Haukagilsheiði

Frá Haukagili í Vatnsdal að Álkuskála á Grímstunguheiði.

Öldum saman ein mest farna heiðin í Húnaþingi, er farið var suður á Arnarvatnsheiði. Skemmtileg og fjölbreytt reiðleið um land, sem að mestu er gróið, dæmigerð heiði. Rétt austar liggur Grímstunguheiði upp á Stórasand, einnig til Arnarvatns. Vestar liggur Víðidalstunguheiði, sem sameinast þessari leið fyrir norðan Suðurmannasandfell. Vestar er Aðalbólsheiði, þar sem slóðin endar einnig við Arnarvatn. Enn vestar eru svo Núpdælagötur, sem liggja úr Núpsdal að Úlfsvatni og síðan að Norðlingafljóti. Allra vestast er Tvídægra, sem liggur yfir Sléttafell að efstu bæjum í Hvítársíðu og Þverárhlíð. Sú heiði er næst Holtavörðuheiði.

Förum frá Haukagili suður og á ská upp fjallshlíðina, bratt en greiðfært, og suður með Álkugili. Síðan áfram til suðurs yfir Stekkjarlæk og Grafargil, um eyðibýlið Gilhaga. Nokkru sunnar förum við ofan í gilið, þar sem það er orðið að grunnum dal. Þrístapi er á vestari hlið og Skúti á austari hlið. Þar norðan undir er eyðibýlið Skútabær. Slóðin liggur beint suður, um Fossvelli, austan Geirhildartjarnar, sveigir síðan aðeins til suðsuðausturs um Lambatungur, alltaf meðfram Álku / Álftaskálará. Síðan áfram suður vestan við Lambalækjartjarnir að Álkuskála.

24,1 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Álkuskáli: N65 08.824 W20 08.677.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Suðurmannasandfell.
Nálægar leiðir: Grímstunguheiði, Hraungarðar, Aðalbólsháls.

Skrásetjari: Steingrímur Kristinsson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Steingrímur Kristinsson