Hákambar

Frá Fjalli í Kolbeinsdal um Hákamba að Deplum í Fljótum.

Forðum notuðu Hólamenn þessa leið til skreiðarflutninga úr Ólafsfirði. Hún er sérkennileg fyrir þá sök, að hún þræðir fjallsaxlir og fjallstinda lengri leið en aðrir fjallvegir á landinu. Hún er í um 1000 metra hæð frá Heljardalsheiði til Einstakafjalls. Liggur þvert á ýmsa fjallvegi, Tungnahrygg, Þverárjökul, Deildardalsjökul, Heljardalsheiði, Unadalsjökul og Hvarfdalsskarð.

Förum frá Fjalli austur Kolbeinsdal. Við rétt á bökkum Heljarár innarlega í dalnum, gegnt Elliða, sveigjum við þvert í norður og förum um bratta sneiðinga Heljarbrekkna norður í Heljardal. Þar austan við er Heljarfjall. Norður og upp úr dalnum förum við bratta brekku upp með ánni og Kambagiljum á Heljardalsheiði. Þar skiljast leiðir. Við förum beint norður á Deili og förum austan við hann og beint áfram á Vörðufjall. Vestan við okkur er Deildardalsjökull og síðan Unadalsjökull. Við erum á Hákömbum í 1100 metra hæð. Áfram förum við norður fjallseggina um Geldingadrag að Einstakafjalli. Við förum vestan við fjallið milli þess og Jökulfjalls niður í Mjóafellsdal. Komum í Ólafsfirði að Mjóafelli eða Deplum við þjóðveg 82.

24,1 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Mjög bratt

Skálar:
Fjall: N65 46.051 W19 05.581.
Heljardalsheiði: N65 49.658 W18 57.567.

Nálægar leiðir: Heljardalsheiði, Þverárjökull, Tungnahryggur, Deildardalsjökull, Unadalsjökull, Hvarfdalsskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins