Loðvíðirinn kominn

Punktar

Notalegt er að mega sitja við heiðarkot og fylgjast með örum breytingum á heiðagróðri í 200-300 metra hæð við hnignun sauðfjárbúskapar. Rofabörð gróa á einu sumri. Þar sem hvergi sást tré áratugum saman, er loðvíðir hvarvetna farinn að skjóta upp kolli og binda jarðveginn með rótum sínum. Fjölbreytni flórunnar tvöfaldast. Refir spássera á heimreiðinni til að létta sér leið framhjá gróðurhafinu. Hestar éta liggjandi.

Hættulegur maður

Punktar

Ég horfi lítið á sjónvarp, enda er fátt minnisstætt af þeim vettvangi. Ég var þó svo heppinn í gærkvöldi að hrökkva upp af síðbúnum síðdegisblundi við að heyra Jónas Jónasson útvarpsmann yfirtaka lymskulega einn af nútímalegu sjónvarpsþáttunum, sem byggjast á blaðri og hlátrasköllum, og fipa stjórnandann með spakmælum og þögnum. Það er ábyrgðarhluti að hleypa mönnum með lífsreynslu inn í unglingaheim sjónvarpsins. Raunar er óþægilegt að geta ekki treyst því, að sjónvarpið sé tómt bull.

Rætt um kverúlant

Punktar

Ekki er sannað mál, að nafntogaður borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sé kverúlant, þótt það megi telja líklegt af lýsingum. Um þetta var nýlega uppbyggileg umræða á fundi borgaryfirvalda. Ekki er síður mikilvægt, að guðfaðir Reykjavíkurlistans hefur tekið að sér þýðingarþjónustu fyrir tossa í Sjálfstæðisflokknum, sem eru fáfróðir um ýmis tökuorð í íslenzku. Gott er til þess að vita, að borgaryfirvöld fjalla um merkari mál en hingað til hefur verið haldið.

Olían og heimsveldið

Punktar

Michael Meacher, sem var umhverfisráðherra Bretlands til skamms tíma, segir í grein í Guardian, að leyniþjónustur ellefu ríkja hafi varað Bandaríkin fyrirfram við árásinni á World Trade Center 11. september 2001. Bandaríkjastjórn hafi hins vegar ekki gert neitt í málinu, af því að hún hafi ætlað að nota hryðjuverkið sem tylliástæðu til að ráðast á Írak og ná undir sig olíulindum landsins. Hann minnir líka á greinargerð Dick Cheney, Donald Rumsfeld, Paul Wolfowitz og Jeb Bush forsetabróður frá september 2000, þar sem útlistað er, hvernig Bandaríkin geti náð heimsyfirráðum. Þá greinargerð segir Meacher vera hornstein núverandi utanríkisstefnu Bandaríkjanna.

Höfuðverkurinn

Punktar

Simon Tisdall skrifar í Guardian um síðbúna göngu George W. Bush Bandaríkjaforseta sem stafkarls til Sameinuðu þjóðanna að sníkja fé og fólk til að koma lagi á Írak. Tisdall telur, að hvorugt verði auðfengið, því að framferði forsetans gagnvart bandamönnum sé geymt, en ekki gleymt. Sum ríki muni veita aðstoð gegn háu gjaldi, en önnur fara sér hægt, sérstaklega þau, sem eiga eitthvað undir sér, svo sem Frakkland og Þýzkaland. Ráðagerðir um að selja olíu frá Írak til að standa undir hernáminu séu farnar út um þúfur, því að það muni kosta stórfé að koma olíuvinnslunni í gagn að nýju. Írak sé og verði áfram bandarískur höfuðverkur.

Mannhatrið

Punktar

Jenni Russell segir í Guardian, að mannhatur sé hornsteinn ríkisstjórnar Tony Blair í Bretlandi og sé orsök sjálfsvígs David Kelly, sérfræðings í öryggismálum. Í hvert sinn sem einhver hverfi úr ráðherraembætti, sé hann skipulega rægður í samstarfi spunastjóra Blair og villimanna í fjölmiðlunum. Russell nefnir Mo Mowlam, Clare Short og Elizabeth Filkin sem dæmi um slík fórnardýr. Sams konar herferð var í gangi gegn Kelly, þegar hann fyrirfór sér. Eftir rökstuðning Russell geta menn furðað sig á, af hverju Bretar hafa ekki séð gegnum illmennsku Blair og hirðar hans.

Allt var áður vitað

Punktar

Mikill og langvinnur samdráttur í neyzlu lambakjöts á ekki að koma neinum á óvart. Fyrir löngu var vitað, að stjórnlaus framleiðsla fyrri áratuga mundi enda með ósköpum, fyrst með lækkun og afnámi niðurgreiðsla, síðan með hertri samkeppni annarra matartegunda og loks með framleiðslukvótum, sem sífellt eru skertir á alla línuna, svo að búin verða of lítil. Fyrir löngu var vitað, að ekki yrði hægt að selja offramleiðsluna til útlanda. Fyrir löngu var vitað, að ekki væri rúm á Íslandi fyrir fleiri en 200-300 sauðfjárbændur, ef bústærð þeirra ætti að vera fjárhagslega hagkvæm. Menn voru sagðir óvinir bænda fyrir að spá því, sem nú hefur rætzt að öllu leyti.

Lyf sem segir stopp

Punktar

Rob Stein segir í Washington Post frá grein í nýju tölublaði af New England Journal of Medicine, þar sem segir, að framleitt hafi verið hormónalyf, sem segi fólki, hvenær magi þeirra hafi fengið nóg. Þetta hormón virðist vera af skornum skammti í fólki, sem étur yfir sig og fitnar úr hófi fram. Þetta vekur vonir um, að gefa megi slíku fólki hormónalyf, sem hefur þau áhrif, að því finnist það ekki þurfa að borða meira, þegar maginn hefur fengið hæfilega mikinn mat. Hormón þetta kallast Peptide YY 3-36. Tilraunir benda til, að þeir, sem taka hormónalyfið, borði 30% minna en áður. Lyfjarisar hafa hins vegar lítinn áhuga, af því að lyfið er náttúrulegt líkamsefni, sem ekki er hægt að fjötra í viðjar einkaleyfis.

IBM ræðst á Windows

Punktar

IBM er að hefja stórfellda auglýsingaherferð fyrir opna tölvustýrikerfinu Linux, sem er ókeypis og breiðist ört út um heiminn. Herferðin er bein árás á Microsoft, sem hefur hingað til haldið heiminum í heljargreipum Windows. Fréttaskýrendur segja, að IBM sé með þessu að kasta stríðshanzkanum í baráttunni gegn einokunarrisanum. Frá þessu segir í New York Times.

Vaxandi óvinsældir

Punktar

Umfangsmikil skoðanakönnun í Evrópu hefur ljóst, að mikil andstaða fólks gegn Bandaríkjunum og stríðsrekstri þeirra hefur stöðugt farið harðnandi. Ljóst þykir, að stefna og framkoma George W. Bush Bandaríkjaforseta hefur ekki bara leitt til andstöðu í Evrópu gegn honum og málefnum hans, heldur einnig gegn Bandaríkjunum yfirleitt. Fyrir ári töldu menn eðlilegt, að Bandaríkin hefðu forustu fyrir Vesturlöndum, en nú telur meirihluti það vera óeðlilegt. Breytingin hefur orðið sérstaklega ör í Þýzkalandi, þar sem menn voru áður miklir Bandaríkjavinir. Thomas Crampton segir frá þessu í International Herald Tribune.

Allir gegn öllum

Punktar

Kúrdar eru einu íbúar Íraks, sem styðja hernám Bandaríkjanna og eru til friðs, að vísu enn ofsóttir af Tyrkjum. Súnnítar, sem áður studdu Saddam Hussein, eru auðvitað andvígir hernáminu. Það hefur komið á óvart, að sjítar, sem voru helztu andstæðingar Saddam Hussein, eru nú helztu andstæðingar hernámsins og standa fyrir hryðjuverkum gegn því. Síðustu vikur hafa komið til sögunnar innfluttir trúarofstækismenn úr röðum Al Kaída og Taliban, sem eru andvígir sjítum, en þó enn andvígari hernáminu. Það hefur því myndazt mikið og flókið sprengiefni í landi, sem var tiltölulega friðsælt fyrir hernám. Jonathan Freedland fjallar í Guardian um ástandið: Allir gegn öllum.

Réttlætiskvörn malar

Punktar

Duncan Campbell segir í Guardian frá skrefum nokkurra ríkja í Suður-Ameríku til að ná lögum yfir morðingja á vegum hersins og sérsveita hans. Sakaruppgjöf hefur verið afturkölluð í Argentínu og rannsóknir hafnar í Chile og Perú. Campbell minnist þess, að Jimmy Carter var eini Bandaríkjaforsetinn, sem beitti sér gegn ríkisreknum fjöldamorðum í Suður-Ameríku, og fagnar því, að Henry Kissinger þorir varla lengur að ferðast til útlanda af ótta við að vera handtekinn fyrir aðild að glæpum gegn mannkyninu.

Hálfur sannleikur

Punktar

Björgólfur Guðmundsson segir réttilega, að umsvif kolkrabbans og smokkfisksins hafi þjónað valdagræðgi eigendanna. Hann telur réttilega sína nýju samsteypu hafa stuðlað að falli hins gamla valdakerfis. Hann segir hins vegar ekki það, sem er jafnrétt, að allar slíkar blokkir eru í eðli sínu illar, þótt þeim sé komið á fót í góðri trú. Blokkir á borð við Baug og Samson eru aðdragandi lokastigs núverandi markaðshagkerfis, þegar kostir samkeppninnar víkja fyrir ókostum fáokunar.

Heimsbyltingin

Punktar

George Monbiot segir í Guardian, að heimurinn sé núna orðinn eins og Frakkland var rétt fyrir byltinguna miklu árið 1787. Tekjuskipting þjóðanna sé orðin eins ójöfn og tekjuskipting Frakka var í aðdraganda byltingarinnar. Hann telur heimsbyltingu óhjákvæmilega, líklega í kjölfar matvælaskorts eða olíuskorts. Hann telur, að gefa verði eftir skuldir þriðja heimsins í tæka tíð, annars fari allt í bál og brand, enda hafi kerfi heimsviðskipta verið ferlega misnotað í þágu ríkustu þjóðanna.

Evrópsk mistök

Punktar

Nóbelshagfræðingurinn Joseph Stiglitz segir í Guardian, að evrunni hafi mistekizt að örva efnahag Evrópu. Meðsekur sé hinn nýi og íhaldssami Seðlabanki Evrópu, sem hefur haft stöðugleika fremur en hagvöxt að leiðarljósi.