Rangfærsla ráðherra

Punktar

Kristján Þór Júlíusson fór sem oftar með rangt mál á Stöð 2 og var að venju ekki vefengdur af Heimi Má Péturssyni. Ráðgert hjúkrunarheimili í Reykjavík var ekki innistæðulaust. Varð fyrst innistæðulaust, þegar nýja ríkisstjórnin fleygði tugmilljörðum í gjafir til kvótagreifa, auðgreifa og ferðaþjónustu. Þess vegna er ekki lengur til fé í ýmis brýn mál eins og hjúkrunarheimili og Landspítalann. Ráðherrann reynir að kenna fyrri ríkisstjórn um það, sem er eingöngu núverandi ríkisstjórn að kenna. Hóf feril sinn á að gefa eigendum sínum gjafir. Getur því ekki komið saman nothæfum fjárlögum fyrir fólkið.

Falsanir allsráðandi

Fjölmiðlun

Uppljóstranir hafa leitt í ljós, að hagsmunaaðilar og ríkisstofnanir stunda víðtækar falsanir, er komast framhjá hliðvörzlu fjölmiðla. Þannig reka Exxon og aðrir umhverfissóðar öflugar lygar um, að loftslagsbreytingar séu engar og ekki af mannavöldum. Leyniþjónustur og ráðuneyti flytja stórtækar lygar um aðdraganda styrjalda og framvindu þerra. Fremst í flokki eru CIA, brezku leyniþjónusturnar og NATÓ. Dreift er lygum um Saddam Hussein. Bashar Assad og yfirleitt alla, sem eru fyrir vesturveldunum. Fáfróðir fjölmiðlar gleypa við flóðinu. Lygaflaumur í fjölmiðlum varð sérkenni tveggja síðustu áratuga.

Ónýt hliðvarzla

Fjölmiðlun

Cardiff-skýrslan um stöðu fjölmiðlunar sýnir, að staðfestingar hafa að mestu fallið niður. Beztu fjölmiðlar Bretlands lifa á óstaðfestum fréttum Press Association og Reuters, sem síðan eru óstaðfestar af miðlunum. Mikið af restinni er PR almannatengla og blaðurfulltrúa. 18% fréttaefnis beztu miðla er eigin vinna. Fréttastofur eru orðnar að verksmiðjum. Journalism er orðið að Churnalism. Starfsfólki hefur fækkað um helming og afkastakröfur hafa þrefaldazt. Engin tíð er lengur til staðfestinga. Í Bretlandi eru fleiri PR-menn en blaðamenn. Fréttamagnið hefur aukizt, en traustið bilað. Staðan er heldur skárri hér.

Berserkslæti kontórista

Punktar

Erfitt er að átta sig á berserkslátum, sem gripið hafa opinbera kontórista með vegamálastjóra í broddi fylkingar. Vegurinn yfir Gálgahraun er út í hött og kostar milljarð, meðan Landspítalinn sveltur. Enginn þarf á þessum vegi að halda, nema bæjarstjórn Garðabæjar, sem ekki þarf að borga krónu fyrir ruglið. Sökin er fyrst og fremst á herðum Hreins Haraldssonar. Hann sættir sig ekki við að hafa fengið núll í heilbrigðri skynsemi. Hann skal samt fá að nauðga sérstæðri náttúru með því að troða þessum óþarfa vegi á hraunið. Sigar fávísri löggunni á valinkunna borgara til að segja: Minn er mátturinn.

Allt fyrir auðgreifa

Punktar

Hinir fylgislausu landsfeður eru úrvinda eftir afrek vorsins. Búnir að létta byrðum af kvótagreifum, öðrum auðgreifum og ferðaþjónustu. Of þreyttir til að afgreiða þá, sem eru aftar í forgangsröðinni. Íbúðaskuldarar þurfa því að bíða til dauðans óvissa tíma eftir tékka í pósti. Sjúklingar verða að borga banaleguna á Landspítalanum til að bæta ríkinu tjónið af stóraukinni velferð auðgreifa. Meðan sætabrauðsformenn liggja í öngviti vaða minni spámenn um og heimta auknar misþyrmingar á aumingjum. Þetta er langversta byrjun stjórnar á þeim sextíu árum, sem ég hef horft á pólitíkina. Og allt fyrir auðgreifa.

Dauðastríðið hafið

Punktar

Fylgið hrynur hraðar af eymdarstjórninni en það gerði á fyrstu fimm mánuðum vinstri stjórnar Jóhönnu. Umbar auðgreifanna eru komnir niður í 37% fylgi. Gætu þess vegna sagt af sér, ef þeir fylgdu eigin kröfu frá því fyrir fjórum árum. Verst er hrakför Framsóknar, sem hefur rýrnað um nærri helming. Flúnir eru flestir, sem létu ljúga að sér, að tékkar kæmu í pósti eftir kosningar. Og smám saman er fólk að fatta, að Sjálfstæðisflokkurinn er aðeins fyrir þá ríkustu og gefur skít í aðra. Flokkar silfurskeiðunga hafa misst respekt til að gera breytingar á þjóðfélaginu. Hlutverkinu lokið og dauðastríðið hafið.

Þorpsfífl heimsþorpsins

Punktar

Síðari ár hefur hver ógæfan á fætur annarri sýnt, að fjölmiðlum er ekki hægt að treysta. Þeir þögðu um, að WorldCom og Enron væru blöðrur. Að þriðjungur peninga heimsins væri falinn. Að Víetnam-stríðið væri að tapast. Kom bara síðar í ljós. Sögðu ranglega, að margar tölvur mundu bila um aldamótin. Að gereyðingarvopn væru fyrst í Írak og síðan í Íran. Að Chernobyl hefði verið ofurslys og að atómver væru vond. Íraksstríð fjölmiðla var úr tölvuleikjum. Fjölmiðlar apa hver eftir öðrum óstaðfestar fréttir hagsmunaaðila. Og missa af alvörufréttum. Í Global Village nútímans eru fjölmiðlarnir þorpsfíflið.

Evrópuvæðing Tyrkja

Punktar

Mústafa Kemal, öðru nafni Tyrkjafaðir, taldi Tyrki standa Evrópumönnum langt að baki. Þeir þyrftu að vinna upp mismuninn. Taka upp evrópska siði, þar á meðal latneskt stafróf, evrópskan klæðnað, evrópska herfræði, evrópska skóla, evrópska veraldarhyggju. Á þessum grunni var lýðveldi reist á rústum einræðis. Tyrkjaher hefur síðan haldið uppi merki Tyrkjaföður og amast við uppgangi íslamista í kosningum. Á ýmsu hefur gengið þar, en í heild hefur Tyrkland fetað nær Evrópu. Enn er spenna milli hersins og íslamista og illt að spá um úrslit. Mikligarður er sem fyrr skurðpunktur austurs og vesturs.

Nútímalist í kaldastríðinu

Punktar

Bandaríska leyniþjónustan hossaði abstraktri og framsækinni list á tímum kaldastríðsins. Vildi sýna bandarískan frumleika í samanburði við sovézka listastöðnun. Þetta grunaði marga, en nú hefur það verið staðfest. Gegnum ýmsa sjóði fjármagnaði CIA menningarstofnanir um heim allan, þar á meðal á Íslandi. Ennfremur listsýningar af alls konar tagi. Ég man eftir skemmtilegu sendiráði í þá tíð. Ánægjulegast var, að þetta stakk í stúf við McCarthy, sem hamaðist í þinginu gegn sömu listamönnum fyrir kommúnisma þeirra. Einnig andstætt Harry Truman, sem sagði: “Ef þetta er list, þá er ég hottintotti”.

Falsarar borgarinnar

Punktar

Draga þarf þá til ábyrgðar, er fölsuðu stærð klassísku, hvítu og fallegu rétttrúnaðarkirkjunnar við Mýrargötu. Nafnlausir í bygginganefnd borgarinnar eða á vegum hennar frömdu þetta ógæfuverk. Líklega þeir sömu og seldu sér þá villu, að steypuklumpurinn handan götunnar sé í hverfisstíl. Fíflagangur falsaranna hefur illu heilli æst upp suma nágranna. Fengið þá til að amast við listaverkinu, sem lyftir hverfinu í æðra og betra veldi. Vonandi taka þeir sönsum. Eftir stendur, að ófært er, að kjánar stýri borgarskipulaginu. Þeir sömu hata bíla svo mjög, að þeir áætla fjögur bílastæði við kirkjuna.

 

Svei ykkur aumingjum

Punktar

Ein ríkasta þjóð heims hímir við dapran kost við Dumbshaf, því hún er svo dauf, að hún getur ekki varizt. Skipulega er búið að skuldsetja fólk og ríki upp í rjáfur. Allur arður auðlindanna rennur til greifa, sem sáldra engum brauðmolum til aumingja. Auðurinn rennur til aflandseyja, hverfur að mestu, en brot kemur til baka á vildarkjörum. Kvótagreifar þykjast eiga veiðirétt og komast upp með það. Allir greifar stunda skapandi bókhald, sem færir fé milli fyrirtækja og milli landa. Aumingjarnir horfa upp á þetta. Kjósa samt umba greifanna til að stjórna landinu í þágu greifa. Svei ykkur aumingjunum.

Valtur friður

Punktar

Um langan aldur hefur Istanbul verið borg fólks, sem trúir meira á Mammon en Allah. Þar er kaupsýsla Tyrklands og þar velta peningarnir. Áratugum saman hafa trúaðir sveitamenn flúið fátæktina til borgarinnar. Sumir hafa álnast þar og tekið upp evrópska siði. Aðrir lifa í sárri fátækt og leita trausts í gömlu trúnni. Á götunum ægir öllu saman, tízkuklæðum frá París og svörtum andlitsslæðum. Þeim svörtu hefur fjölgað á þeim aldarfjórðungi, sem ég þekki til. Íslamistaflokkur Tayyip Erdogan náði meirihluta í heimsborginni, en er enn tiltölulega hófsamur. Þarna getur friðurinn þó sprungið fyrirvaralítið.

Fjölmiðlar deyja

Fjölmiðlun

Um allan hinn vestræna heim þjappast fjölmiðlar í eigu viðskiptahagsmuna. Markaðshagkerfi er tekið upp á ritstjórnum. Dýrri fjölmiðlun er hafnað, svo sem rannsóknablaðamennsku. Ódýrir starfsmenn ráðnir í stað reyndra hauka. Afkastakröfur hindra tímafrekar, brýnar staðfestingar upplýsinga. Fjölmiðlar fyllast af lélegu hráefni úr tölvupósti frá almannatenglum. Traust miðlanna rýrnar og efnahagur þeirra versnar. Byrjaði hjá Los Angeles Times 1995 og er orðið að skriðu. Athugulir notendur hafna fjölmiðlum og snúa sér frekar að þröngmiðlum á vefnum. Markaðshagkerfið er að drepa hefðbundna fjölmiðla.

Lagatæknir skáldar

Punktar

Þegar lagatæknir semur lögfræðiálit fyrir málsaðila, kemst hann ævinlega að raun um, að málstaður hans sé réttur. Þegar Jón Steinar Gunnlaugsson kemst að einhverju fyrir nafnlausan kvótagreifa, gildir hið sama. Þótt Jón Steinar segi eignarhald kvótagreifa á aflaheimildum vera stjórnarskrárvarið, er það bara hefðbundið bull. Stjórnarskráin segir ekkert um það. Hins vegar segja landslög: “Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.  . . . Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.” Orðrétt.

Bezti matur Miklagarðs

Ferðir, Veitingar

Buhara2

Kostar bara 2500 krónur að borða tvíréttað á Buhara við stóra markaðinn í gömlu Istanbul. Samt eru 444 notendur TripAdvisor sammála um, að sé bezta matstofa stórborgarinnar. Hæst einkunn af 10.512 stofum. Falin í sundi og stílar ekki upp á túrista. Snyrtilega gamaldags innréttuð með innsýni til eldhúss. Þjónar eru rosalega kurteisir að hætti Tyrkja. Fékk skógarsalat úr smásöxuðum tómötum, kryddjurtum og hnetum í bráðsterkum kryddlegi, frábært salat. Með fylgdi útblásið flatbrauð. Síðan lambahakk teingrillað í eldi, skemmtilega kryddað og borið fram á jógúrt. Eftir matinn kom svo sætabrauð.