Ísafjarðarsýslur

Klofningsheiði

Frá Klofningi í Önundarfirði um Klofningsheiði til Keravíkur í Súgandafirði.

Gömul reiðleið. Gott er að byrja hjá sandgryfjunum ofan við Flateyri, þar er slóði upp í Klofningsdal. Leiðin er vörðuð, þegar komið er upp á fjallsbrúnina. Leiðin niður í Sunndal er villugjörn, slóðin ógreinileg, landið stórgrýtt og skriðurunnið. Slóðin skýrist, þegar neðar dregur.

Förum frá Klofningi norðaustur og upp Klofningsdal inn í botn og þverbeygjum þar til vesturs í bröttum sneiðingum upp á Klofningsheiði. Förum þar til norðausturs og hæst í 630 metra. Síðan þvert í norðvestur niður Jökulbotna í Sunddal að Staðarhúsum. Þaðan norður í Keravík.

9,4 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Grímsdalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Kjölur

Frá Látrum í Aðalvík um Tunguheiði og Kjöl að Atlastöðum í Fljóti.

Greiðfær leið.

Í Árbók FÍ 1994 segir: “Farið er … upp allbrattan hjalla, sem Fljótshjalli heitir og liggur ævinlega í honum skafl. Þá tekur heiðin við og Andbrekkur og Kjölbrekka uns komið er á Kjöl. Óljós gata liggur upp á heiðina … Fljótlega þegar komið er á fannir er fylgt vörðum, sem verða því reistari sem ofar dregur og vísa veg uns hallar norður af. Leiðin uppá heiðina liggur af hjalla á hjalla um veðurgnúin grjótholt … Greiðfært er þar yfirferðar, en á fótinn yfir urðir og mosatór á milli. … Gengið er niður Kjölbrekku og Rangala, þar sem gatan liggur sniðskorin hjá jöklasóley, hlaðin undir fót af mannahöndum úr flögugrjótinu úr hlíðinni. Farið er ofan Hærrihaus og Lægrihaus og niður í Langholt og þá um Mógrafir og að Tungu.”

Förum frá Látrum til norðausturs austur fyrir Grasdalsfjall og áfram norðaustur og um Grafahlíð upp á Hálsa og síðan Fljótshjalla. Næst förum við norðnorðaustur Fjárdal upp á Kjöl á Tunguheiði í 500 metra hæð. Frá Látrum að Kili er leiðin vörðuð. Síðan austur á Nónfell, um Kjölbrekku og Rangala norður efstu brekkurnar og síðan norðaustur og niður að Tungu í Fljóti. Áfram norðaustur um Fljót og yfir breiðan en grunnan Atlastaðaós að Atlastöðum.

9,5 km
Vestfirðir

Skálar:
Látrar: N66 23.555 W23 02.200.
Fljótavík: N66 27.128 W22 55.558.

Nálægar leiðir: Aðalvík, Mannfjall, Almenningar, Háaheiði, Fljótsskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Kjaransvíkurskarð

Frá Hesteyri í Hesteyrarfirði um Kjaransvíkurskarð til Kjaransvíkur.

Vörðuð leið um skarðið, með mikilúðlegu útsýni til norðurs. Leiðin er seinfarnari en leiðin um Hesteyrarbrúnir og sæta þarf sjávarföllum á leiðinni. Á Stekkeyri eru leifar hvalveiðistöðvar.

Förum frá Hesteyri norðaustur með Hesteyrarfirði um Stekkeyri og undir fjallinu Ófæru. Síðan norðaustur meðfram Hesteyrarfjarðará að vestanverðu upp brattar Andbrekkur. Þar mætum við slóð um Hesteyrarbrúnir og úr Fljóti. Við förum norðaustur í Kjaransvíkurskarð í 430 metra hæð. Síðan norður Jökladali niður að eyðibýlinu í Kjaransvík.

12,2 km
Vestfirðir

Skálar:
Hlöðuvík: N66 24.860 W22 40.520.

Nálægar leiðir: Hesteyrarbrún, Háaheiði, Hesteyrarskarð, Almenningar, Skálarkambur, Hraunkötludalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Kaldalón

Frá Ármúla á Langadalsströnd yfir Kaldalón í Skjaldfannardal að Unaðsdal á Snæfjallaströnd.

Útfiri mikið er í Kaldalóni. Um háflóð þarf að fara inn á Eyrar og þar yfir Mórillu, en þar geta verið sandbleytur. Um hálffallinn sjó er góð reiðfjara í Lóninu.

Förum frá Ármúla og fylgjum þjóðvegi 635 að Kaldalóni. Þar fylgjum við sjónum mikið til og förum leirurnar. Förum frá Seleyrarodda, sem áður hét Vestanseyri og komum upp á móti bænum Lónseyri. Þar förum við aftur upp á þjóðveginn og fylgjum honum um Bæi í Unaðsdal.

11,4 km
Vestfirðir

Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Vébjarnarnúpur, Dynjandisskarð, Öldugilsheiði, Drangajökull, Ófeigsfjarðarheiði, Rjúkandisdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Kakali 1242

Þeysireiðir Þórðar kakala árið 1242.

Þórður kakali kom út í Eyjafirði sumarið 1242. Reið suður Bleiksmýrardal og Sprengisand til að forðast Kolbein unga. Reið síðan vestur á firði til að leita fylgismanna. Síðan suður um Hítardal til að leita vopna og áfram suður um Skessubásaveg og Klukkuskarð til Laugarvatns og áfram til Skálholts, Keldna og Breiðabólstaðar. Síðan í einum rykk á átján tímum frá Skálholti í Stykkishólm. Frétti í Borgarfirði af her Kolbeins unga í Reykholti. Slapp undan honum yfir Hvítá og síðan í þeysireið vestur Mýrar, þar sem hann komst út á Löngufjörur, en Kolbeinn varð strandaglópur á aðfallinu. Ferð Þórðar lauk ekki í Stykkishólmi, heldur flúði hann út í Breiðafjarðareyjar. Tveimur árum síðar vann Þórður mikinn sigur í Flóabardaga og endanlegur sigur í Haugsnesbardaga. Var þá búinn að vera í þindarlausum herferðum í fjögur ár.

Fleiri en Þórður stóðu í stórræðum í herferðum árið 1242. Þá fór Kolbeinn ungi um vetur með 600 manna lið um Núpdælagötur frá Húnaþingi til að veita Þórði kakala fyrirsát í Borgarfirði. Þetta var 27. nóvember. ”Svo var veðri farið er þeir riðu á heiðina, að um morguninn var á krapadrífa og vindur lítill og urðu menn alvotir. En er leið á daginn tók að frysta; hljóp þá veðrið í norður.” Menn villtust og hröktust um heiðina, nokkrir dóu og aðra kól. Lét Kolbeinn menn glíma til að halda á sér hita. Í stað þess að halda áfram niður Hvítársíðu og fara síðan yfir Norðurá, fór Kolbeinn yfir Hvítá og í Reykholt. Þurfti því að fara Hvítá tvisvar og tafðist við það. Missti því naumlega af Þórði, sem fór um Bæjarsveit norður yfir Hvítá á sama tíma. Kolbeinn missti af Þórði norðvestur Mýrar og út á Löngufjörur. Hefði betur farið Holtavörðuheiði og setið fyrir Þórði á Mýrum. Mistök þessi mörkuðu þáttaskil í valdabaráttunni. Þórði óx ásmegin eftir þetta. Hafði sigur í Flóabardaga 1244 og í Haugsnesbardaga 1246. Þórður varð einvaldur yfir Íslandi 1247-1250. Hann er sá eini af Sturlungum, sem sýndi herkænsku, ólíkur Sturlu bróður sínum. Reif sig upp úr fylgisleysi og vopnaleysi í einveldi á fimm árum. Dó síðan á sóttarsæng úti í Noregi. (© Jónas Kristjánsson)

? km
Ýmsir landshlutar

Nálægar leiðir: Bleiksmýrardalur, Gásasandur, Skessubásavegur, Klukkuskarð, Löngufjörur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Höfðaströnd

Frá Stað í Grunnavík um Staðarheiði austur Höfðaströnd að Dynjandi í Leirufirði.

Alfaraleið um Sveitina, það er byggðina sunnan Jökulfjarða. Á Staðarheiði eru melholt með tjörnum og gróðurlautum. Á eyrinni undir Höfða er Flæðareyri, samkomuhús brottfluttra Grunnvíkinga. Uppi á Höfða er gott útsýni og hringsjá. Förum frá Stað austur um Faxastaði á Staðarheiði eða Höfðastrandarheiði milli Staðarhlíðar og Seljafjalls, mest í 150 metra hæð. Einnig er hægt að fara samsíða leið um Kollsárheiði um hálfum kílómetra norðar. Við förum sunnan Skeiðisvatns og meðfram Hrafnabjörgum að Kollsárgili og síðan á Tíðagötuhjalla, þar sem sést vel yfir Sveit. Við förum niður hjallann og austur á Höfðaströnd að Steinshólum. Síðan áfram austur með ströndinni um sjávarbakka, grundir og mela að Höfða og síðan að Dynjanda í Leirufirði. Milli Höfða og Dynjanda eru tvær leiðir, sú gamla ofan á höfðanum og hin yngri jeppavegur undir klettabelti með sjónum.

Hraunsdalur

Frá Skálavík um Hraunsdal og Gönguskarð að leið um Grárófuheiði.

Ófær hestum.

Förum frá Minni-Bakka austsuðaustur með Hraunsá og síðan suður Hraunsárdal. Síðan suðaustur um eystri dalbotninn og upp Vatnabrekkur í Gönguskarð i 590 metra hæð. Að lokum suðsuðaustur úr skarðinu niður á leið um Grárófuheiði milli Bolungarvíkur og Selárdals í Súgandafirði.

13,5 km
Vestfirðir

Ekki fyrir hesta
Mjög bratt

Nálægar leiðir: Skálavíkurheiði, Ófæra, Bakkaskarð, Norðureyrargil, Grárófuheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hraunkötludalur

Frá Neðri-Miðvík í Aðalvík um Hrafnkötludal að Hesteyri í Hesteyrarfirði.

Förum frá Neðri-Miðvík suðaustur um Efri-Miðvík og síðan suðsuðaustur á fjallið. Þegar upp í skarðið er komið í 380 metra hæð, förum við senn að beygja til austurs fyrir sunnan Litlafell. Förum síðan til norðausturs fyrir vestan Tóarvatn og áfram norðaustur í Hraunkötludal. Þaðan förum við austur af heiðinni niður til Hesteyrar.

9,5 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Þverdalsdrög, Hesteyrarskarð,Háaheiði, Sléttuheiði, Hesteyrarbrúnir, Kjaransvíkurskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hraundalsháls

Frá Hallsstöðum á Langadalsströnd til Hraundals.

Byrjum hjá þjóðvegi 635 við Hallsstaði. Förum norðaustur yfir Hraundalsháls að slóð yfir Ófeigsfjarðarheiði við Hraundalsgil.

7,1 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Ófeigsfjarðarheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hrafnfjörður

Frá Dynjandi í Leirufirði fyrir botn Hrafnfjarðar til Sviðningsstaða í Hrafnfirði.

Talið er, að Fjalla-Eyvindur og Halla hafi búið til æviloka á Hrafnfjarðareyri og þar er legsteinn Eyvindar. Jökuláin í Leirudal heitir Fjörðurinn. Í árbók FÍ 1994 segir: “Grunnt er fyrir firðinum og útfiri og þornar á leirunum á fjöru. Þá er vel vætt yfir kvíslarnar og má halda yfir Fjörðinn allgóðan spöl innan við Dynjandisá í stefnu á Kjósarháls hinu megin. Á móts við bæjarstæðið á Leiru er farið yfir Fjörðinn á flæði, kallast þar Eyrar og eru þá vöð valin eftir því sem verða vill skáhallt inn yfir leirurnar. Sandkvikur geta leynst í botninum.”

Förum frá Dynjandi austur ströndina og yfir Leirufjörð á fjöru. Á flóði þarf að krækja inn að Leiru. Áfram norðaustur eftir niðurgröfnum slóða yfir Kjósarháls og síðan um Kjósarhóla niður í fjöruna í Kjós og síðan austur með strönd Hrafnfjarðar undir Kjósarnúpi. Því næst um Hrafnsfjarðareyri og austur í fjarðarbotn. Síðan vestur með Hrafnfirði að norðanverðu að Sviðningsstöðum undir Lónanúpi.

20,4 km
Vestfirðir

Skálar:
Hrafnfjörður: N66 15.989 W22 22.672.

Nálægar leiðir: Höfðaströnd, Dynjandisskarð, Leirufjall, Öldugilsheiði, Skorarheiði, Bolungarvíkurheiði, Rjúkandisdalur, Fannalág.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hrafnaskálarnúpur

Frá Kirkjubóli í Önundarfirði um Hrafnaskálanúp að Sæbóli á Ingjaldssandi í Önundarfirði.

Gömul póstleið til Ingjaldssands. Fyrri hluti leiðarinnar, til Mosdals, er auðveldur. Síðari hlutinn er ófær hestum. Þar verður líka að fara á fjöru eða klifra að öðrum kosti um bergið í Ófæru. Þar eru enn leifar af keðjum, sem notaðar voru við klifrið. Í Mosdal eru skýrar tóftir 20-30 bygginga, en langt er síðan jörðin fór í eyði.

Förum frá Kirkjubóli norðvestur ströndina undir Sporhamarsfjalli út í Mosdal. Þaðan áfram norðvestur fjöruna undir Hrafnaskálarnúpi og síðan um Ófæru nyrst undir núpnum og komum loks að Sæbóli á Ingjaldssandi.

8,1 km
Vestfirðir

Ekki fyrir hesta
Erfitt fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Klúkuheiði, Sandsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hornstrandir

Frá Barðsvík á Hornströndum að Látravík við Hornbjarg.

Ótrúlegt er, að byggð skuli hafa verið á litlu klettanesi, þar sem bærinn Bjarnarnes er. Drífandisá fellur í tveimur fossum í sjó fram og er sá neðri 50 metra hár.

Förum frá sæluhúsinu í Barðsvík tvo kílómetra vestur dalinn og síðan þvert norður um dalinn. Þaðan förum við norðvestur á Smiðjuvíkurháls, þar sem við náum 250 metra hæð. Síðan norðaustur af hálsinum niður í Smiðjuvík og áfram niður að sjó. Þaðan förum við um og upp eftir hjalla norður á Smiðjuvíkurbjarg í 140 metra hæð. Þar er lægð, sem hallar inn til lands. Við fylgjum lægðinni um mýrasund og mela fram á brekkubrún austan við álfabyggðina Rauðuborg. Þaðan förum norðvestur í Drífandisdal og yfir ána ofan við efri fossinn við ströndina. Og áfram norðvestur með björgum ofan við ströndina. Við förum yfir Digranes og um Hólkabætur í 140 metra hæð. Síðan neðan við Bjarnarneshæð niður að Bjarnarnesi í Hrollleifsvík. Þaðan um víkina og allbratt um sneiðinga yfir Axarfjall í 240 metra hæð og loks norður og niður í Látravík, þar sem er gitihús.

13,7 km
Vestfirðir

Skálar:
Barðsvík: N66 20.117 W22 14.000.
Látravík: N66 24.641 W22 22.741.

Nálægar leiðir: Almenningsskarð, Sópandi, Bolungarvíkurheiði, Bolungarvíkurbjarg, Göngumannaskörð, Snókarheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hlöðuvíkurskarð

Frá Búðum í Hlöðuvík um Hlöðuvíkurskarð að Steinólfsstöðum í Veiðileysufirði.

Í Árbók FÍ 1994 segir: “Í Hlöðuvíkurskarð er haldið upp hjallana þar sem fjörðurinn beygir í austur á gróðursnauðan fjalldalinn vestan við Lónhorn með stefnu í skarðið. Leiðin er greið, ekki vörðuð, liggur yfir urðarana hið efra. Þá upp er komið opnast dýrðarsýn á fjöll og jökul og fjalldalina er ganga uppaf Hlöðuvík austan við Álfsfell og út sér í norðurátt bakvið Atlantshafið.”

Förum frá Búðum beint suður Bæjardal og austan við Ólafsdalsá í bröttum sneiðingum upp í Hlöðuvíkurskarð í 470 metra hæð. Úr skarðinu um bratta sneiðinga suðvestur að Steinólfsstöðum í Veiðileysufirði.

7,3 km
Vestfirðir

Erfitt fyrir hesta

Skálar: Hlöðuvík: N66 24.860 W22 40.520.

Nálægar leiðir: Skálarkambur, Almenningar, Hafnarskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hestur

Frá Fjarðarhorni í Seyðisfirði í Ísafjarðardjúpi með strönd Hestfjarðar í Folafót við Seyðisfjörð.

Fyrr á öldum var sjávarþorp á Folafæti.

Förum frá Fjarðarhorni norðaustur að Hestfirði og síðan norður með vesturströnd Hestfjarðar undir fjallinu Hesti. Síðan norður fyrir Hest að Folafæti.

18,0 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Hestfjarðarheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hestskarð vestra

Frá Hestdal í Önundarfirði að Seljalandi í Álftafirði.

Rani liggur frá Þverfelli niður í Hestskarð. Hlið hans niður í Hestdal er mjög brött og heitir Manntapabrekkur. Þeir, sem að norðan koma, þurfa að gæta sín að fara ekki of langt til hægri og of hátt í ranann.

Byrjum í Hestdal í Önundarfirði. Förum fram dalinn, vestan við Hest og um djúpt Hestskarð í 720 metra hæð fyrir botni dalsins, austan við Þverfell. Síðan niður Seljalandsdal að Seljalandi.

13,9 km
Vestfirðir

Erfitt fyrir hesta
Mjög bratt

Nálægar leiðir: Þóruskarð, Álftafjarðarheiði, Lambadalsskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort