Fóstrur misnota börn

Punktar

Ljótt er af fóstrum að gefa út yfirlýsingu fyrir hönd leikskólabarna. Það er misnotkun á aðstöðu og misnotkun á börnum. Leikskólabörn geta haft áhyggjur af byggingum í nágrenni leikskóla. En þau gefa ekki út pólitískar yfirlýsingar um það efni eða önnur. Alveg eins og fimm ára börn skrifa ekki minningargreinar um afa sinn og ömmu. Þar bregðast foreldrarnir, sem halda, að þeir geti skrifað og talað fyrir hönd barnanna. Enginn getur komið fram á þennan hátt. Hvort tveggja er óviðeigandi, framtak foreldra og framtak fóstra. Veita þarf tiltal fóstrunum, sem misnotuðu börnin með yfirlýsingu.

Burt með þéttingu

Punktar

Fyrirhuguð hús við Laugaveg 4-6 eru nýjasta dæmið um ríkjandi áráttu í borgarskipulagi. Langvinn áráttan felst í að byggja ný hús ofan í gömul og þétta byggðina í leiðinni. Ég vil, að áhugamenn um evrópskar virkisborgir og þétta byggð fái að spreyta sig í Álfsnesi. Þar byggi þeir þröng háhýsi, þar sem hver býr ofan á öðrum og bílar komast ekki um götur. Þannig verði þeir sefaðir og láti okkur hin í friði. Sem viljum búa í borg, þar sem langt er milli húsa og vítt til veggja. Þar sem bílfært er um götur. Ýmis samtök gegn þéttingu byggðar sýna, að fólk er farið að átta sig á þessu.

Nafnlausa greinin

Punktar

Nafnlaus flugstjóri skrifar grein í Moggann í dag. Hann segir, að ásakanir nafnlausrar konu frá Venezuela gegn sér séu rangar. Hann hafi ekki barið hana og nauðgað henni. Hann hafi ekki smyglað henni inn í landið gegn vilja hennar. Hinn nafnlausi flugstjóri hefur hafið ritdeilu undir vernd Mogga. Blaðið segist veita nafnleysið, því að konan sé nafnlaus. Hefur hún þó ekki enn skrifað nafnlausa grein. Þessi grein í Mogganum er skrípó, dæmi um öfgar nafnleysis í fjölmiðlunum. Næst fáum við grein nafnlauss ráðherra, þar sem hann segir nafnlausan ritstjóra Moggans fara með rangt mál.

Ný miðlun slær í gegn

Punktar

Við sjáum margar tegundir tækja sameinast í eitt, samanber iPhone og iPod. Sími og tölva, vefur og póstur, skilaboð og tónlist, útvarp og sjónvarp, myndavél og hljóðver, bráðum vídeó. Allt þetta er að verða eitt. Ótrúlegur hraði er á breytingum í nýmiðlun þessi árin. Enn hraðari breytingar verða á næsta ári og því þarnæsta. Fyrir nokkrum árum sló iPod í gegn og nú er iPhone að sigra heiminn. Á þessum fyrsta áratug nýrrar aldar kollvarpast meðvitund okkar um fjölmiðla og margmiðla. Ekkert verður í fjölmiðlun árið 2010 eins og það var árið 2000. Þeir tapa, sem ekki sjá þetta gerast.

Ljósvakamiðlum fækkar

Punktar

Sex fyrirtæki eiga kvikmyndir, sjónvarp og útvarp Bandaríkjanna og hluta í öðrum löndum. General Electric á einkum sjónvarp, svo sem NBC og MSNBC. Time Warner á CNN, AOL, Warner Bros og fullt af tímaritum. Walt Disney á ABC og sæg af sjónvarpsstöðvum. News Corp er Rupert Murdoch, sem á Fox og bunka af sjónvarpsstöðvum. CBS á fullt af sjónvarpstöðvum, Viacom á Paramount og ótal aðra hluti, átti áður líka CBS. Prentmiðlar eru enn í eigu margra, svo sem Gannett, Bertelsmann, Reed Elsevier, Pearson, McGraw-Hill, Tribune, Advance.net, Hearst, CanWest, Knight Ridder, Scripps o.fl.

Grúppur hola fjölmiðla

Punktar

Tuttugasta öldin var í hefðbundnum fjölmiðlum öld sterkra einstaklinga. Þá fóru fjölmiðlar mikinn og rannsóknir voru hafnar til vegs. Nýhafin er svo öld “groups” í greininni, samsteypna. Þær líta á fjölmiðla sem þjónustu eða vöru, er lúti almennum lögmálum. Fjölmiðlar verða að skila 20% arði. Annars eru þeir holaðir innan, rannsóknum fleygt út og froða sett inn í staðinn. Þegar búið er að hola fjölmiðla, brestur “goodwill”, góðvild notenda. Fjölmiðlar eru komnir í þennan vítahring í Bandaríkjunum. Murdoch er að eignast Wall Street Journal. Hefðbundin fjölmiðlun riðar til falls.

Rugl í ræktun hesta

Hestar

Íslenzkir hestar hafa ekki fimm gangtegundir, heldur sex. Valhopp var áður fyrr aðalgangtegundin, þegar menn voru að flýta sér. Nú er það ekki einu sinni tekið með í mati á hestum. Ræktun hrossa stælir erlenda montskóla aflagðra kóngaríkja. Unaðslegt, langstígt, skríðandi tölt þykir ekki fínt. Í staðinn hristast menn á heimsleikum á hágengu hopptölti, er gerir hest og mann örmagna á hálftíma. Það getur gengið í minni háttar útreiðum kringum hesthúsið, en dugar hvorki í hestaferðum né í haustleitum. Ræktun hestsins er orðin rugl stælinga á þjálfun hesta frá Slóveníu og Andalúsíu.

Fáfróðir fjölmiðlafræðingar

Fjölmiðlun

Blaðamennsku á að kenna þannig, að hún gagnist blaðamönnum á vinnustað, um leið og hún gagnist vinnustöðunum. Þannig er hún kennd í Bandaríkjunum, af kennurum, sem þekktari eru sem blaðamenn og ritstjórar en sem kennarar. Hún er þar ekki kennd sem fjölmiðlafræði, grein af meiði félagsvísinda. Hér er ekki kennd blaðamennska, heldur fjölmiðlafræði. Flestir kennararnir hafa enga reynslu í faginu og aðrir hafa vonda reynslu. Nám í fjölmiðlafræði kemur verðandi blaðamönnum að engu gagni. Þekkt er í bransanum, að umpóla þarf slíku fólki í upphafi starfs, svo að það standi jafnfætis sjómönnum.

Hestar í náttúrunni

Hestar

Samskipti landvarða og hestamanna eru að batna. Fleiri hestamenn fara eftir almennum reglum í umgengni við náttúruna. Fleiri þjóðgarðs- og landverðir skilja að reiðgötur eru aldagamall þáttur í náttúru landsins. Þeir átta sig á, að ekki gengur að taka götur, sem skeifur hafa búið til, skrá þær sem göngugötur og banna þar hestaskít. Lausir hestar í ferðum lesta sig faglega og halda við leiðum, sem annars mundu afmást. Þegar ég stýri hestaferðum, hef ég þá reglu að hafa snemma samband við land- og þjóðgarðsverði. Sem við þá um, hvernig og hvar skuli riðið og áð. Samtal eflir gagnkvæman skilning.

Vefja um fingur sér

Punktar

Sumir viðskiptavina félagskerfisins kunna að vefja vandamálafræðingum um fingur sér. Þeir hafa líka lag á að gera fjölmiðla meðvirka. Meðaumkun samfélagsins vekur nokkrar spurningar. Telst til mannréttinda að tala fyrir tíuþúsund krónur á mánuði í farsíma? Telst brýnt að geta keðjureykt sígarettur? Eiga menn bágt, sem eru ekki flottir í tauinu? Ber samfélagið ábyrgð á, að öllum líði vel? Stefna félagslegrar velferðar er sumpart komin út í öfgar hér á landi. Hún var hugsuð sem öryggisnet, en ekki ávísun á bílífi á kostnað skattgreiðenda. Velferðin átti að lina vanda, ekki leysa.

Aumingjarunk samfélagsins

Punktar

Matvælaeftirlit borgarinnar mælir ekki saurgerla í ísvélum til að börn starfsmanna þess forðist helming ísbúða borgarinnar. Samt hélt eftirlitið kjafti um sökudólgana, þegar nítján ísbúðir féllu í gerlaprófi. Talið var við hæfi, að almenningur æti saurgerla að sinni. Í öðru prófinu hafði hinum seku fækkað niður í sex. Þá loks var sagt frá nafni sökudólga. Feimni eftirlitsaðila við nafnbirtingar er þáttur í hefðbundnu aumingjarunki samfélagsins. Eins og í landbúnaðinum. Allar ísbúðir verða að líða fyrir nítján. Nafnleysið þjónar ekki framleiðendum, það dregur úr ísneyzlu.

Treystið þið mér ekki?

Punktar

Í rigningu hefðum við beðið í bílunum. Nema þeir, sem komu í strætó. En við röltum í sólskini á stéttinni framan við stofuna. Vefsíða tannlækna og tannlæknasíminn sögðu þar vera neyðarvakt kl. 11-13. Aldrei kom neinn tannlæknir. Brátt tíndist þjáningafólkið brott. Ég sem hélt, að hagkerfið hefði útrýmt lassarónum. Tannlæknirinn kom svo á mánudaginn og baðst ekki einu sinni afsökunar. “Félagið talaði við mig, en ítrekaði aldrei, að ég ætti að vera á vakt,” sagði hann. Hann minnti mig á málarann, sem hafði svikið okkur í þrjá mánuði. “Treystið þíð mér ekki?” sagði hann fyrir rest.

Með mosann í skegginu

Punktar

Þeir eru með mosann í skegginu, sagði fræðari við mig um framsóknarmenn, þegar ég mætti sjö ára gamall í sveit á góðu íhaldsheimili. Í þá daga var Framsókn græn og þóttist vera handhafi þjóðarsálarinnar innan úr dýpstu dölum og ofan af heiðum landsins. Heilagleikinn draup af henni. Nú hefur Framsókn um skeið verið svartur flokkur stóriðju, með alls engan mosa í skegginu. Það er Halldóri Ásgrímssyni að kenna. Hann fór svo málavillt, að hann gældi jafnvel við Evrópu í draumum. Evrópa er nánast eins langt frá mosanum í skegginu og afdölum Framsóknar og hægt er að komast.

Myllusteinarnir

Punktar

Dapurt gengi Framsóknar í kosningunum stafar af ýmsum ástæðum. Hin þyngsta er, að áhrifin af auknu frelsi í efnahagsmálum henta ekki hefðbundnum kjósendum flokksins. Önnur þyngsta ástæðan er, að hefðbundnum kjósendum flokksins hentar ekki, að grænum flokki sveita sé breytt í svartan flokk stóriðju. Þriðja ástæðan er, að kjósendur hafa almennt áttað sig á spillingu flokks, sem er vinnumiðlun fyrir flokksprinsa, en er ekki hefðbundinn stjórnmálaflokkur. Með sjónhverfingum bjargaðist flokkurinn tvisvar í þingkosningum. En það tókst ekki í þriðja og síðasta skiptið.

Biðlisti vinnumiðlunar

Punktar

Fyrir vinnumiðlun, sem skilgreinir sig sem stjórnmálaflokk, er afleitt að tapa kosningum. Vinnumiðlun stendur og fellur með árangri sem vinnumiðlun. Ef hún missir aðstöðu til að útvega sæti, stóla og stöður, er hún einskis virði sem vinnumiðlun. Framsókn bar sem vinnumiðlun skylda til að hanga dauðahaldi í ríkisstjórnina. Það hefði gefið henni fjögurra ára frið við að útvega flokksgæðingum sæti, stóla og stöður. Nú hefur hún ekkert nammi. Eftir fjögur ár verður skortur á fólki á biðlistum Framsóknar. Það hefur þá í millitíðinnni flutt væntingar sínar til betur rekinna vinnumiðlana.