Nató fær flugu

Punktar

Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins segir það vera reiðubúið að færa út kvíarnar í Afganistan og taka að sér friðargæzlu utan höfuðborgarinnar Kabúl. Utan hennar leika herstjórar lausum hala og árásum Taliban fer ört fjölgandi. Í Kabúl bakar Nató sér óvinsældir og sætir eldflaugaárásum. Dauf frammistaða þar bendir ekki til, að árangurs sé að vænta af Nató annars staðar í landinu. Framapotið í Afganistan bendir til brenglaðar sýnar á raunveruleikann hjá yfirstjórn Nató. Firringin kann að leiða það í ógöngur í fjarlægum heimshluta.

Undir oki Ísraels

Punktar

Sífelld vandræði fyrir botni Miðjarðarhafs stafa af, að ríkisstjórn Ísraels vill ekki frið við Palestínu og nýtur alltaf stuðnings ríkisstjórnar Bandaríkjanna, þegar til kastanna kemur. Nú er Ariel Sharon forsætisráðherra að girða Palestínu kruss og þvers án þess að George W. Bush Bandaríkjaforseti segi neitt. Ekkert alvöru friðarferli verður fyrir botni Miðjarðarhafs fyrr en Bandaríkin brjótast undan oki Ísraels.

Tvíeggjuð hnattvæðing

Punktar

Robert Wright stillir í New York Times upp heimsviðburðum líðandi stundar og ber saman við heimsviðburði fyrri alda, svo sem hrun viðskipta við Miðjarðarhafið fyrir rúmlega þremur árþúsundum og Svarta dauða fyrir tæpu árþúsundi. Hann rekur, hvernig hnattvæðingin hefur í senn fært mannkyninu möguleika og bakað því vandræði. Þetta er óvenjulega þroskuð blaðagrein um heimspólitískar krossgötur nútímans. Hún spannar hungur og hryðjuverk, hatur og heimsvaldastefnu.

Fávísi, þrætubók, hroki

Punktar

Maureen Dowd stillir í New York Times upp geggjaðri tilraun ráðamanna Bandaríkjanna til að endurspila þúsund ára gamlar krossferðir með þeim afleiðingum, að Osama bin Laden og Al Kaída hafa getað hazlað sér völl um allan heim, meira að segja í Írak, sem áður var lokað fyrir þeim. Dowd segir þessa bandarísku tilraun stjórnast af fávísi, þrætubók og hroka.

Forsetinn sagður bjáni

Punktar

Richard Cohen stillir í Washington Post upp ríkisstjórn Bandaríkjanna sem allsherjar umferðarslysi. Hún háði stríð gegn röngum óvini á röngum forsendum með röngum afleiðingum, stutt fullyrðingum forsetans, sem ýmist reyndust vera rangar eða heimskulegar. Hann segir þetta gefa tilefni til að ætla, að forsetinn sé bjáni, sem láti stjórnast af stríðsglöðum amatörum og æsingamönnum.

Vöxtur eða festa

Punktar

EU Business hefur eftir Gerhard Schröder, kanzlara Þýzkalands, að áherzla Evrópusambandsins á festu og jafnvægi í ríkisbúskap megi ekki hindra hagvöxt í ríkjum þess. Hann segir, að halli á ríkisbúskap megi í sumum tilvikum fara yfir 3% mörkin í þágu hagvaxtar. Frakkland og Þýzkaland fóru yfir mörkin í fyrra og búizt er við, að Þýzkaland fari enn yfir þau á þessu ári og hinu næsta. Mörkin voru sett af Evrópusambandinu árið 1997 samkvæmt tillögu Þýzkalands.

Andstaða hefnir sín

Punktar

Marjorie Cohn prófessor segir í langri grein á CNN, að andstaða Bandaríkjanna gegn nýja stríðsglæpadómstólnum í Haag skaði Bandaríkin, hafi lokað þau inni í eins konar búri í alþjóðasamfélaginu, hafi fækkað bandamannaríkjum þeirra og hafi aukið líkur á ofbeldisverkum gegn friðargæzlusveitum, þar á meðal bandarískum.

Útlit og innihald

Punktar

Menn á borð við Björn Bjarnason og Guðmund Árna Stefánsson bera blak af pyndinga- og morðstjóra kínverska hryllingsríkisins með því að segja hann hafa komið þægilega fyrir, verið glaðsinna og brosað mikið. Það er eins og þeir séu af sjónvarpskynslóðunum, sem halda, að útlitið lýsi innihaldinu. Reyndara fólk veit, að svo er alls ekki. Á skjánum og tjaldinu líta vondu mennirnir út eins og Hannibal Lechter, en í raunveruleikanum líta þeir út eins og Luo Gan.

Snúið út úr ritverkum

Punktar

DJ Taylor skrifar í Guardian um þann ósið leikstjóra í kvikmyndum og leikhúsi að byggja á ritverkum, en snúa út úr þeim og breyta meginþáttum þeirra. Tilefnið er gróf fölsun Andrew Davies á Brideshead Revisited eftir Evelyn Waugh, en gæti alveg átt við útúrsnúninga, sem stundum sjást á íslenzku leiksviði og þykja góð latína.

Að gera sig gildandi

Punktar

Misha Glenny segir í Guardian, að Evrópusambandið verði að fara að taka ástandið á Balkanskaga alvarlega, svo að umheimurinn geti farið að taka Evrópusambandið alvarlega. Glenny færir rök fyrir því, að Balkanríkin verði friðuð með því að taka þau í sambandið.

Að þvælast fyrir

Punktar

Því meira sem vestræn lýðræðisríki þvælast fyrir tilraunum Bandaríkjastjórnar til að blanda þeim inn í hernám Íraks, þeim mun dýrara verður það Bandaríkjunum sjálfum. Þeim mun líklegra verður, að Bandaríkjamenn sjái að lokum gegnum blekkingar ríkisstjórnarinnar og hindri endurkjör George W. Bush forseta. Þar með auka vestræn lýðræðisríki líkur á, að Bandaríkin gerist ábyrgur aðili að vestrænu samstarfi eftir hálft annað ár. Flest bendir til, að leiðtogar Frakklands og Þýzkalands átti sig á þessu. David E. Sanger rökræðir í New York Times um ýmsar leiðir, sem vestræn ríki hafa í núverandi stöðu.

Rumsfeld blístrar

Punktar

Svo virðist sem Donald Rumsfeld, stríðsmálaráðherra Bandaríkjanna, telji sér trú um, að Frakkland og Þýzkaland séu deildir í fyrirtækjasamsteypu, sem hann reki með harðri hendi. Fyrst neitar hann að hlusta á neitt, sem þessi lönd hafa fram að færa og uppnefnir þau súkkulaðiríki. Svo blístrar hann og telur, að þessi ríki komi flaðrandi upp um hann með mannskap og peninga til að hjálpa til í Írak. Svona lagað kann að hafa gengið í fyrirtækjum, sem hann fékk að stjórna. Hann kann að hafa talið George W. Bush Bandaríkjaforseta trú um að þetta væri kleift. En í raunveruleikanum kemur enginn, þegar Rumsfeld blístrar. Nema George W. Bush.

Hryllingsstjórinn

Punktar

Helzti pyndinga- og manndrápastjóri kínverska hryllingsríkisins er hér í opinberri heimsókn. Frumkvæðið virðist hafa komið frá íslenzka ríkislögreglustjóranum, sem greinilega bindur ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamenn. Er enginn í kerfinu, sem getur stöðvað svona undarlega heimsókn í tæka tíð? Er ekki tímabært að setja ríkislögreglustjórann í venjulegt blýantsnag? Hvers vegna eru Björn Bjarnason og Guðmundur Árni Stefánsson að heilsa manninum? Af hverju er verið að ögra heilbrigðu fólki?

Niðurlægingin

Punktar

Skjár einn, sem yfirvöld hafa ákveðið að kaupi rústir Stöðvar tvö og taki yfir íslenzkt einkasjónvarp, er lægsta plan sjónvarps hér á landi. Nú ætlar stöðin að niðurlægja athyglisjúkar stúlkur með því að senda þær til Las Vegas í keppni um að fá auðuga karlmenn til fylgilags. Þetta er ein útgáfa af nýrri gerð smekklausra sjónvarpsþátta, sem byggja á dálæti áhorfenda á að sjá sjálfboðaliða niðurlægða á skjánum. Áður hafa íslenzkir stjórnmálamenn verið niðurlægðir í slíkum þáttum með því að láta þá drekka ógeðfellda vökva í von um atkvæði.

Spunameistarinn

Punktar

Agatha Christie er þekktasti höfundur morðgátusagna, þar sem hinn ólíklegasti reynist hafa verið morðinginn. Þetta sama á við um ímyndarveröld sjónvarpsins. Þeir, sem líta á skjánum út fyrir að vera einlægir og hjartahlýir, eru það ekki í raun. Þekktasta dæmið er Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, höfundur flókinna lygavefja og rógsherferða, verkstjóri spunameistara af verstu gerð. Fyrir áhrif sjónvarpsins eru kjósendur smám saman að verða óhæfir um að greina veruleika frá sýndarveruleika. Einkum rugla þeir saman útliti og innihaldi.