Þeir menga ókeypis

Punktar

Þeir, sem menga, eiga að borga mengunargjald. Það er sjálfsagt og einfalt. Samt setti Alþingi í vor lög um, að mengunarfyrirtæki þurfi ekki að borga fyrir mengun. Þetta er hluti af þrælslund og þjónustu við stóriðju. Mengun er alvarlegt mál, hún er mælanleg og réttur til hennar gengur kaupum og sölum erlendis. Þess vegna er vitað um verðgildið. Markaður losunarheimilda verður stærsti markaður heims eftir nokkur ár. Með því að gefa heimildirnar eru landsfeðurnir að gera sömu mistök og þeir gerðu með kvótakerfinu. Þá gáfu þessir gæzlumenn sérhagsmuna gæludýrum sínum aflaheimildir á fiski.

Letingi nuddar stírur

Punktar

Frá upphafi framkvæmda við stórvirkjun á Austurlandi hafa fjölmiðlar verið fullir af frásögnum um ólöglega starfsmenn. Samt hefur Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, sofið værum svefni árum saman. Annað hvort er hann svona óvenjulega latur kerfiskarl eða honum er sagt að hafa hægt um sig. Eftir mörg ár er nú fyrst verið að tala um, að sektir kunni að vofa yfir fimmtán fyrirtækjum. Aðaltrúnaðarmaður stéttarfélaga við Kárahnjúka telur, að 60-80 ólöglegir starfsmenn séu þar nú. Gissur veit auðvitað lítið um það, nuddar bara stírur. Er hægt að hafa svona latan mann í embætti?

Steingrímur skoðaður

Punktar

Eitt mesta varmenni landsins, Steingrímur Njálsson, er skoðaður í nýjasta Mannlífi ásamt fleiri barnaníðingum. Það er gott af Mannlífi að minna fólk á þessa hættulegu menn. Steingrímur var lengi í náð vandamálafræðinga. Þeir létu m.a. borga fyrir hann farsíma, svo að hann gæti legið í símanum með ógeðslegar hótanir. Kerfið ber ábyrgð á Steingrími og á að sjá um, að hann gangi aldrei laus. En brenglað kerfið er svo upptekið af Falung Gong og Saving Iceland, að það getur ekki sinnt öryggi þjóðarinnar. Herfilegt er, að fjögur af fimm þekktustu fúlmennum landsins skuli nú ganga laus.

Skólabrú er laus

Veitingar

Ef ég ræki veitingahús, mundi ég vilja gera það á Skólabrú andspænis kór Dómkirkjunnar. Þar bjó og vann augnlæknirinn Kristján Sveinsson á virtasta höfðingjasetri bæjarins. Húsið er glæsilegt, teiknað fyrir öld arkitekta, kjörið fyrir snilling. Í fimmtán ár var hér veitingastaðurinn Skólabrú. Hann byrjaði rösklega með Skúla Hansen sem eldameistara, sem stóð stutt við. Síðan koðnaði staðurinn niður í ekki neitt á vegum ýmissa gleymdra eigenda og kokka. Nú er búið að loka staðnum og er það vel við hæfi. Hér þarf að kvikna nýtt líf. Kjörinn staður fyrir nýfranskan sjávarréttastað.

Draumur um bólfélaga

Punktar

Bandarískir blaðamenn kvarta um, að skólagengin fagmennska sé á undanhaldi í sjónvarpi. Nefnt er til sögunnar, að nú séu einkum ráðnar ljóskur til að lesa fréttir. Hjá Fox þurfi þær að hafa þykkar varir, sem hreyfist eins og álar í samförum. Því miður hef ég týnt höfundi hinnar sérstæðu samlíkingar. Sannanlega hafa fréttatengdir þættir að hætti Kastljóss og Íslands í dag fjarlægst fagmennsku þar vestra. Sjónvarpið þar færist frá fréttamönnum yfir í táknmyndir um bólfélaga. Það eykur notkunartölur sjónvarpsins, en dregur um leið úr trausti manna á því. Á sama ferli örlar hér á landi.

Ofurtæki ferðalangs

Punktar

Ég sé fyrir mér símatölvu, sem er 9×15 sm að stærð eins og þrír farsímar hlið við hlið. Hún er samloka, sem gefur kost á þolanlegu lyklaborði og 6 tommu skjá, fer vel í vasa. Hún er iPod með bíó, staðsetningartæki og myndavél. Tækin eru til núna, en í fernu lagi, iPod, gemsi, Blackberry og GPS. Miklu máli skiptir, að tölvan sé sítengd með gemsa við netheima og við móðurtölvu heima í skrifstofu. Verðið á þessari sítengingu þarf að vera miðað við internetið, en ekki við gemsa-okrið. Evrópusambandið hefur að vísu kvalið niður okrið, en betur má, ef duga skal. Það er flöskuhálsinn.

Námskeið í ritstjórn

Fjölmiðlun

Senn byrjar námskeið hjá mér í Háskólanum í Reykjavík um ritstjórn. Það er spennandi viðfangsefni. Hafði kennt rannsóknablaðamennsku, fréttamennsku og textastíl þar í fyrra. Engin góð kennslubók er til um ritstjórn, ekki einu sinni á ensku. En ég hef náð saman góðum pakka nýrra bóka, sem samanlagt spanna hugtakið ritstjórn. Bækurnar eru allar skrifaðar af ritstjórum, en ekki fjölmiðlafræðingum. Þær gefa þáttakendum námskeiðanna innsýn í helztu þætti ritstjórnar. Svo sem stjórnun og þjálfun starfsfólks, leiðara og siði, tímarit og sérútgáfur, hönnunar- og myndritstjórn. Mjög gott mál.

Ríkið kaupir tálsýn

Punktar

SÁÁ vantar aura. Ríkið vantar skyndilausn. Bingó: Fangar eru skyldaðir í meðferð hjá SÁÁ, ríkið borgar. Skyldaðir, því að þeir fá tilboð, sem þeir geta ekki hafnað. Ekkert gagn verður að þessu. Meðferð gagnast að svo miklu leyti sem hún er á nótum AA-samtakanna. Hún hentar bezt miðaldra körlum, gömlum drykkjurútum frekar en ungum dópistum. Og hún gagnast því aðeins, að fangar meini eitthvað með þessu. Það gera þeir ekki, eru bara að fá frí frá Hrauninu. Allt fát ríkisins í meðferð fíkla er sama marki brennt. Sumt er skaðlegt, samanber Byrgið. Annað er tálsýn, samanber skyldumeðferðin.

Stutt leið milli kanta

Punktar

Ekki kom mér á óvart, að bandarísk könnun sýndi vinstri menn lesa fleiri bækur en hægri menn. Ekki heldur, að notendur Fox sjónvarpsins eru heimskari og fáfróðari en annað fólk. Hitt kom mér á óvart, að þeir, sem telja sig miðjumenn, lesa langtum færri bækur en hægri og vinstri menn. Fólk er líka heimskara á miðjunni. Kannski er það gáfumerki Íslendinga að hafa hafnað Framsóknarflokknum. Málið er kannski, að miðjufólkið er fáfrótt og ánægt. En jaðarmenn til allra átta eru að leita að einhverju. Til dæmis í bókum. Og kannski er skemmri leið frá vinstri til hægri en til miðjunnar.

Nafnleysi skaðar fólk

Punktar

Kennsla í nafnleysi getur haft skrítnar afleiðingar. Guðbjörg Kolbeins fer að nafnleysisvenju, sem hún kennir við háskólann. Segir ónefndan forstjóra fjölmiðla ofsækja sig með hótunum. Aðeins eru til tveir slíkir í landinu. Annar þeirra er væntanlega saklaus af ofsóknum á hendur Guðbjörgu. En nafnleysið þýðir, að Guðbjörg gerir hann grunsamlegan, sem er óréttlátt. Það er eins og að segja gullsmið við Skólavörðustíg vera nauðgara. Bezta leiðin til sannleikans getur aldrei falist í hálfkveðnum vísum. Bezt er að nota jafnan fullt nafn. Sleppa því hinum, sem annars flæktust í vond mál.

Þéttingin komin í vörn

Punktar

Daglega berast fréttir af mótmælum íbúa við þéttingu byggðar. Þær koma úr Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði. Fólk hefur áttað sig á, að ný stórhýsi spilla lifsgæðum þeirra, sem búa þar fyrir. Trúarofstækismenn þéttingar hafa hingað til blásið á andmælin. Þeir fara sínu fram í krafti embætta sinna í skipulagsdeildum bæjarfélaga. Næsta skref felst í málaferlum gegn sveitarfélögum, sem skaða eignir íbúanna. Þegar réttlæti næst fyrir dómum, mun fáránleg stefnan leggjast af. Hún hefur aldrei átt annað haldreipi en hroka langskólagenginna. Þægð við verktaka Framsóknar er ekkert haldreipi.

Franska neistann vantaði

Veitingar

Klassísk matreiðsla frönsk er móðir vestrænnar matreiðslu. Því er við hæfi, að loks er hún komin til Reykjavíkur. Hjá Rendez-Vous á Klapparstíg, þar sem áður var Pasta Basta. Allt er franskt, kokkur og þjónn, ekkert gervi. Staðurinn er lítill, viðmót gott og matreiðsla frambærileg. Fín tilbreyting frá nýklassíkinni, sem kennd er í kokkaskólanum. Verðið er hátt miðað við gæði, 1500 krónur for-, 3000 krónur aðal- og 1400 krónur eftirréttur. Brauð og vín, laxakæfa og Lóthringen-baka, andabringa og smjörsilungur, pönnukaka og karamellubúðingur: Ok, en franskan neista vantaði. Nema í fínum silungi.

Aðferð frá Amsterdam

Punktar

Ráðagerðir um sýnilega löggæzlu í borginni hafa áhrif. Löggur eru farnar að segja upp störfum. Svo illir eru fylliraftarnir, að löggur þora ekki út og segja frekar upp. Sýnilegar löggur eru betri en engar, en það nægir ekki samkvæmt þessu. Í Amsterdam voru aðgerðirnar ákveðnari. Dam var hreinsað árið 1970. Hundruðum manna var stungið í gáma eða fangelsi. Dag eftir dag, unz það dugði. Ef hreinsa á hina bandóðu úr miðbænum, þarf löggan að hafa pláss fyrir hundruð manna. Og mannafla til að skrá alla og sekta. Og hún þarf að að binda alla niður í gámunum. Annars drepa þeir hver annan.

Ölæði verði refsivert

Punktar

Lögreglustjórinn í Reykjavík á ekki að væla um andlegan styrk og aðstoð frá almenningi. Hann á að væla inn skýrt orðalag í lögreglusamþykkt. Þar sé sýnilegt ölæði í miðbænum gert refsivert. Fimmtíu þúsund krónur á fyrsta brot eða fimm daga fangelsi, ef ekki greiðast. Síðan hækki refsingar við ítrekuð brot. Að næturlagi um helgar eiga sérsveitir að ganga um miðbæinn og hirða upp háværa ofbeldisrafta. Svo má semja við eitt þriðja heims ríki um að taka við síbrotamönnum. Gegn gjaldi, sem þau geta ekki hafnað. Við þurfum með illu að losna við handóða fyllirafta. Gera þá bara landræka.

Vandamálafræðinga burt

Punktar

Samskipti kerfisins við síbrotamenn fara eftir skilmálum vandamálafræðinga. Reynt er að lækna fyllirafta og eytt í það meira fé en fer í stuðning við fórnardýrin. Fyrst og fremst ber að losa almenning við ofbeldisfólk með því að loka það inni langtímum saman. Í staðinn eru raftarnir skikkaðir í meðferð. Þótt vitað sé, að meðferð dugar þeim einum, sem vilja eindregið breyta sér. Þeir eru sárafáir. Taka þarf vandamál ofbeldis og afbrota úr höndum meðvirkra vandamálafræðinga. Setja ber samfélagið og fórnardýrin í forgang. Því á að taka háværa síbrotamenn ofbeldis úr umferð. Mjög lengi.