Hamarskriki

Frá Auröldu við Vatnajökul að Jökulheimum.

Bárðargötu er hér lýst í fimm dagleiðum. Nyrsta leiðin er hér kölluð Réttartorfa. Næst koma Öxnadalsdrög. Síðan Vonarskarð. Þá kemur Hamarskriki. Og loks Fljótsoddi. Réttartorfuleiðin hefst við Svartárkot á Mývatnsheiðum og Fljótsoddaleiðin endar við Miklafell á Síðumannaafrétti. Í þessari útgáfu er ekki gert ráð fyrir, að Bárður hafi farið yfir Hverfisfljót uppi við jökul, sem þó er eins líklegt.

Gnúpa-Bárður nam Bárðardal og bjó að Lundarbrekku. Fann, að sunnanáttir voru hlýrri og þurrari en norðanáttir. Því ætlaði hann, að betri lönd væru sunnanlands. Sendi syni sína suður á góunni að kanna það. Þeir fundu gróður í Vonarskarði á þessum kalda árstíma. Þarnæsta vor lét hann hvert húsdýra sinna bera byrðar suður yfir og nam allt Fljótshverfi.

Byrjum í Bárðargötu milli Vatnajökuls að austan og Auröldu að vestan, í 900 metra hæð, fimm kílómetra austur af fjallakofanum austan við Hágöngulón. Þangað liggur leið suður um Vonarskarð. Við förum þá leið, Bárðargötu, til suðurs meðfram Vatnajökli og síðan meðfram undirfjöllum jökulsins. Beygjum síðan til austurs fyrir norðan Mókolla og förum inn í Hamarskrika í 1060 metra hæð. Þaðan beygjum við suður að jöklinum og síðan suðvestur með honum un Hraungil að fjallaskálanum við Sylgjufell. Síðan áfram suðvestur að fjallsrana, Bláfjöllum, og förum suður með honum. Jökulgrindur eru austan við leiðina. Við endum við fjallaskálann Jökulheima, sem er í 670 metra hæð við Tungnaá.

45,3 km
Rangárvallasýsla

Erfitt fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Hágöngur: N64 34.353 W18 04.238.
Sylgjufell: N64 27.052 W18 01.854.
Jökulheimar: N64 18.632 W18 14.304.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Vonarskarð, Fljótsoddi, Jökulheimar, Langisjór, Breiðbakur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort