Þjóðleiðir

Háafellsleið

Frá Grund í Skorradal um Lundareykjadal að Fitjum í Skorradal.

Förum frá þjóðvegi 52 hjá Lundarhólma í Lundareykjadal beint suður hálsinn að Háafelli við Skorradalsvatn.

5,0 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægar leiðir: Teigfell, Skorradalur, Kúpa, Síldarmannagötur, Sjónarhóll, Grafardalur, Hálsaleið, Hestháls, Grímsárbugar.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Háafell

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Kúvíkum í Reykjafirði um Háafell upp á slóð um Trékyllisheiði.

Leiðin er vörðuð.

Förum frá Kúvíkum suður og upp með Búðará að þjóðvegi 643 og síðan vestur yfir þjóðveginn um Langahjalla. Áfram til suðvesturs fyrir norðan Háafell að Djúpavíkurá og suðvestur með henni. Við höldum áttinni til suðvesturs, förum milli ónefndra vatna og komum nokkru sunnar á jeppaveginn yfir Trékyllisheiði. Hann liggur milli Steingrímsfjarðar og Trékyllisvíkur.

11,4 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Kambur, Trékyllisheiði, Tagl

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hauksdalur

Frá Hrafnseyri í Arnarfirði um Hauksdal til Ketilseyrar í Dýrafirði.

Á Hrafnseyri bjó Hrafn Sveinbjarnarson, einn af höfðingjum Sturlungaaldar og mestur læknir þess tíma, átti í deilum við Vatnsfirðinga og féll í bardaga á Hrafnseyri, sem þá hét Eyri. Í sögu hans segir: “Til einskis var honum svo títt, hvorki til svefns né matar, ef sjúkir menn komu á fund hans, að eigi mundi hann þeim fyrst nokkra miskunn veita. Aldrei mat hann fjár lækning sína. Við mörgum mönnum vanheilum og félausum tók hann, þeim er þrotráða voru, og hafði með sér á sínum kostnaði, þangað til þeir voru heilir.” Jón Sigurðsson forseti fæddist á Hrafnseyri og ólst þar upp. Þar er nú safn til minningar um hann.

Förum frá Hrafnseyri norður dalinn að austanverðu og beygjum til austurs inn Hauksdal og um Fossabrekku norðaustur fjallið í 660 metra hæð. Síðan norðnorðaustur og niður í Ketilseyrardal og norður dalinn að Ketilseyri í Dýrafirði.

13,6 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Lokinhamrar, Glámuheiði

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Haukholt

Frá Brúarhlöðum um Skipholt að Fossi í Hrunamannahreppi.

Förum frá þjóðvegi 30 við Brúarhlöð suður um hlið á girðingu og vestan við Skersli að Hvítá. Síðan að Haukholti og þaðan eftir heimreiðinni suður að þjóðvegi 30.

3,3 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Fagridalur.
Nálægar leiðir: Hrunamannahreppur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jón Hermannsson

Haukagilsheiði

Frá Haukagili í Vatnsdal að Álkuskála á Grímstunguheiði.

Öldum saman ein mest farna heiðin í Húnaþingi, er farið var suður á Arnarvatnsheiði. Skemmtileg og fjölbreytt reiðleið um land, sem að mestu er gróið, dæmigerð heiði. Rétt austar liggur Grímstunguheiði upp á Stórasand, einnig til Arnarvatns. Vestar liggur Víðidalstunguheiði, sem sameinast þessari leið fyrir norðan Suðurmannasandfell. Vestar er Aðalbólsheiði, þar sem slóðin endar einnig við Arnarvatn. Enn vestar eru svo Núpdælagötur, sem liggja úr Núpsdal að Úlfsvatni og síðan að Norðlingafljóti. Allra vestast er Tvídægra, sem liggur yfir Sléttafell að efstu bæjum í Hvítársíðu og Þverárhlíð. Sú heiði er næst Holtavörðuheiði.

Förum frá Haukagili suður og á ská upp fjallshlíðina, bratt en greiðfært, og suður með Álkugili. Síðan áfram til suðurs yfir Stekkjarlæk og Grafargil, um eyðibýlið Gilhaga. Nokkru sunnar förum við ofan í gilið, þar sem það er orðið að grunnum dal. Þrístapi er á vestari hlið og Skúti á austari hlið. Þar norðan undir er eyðibýlið Skútabær. Slóðin liggur beint suður, um Fossvelli, austan Geirhildartjarnar, sveigir síðan aðeins til suðsuðausturs um Lambatungur, alltaf meðfram Álku / Álftaskálará. Síðan áfram suður vestan við Lambalækjartjarnir að Álkuskála.

24,1 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Álkuskáli: N65 08.824 W20 08.677.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Suðurmannasandfell.
Nálægar leiðir: Grímstunguheiði, Hraungarðar, Aðalbólsháls.

Skrásetjari: Steingrímur Kristinsson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Steingrímur Kristinsson

Haukadalsskarð

Frá Stóra-Vatnshorni í Haukadal að Stað í Hrútafirði.

Leiðin um Haukadalsskarð hefur frá fyrstu tíð verið fjölfarin milli Dala og Norðurlands. Hennar er getið í Njáls sögu og Sturlungu. Í Sturlungu segir: “En er Sturla Þórðarson spurði, að Brandur var kominn í Miðfjörð með flokk og ætlaði vestur í sveitir, þá dró hann þegar lið saman. Kom þá til liðs við hann Þorgils skarði Böðvarsson og Vigfús Gunnsteinsson. Riðu þeir þá norður yfir Haukadalsskarð og höfðu nær tvö hundruð manna; tóku þeir þá áfanga fyrir norðan skarðið. Komu þá aftur njósnamenn þeirra Sturlu og segja, að Brandur var í Miðfirði og fór heldur óvarlega.” Þetta var 1244. Sama ár eftir Flóabardaga riðu Sturla Þórðarson og Þórður kakali norður skarðið í misheppnaðri aðför að Kolbeini unga.

Förum frá Stóra-Vatnshorni austur dalinn norðan Haukadalsár um Eiríksstaði, Leikskála, Núp, Smyrlahól og Giljaland, inn fyrir beygjuna á dalnum og suður fyrir eyðibýlin Kross og Skarð. Skammt sunnan Skarðs förum við jeppaveg til austurs milli Geldingafells í norðri og Klambrafells í suðri upp í Haukadalsskarð. Við förum í austur og síðan í norðaustur, komumst í 280 metra hæð. Síðan um brekkurnar norðaustur af heiðinni niður með Ormsá að Melum í Hrútafirði. Við förum niður að Hrútafjarðará og fylgjum henni til norðurs, unz við erum komin andspænis gamla Staðarskála. Þá förum við þvert yfir ána og upp brekkurnar, yfir þjóðveg 1 að Stað í Hrútafirði.

32,5 km
Snæfellsnes-Dalir, Húnavatnssýslur

Jeppafært

Nálægir ferlar: Sópandaskarð, Saurstaðaháls, Tröllháls, Húnaþing.
Nálægar leiðir: Prestagötur, Villingadalur, Krossbrún, Haukadalsá, Jörfamúli, Holtavörðuheiði, Sölvamannagötur.

Skrásetjari: Steingrímur Kristinsson
Heimild: Steingrímur Kristinsson

Haukadalsá

Frá Krossi í Haukadal á Krossbrúnarleið í Sanddal.

Förum frá eyðibýlinu Krossi suður allan Haukadal milli Krossbrúnar og Jörfamúla. Sunnan dals komum við á Krossbrúnarleið og fylgjum henni suðsuðvestur í Sanddal.

8,6 km
Snæfellsnes-Dalir, Borgarfjörður-Mýrar

Nálægir ferlar: Haukadalsskarð, Tröllháls, Sanddalur.
Nálægar leiðir: Krossbrún, Villingadalur, Jörfamúli.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Haugsleið

Frá Fremri-Hlíð í Vesturárdal í Vopnafirði um Haugsöræfi að Víðirhóli á Fjöllum.

Þetta var aðalleiðin milli Vopnafjarðar og Hólsfjalla, langur fjallvegur og erfiður. Þarna var lagður sími 1906. Árið 1881 urðu tveir menn úti á Haugsöræfum. Þar heitir Dauðagil. Önnur örnefni á svæðinu eru ekki öll upplífgandi, svo sem Dimmagil og Heljardalur.

Förum frá Fremri-Hlíð norðvestur á fjallið og síðan suðvestur eftir fjallinu, norðan við tindinn á Rjúpnafelli og um Búrfell. Vestan þess förum við norðvestur yfir drög Selárdals að Mælifelli og fjallaskálanum Aðalbóli. Síðan upp með Selsá í átt að Kollufelli. Sveigjum til norðvesturs og síðan vesturs að fjallaskálanum Austarahúsi. Áfram vestnorðvestur um Austari-Haugsbrekku að Haugsgili sunnan Haugsvatns. Förum vestur um gilið og síðan áfram vestur, í 760 metra hæð, um fjallaskálann Vestarahús að vegamótum norðan Hólskerlingar. Við förum norðvestur fyrir endann á Víðirhólsfjallgarði að Víðirhóli.

70,4 km
Austfirðir, Þingeyjarsýslur

Skálar:
Aðalból: N65 41.394 W15 18.309. 380 metrar.
Austarahús: N65 41.426 W15 32.094.
Vestarahús: N65 42.590 W15 49.400.

Nálægir ferlar: Hólsfjöll.
Nálægar leiðir: Vopnafjörður, Dimmifjallgarður, Einbúi, Heljardalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Haugakvísl

Frá Ströngukvíslarskála að Galtarárskála.

Leiðin liggur um þurrt mólendi. Hin ljóðfræga Galtará er fremur vatnslítil bergvatnsá á Eyvindarstaðaheiði, kemur upp í Galtarárdrögum og fellur í Blöndu. Fræg af kvæði Jónasar Hallgrímssonar, Ferðalokum: “Greiddi ég þér lokka / við Galtará / vel og vandlega; / brosa blómvarir, / blika sjónstjörnur, / roðnar heitur hlýr.” Við ána hafði hann náttstað. Ekki er vitað, hvar Jónas greiddi lokka ástmeyjar sinnar, en ætla má að áningarstaðurinn hafi verið þar sem reiðslóðin Skagfirðingavegur liggur yfir Galtarárdrög, nokkru sunnan núverandi fjallaskála og jeppavegar. Að mestu er farið um þurrt land ofan gróðurlendis Húnavatnssýslu. Ef farin er reiðleiðin, eiga engir jeppar að geta verið þar á ferð. Vékelshaugar heita eftir Vékeli landnámsmanni á Mælifelli, sem fór þangað í landaleit.

Förum frá Ströngukvíslarskála í 540 metra hæð meðfram heimreiðinni frá skálanum að hinum gamla Kjalvegi norður í Skagafjörð. Rétt áður en við komum að jeppaslóðinni yfir að Galtará förum við reiðslóðina til norðurs um Álfgeirstungur. Við förum vestan við Þúfnavatn, yfir Haugakvísl og um Vékelshauga. Þegar við komum að Galtará, erum við komin í Galtarárdrög, á þann stað, þar sem Jónas Hallgrímsson hafði náttstað og greiddi lokka ástmeyjar við Galtará. Héðan förum við norður af slóðinni meðfram vatnslítilli ánni, förum austan við Blönduvatnshæð og vestan við Syðra- og Ytra-Hanzkafell. Komum að skálanum við Galtará í 490 metra hæð, þar sem við mætum jeppaveginum rétt hjá Langaflóa í Blöndulóni.

23,0 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Strangakvísl: N65 01.958 W19 25.899.
Galtará: N65 11.809 W19 31.474.

Nálægir ferlar: Guðlaugstungur, Mælifellsdalur.
Nálægar leiðir: Skiptamelur, Stífluvegur, Fossaleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hattagil

Frá Skógarstrandarleið á Rauðamelsheiði.

Byrjum á fjöruleiðinni um Skógarströnd, þar sem Gljúfurá rennur til sjávar. Förum suður með ánni, yfir þjóðveg 54 og síðan suðvestur að Spottlæk. Þaðan vestur í Hattargil og áfram suðvestur um Seljafell á leiðina yfir Rauðamelsheiði í Hnappadal.

7,5 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Rauðamelsheiði, Skógarströnd.
Nálægar leiðir: Fossavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Harðivöllur

Frá línuvegi á Hreppaafréttum að Svínárnesi á Hreppaafréttum.

Farið um slóðir, sem voru byggðar að fornu samkvæmt fornleifagreftri. Þá var byggð við Búðará og Stangará og þaðan var stutt upp að Kjalvegi við Hólmavað. Fundizt hafa bæjarstæði nokkurra fornbæja á þessari leið, Lauga, Búðarárbakka, Rofshóla, Stangarness, Mörþúfu og Þórarinsstaða. Flestir eru þeir í um 260 metra hæð nálægt Búðará og Stangará. Í Jarðabókinni segir, að tólf bæir hafi verið á þessum slóðum að fornu. Hér fór fólk, sem þurfti að fara milli Norðurlands og sveita austan Hvítár. Þá fóru menn upp Tungufellsdal og um Svínárnes að vaði á Jökulfalli við núverandi brú á Hvítá norðan Bláfells. Fóru vað á Jökulkvísl í stað þess að fara vað á Hvítá. Á Harðavelli var valllendi fram á 19. öld, sem hefur síðan blásið upp. Enn eru þar háar valllendistorfur, sem þreyja þorrann.

Byrjum í 300 metra hæð á vegamótum afréttarvegar Hrunamanna úr Tungufellsdal og línuvegar yfir Hreppaafréttir. Förum frá vegamótunum norðvestur af jeppaveginum niður að brekkum Hvítár, þar sem gamli Kjalvegurinn liggur upp úr Hreppum. Þaðan upp með Hvítá að fornbýlinu Búðarárbakka og síðan stuttan spöl upp með Búðará, þangað sem hún sveigir úr austri. Þar förum við yfir ána og áfram norður að Stangará, þar sem voru fornbýlin Rofshólar og Þórarinsstaðir. Förum áfram norðvestur að Harðavelli austan við Hvítá og eftir völlunum að Sandá og upp með henni að fjallaskála í Svínárnesi í 390 metra hæð.

20,8 km
Árnessýsla

Skálar:
Svínárnes: N64 28.223 W19 44.547.

Nálægir ferlar: Hrunamannaafréttur, Fagridalur.
Nálægar leiðir: Kjalvegur, Tungufellsdalur, Svínárnes, Svínárbotnar, Skyggnisalda, Sandá, Grjótá, Grjótártunga.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Hanzkafell

Frá Seyðisárbrú á Kjalvegi um Hanzkafell að fjallaskálanum Áfanga við Blöndulón.

Leiðin liggur samsíða Kjalvegi nokkru vestar, vestan Hanzkafells og Sandkúlufells. Hún er meginleið hestamanna af Kili norður í Húnavatnssýslur. Við brúna á Seyðisá greinist Kjalvegur í tvennt, þessa vestari leið í Húnavatnssýslur og austari leið í Skagafjörð.

Byrjum við þjóðveg 35 á vegamótum Áfangaleiðar og Stífluvegar við norðvesturhorn Blöndulóns. Förum til suðurs vestan við Blöndulón og Áfangafell að skálanum Áfanga sunnan undir fellinu. Síðan áfram til suðurs vestan við þjóðveginn F35 og vestan Sauðafells. Síðan suður að Hanzkafelli og vestan þess suður að vestanverðu Sandkúlufelli. Meðfram því að vestanverðu og síðan suðaustur að þjóðvegi F35 norðan við brúna á Seyðisá. Þar liggur hinn gamli Kjalvegur milli fjallaskálanna á Hveravöllum og við Ströngukvísl.

28,2 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Áfangi: N65 08.951 W19 43.744.

Nálægir ferlar: Sandkúlufell, Guðlaugstungur.
Nálægar leiðir: Skagfirðingavegur, Áfangafell, Blönduvað.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hamrahlíð

Frá Þeistareykjum að Geitafelli.

Þetta er stytzta leiðin til byggða. Hún er greiðfær, þótt hún liggi um úfið hraun undir Hamrahlíð. Sléttað hefur verið undir landgræðslugirðingu, svo að vel er reiðfært meðfram girðingunni. Hraunið er farið að gróa handan girðingarinnar og sást þar fleira sauðfé innan friðunar en utan hennar. Þegar við komum að Þverárgili opnast útsýni yfir lágsveitir Suður-Þingeyjarsýslu til Kinnarfjalla. Á þessari leið eiga engir jeppar að geta verið á ferð.

Förum frá Þeistareykjum í 360 metra hæð og fylgjum fyrst slóð með Bæjarfjalli til suðvesturs. Eftir nokkur hundruð metra sveigjum við til norðvesturs meðfram landgræðslugirðingu í átt að Mælifelli. Förum fyrir norðurhorn girðingarinnar og fylgjum henni áfram til suðurs um Gæzku að Hamrahlíð. Síðan förum við um Grjót ofan Hamraskarðs í 420 metra hæð og áfram suður og sveigjum síðan til suðvesturs undir Gustahnjúk. Þar förum við einn kílómetra til suðurs og síðan þvert til vesturs sunnan við Þverárgil. Komum þar á þjóðveg 87 um Hólasand. Förum áfram með þeim vegi í norður að Geitafelli í Reykjahverfi í 180 metra hæð.

23,4 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Þeistareykir : N65 52.565 W16 57.340.
Geitafell : N65 47.938 W17 14.659.

Nálægir ferlar: Þeistareykjabunga, Þeistareykir, Nafarvað.
Nálægar leiðir: Sandabrot, Randir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hamarssneiðin

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði upp á Bitruháls.

Förum frá Stóra-Fjarðarhorni suðsuðvestur Þrúðardal og upp til suðausturs á leiðina um Bitruháls milli Kollafjarðar og Bitrufjarðar.

4,6 km
Vestfirðir

Nálægir ferlar: Bitruháls.
Nálægar leiðir: Steinadalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hamarskriki

Frá Auröldu við Vatnajökul að Jökulheimum.

Bárðargötu er hér lýst í fimm dagleiðum. Nyrsta leiðin er hér kölluð Réttartorfa. Næst koma Öxnadalsdrög. Síðan Vonarskarð. Þá kemur Hamarskriki. Og loks Fljótsoddi. Réttartorfuleiðin hefst við Svartárkot á Mývatnsheiðum og Fljótsoddaleiðin endar við Miklafell á Síðumannaafrétti. Í þessari útgáfu er ekki gert ráð fyrir, að Bárður hafi farið yfir Hverfisfljót uppi við jökul, sem þó er eins líklegt.

Gnúpa-Bárður nam Bárðardal og bjó að Lundarbrekku. Fann, að sunnanáttir voru hlýrri og þurrari en norðanáttir. Því ætlaði hann, að betri lönd væru sunnanlands. Sendi syni sína suður á góunni að kanna það. Þeir fundu gróður í Vonarskarði á þessum kalda árstíma. Þarnæsta vor lét hann hvert húsdýra sinna bera byrðar suður yfir og nam allt Fljótshverfi.

Byrjum í Bárðargötu milli Vatnajökuls að austan og Auröldu að vestan, í 900 metra hæð, fimm kílómetra austur af fjallakofanum austan við Hágöngulón. Þangað liggur leið suður um Vonarskarð. Við förum þá leið, Bárðargötu, til suðurs meðfram Vatnajökli og síðan meðfram undirfjöllum jökulsins. Beygjum síðan til austurs fyrir norðan Mókolla og förum inn í Hamarskrika í 1060 metra hæð. Þaðan beygjum við suður að jöklinum og síðan suðvestur með honum un Hraungil að fjallaskálanum við Sylgjufell. Síðan áfram suðvestur að fjallsrana, Bláfjöllum, og förum suður með honum. Jökulgrindur eru austan við leiðina. Við endum við fjallaskálann Jökulheima, sem er í 670 metra hæð við Tungnaá.

45,3 km
Rangárvallasýsla

Erfitt fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Hágöngur: N64 34.353 W18 04.238.
Sylgjufell: N64 27.052 W18 01.854.
Jökulheimar: N64 18.632 W18 14.304.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Vonarskarð, Fljótsoddi, Jökulheimar, Langisjór, Breiðbakur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort