Fáir fást með

Punktar

Vegna óvinsælda stríðs og hernáms og vegna skorts á heimild af hálfu Sameinuðu þjóðanna hefur stjórn Indlands ákveðið að neita að senda 17.000 manna hernámslið til Íraks, þrátt fyrir mikinn þrýsting Bandaríkjastjórnar. John Kifner segir í New York Times, að þetta sé mikið áfall. Frakkland og Þýzkaland senda ekki her af sömu ástæðum. Bandaríkin eiga erfitt með að fá aðstoð við hernámið og verða sennilega sjálf að fjölga í liðinu. Það verður tæplega vinsælt heima fyrir, þar sem fólk er meira fyrir spretti en úthald.

Holræsi eru hornsteinn

Punktar

Þegar ég hjóla á morgnana, fæ ég stundum tækifæri til að dást að þeim hluta mannvirkja holræsakerfis Ingibjargar Sólrúnar, sem sjást á yfirborði jarðar. Það minnir mig á, að lélegir borgarstjórar byggja ráðhús og Perlur, en góðir borgarstjórar leggja vönduð holræsi. Rómarveldi var byggt á holræsakerfi, sem var undirstaða góðs heilsufars í þéttbýli. Hallir rómverskra montkeisara eru horfnar, en Cloaca Maxima stendur og þjónar Rómverjum enn þann dag í dag.

Sagt gott á þá

Punktar

New York Times segir í leiðara, að velkomnar séu áhyggjur fyrirtækja í matvælaiðnaði af hugsanlegu fjárhagstjóni af málaferlum neytenda vegna óhóflegrar fitu eða sykurs í matvælum. Þessi fyrirtæki hafi lengi velt sér upp úr fitu og sykri eins og tóbaksfyrirtækin hafi velt sér upp úr nikótíni. Nú sé kominn tími til, að ótti við kostnaðarsöm kærumál þvingi þau til að draga úr óhollu innihaldi matvæla.

Allir kenna öðrum um

Punktar

Fjölmiðlar rekja nú þræðina í lygasögum brezkra og bandarískra stjórnvalda um ógnarvopn Íraks. Ráðamenn ríkjanna kenna leyniþjónustum sínum um lygarnar og bandaríska leyniþjónustan kennir hinni brezku um þær. Nýjustu fréttir eru þær, að bandaríska CIA hafi á sínum tíma beðið brezka SIS um að birta ekki lygina um kaup Íraks á úrani í Níger. Ennfremur hefur komið í ljós, meðal annars í bréfi frá Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, að Bretar og Bandaríkjamenn héldu meintum upplýsingum leyndum hvor fyrir hinum. Frá þessari furðuveröld ríkisrekinna undirheima segir Kamal Ahmed í Observer.

Nató er örvasa

Punktar

Atlantshafsbandalagið er örvasa gamalmenni í andarslitrunum, þótt starfsmenn þess reyni að telja sér trú um, að það hafi eitthvað til að lifa fyrir. Því hefur verið falið að sjá um friðargæzlu í Bosníu og hafa hendur í hári eftirlýstra stríðsglæpamanna. Þótt saksóknari stríðsglæpadómstólsins fyrir arfaríki Júgóslavíu, Carla del Ponte, hafi oft bent á, hvar hinir óvenjulega ógeðfelldu stríðsglæpamenn Ratko Mladic og Radovan Karadzic halda sig, hefur Nató ekki haft burði til að ná í þá. Sheri Fink skrifar í International Herald Tribune um gæfuleysi friðargæzlunnar í Bosníu.

Engin íslenzk gen

Punktar

Nicholas D. Kristof minnir í International Herald Tribune á ýmsar niðurstöður erfðavísinda nútímans um, að sundurgreining í kynþætti sé marklaus. Það séu ekki til nein ítölsk, indversk eða íslenzk gen. Munur erfðaeiginleika fólks er fjölbreyttari innan þjóða en milli þjóða. Allt fólk í heiminum er skylt, er ein stórfjölskylda. Maður í Hafnarfirði getur verið erfðafræðilega skyldari manni í Delhi en manni í Mosfellssveit. Kristof vitnar í ýmis vísindarit þessu til stuðnings.

Vanhæfir stríðsmenn

Punktar

Bandarískir fréttaskýrendur segja oft, að Donald Rumsfeld stríðsráðherra og Paul Wolfowitz aðstoðarstríðsráðherra séu skörpustu heilar Bandaríkjastjórnar. H.D.S. Greenway er á annarri skoðun í Boston Globe. Hann rekur ýmis dæmi um, að þeir hafi farið “hrikalega” flatt á skipulagi stríðsins gegn Írak. Þeir hafi reynzt vera óhæfir og því beri að reka þá úr embætti.

Bréf Davíðs til Bush

Punktar

Valur Ingimundarson prófessor skrifar í International Herald Tribune í morgun um deilu ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna um varnarsamninginn. Hann telur bréf Davíðs Oddssonar til George W. Bush fela í sér, að engin ástæða sé fyrir bandarísku herliði á Íslandi yfirleitt, ef bandarísk stjórnvöld virði ekki varnarsamninginn á greinilegan og sýnilegan hátt. Valur segir þetta mál sérstaklega viðkvæmt fyrir íslenzk stjórnvöld, sem hafa alltaf haldið fast í þá röksemd, að varnarliðið væri hér okkar vegna. Valur telur, að deilan geti fært Ísland nær kjarnaríkjum Evrópusambandsins, ef samkomulag næst ekki.

Risar fljóta sofandi

Punktar

Tuttugu stærstu fyrirtæki heimsins hafa lítinn áhuga á umhverfismálum samkvæmt skýrslu sem Investor Responsibility Research Center í Washington hefur gefið út. Ekkert þeirra hefur látið reikna hugsanlegan kostnað þeirra af loftslagsbreytingum í kjölfar mengunar. Aðeins Shell og BP reyndust hafa sinnt umhverfismálum í einhverjum mæli. Sérstaklega voru ExxonMobil og General Electric sögð hafa staðið sig illa. Barnaby J. Feder segir frá þessu í New York Times.

Nýtt Víetnam

Punktar

Í Boston Globe og fleiri dagblöðum vitnar Derrick Z. Jackson í ræðu séra Martin Luther King frá 1967, þegar margir Bandaríkjamenn töldu sér trú um, a ríkisstjórnin væri að bjarga Víetnam frá vondu köllunum. Jackson telur, að langir kaflar þeirrar tímamótaræðu eigi við núna, þegar margir Bandaríkjamenn telja sér trú um, að ríkisstjórnin sé að frelsa Írak frá vondu köllunum. Hann telur, að Íraksstríðið sé að eitra bandaríska þjóðarsál eins og Víetnamstríðið gerði fyrir aldarþriðjungi.

Snjóplógur í stríð

Punktar

Frændur vorir Danir eiga í nokkrum erfiðleikum með að þykjast eiga þátt í hernámi Íraks. Dönsku hermennirnir eru ósáttir við að hafa fengið sendan snjóplóg að heiman og salt til að strá á frosnar brekkur. Ennfremur vita þeir ekki, hvað þeir eiga að gera við sláttuvélarnar, sem komu að heiman. Hins vegar vantaði bæði morfín í sjúkragögn og tjaldhælana. Hermennirnir fengu skotheld vesti af vitlausri stærð og herflutningabíla, sem komu af dönskum öskuhaugum. BBC segir, að Svend Aage Jensby stríðsmálaráðherra hafi lofað bót og betrun í Extrablaðinu.

Þreyttir hernámsliðar

Punktar

Peter Greste, fréttamaður BBC í Bagdað segir, að bandarísku hermennirnir séu orðnir þreyttir á Írak og vilji komast heim. Eftirlitsferðir á fæti hafa verið lagðar niður og þeir þora ekki út úr Hummer-jeppunum. Þeim hafði verið sagt, að íbúarnir mundu fagna þeim sem frelsurum og að dvölin yrði skammvinn. Nú líta þeir á alla Íraka sem óvini og skjóta af minnsta tilefni, jafnvel á 11 ára börn.

Vissu niðurstöðuna

Punktar

Komið hefur fram í dagsljósið Gregory Thielmann, sem til skamms tíma var yfirmaður í leyniþjónustu bandaríska utanríkisráðuneytisins. Hann segir, að ríkisstjórnin hafi gefið ranga og stórlega ýkta mynd af hættunni frá Írak. Hann segir, að ríkisstjórnin hafi efnislega sagt við leyniþjónustuna: “Við vitum niðurstöðuna, en ykkar hlutverk er að koma með sönnunargögnin fyrir niðurstöðunni”. Frá þessu segir í ýmsum fjölmiðlum, meðal annars hjá Julian Borger í Guardian. Það er því ekki séríslenzkt fyrirbæri í stjórnsýslu, að niðurstaðan komi fyrst og útreikningarnir á eftir.

Vinalausir vinir

Punktar

Dýrt spaug er að vera vinur Bandaríkjanna á þessum síðustu og verstu tímum. Stjórn Bandaríkjanna gerir miklar kröfur til ráðamanna, sem hún telur sér vinveitta. Hún vill, að þeir séu undirgefnir. Þegar þeir styðja bandaríska frekju, auka þeir óvinsældir sínar heima fyrir. Þannig hefur George W. Bush nánast útrýmt Bandaríkjavináttu í sumum Evrópuríkjum og magnað andstöðu gegn Bandaríkjunum.

Leikin geðhrif

Punktar

Fyrir okkur, sem hefur ætíð fundizt Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, vera óeðlilega einlægur á svipinn, er gaman að lesa grein Simon Hoggart í Guardian í gær. Þar þykist hann heyra ráð leiklistarkennara, sem hvísli í eyra Blair, hvaða geðhrif hann eigi að sýna við hverja tegund af lygi, sem hann hefur borið á borð sjónvarpsáhorfenda undanfarna mánuði.