagsins. Á Von fékk ég léttsaltaðan þorsk og í annað skipti lauksteikta löngu, hvort um sig á 1900 krónur í hádegi, gott verð. Hvort tveggja var lítillega ofsteikt, en bara lítillega. Bergmál er á Von og hávær tónlist í samkeppni við skvaldrið. Mætti gjarna fá hljóðdempandi plötur í loftið. Fullt hús í hádeginu, mjög gott í miðri viku í 27.000 manna svefnbæ.

Tortóla inn á hvert heimili

Punktar

Dagur verkalýðsins kallar á slagorð, er hæfa hagfræðingum Alþýðusambandsins, sem tóku trú á úreltu brauðmolatilgátuna. Slagorð, sem varpa ljósi á mikilvægi Salek-samkomulagsins, er bindur launafólk í fjötra. Stétt með stétt, eins og hjá Mussolini heitnum. Nú fossa árlega tugir milljarða framhjá skiptum búsins. Með hækkun í hafi hverfa þeir inn í skattaparadísir aflandseyja og koma hvergi fram í hagtölum. Engir brauðmolar hrynja af borðum auðgreifanna. Slagorð Gylfa og félaga gætu verið: Stétt með stétt! Séra Jón má græða á daginn og grilla á kvöldin! Græðgi er góð! Ég mæli þó með skiltinu: Tortóla inn á hvert heimili!

Þungbært Evrópusamband

Punktar

Hef lengi verið hlynntur Evrópusambandinu. Varð þó þungbært á tíma José Manuel Barroso, er orðið óbærilegt á tíma rónans Jean-Claude Juncker. Lengst var það málsvari neytenda, almennings og réttlætis. Undir Barroso og Juncker hefur það hins vegar hallazt að auðhringum. Gengur svo langt, að í kyrrþey er verið að búa til samning um að jafnsetja auðhringa þjóðríkjum. Endar með yfirtöku þeirra á Evrópu eins og gerðist í Bandaríkjunum. Þjónkun við peninga og peningamenn gerði Evrópusambandið að skrímsli í samskiptum við Grikkland. Evrópa er þannig litlu skárri en Ísland, sem tekur sjálfstæðan þátt í landráðum TISA-viðræðna.

Sæluríki séranna

Punktar

Sértu séra Jón er ævin fín. Eigirðu fé, geturðu skipt því í gjaldeyri, sem Jón getur ekki. Eigirðu ekki fé fyrir gjaldeyrinum, færðu lán, sem þú flytur á nýja kennitölu og lætur þá gömlu verða gjaldþrota. Sértu Jón biskup, færðu lánið bara án veðbanda, sem Jón getur ekki. Þú færð bankann til að semja við Mossack Fonseca um aflandsreikning. Sértu séra Jón færðu tilboð frá Seðlabankanum um 20% álag ofan á summuna, ef hún er flutt heim, sem Jón fær ekki. Sértu séra Jón gerist þú hrægammur, kaupir hlut í gjaldþroti bankans fyrir skít og kanil. Færð þá sem kröfuhafi feitan afslátt af stöðugleikagjaldi. Hér er sæluríki séranna.

Engar blautar tuskur

Punktar

Grunnþjónusta á að vera á vegum ríkisins, þar á meðal heilsa og samgöngur. Með samgöngum á ég við vegi, raflínur, símalínur, internet og flugvelli. Afturkalla ber hlutafélagavæðingu Landsvirkjunar, Landsnets, grunnnetsfyrirtækja, Símans og Isavia. Einnig á ríkið að reka allar heilsugæzlustöðvar og spítala. Þá ber ríkinu að rjúfa fáokun samráðsfyrirtækja á atvinnugreinum á borð við banka, tryggingar og olíu. Það gerist með yfirtöku eins olíufélags, eins banka og eins tryggingafélags. Þegar fylgislaus ríkisstjórn er á síðustu metrum, má ekki eyða orku í blautar tuskur í andlit fólks. Hvorki reyna að einkavæða Landspítalann né Landsnet.

Ópólitískir kjósendur

Punktar

Flestir, sem fylgjast pínulítið með pólitík, gera sér grein fyrir stöðu Bjarna Benediktssonar. Gætir ekki kjósenda eða kosningaloforða sinna. Einbeitir sér að þjónustu við ættingja sína og aðra auðgreifa. Fylgið hrynur samt ekki og hann fær jafnvel ábót, þegar Framsókn tapar fylgi. Kjósendur flokkanna tveggja eru ekki pólitískir. Munurinn er, að Framsókn er þjóðrembdari. Kjósendur þeirra fylgja sínu liði eins og áhugafólk um fótbolta. Raunar hefur Flokkurinn juðast frá hruni úr 40% fylgi niður í 25%. Afrek út af fyrir sig, sem ekki má vanmeta. Vonandi leiða fréttir úr skattaskjólum til, að botninn færist enn neðar, í 20%.