Landsnet veldur töfum

Punktar

Landsnet kvartar yfir, að tafir á afgreiðslu raflína í kerfinu valdi sér of miklu tjóni. Landsnet gleymir, að tafirnar stafa af eigin langvinna hroka. Felst einkum í að fyrirtækið hlustar ekki á nein rök um, að raflínur í jörð séu miklu ódýrari en fram kemur í samanburðartölum fyrirtækisins. Í sumum tilvikum kostar sama að leggja línu í jörð og í lofti. Fyrirtækið hefur með brögðum gert Vegagerðina samseka í að undirbúa loftlínu og veg um Sprengisand. Sveitarfélög hafa með málaferlum og annarri hörku þvingað Landsnet til að leggja jarðlínur. Andrúmsloftið kringum fyrirtækið mundi skána, ef forstjórar leggðu við hlustir.

Banksterinn bullaði

Punktar

Steinþór Pálsson sagði fátt af viti, þegar hann var kallaður fyrir þingnefnd. Gat ekki rökstutt sölu Landsbankans á Borgun án útboðs til Engeyinga og félaga. Bullaði bara meiningarleysu að hætti Sigmundar Davíðs. Miðað við venju um mat á fyrirtækjum áttu reikningar Borgunar að sýna töluvert hærra verð. Landsbankinn samdi af sér, ef ekki er hreinlega um umboðssvik Steinþórs að ræða. Þetta er enn eitt dæmið um, að bankastjórar eftirhrunsára eru engu skárri bankastjórum fyrirhrunsára. Stefna að nýju hruni. Níðast á alþýðu, en hossa glæframönnum. Ganga svo langt, að þeir aðstoða bófana jafnvel við siðlaust kennitöluflakk.

Hræsni og gerræði

Punktar

Ríkisstjórnin þykist fylgja almennri sparsemi, þegar hún sker velferð og heilsu þjóðarinnar niður við trog. Erfitt er að taka mark á slíku, þegar forsætis er búinn að ná sér í sjö aðstoðarmenn. Sparsemishugsjónin er hræsnin ein. Sá hinn sami gekk af göflunum á síðasta kjörtímabili, þegar Jóhanna fékk sér þriðja aðstoðarmanninn. Jóhanna gekk of langt, en hvað má þá segja um Sigmund Davíð. Svona er pólitík stjórnarflokkanna. Hún byggist mest á lygi og hræsni og einkum þó gerræði. Eins og þegar forsætis á lokamínútu tók Hornafjörð úr Suðurlandi og færði til Norðausturlands. Enginn hafði hreyft breytingu á stöðu Hornafjarðar.

Reiðileysi stjórnarandstöðu

Punktar

Samfylkingin er í reiðileysi með lítið fylgi. Á tíma árása á velferð og öryggi almennings, ætti fólk að fylkja sér um hana. En svo er ekki. Mestu veldur, að formaður er gamall bankavinur frá síðasta kjörtímabili, er fátt getur og ekkert selur. Vinstri grænir eru í svipuðu reiðileysi, en hafa þó formann með kvóta, sem kemst upp með að gera fátt. Hér er enginn velferðarflokkur láglaunafólks. Björt framtíð er í fyndnum málum á borð við breyttan mælikvarða tímans. Hún er með ótryggt fylgi á undanhaldi. Það litla, sem til er af stjórnarandstöðu, er hjá pírötum. En enginn hefur grætt á andstöðu við teboðsstefnu stjórnarinnar.

Munaðarlausu málin

Punktar

Sem kjósandi pírata í síðustu kosningum reyni ég að gera mér grein fyrir stöðu flokksins núna. Flokkurinn stendur sig bezt allra flokka í málum, sem snerta upplýsingafrelsi og opinn aðgang að upplýsingum. Hann hefur líka pönkast meira en aðrir flokkar í að ýta fram stjórnarskránni, sem þjóðin samþykkti. Þetta eru tvö af mikilvægustu málum samfélagsins og hart að hafa ekki nema 10% fylgi út á þau. Birgitta hefur lítillega tjáð sig um þriðja stórmálið, fiskveiðikvótann. Í fjórða málinu, launum almennings, nægir ekki tillaga að þingsályktun. Ég held, að á sviði auðlindarentu og velferðar vanti flokk með öfluga frambjóðendur.

Þrjár þjófaborgir

Ferðir

Þrjár borgir í Evrópu eru þekktar fyrir þjófnað á eigum ferðafólks, Róm, Madrid og Barcelona. Sú síðasta er verst og þar er minnstan stuðning að hafa af hálfu lögreglunnar. Tíðastur þar er töskuþjófnaður á breiðgötunni Rambla. Í Madrid er hann tíðastur við torgið Porta del Sol og í Róm nálægt aðaljárnbrautarstöðinni. Þessar þrjár borgir hafa löngum verið erfiðar, sennilega vegna skorts á áhuga borgarstjórnar. Tvisvar reyndu sígaunabörn að ræna mig í Róm, í kirkjunni Santa Maria dei Angeli og á götunni Coronari. Á Rambla horfði ég á rán og gat brugðið fæti fyrir þjófinn. Hann missti fótanna og ferðakonan endurheimti töskuna sína.

Hættuleg Barcelona

Ferðir

Hafði lengi ímugust á Barcelona eftir að hótel þar reyndi að hafa af mér fé. Tók við fyrirframgreiðslu upp í gistingu og kannaðist svo ekki við neitt, þegar ég veifaði kvittun. Það tók mig ár að slíta endurgreiðslu út úr því. Margir á sömu ráðstefnu urðu fyrir því á ýmsum hótelum. Félagið hefur síðan ekki haldið aðra ráðstefnu þar í borg. Löggan í Barcelona nennir ekki að sinna ræningjum á götum úti. Er líklega á mútum hjá sígaunum. Reynt var árangurslaust að ná af mér tösku á Rambla og ég horfði í tvígang upp á hið sama í sömu götu. Ræningjar starfa fyrir opnum tjöldum í Barcelona og eru mikilvirkir í hótelrekstri þar.

Vill spila með fólk

Punktar

„Við vitum auðvitað, við höfum farið yfir það áður, að þessi Rannsóknarskýrsla og þetta allt saman er að þvælast eitthvað fyrir okkur tímabundið“. Þessi orð Ólafar Nordal við útkomu Rannsóknarskýrslu alþingis eru brennd í huga mér. Þá var Ólöf hugmyndafræðingur þess, að Flokkurinn skyldi bara hunza skýrsluna, enda mundi heimskur almúginn fljótlega gleyma henni. Sú hefur orðið raunin. Nú er þessi sama Ólöf orðin innanríkisráðherra. Hún var tekin fram yfir þingmenn, enda hefur hún meiri myndugleika en þorrinn af undirmálsfólkinu þar. En hún er þrátt fyrir hæfileikana þeirrar skoðunar, að almúginn sé bara til að spila með.

Einkavæðing vatnsins

Punktar

Peter Brabeck, stjórnarformaður Nestlé, segir vatn ekki vera mannréttindi. Hann er forvígismaður einkavæðingar á vatni. Nestlé hefur komizt yfir vatnið á ýmsum þriðja heims svæðum og selur fátækum það á okurverði. Græðgin þykir honum vera til fyrirmyndar. Svipaðar skoðanir koma fram hjá öðru græðgisliði, til dæmis í bandaríska teboðinu. Þar reyna menn að tæta velferðina í sundur, þessa dagana einkum í heilbrigðiskerfinu. Hér á landi höfum við ríkisstjórn, sem gengur lengra í teboðshyggju en allar fyrri ríkisstjórnir. Hún mölvar alls staðar úr velferð, mest í heilbrigðismálum. Hannes Hólmsteinn er ekki nógu róttækur fyrir hana. Nú er Margrét Pála í Hjallastefnunni orðinn spámaður íslenzka teboðsins.

Vilja velferðina feiga

Punktar

Munurinn á þessari ríkisstjórn og forvera hennar er afstaðan til velferðar. Sú fyrri reyndi að vernda velferðina á erfiðum árum eftir hrunið. Þessi stjórn vill hins vegar velferðina feiga. Fyrri ríkisstjórnin var með Landspítalann og ýmsa aðra þjónustu úti á yztu nöf. En þessi ríkisstjórn ýtir þjónustunni fram af brúninni. Það er eins og silfurskeiðungarnir hati þjóðina og vilji, að hún drepist. Það getur engan veginn talizt normalt að slá skjaldborg um greifana, þegar sverfur að almenningi og heilsa fólks er í hættu. Þá er rétt að muna, að Sjálfstæðis og Framsókn eru bófaflokkar og að forsætisráðherra er siðblindur.

Fólk vill meiri velferð

Punktar

Þótt Íslendingar séu auðsveipir og seinþreyttir til vandræða, eru þeir ekkert líkir Bandaríkjamönnum. Hér vilja menn almennt hafa ókeypis almannaþjónustu í lagi. Fólk vill velferð með svipuðum hætti og á Norðurlöndunum. Það skilur samt að þjónustan verði fátæklegri hér en þar. Meirihlutinn veit líka, að það stafar af skjaldborginni, sem ríkisstjórnin hefur slegið um kvótagreifa og aðra greifa landsins. Fylgi ríkisstjórnarinnar hefur hrunið af þessari ástæðu. Íslendingar eru ekkert sérstaklega gefnir fyrir öfgar bandaríska teboðsins. Í auknum mæli sjá kjósendur, að það er af ásettu ráði, að ríkisstjórnin rústar velferðinni.

Vitlausasta heimskan

Punktar

Af mörgum heimskuverkum ríkisstjórnarinnar er náttúrupassinn sá vitlausasti. Ragnheiður Elín Árnadóttir var hálft annað ár að undirbúa málið. Margir bentu henni á, að gistináttagjald væri vitlegra, ódýrara og einfaldara, enda víða framkvæmt á áfangastöðum flugvélanna. Og að erfitt yrði að selja Íslendingum hugmyndina um náttúrupassa. Allt kom það á daginn og náttúrupassinn er almennt aðhláturs- og hneykslunarefni. Ráðherrann er hins vegar svo ruglaður, að engin leið var að hafa vit fyrir henni. Því fór sem fór. Náttúrupassinn er orðinn viðameira hneyksli en önnur stjórnarhneyksli, sem minna hafa hreyft við fólki

Mállausir valdamenn

Punktar

Með vaxandi vanhæfni pólitíkusa og embættismanna færist í vöxt, að þeir neita að tjá sig. Sjáum það vel í ráðherrum, sem vikum saman geta ekki svarað fyrir embættisverk sín. Til dæmis Kristján Þór Júlíusson með heilbrigðismálin í steik eins og þau leggja sig. Og líka í embættismönnum. Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri getur ekki falið embættisglöp sín. Frægasta dæmið er Sigmundur Davíð forsætis. Til skamms tíma þótti ekki sæmandi, að fólk í ábyrgðarstörfum léti svona, en andverðleika-væðingin lætur ekki að sér hæða. Líka má segja um marga, sem eru ófeimnir að tjá sig, að betra er heima setið en af stað farið.

Hættulegur ofsi

Punktar

Skoðanakönnun hefur leitt í ljós, að kjósendur hafa mun meiri áhuga og áhyggjur af heilbrigðismálum en öðru. Yfir 90% fólks setur þau mál í efsta eða næstefsta sæti. Því er misráðið hjá ríkisstjórn og stjórnarflokkum að níðast sérstaklega á heilbrigðismálum. Það kostar í almenningsálitinu að rústa Landspítalanum, drepa fólk á ört stækkandi biðlistum og hrekja lækna til útlanda. Kristján Þór hefur lítið sagt trúverðugt um þessi mál og er að mestu farinn í felur. Ofsinn í hatrinu á ríkisrekinni þjónustu fer þó ekkert minnkandi. Ríkisstjórnin hagar sér að hærri bandaríska teboðsins. Fer sínu fram, þótt hún ögri 90% kjósenda.

Sjö aðstoða Sigmund

Punktar

Sigmundur Davíð hefur slegið Íslandsmet í fjölda aðstoðarmanna. Er kominn með sjö. Eins og Parkinson benti á, tekur mikinn tíma að stjórna slíkum fjölda manns. Ekki er von, að forsætis hafi tíma aflögu til að mæta á ríkiskontórinn eða á alþingi. Hins vegar hefði maður getað reiknað með, að einhver þessarra silkihúfna gæti sett saman frambærilegar ræður fyrir SDG. Eða kennt honum að umgangast gagnrýnendur án þess að fara á hvolf. En hvorugu er til að dreifa. Ætli silfurskeiðungurinn loforðaglaði þurfi ekki að fá sér áttundu og níundu silkihúfuna til að redda þessu. Búinn að skera svo mikið í heilbrigðisþjónustu.