Óvinsælir ráðherrar

Punktar

Þótt stjórnarflokkarnir hafi fundið sinn botn í samanlögðu 35% fylgi, er botn allra ráðherranna töluvert lægri. Sigmundur Davíð hefur 18% fylgi, þegar mæld er ánægja og óánægja með störf hans. Minnst óvinsæl er Eygló Harðardóttir með 26% fylgi, enda gerir hún ekkert. Verr gengur hjá Sigurði Inga með 17% fylgi, Gunnari Braga með 19% fylgi, Illuga Gunnarssyni með 21% fylgi og Kristjáni Þór með 22% fylgi. Enda hafa þeir verið í ýmsum skítverkum gegn almenningi. Allir ráðherrarnir eru óvinsælli en ráðherrarnir voru í stjórn Jóhönnu. Þetta vekur vonir um, að kjósendur fari að yfirfæra óvinsældir ráðherra á flokka þeirra.

Gullöld sögð hafin

Punktar

Skoðanakannanir benda til, að rétt sé kenning mín um, að stjórnarflokkarnir séu búnir að finna sinn botn og fari ekki neðar. Þeir geti hagað sér eins og þeim þóknast án þess að glata meira fylgi. Gæti verið skýringin á veruleikafirrtu rugli formanna og talsmanna flokkanna tveggja. Þeir tala um manndrápsfjárlögin sem endurreisnarfjárlög. Hrun Landspítalans kalla þeir innspýtingu. Hækkanir skatta kalla þeir lækkanir og ört vaxandi fátækt kalla þeir hagvöxt. Almennt má segja um orð þeirra, að svart sé hvítt og hvítt sé svart. Þegar þetta hefur engin áhrif á fylgið, virðist þriðjungur fólks ímynda sér, að hér sé gullöld.

Stóru bófarnir sleppa

Punktar

Þjóðfélaginu gengur ekkert að koma réttlæti yfir helztu útrásarbófa landsins. Nú síðast voru nokkrir sýknaðir í héraði. Annað hvort er Sérstakur saksóknari of lélegur til að gegna embætti eða þá að dómstólar sinna ekki réttlæti, bara meintum orðhengilshætti í lagatextum. Hugsanlega er um hvort tveggja að ræða. Flokkar ríkisstjórnarinnar láta sér þetta vel líka. Þeir skipuðu á löngum tíma nánast alla dómara landsins og Sérstakan að auki. Hins vegar er þetta vont fyrir samstöðu þjóðarinnar. Endurteknir sýknudómar eru ávísun á framhald ofsa og haturs í þjóðmálaumræðunni. Réttlætiskrafa mun áfram krauma undir niðri.

Ísrael einangrast

Punktar

ÍSRAEL einangrast hægt og bítandi undir forustu Benjamin Netanyahu. Hann hefur lítil svör við atburðarásinni. Dómstóll Evrópusambandsins hefur tekið Hamas á Gaza út af terroristaskrá. Þing Evrópusambandsins hefur samþykkt Palestínu sem ríki. Bandaríkin eru orðin einangruð í Sameinuðu þjóðunum vegna stuðnings við Ísrael og ná þar engu öðru fram. Fyrirlitin ítreka þau vetó í öryggisráðinu. Netanyahu gargar bara um helför gyðinga fyrir sjö áratugum. Evrópumenn nútímans bera samt enga ábyrgð á henni og stofnuðu Evrópusamband til að hindra þjóðrembu og rasisma í nútíð og framtíð. Dagar rasisma og hryðjuverka Ísraels eru taldir.

Uppeldi í fangelsi

Punktar

Bandarísk fangelsi í Írak voru og eru gróðrarstía brjálaðs haturs terrorista á öllu vestrænu. Ógeðið í Abu Ghraib gerði múslima að hörðum terroristum. Þegar þetta illræmda bandarískra fangelsi var lagt niður, voru fangarnir fluttir í Camp Bucca, þar sem helztu foringjar ISIS samtakanna mótuðust. Þar á meðal Abu Bakr al-Baghdadi, yfirforingi ISIS, sem nú er efstur á lista eftirlýstra. Í GUARDIAN í dag er viðtal við einn foringjanna, sem al-Baghdadi mótaði í Bucca. Þar kemur fram, að innrásin í Írak og hörkulegt hernám landsins framkallaði geðbilaða hugsun fanga. Lýsir sér núna í morðum á tugum skólabarna í Pakistan.

Hástig sjálfhverfunnar

Fjölmiðlun

Michael Palin varð frægur af Monty Python. Varð síðar þekktur af ferðaþáttum á BBC. Ég gerði þau mistök að sjá diskasafn 50 ferðaþátta hans, fjalla nefnilega lítið um fjarlægar slóðir. Þeir fjalla um Palin. Palin missir af skipi, Palin spilar bolta við krakka, Palin skúrar þilfar, Palin óttast terrorista, Palin fer á fyllerí með innfæddum, Palin hristir hausinn yfir vankunnáttu í ensku. Ég hef engan áhuga á þessum Palin. Vil sjá Ægisif, Esfahan, Samburu, Delhi, Luxor, frekar en sjá fáfróðan Palin. Hann er enginn Attenborough, hann er Andri. Síðan stældu aðrir sjálfhverfuna. Leitun er að DVD diskum, sem án fíflaláta lýsa ferðastöðum heims.

Múslimahatur vex

Punktar

Vestur-Evrópa er að klofna í hatursmenn múslima og venjulegt fólk. Hvarvetna eru haldnir fjölmennir fundir gegn múslimum. Og stjórnmálaflokkar hatursmanna fá vaxandi fylgi, sums staðar 20% eða meira. Hryðjuverk fárra morðóðra múslima kynda undir þessu hatri. Búast má við, að andstaðan við múslima harðni á næstu misserum. Í næstu kosningum er líklegt, að Framsókn reyni að bjarga sér fyrir horn með auknum stuðningi við múslimahatur. Við þurfum því að búa okkur undir vandann áður en hann birtist. Einnig þarf að hindra, að morðóðir múslimar flytjist hingað. Og losa okkur við þá sárafáu, sem hér kynnu að verða staddir.

„Norska aðferðin“

Punktar

Hræddur er ég um, að Norðmenn yrðu ósáttir, ef þeir fréttu, að lögreglumenn á Íslandi telja fantabrögð á almenningi vera „norsku aðferðina“. Athygli hefur vakið myndband af fantabrögðum brjálaðs lögreglumanns, sem nýlega var dæmdur í Hæstarétti. Starfsbræður hans eru svo ókátir með dóminn, að stéttarfélag þeirra hefur ítrekað kvartað opinberlega. Það er uggvænlegt. Ekki bara ein lögga leikur lausum halda í skjóli „norsku aðferðarinnar“, heldur virðist stéttin í heild telja fantabrögð frambærileg. Þessi afstaða stéttarfélagsins styður það útbreidda sjónarmið, að almennt séu íslenzkir lögreglumenn á rangri hillu í lífinu.

Harpan er hrákasmíði

Punktar

Þótt hún sé ný, er Harpa farin að kosta mikið í viðhaldi. Frægt var, þegar skipta þurfti út glerkubbunum vegna gallaðrar framleiðslu. Síðan kom í ljós, að sumir nýju glerkubbarnir voru farnir að ryðga. Og nú er það loftræstikerfið, sem ógnaði Silfurbergi í nótt, þegar flæddi inn á loftið. Eitthvað virðist líka vera að litastýringunni, sem strax í upphafi minnti á bilaða jólaseríu. Og ekki má gleyma saltrokinu, sem leggst á veggina og gerir gluggaþvott að Kleppsvinnu.  Hversu ánægjulegur sem hljómburðurinn er, þá virðist hönnun og smíði hússins vera gölluð á ýmsan hátt. Og ekki finnst mér Harpan vera fögur borgarprýði.

Gerræði gefst illa

Punktar

Gerræði leysir þingræði af hólmi. Ráðherra vilja fara sínu fram, án þess að spyrja alþingi. Hafa lagt fram frumvarp um að færa megi embætti út og suður án þess að spyrja kóng eða prest. Þeir geti rifið starfsmenn upp með rótum með kostnaði upp á hundruð milljóna. Sigurður Ingi Jóhannsson ætlaði að skutla Fiskistofu til Akureyrar. Ráðherrar Framsóknar ætla að skutla nokkrum stofnunum til Skagafjarðar. Sigurður vísar til þess, að Norðmenn hafi flutt stofnanir út á land. Sá hængur er þar á, að flutningurinn reyndist illa. Starfsmenn láta ekki skutla sér og stofnanirnar drabbast niður. Gerræði er vond stjórnsýsla.

Engin rök – bara gerræði

Punktar

Væri einkarekið heilsukerfi að bandarískum hætti fyrirmynd, mundu menn útskýra það með tölum og útreikningum. Ríkisstjórnin gerir ekkert slíkt, heldur ræðst í gerræði að Landspítalanum til að gefa einkarekstri svigrúm. Reynslan segir þó, að bandaríska kerfið er næstum tvöfalt dýrara á mann en íslenzka kerfið, þjónar þó bara hálfri þjóðinni. Bandaríska kerfið tekur 16% af landsframleiðslu og þjónar 50% þjóðarinnar. Hér kostar heilbrigðiskerfið 9% af landsframleiðslu og þjónar 100% þjóðarinnar. Ríkisstjórnin ryðst hér fram með gerræði eins og með flutningi stofnana út og suður, eins og starfsfólkið séu einhverjir lausamunir.

Sjónvarpið hrynur

Fjölmiðlun

Tölur um áhorf sýna meira hrun sjónvarps en er í lestri prentmiðla. Ungt fólk notar hvorugan fjölmiðilinn. Og unga fólkið kemur ekki, þótt sjónvarp sé poppað upp með rugli á borð við Hraðfréttir og Andra. Krúttin eru að gera annað. Vörn sjónvarps væri virkari, ef farið væri að sjónvarpa jarðarförum fyrir gamlingja. Á miðjum aldri færa margir sig yfir í safnmiðla á borð við Fréttagáttina, þar sem allir fjölmiðlar eru í einum graut. Mér nægir hún fullkomlega sem miðill innlendra frétta eins og Blogggáttin nægir mér sem miðill bloggs. Hefðbundnir fjölmiðlar fatta þetta alltof hægt og horfa fram á aukið tap næstu misserin.

Af ásettu ráði

Punktar

Heilsumóttakan í Ármúla er einn einkaspítalanna, sem á að leysa Landspítalann af hólmi. Þar verður fullkomin tækni í skurðstofum, öfugt við rústir gamla spítalans. Þetta verður í boði fyrir þá, sem geta borgað sjálfir í anda teboðs og brauðmolakenningar. Sjálfstæðisflokkurinn er af ásettu ráði að knésetja Landspítalann til að rýma fyrir einkarekstri. Eva Consortium heitir fyrirtækið, sem þar er að rísa í gamla Broadway. Við stefnum hraðbyri í samfélag, þar sem hálf þjóðin býr við sult og seyru og stuttar ævilíkur. Mest af hinum berst við að borga rándýrar einkatryggingar. Sigurvegarar eru eina prósentið, sem rekur Flokkinn.

Ofmetin ríkiskirkja

Punktar

Alla mína skólatíð kom ég aldrei í kirkju. Varð aldrei var við trúboð presta í skólum. Kirkjuheimsóknir skólabarna á aðventu voru hvorki hefð né reynsla í skólum minnar fortíðar. Ríkiskirkjumenn fara þar með rangt mál. Og skólarnir eru látnir borga rútur undir þessar heimsóknir. Trúboðið byrjaði, þegar fólk var farið að yfirgefa ríkiskirkjuna. Það er ekki hlutverk skóla að taka þátt í trúboðinu og allra sízt í kostnaði við það. Hins vegar má kynna ríkiskirkjuna, önnur trúarbrögð og lífsskoðunarfélög fyrir börnum og gæta þá jafnræðis. Ásatrú á ekki síðri þátt í gildum samfélagsins. Flest af þeim gildum eru raunar veraldleg.

Kenna Evrópu um mistök

Punktar

Talsmenn ríkisstjórnarinnar hika ekki við að kenna Evrópusambandinu um mistök hennar. Eða þá Steingrími J. Sigfússyni. „Hann byrjaði“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, þegar ferðapassinn er hengdur um háls hennar. Nú er reynt að telja mönnum trú um, að Evrópa heimti ferðapassa hér á landi. Þetta minnir á, þegar Matvælastofnun kenndi Evrópu um íslenzka bannið við vöflukaffi kvenfélaga í haustréttum. Evrópusambandið er þægileg Grýla, þegar fólk hefur engin rök. Nú síðast er Evrópu kennt um rafrænu skilríkin, sem ríkisstjórnin hefur smíðað til að gefa Árna Sigfússyni feitan bita. Skattlykillinn er traustur og nægir alveg.