Þjóðleiðir

Heiðarsel

Frá Jaðri í Reykjadal um Heiðarseli að Gullveginum eða Akureyrarvegi á Fljótsheiði.

Förum frá Jaðri suður Kvígindisdal, suður um Skógarsel og Narfastaðasel, og Heiðarsel á Akureyrarveg eða Gullveg á Fljótsheiði milli Mývatns og Skjálfandafljóts.

17,4 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Nafarvað, Vatnshlíð, Hvammsheiði, Gullvegurinn, Engidalur.
Nálægar leiðir: Máskot, Fljótsheiði, Kinnarfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Heiðarmýrar

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá Dalvík um Reykjaheiði að eyðibýlinu Bakka í Ólafsfirði.

Leiðin er vel vörðuð.

Oftast er heiðin kölluð Reykjaheiði eins og ýmsar fleiri heiðar. Hér er hún kölluð Heiðarmýrar til aðgreiningar frá öðrum Reykjaheiðum. Áður fyrr var þetta mest farna leiðin milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar.

Förum frá Dalvík beint vestur í mynni Böggvisstaðadals. Sveigjum þar til vestsuðvesturs inn megindalinn sunnan við hnjúkinn. Innst í dalnum heita Heiðarmýrar. Innst í þeim eru sneiðingar til norðvesturs á Reykjaheiði í 880 metra hæð sunnan Einstakafjalls. Bratt er efst í skarðið, en þó fært hestum. Leiðin liggur síðan um sneiðinga niður í Heiðardal og meðfram Lambá að Reykjarétt í Ólafsfirði við þjóðveg 82.

13,8 km
Eyjafjörður

Nálægar leiðir: Grímubrekkur, Drangar, Ólafsfjarðarskarð, Húngilsdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Heiðarfjall

Frá Langanesvegi rétt norðan Hlíðar um Heiðarfjall og Hrollaugsstaðafjall til Kumblavíkur við Bakkaflóa.

Bandaríkjaher rak ratsjárstöð á Heiðarfjalli 1954-68. Rústir hennar eru þar enn. Málaferli hafa staðið yfir vegna slæms frágangs spilliefna frá stöðinni.

Förum frá Heiðarhöfn, þar sem vegur liggur upp á Heiðarfjall. Við förum eftir þeim vegi upp á fjallið, þar sem eru leifar af ratsjárstöð bandaríska hersins. Norðausturhluti fjallsins heitir Hrollaugsstaðafjall. Gömul reiðleið liggur norðaustur af fjallinu og síðan til austurs fyrir ofan eyðibýlin Hrollaugsstaði og Selvík og yfir Berg að eyðibýlinu Kumblavík við Bakkaflóa.

13,2 km
Þingeyjarsýslur

Nálægar leiðir: Fontur, Fagranesskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Heiðardalsvegur

Frá Fjallsenda í Mýrdal um Heiðardalsveg að Kerlingardal í Mýrdal.

Þetta er fín leið fyrir sportreið.

Sumarfögur leið um innilokaðan fjallasal norðan Víkur í Mýrdal. Leiðin liggur frá þjóðvegi 1 norðan Víkur og að sama þjóðvegi við Höfðabrekku austan Víkur. Fara má beggja vegna Heiðarvatns, en hefðbundna leiðin er sú, sem hér er lýst. Helzta skart leiðarinnar er fagurblátt heiðarvatnið. Á Vatnshálsi eru sérkennilegir hellar og skútar. Á Kerlingardalsáraurum er meira eða minna riðið niður árfarveginn sjálfan. Fyrrum var farið með flutninga á hestum þessa leið frá Eyrarbakka áður en verzlun hófst í Vík í Mýrdal um aldamótin 1900. Var farið upp úr Kerlingardalsflötum austur yfir Flataskarð, vestan við Kamb og síðan suður fyrir hann. Áfram austur um Núpamýrar að Núpakambi og niður hann að Múlakvísl á vaði. Þaðan lá leiðin austur yfir Mýrdalssand, áður en verzlun hófst í Vík í Mýrdal um aldamótin 1900.

Byrjum við þjóðveg 1 um Fjallsenda, 4 km. norðan Víkur í Mýrdal. Við fylgjum vegi austur að bæjunum Stóru- og Litlu-Heiði. Frá Litlu-Heiði förum við austur eftir jeppaslóð yfir mýrar og um Vatnsársund norðan við Vatnsháls. Beygjum við Vatnsháls til suðurs og förum eftir grasflötum og síðan aurum Kerlingardalsár að Kerlingardal og síðan með bílvegi suður að Höfðabrekku.

12,8 km
Skaftafellssýslur

Nálægir ferlar: Höfðabrekkuheiði.
Nálægar leiðir: Heiðarvatn, Arnarstakksheiði, Mýrdalssandur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Heggstaðir

Frá þjóðvegi 702 eftir Heggstaðanesi austanverðu að Heggstöðum.

Byrjum hjá þjóðvegi 702. Förum norður eftir Heggstaðanesi austanverðu að Heggstöðum.

9,5 km
Húnavatnssýslur

Jeppafært

Nálægar leiðir: Bálkastaðir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Háöldur

Frá hestagerði í Háumýrum á Sprengisandi að fjallaskálanum í Laugafelli.

Vestari leiðin um Sprengisand, austari leiðin liggur hjá fjallakofanum í Nýjadal.
Eldra nafn á Sprengisandi er Gásasandur, sem margir telja að hefjist norðan Háumýra, efsta gróðurlendis á Holtamannaafrétti.

Á Sturlungaöld var oft farinn Sandur, sem kallað var. Leiðin yfir Sprengisand er forn, þótt þar hafi ætíð verið færri á ferð en yfir Kjöl og Kaldadal. Það er vegna þess að mun lengra er á milli áfangastaða. Vegalengdin milli byggða á Norður- og Suðurlandi er líka lengri á Sprengisandi. Sprengir er talinn vera suðvestan Fjórðungsvatns, þar sem hestar sprungu á reiðinni, þegar fólk reið eins hratt og það gat til að komast hjá því að hitta illar vættir, útilegumenn, drauga eða álfa. Í Háumýrum er hestagerði og heysala, sem styttir þessa löngu reiðleið.

Norðarlega í Háöldum villtist Kristinn Jónsson í göngum 1898, fór yfir vatnaskil og hélt suður með Þjórsá. Hann kom fimmtán dögum síðar fram í Búrfelli í Þjórsárdal og hafði verið matarlaus allan tímann. Allar tær hans kól á báðum fótum.

Háöldur eru melöldur, sem ber hæst á sandinum.

Byrjum við hestagerði í Háumýrum, í 620 metra hæð, norðan við Hreysislón. Förum til norðurs og komum við að stíflunni við Þjórsárlón. Þar liggur Arnarfellsvegur vestur að Arnarfelli og Þjórsárverum. Við förum norður með austurjaðri Þjórsárlóns. Við förum norðaustur um Háölduhraun á Sprengisand. Sunnan við Vegamótavatn förum við af leiðinni og förum beint í norður, unz við komum á jeppaleið til Laugafells. Hæst fer leiðin þar í 780 metra hæð fyrir austan Kvíslarhæð. Við höldum áfram um Háöldur og norður milli Laugafells að austan og Laugafellshnjúk að vestan og komum brátt að fjallaskálunum Hjörvarsskála og Laugafelli í 750 metra hæð.

51,7 km
Rangárvallasýsla, Eyjafjörður

Skálar:
Háumýrar: N64 40.017 W18 27.859
Laugafell : N65 01.703 W18 19.934.
Hjörvarsskáli: N65 01.636 W18 19.926.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Háumýrar, Hofsafrétt.
Nálægar leiðir: Arnarfell, Gásasandur, Miðleið, Eystripollar, Laugafell, Kiðagil.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Háumýrar

Frá Sprengisandsvegi um Sóleyjarhöfða og um Hreysisöldu að Sprengisandsvegi um Arnarfell.

Ef Þjórsá er farin á Sóleyjarhöfðavaði, er þetta fyrri hluti vestari leiðarinnar yfir Sprengisand. Síðari hlutinn er hér kallaður Háöldur. Eldra nafn á Sprengisandi er Gásasandur, sem margir telja að hefjist norðan Háumýra, efsta gróðurlendis á Holtamannaafrétti.

Á Sturlungaöld var oft farinn Sandur, sem kallað var. Leiðin yfir Sprengisand er forn, þótt þar hafi ætíð verið færri á ferð en yfir Kjöl og Kaldadal. Það er vegna þess að mun lengra er á milli áfangastaða. Vegalengdin milli byggða á Norður- og Suðurlandi er líka lengri á Sprengisandi. Sprengir er talinn vera suðvestan Fjórðungsvatns, þar sem hestar sprungu á reiðinni, þegar fólk reið eins hratt og það gat til að komast hjá því að hitta illar vættir, útilegumenn, drauga eða álfa. Háumýrar voru fyrrum mýrar, sem hafa þornað upp. Þar er nú lélegur mosagróður, helzt meðfram Háumýrakvísl.

Förum frá Sóleyjarhöfða í 580 metra hæð suðaustur eftir jeppaslóð yfir Ferðamannaöldu og síðan austur að Kvíslavatni. Síðan norður með vatninu, framhjá afleggjara að fjallaskálanum Gásagusti. Frá norðurenda vatnsins förum við norður, framhjá afleggjara vestur að Eyvindarkofa og síðan öðrum afleggjara vestur að fjallakofanum Hreysiskvísl. Þar er sjúkraflugvöllur. Við komum síðan að hestagerði í Háumýrum. Síðan komum við að stíflunni við Þjórsárlón.

29,3 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Þúfuvötn: N64 32.263 W18 41.125.
Hreysiskvísl: N64 38.953 W18 30.115.
Háumýrar: N64 40.017 W18 27.859. Hestagerði

Jeppafært

Nálægir ferlar: Háöldur.
Nálægar leiðir: Tjarnarver, Sóleyjarhöfðavað, Blautakvísl, Arnarfellsalda, Arnarfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Háskerðingur

Frá Setbergi í Langadal um Háskerðing á Kvistahryggsleið suðaustan Kláffells.

Um Setbergsháls er farinn gamli bílvegurinn, sem liggur í mörgum, kröppum beygjum niður snarbratta fjallshlíð að Hálsi.

Förum frá Setbergi í Langadal norður yfir Setbergsháls að þjóðvegi 54 um Skógarströnd. Fylgjum veginum að mestu austur fyrir Háskerðing. Síðan suðaustur frá þjóðveginum og meðfram Kláffelli norðanverðu að Kvistahryggsleið austur að Bílduhóli á Skógarströnd.

9,4 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Kvistahryggur, Flatnavegur.
Nálægar leiðir: Sátudalur, Litli-Langidalur, Valshamar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Hálsaleið

Frá Lundi í Lundareykjadal til Reykholts í Reykholtsdal.

Mikið farin reiðleið að fornu og nýju. Hún er greiðfær, en ófær jeppum og þess vegna vinsæl hjá hestamönnum. Lundarsneið er hallandi berglag í Lundarhálsi. Gatan yfir Brennistaðaháls er líka kölluð Kirkjugata.

Förum frá Lundi norður Lundarsneiðina frá Lundi upp á Lundarháls í 360 metra hæð. Förum austan undir Sökkuási norðaustur að Hrafnatjörnum vestanverðum og beint norður af hálsinum niður með Vegagili og síðan að Hrísum í Flókadal. Þaðan förum við eftir heimreiðinni út á þjóðveg 515 og eftir honum yfir Flókadalsá að Brennistöðum. Þar förum við um tvö hlið norður á Brennistaðaháls. Hann er gömul kirkjuleið yfir í Reykholt. Liggur í 260 metra hæð. Við förum norðaustur af hálsinum að Kópareykjum í Reykholtsdal. Þaðan er hægt að fara norðaustur um Tíðavað á Reykjadalsá og síðan yfir Tíðamel í Reykholt.

14,6 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægar leiðir: Reyðarfell, Húsafell, Skáneyjarbunga, Fróðastaðavað, Bugar, Grímsárbugar.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Hákambar

Frá Fjalli í Kolbeinsdal um Hákamba að Deplum í Fljótum.

Forðum notuðu Hólamenn þessa leið til skreiðarflutninga úr Ólafsfirði. Hún er sérkennileg fyrir þá sök, að hún þræðir fjallsaxlir og fjallstinda lengri leið en aðrir fjallvegir á landinu. Hún er í um 1000 metra hæð frá Heljardalsheiði til Einstakafjalls. Liggur þvert á ýmsa fjallvegi, Tungnahrygg, Þverárjökul, Deildardalsjökul, Heljardalsheiði, Unadalsjökul og Hvarfdalsskarð.

Förum frá Fjalli austur Kolbeinsdal. Við rétt á bökkum Heljarár innarlega í dalnum, gegnt Elliða, sveigjum við þvert í norður og förum um bratta sneiðinga Heljarbrekkna norður í Heljardal. Þar austan við er Heljarfjall. Norður og upp úr dalnum förum við bratta brekku upp með ánni og Kambagiljum á Heljardalsheiði. Þar skiljast leiðir. Við förum beint norður á Deili og förum austan við hann og beint áfram á Vörðufjall. Vestan við okkur er Deildardalsjökull og síðan Unadalsjökull. Við erum á Hákömbum í 1100 metra hæð. Áfram förum við norður fjallseggina um Geldingadrag að Einstakafjalli. Við förum vestan við fjallið milli þess og Jökulfjalls niður í Mjóafellsdal. Komum í Ólafsfirði að Mjóafelli eða Deplum við þjóðveg 82.

24,1 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Mjög bratt

Skálar:
Fjall: N65 46.051 W19 05.581.
Heljardalsheiði: N65 49.658 W18 57.567.

Nálægar leiðir: Heljardalsheiði, Þverárjökull, Tungnahryggur, Deildardalsjökull, Unadalsjökull, Hvarfdalsskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Háimelur

Frá Oddsstöðum í Lundareykjadal um Þrengsli og Háamel að Okvegi.

Förum frá Oddsstöðum til austurs norðan við Tungufell og Brennuháls. Þegar við komum austur fyrir Lambá, höldum við upp hlíðina til norðausturs yfir ána og í Þrengsli. Siðan austnorðaustur á Háamel austanverðan og á Okveg.

15,9 km
Borgarfjörður-Mýrar

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hágöngulón

Frá Sprengisandsleið suðvestan Hnausöldu um Hágöngur að Hágöngulóni.

Frægir hverir voru, þar sem lónið er núna, kallaðir Fögruhverir. Þeir voru fórnardýr græðgisvæðingar þjóðarinnar. Hágöngur eru háir, brattir og keilulaga líparíthnjúkar, ljósir á lit og áberandi í landinu.

Byrjum við þjóðveg F26 sunnan við Hnausöldu. Förum austur að suðurhlíð Mið-Háganga. Þaðan norðaustur fyrir norðan Kvíslarhnjúka að Svarthöfða í Vonarskarði. Þar liggur Bárðargata.

33,7 km
Rangárvallasýsla

Jeppafært

Nálægir ferlar: Vonarskarð, Nýidalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hágangar

Frá Hafralónsá í Þistilfirði um Háganga að Litluá í Selárdal í Vopnafirði.

Syðri Hágangur er 952 metrar, hið tilkomumesta fjall. Ytri Hágangur er einnig svipmikill og 923 metrar. Fjöllin eru úr móbergi, alsett tindum og fönnum.

Byrjum hjá austurenda brúar á Hafralónsá á þjóðvegi 85 í Þistilfirði. Förum suður með ánni austanverðri, yfir Kverká og suður með þeirri á vestanverðri. Síðan suður á Grasdalsfjall, suður að Kverká, austan Hólmavatns, að leitarmannakofa í Leirártungu. Þaðan til austurs. Fyrir sunnan Djúpavatns beygjum við suður fyrir Ytri-Hágang, förum milli hans og Þverfells, síðan austur í Hvammsármýrar og suðaustur að Litluá í Selárdal í Vopnafirði.

53,0 km
Þingeyjarsýslur, Austfirðir

Skálar:
Austurheiði: N65 57.568 W15 23.164.
Kverkártunga: N65 54.586 W15 18.127.
Miðfjarðarheiði: N65 54.467 W15 14.209.

Nálægar leiðir: Hafralónsá, Helkunda, Kverkártunga, Miðfjarðarheiði, Selárdalur, Ferðamannavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hábrekknavað

Frá Höll í Þverárhlíð til Torfhvalastaða við Langavatn.

Hábrekknavað hjá Munaðarnesi hefur allar aldir verið þekktasta vað á Norðurá í Borgarfirði. Sturlungar fóru þar um í herferðum sínum úr Dölum. Á þeim tíma voru Sópandaskarð og Langavatnsdalur helzta samgönguleiðin úr Dölum og Hábrekknavað var beint framhald hennar. Að vaðinu komust menn líka um Múlaveg af Snæfellsnesi. Frá vaðinu fóru menn að Ámótavaði á Hvítá, þar sem Reykjadalsá fellur í hana. Þaðan komust menn svo suður á land um Uxahryggi eða Gagnheiði. Ef menn héldu hins vegar inn Hvítársíðu án þess að fara yfir Hvítá, komust þeir upp á Arnarvatnsheiði og norður í land.

Förum frá Höll vestur eftir þjóðvegi 527 og frá veginum suðvestur um Digramúla að Norðurá og síðan niður með ánni andspænis sumarhúsahverfinu í Munaðarnesi. Þar förum við yfir ána á Hábrekknavaði um eyju í ánni og síðan áfram til suðurs á bakkanum handan árinnar að bænum Munaðarnesi. Þaðan förum við norður að þjóðvegi 1, yfir hann og sumarhúsaveg um Stóru-Skóga. Sú leið liggur vestur af norðri meðfram Hólmavatni vestanverðu og síðan norður að Múlakoti undir Múlakotsmúla. Þar förum við slóð, sem krækir inn í Fífudal. Þaðan er hægt að fara beint norður Fífudal um Skallagrímssel á Beilárvelli við Torfhvalastaði. Við förum aðeins upp í Fífudal og síðan slóð til baka suður úr honum niður á flatlendið og síðan aftur til norðurs upp í Grísatungu. Þaðan er vegur um Bárðarfjall, vestan Brúnavatns og niður á Beilárvelli norðan Staðarhnjúks. Þar erum við komin að Langavatni og förum stutta leið austan vatnsins að fjallakofanum á Torfhvalastöðum, í 220 m hæð.

24,5 km
Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Torfhvalastaðir: N64 46.940 W21 45.546.

Nálægir ferlar: Hvítársíða, Jafnaskarð, Sópandaskarð.
Nálægar leiðir: Ámótsvað, Langavatn, Skarðheiðarvegur, Klif.

Skrásetjari: Steingrímur Kristinsson
Heimild: Steingrímur Kristinsson og Örn H. Bjarnason

Háaheiði

Frá Glúmsstöðum í Fljóti um Háuheiði til Hesteyrar í Hesteyrarfirði.

Leiðin er einnig kölluð Dagmálaskarð.

Í Árbók FÍ 1994 segir: “Upp Hesteyrardal og um Dagmálaskarð liggur dáskemmtileg leið norður í Fljót á Háuheiði og ofan af henni er komið í Glúmsdal í Fljóti þar sem við tekur íðilfagurt land. Á leiðinni er indælan gróður að sjá undir Kagrafelli og víðsýni mikið er af háheiðinni yfir Aðalvík og fjalllendið norðan hennar. Þéttar og stæðilegar vörður vísa til vegar yfir grjótið efst á Háuheiði.”

Förum frá Glúmsstöðum suður Glúmsdal á Háuheiði í 500 metra hæð. Þaðan suður um Dagmálaskarð austan við Kagrafell og niður Hryggi og suður Lönguhlíðardal að Hesteyri.

12,3 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Sléttuheiði, Hesteyrarskarð, Hesteyrarbrún, Kjaransvíkurskarð, Fljótsskarð, Almenningar, Kjölur, Hraunkötludalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort