Borgarfjörður-Mýrar

Reyðarfell

Frá Oddsstöðum í Lundareykjadal austur fyrir Reyðarfell að Hrísum í Flókadal.

Oddsstaðir eru miðstöð hestaferða um Borgarfjörð og Löngufjörur. Leiðin fyrir Reyðarfell er hliðarleið inn á Hálsaleið um Borgarfjarðardali.

Förum frá Oddsstöðum austur fyrir Hrafnatjarnahæðir. Beygjum norðnorðaustur um skarð austan hæðanna að Reyðartjörn suðaustanverðri í 280 metra hæð. Förum austur og síðan norður með Reyðarfelli austanverðu norður fyrir fellið. Síðan norðvestur með Engjadalsá að Hrísum í Flókadal.

10,8 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægar leiðir: Hálsaleið, Húsafell, Reyðarvatn, Grímsárbugar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Rauðsgil

Frá Rauðsgili í Reykholtsdal um Tjaldhól á Okveg.

Þessa leið fór Sturla Sighvatsson til Apavatnsfarar að Gissuri Þorvaldssyni 1238 og síðan á Hofmannaflöt og um Prestastíg að Hrafnabjörgum á Þingvallaheiði, þar sem hann hitti sendimann Gissurar. Jón Helgason, prófessor í Árnasafni, var fæddur á Rauðsgili.

Förum frá Rauðsgili til suðausturs fyrir vestan Rauðsgil milli Búrfells að austan og Steindórsstaðaaxlar að vestan. Förum meðfram Skammá austsuðaustur um Fellaflóa. Sunnan við Grenshæð og norðan við Sléttafell förum við til suðurs fyrir austan Sléttafell og síðan til austsuðausturs að Tjaldhóli vestan Oks. Þar liggur Okvegur norðan frá Giljum í Reykholtsdal suður að Brunnum á Bláskógaheiði.

11,9 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægar leiðir: Okvegur, Húsafell, Bugar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Okvegur

Frá Hallbjarnarvörðum á Bláskógaheiði að Rauðsgili eða Giljum í Hálsasveit í Borgarfirði.

Engar vörður eru á veginum, en hann er smávegis farinn á hverju sumri og sést vel.

Okvegur var þekktur að fornu, sjaldan farinn, enda grýttur og langur. Vermenn fóru oft þessa leið. Sauðir voru stundun reknir hana suður til Reykjavíkur. Í Harðar sögu er sagt frá för Grímkels goða er hann ríður úr Þingvallasveit um Ok: “Hann stefndi öllum bændum á sinn fund til Miðfells, þeim sem þá hafði hann hitt, á tveggja nátta fresti, því að Grímkell hafði goðorð yfir þessum sveitum öllum. Til Miðfells komu sex tugir þingmanna hans. Grímkell segir þeim nauðsynjamál sitt við Torfa og kveðst ætla að fara stefnuför til Torfa. Öllum þótti það vorkunn. Þeir riðu um Gjábakka svo um Kluftir og um Ok; svo neðri leið ofan hjá Augastöðum og svo á Breiðabólsstað. Torfi var eigi heima og var farinn upp í Hvítársíðu.”

Förum frá Hallbjarnarvörðum fyrst norður Kaldadal í Brunna. Þar greinist Okvegur frá Kaldadal og liggur til norðurs um undirhlíðar Oks að vestanverðu. Allur er sá vegur illur yfirferðar og sáralítið farinn. Oft fara menn fyrst norður eftir Kaldadalsvegi í Leirárdrög og fara þaðan þvert vestur á Okveg. Við förum vestan við Fanntófell, mitt á milli þess og Skotmannafells. Síðan um Þvermel og norður yfir Flókudrög á Tjaldhól. Þar skiptast leiðir, önnur liggur niður í Giljar og hin vestari í Rauðsgil. Tökum eystri leiðina fyrst. Hún liggur beint norður um Rauðsgilsdrög og um Smjörtjörn að vestanverðu, síðan austan við Hádegishnjúk og niður að Giljum í Hálsasveit. Vestari leiðin liggur frá Tjaldhól, fyrst í vestur og síðan fljótlega í norður, yfir Rauðsgil og vestur fyrir Sléttafell og í Skammárdal. Við fylgjum þar Skammá til vesturs og förum aftur yfir Rauðsgil. Síðan niður með Rauðsgili að vestanverðu að bænum á Rauðsgili. Þessi vestari leið er nokkru lengri en hin eystri.

29,3 km
Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Kaldidalur: N64 26.840 W20 57.711.

Nálægir ferlar: Bláskógaheiði, Kaldidalur, Norðlingafljót, Hvítársíða.
Nálægar leiðir: Skjaldbreiður, Reyðarvatn, Rauðsgil, Húsafell.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Núpdælagötur 2

Frá Efra-Núpi í Núpsdal í Miðfirði að Norðlingafljóti í Borgarfirði.

Árið 1242 fór Kolbeinn ungi með 600 manna lið um Núpdælagötur til að veita Þórði kakala fyrirsát í Borgarfirði. Þetta var 27. nóvember. ”Svo var veðri farið er þeir riðu á heiðina, að um morguninn var á krapadrífa og vindur lítill og urðu menn alvotir. En er leið á daginn tók að frysta; hljóp þá veðrið í norður.” Menn villtust og hröktust um heiðina, nokkrir dóu og aðra kól. Lét Kolbeinn menn glíma til að halda á sér hita. Í stað þess að halda niður Hvítársíðu og fara yfir Norðurá, fór Kolbeinn yfir Hvítá og í Reykholt. Missti því naumlega af Þórði, sem fór um Bæjarsveit norður yfir Hvítá á sama tíma. Kolbeinn varð því að fara tvisvar yfir Hvítá og tafðist við það. Og missti af Þórði norðvestur Mýrar og út á Löngufjörur. Hér er lýst krókóttari leið, sem betur er fær að sumri.

Frá Efra-Núpi eru til tvær leiðir, sem kallaðar eru Núpdælagötur. Hér er leiðin, sem Þorsteinn Þorsteinsson lýsir í Árbók FÍ 1962: Við förum frá Efra-Núpi fram dalinn með Núpsá að austanverðu. Vestur frá Kvíslavötnum beygjum við þvert til austurs og förum milli Kvíslarvatna. Síðan um Kvíslavatnahæð og fyrir vestan og sunnan Þorvaldsvatn að Halldórshóli. Síðan suðsuðaustur í stefnu á miðjan Eiríksjökul, yfir Syðri-Kvísl vestan Hólmavatns. Sveigjum smám saman meira í vestur frá suðri, förum yfir Leggjabrjót. Síðan fyrir suðaustan Ketilvatn og þá til suðurs yfir Hraungarða og um Merkjastein. Næst förum við yfir jeppaslóð að Urðhæðarvatni, sem er vestan við okkur. Við förum suður að Úlfsvatni og vestur fyrir það og síðan suður um Silungslækjarsund og kargaþýfðan Hagldamóa og að Einbúa fyrir austan Þorgeirsvatn. Þaðan förum við suður að Núpdælavaði ofan við Bjarnafoss í Norðlingafljóti og upp á veginn á Þorvaldshálsi.

35,0 km
Húnavatnssýslur, Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Úlfsvatnsskáli: N64 53.880 W20 38.520.

Nálægir ferlar: Norðlingafljót.
Nálægar leiðir: Steinheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Núpdælagötur 1

Frá Efra-Núpi í Núpsdal í Miðfirði að Norðlingafljóti í Borgarfirði.

Árið 1242 fór Kolbeinn ungi með 600 manna lið um Núpdælagötur til að veita Þórði kakala fyrirsát í Borgarfirði. Þetta var 27. nóvember. ”Svo var veðri farið er þeir riðu á heiðina, að um morguninn var á krapadrífa og vindur lítill og urðu menn alvotir. En er leið á daginn tók að frysta; hljóp þá veðrið í norður.” Menn villtust og hröktust um heiðina, nokkrir dóu og aðra kól. Lét Kolbeinn menn glíma til að halda á sér hita. Í stað þess að halda áfram niður Hvítársíðu og fara síðan yfir Norðurá, fór Kolbeinn yfir Hvítá og í Reykholt. Þurfti því að fara Hvítá tvisvar og tafðist við það. Missti því naumlega af Þórði, sem fór um Bæjarsveit norður yfir Hvítá á sama tíma. Kolbeinn missti af Þórði norðvestur Mýrar og út á Löngufjörur. Hér er lýst slíkri vetrarleið milli Núpsdals og Úlfsvatns.

Förum frá Efra-Núpi fram dalinn með Núpsá að austanverðu, síðan heiðina í beinu framhaldi alla leið að Urðhæðarvatni. Norðan þess komum við á veiðislóð að sunnanverðu. Við fylgjum henni fyrst í austur að Urðarvatnsskála og síðan austur fyrir Úlfsvatn, í 460 metra hæð, og suður fyrir það. Þaðan liggur jeppaslóðin beint suður að Norðlingafljóti. Þar förum við yfir fljótið á vaði og komum þá á Þorvaldshálsi á veginn um Arnarvatnsheiði. Um miðja nítjándu öld var samkvæmt Íslandskorti Björns Gunnlaugssonar farið vestur fyrir Úlfsvatn og síðan yfir Norðlingafljót nokkru neðar en núna. Þar heitir Núpdælavað á fljótinu, rétt ofan við Bjarnafoss. Lýsingu þess kafla má líka sjá í Árbók FÍ 1962 eftir Þorstein Þorsteinsson. Við komu veiðislóðarinnar hefur syðsti hluti Núpdælagatna þannig færzt austar.

38,8 km
Húnavatnssýslur, Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Úlfsvatn: N64 53.130 W20 34.958.

Nálægir ferlar: Norðlingafljót.
Nálægar leiðir: Steinheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Norðlingafljót

Frá Arnarvatni að Stóra-Ási í Hálsasveit.

Arnarvatnsheiði er borgfirzki hluti stærra heiðasvæðis. Við förum um fjölbreytt landslag með útsýni til suðurs, einkum Langjökuls fjær og Eiríksjökuls nær. Stök fjöll standa upp úr, Bláfell á Stórasandi, Krákur við Langjökul og Strúturinn ofan við Kalmanstungu. Í Álftakróki er fjallaskáli í gróðursælu umhverfi. Að fornu héldu sig þar oft sekir menn. Hellismannasaga segir frá fyrirsát í Vopnalág. Hún er uppþornaður og algróinn farvegur Norðlingafljóts, skemmdur af völdum torfæruhjóla. Surtshellir er þekktasti hellir landsins. Í Surtshelli lét Sturla Sighvatsson 1236 skera í augu Órækju Snorrasonar og skera undan honum annað eistað. Fleiri þekktir hellar eru í Hallmundarhrauni. Jeppafær er öll leiðin, sem hér er lýst að neðan.

Förum frá skálanum Hnúabaki á Arnarvatnsheiði í 540 metra hæð og höldum vestan vatnsins og austan við Svartarhæð til suðurs að nyrðri slóðinni yfir Arnarvatnsheiði. Förum yfir þá slóð og áfram til suðurs Arnarvatnshæðir að syðri slóðinni yfir heiðina. Beygjum til suðvesturs eftir þeirri slóð og fylgjum henni áfram suðvestur um Mordísarhæð, förum suðaustan við Mordísarvatn að skálanum í Álftakróki, í 480 metra hæð. Frá skálanum fylgjum við slóðinni áfram til suðvesturs, með vesturströnd Núpavatns og síðan að þægilegu Helluvaði á Norðlingafljóti. Við förum yfir ána og síðan áfram suðvestur um grýttan Þorvaldsháls, stuttan kafla meðfram Norðlingafljóti, um Fremri-Fugleyrar og Vopnalág, síðan áfram að Surtshelli. Næst förum við áfram suðvestur milli Strútsins í suðaustri og Fljótstunguháls í norðvestri. Fylgjum vegi upp og suður Skeljalág og vestur um Skeljaháls að þjóðvegi 518, sem við förum til vesturs. Yfir Norðlingafljót á brú, og síðan með vegi norðaustur að Fljótstungu. Næst suðvestur með Kolsstaðahnjúkum. Áfram veginn að Bjarnastöðum, þar sem við beygjum til suðurs eftir þjóðvegi 523 yfir brú á Hvítá, heim að Stóra-Ási.

53,8 km
Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Hnúabak: N64 57.644 W20 21.907.
Álftakrókur: N64 53.274 W20 26.388.

Nálægir ferlar: Arnarvatnsheiði, Suðurmannasandfell, Fljótsdrög, Aðalbólsheiði, Hvítársíða.
Nálægar leiðir: Núpdælagötur, Tvídægra, Strúturinn, Húsafell.

Skrásetjari: Steingrímur Kristinsson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Steingrímur Kristinsson

Mýravegur

Frá Báreksstöðum í Borgarfirði til Grímsstaða á Mýrum.

Þessi leið er ekki forn, en er nú á tímum mikið farin af hestamönnum. Um hana fara Borgfirðingar á leið til fjórðungsmóts á Kaldármelum. Leiðin liggur um uppbyggða og malarborna dráttarvélaslóð um blautar mýrar milli Gufár og Langár. Áður var ekki farið með Langá, heldur með Gufá alla leið að Valbjarnarvöllum og síðan vestur um eyðibýlið Litla-Fjall að Grenjum, en slóðin yfir mýrina milli Gufár og Langár hefur gert þessa leið vinsælli. Þetta er önnur leið en sú, sem Þórður kakali og Kolbeinn ungi fóru vestur Mýrar 27 nóvember 1242. Þá var snjór og frost og þeir gátu farið það sem kallað var “vetrarvegur” beint af augum yfir mýrar og sund. Þurftu ekki að krækja fyrir torleiði. Þeir fóru sunnar en hér er lýst, um Álftártungu.

Förum frá Báreksstöðum norður með þjóðvegi 511 að Hvítárbrú við Ferjukot. Yfir brúna og vestur þjóðveg 510 með Þjóðólfsholti og síðan vestur um Krókatjörn og Eskiholt. Yfir þjóðveg 1 og áfram norður um sumarhúsahverfi og síðan vestur að eyðibýlinu Gufá. Þaðan norður með Gufá, framhjá Staðarhúsum að Laxholti. Þaðan förum við vestur mýrarnar milli Uxavatns að sunnanverðu og Álftavatns að norðanverðu, í Stangarholt. Förum suður fyrir bæinn og síðan vestur að Langá og norður með ánni. Förum yfir Langá á Sveðjuvaði, þegar við nálgumst eyðibýlið Grenjar, gegnum sumarhúsahverfi og síðan um slóð ofan við garða, gegnum hlið og á reiðleið undir Grenjamúla. Fylgjum þeirri leið áfram undir Grímsstaðamúla að Grímsstöðum.

28,1 km
Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Grímsstaðir: N64 41.836 W21 56.604.

Nálægir ferlar: Múlavegur, Hraundalur.
Nálægar leiðir: Gufá, Hrosshyrna.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Múlavegur

Frá Grímsstöðum á Mýrum til Snorrastaða í Hnappadal.

Forn leið milli Mýra og Snæfellsness og er enn mikið farin af hestamönnum. Enda er leiðin fjölbreytt um kjarr og einstigi í hrauni. Engir jeppar eru hér á ferð. Árið 1253 fóru hér Þorgils skarði Böðvarsson og Þórður Hítnesingur á leið frá Staðastað í aðför að Agli Sölmundarsyni í Reykholti vegna óvirðinga og sviksemi. Fóru hjá Fagraskógarfjalli þjóðgötuna að vaðinu á Hítará. Svo hraungötuna um Hagahraun eftir svonefndum Ferðamannavegi, með Múlum og undir Grímsstaðamúla. Þetta er önnur leið en sú, sem Þórður kakali og Kolbeinn ungi fóru vestur Mýrar 27 nóvember 1242. Þá var snjór og frost og þeir gátu farið það sem kallað var “vetrarvegur” beint af augum yfir mýrar og sund. Þurftu ekki að krækja fyrir torleiði. Þeir fóru sunnar en hér er lýst, um Álftártungu.

Förum frá Grímsstöðum í 100 metra hæð ofan túna undir Grímsstaðamúla til norðausturs og niður á jeppaveg undir múlanum. Förum með veginum um Hraundalshraun að mynni Hraundals. Við höldum áfram til vesturs undir Svarfhólsmúla eftir jeppavegi um Helluskóg og síðan til norðvesturs um Svarfhól og síðan eftir einstigi um Staðarhraun að þjóðvegi 539 um Hítardal. Við förum yfir veginn og áfram norðvestur að Grjótá og um Tálma yfir Hagahraun, þar sem við förum um einstigi að Hítará undir Bælinu. Við erum þar undir Grettisbæli og Fagraskógarfjalli. Förum vestur með fjallinu um eyðibýlin Moldbrekku og Skóga og síðan norður með fjallinu að rétt við Kaldá í mynni Kaldárdals. Förum síðan niður með ánni um Hraunsmúla að Kaldármelum og áfram upp að þjóðvegi 54, fylgjum honum nokkra tugi metra og förum síðan með afleggjara vestur og suðvestur að Snorrastöðum.

25,2 km
Borgarfjörður-Mýrar, Snæfellsnes-Dalir

Skálar:
Grímsstaðir: N64 41.836 W21 56.604.
Snorrastaðir: N64 46.558 W22 17.969.

Nálægir ferlar: Mýravegur, Hraundalur, Fagraskógarfjall, Kolbeinsstaðafjall, Saltnesáll, Hítará, Gamlaeyri.
Nálægar leiðir: Hrosshyrna, Hítardalur, Skjólhvammsgata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Múlaskógur

Frá Húsafelli um Múlaskóg að Kaldadalsvegi á Skagfirðingaflöt.

Förum frá Húsafelli eftir skógargötu til austurs um Múlaskóg að Kaldadalsvegi.

4,4 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægir ferlar: Kaldidalur.
Nálægar leiðir: Húsafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Löngufjörur

Frá Hjörsey á Mýrum að Arnarstapa á Snæfellsnesi.

Sjá að öðru leyti texta um einstakar leiðir á Löngufjörum: Hítará, Saltnesáll, Gamlaeyri, Haffjarðará, Haffjarðareyjar, Skógarnesfjörur, Straumfjarðará, Löngusker, Búðaós, Klettsgata.

Löngufjörur eru draumaland hestamanna, endalaus skeiðvöllur til allra átta, sums staðar láréttar leirur og annars staðar vægt hallandi sandfjara hvít eða gullin. Löngufjörur eru samheiti yfir margar reiðleiðir við norðvestanverðan Faxaflóa. Frá suðri til vesturs eru þær: Hjörsey, Akrar, Hítará, Saltnesáll, Gamlaeyri, Haffjarðará, Haffjarðareyjar, Skógarnesfjörur, Löngusker, Búðaós, Klettsgata. Engar reiðleiðir á Íslandi standast samjöfnuð við þessar. Skoðið hverja leið fyrir sig.

? km
Snæfellsnes-Dalir

Ekki fyrir göngufólk

Nálægir ferlar: Hjörsey, Akrar, Hítará, Saltnesáll, Gamlaeyri, Haffjarðará, Haffjarðareyjar, Skógarnesfjörur, Löngusker, Búðaós, Klettsgata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Litlasandsdalur

Frá Litlasandi í Hvalfirði um Litlasandsdal upp á Síldarmannagötur.

Förum frá Litlasandi austnorðaustur Litlasandsdal norðan Bláskeggsár. Síðan norðnorðaustur með ánni um Sneiðar og Árnahlíðar upp á Síldarmannagötur milli Hvalfjarðar og Skorradals.

4,1 km
Borgarfjörður-Mýrar

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Litlaá

Tengileið milli tveggja leiða frá Langavatni.

Förum í Fífudal af veginum milli Múlakots og Langavatns, þar sem vegurinn fer vestur og upp úr dalnum. Við förum norður eftir Fífudal að suðvesturenda Vikravatns og áfram norður á slóð frá Langavatni inn Fossdal.

4,2 km
Borgarfjörður-Mýrar

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Leynir

Frá þjóðvegi 47 í Hvalfirði við heimreið að Kalastaðakoti um Katanes og Leyni að þjóðvegi 47 austan Miðfellslækjar.

Förum frá þjóðveginum suður að sjó og síðan meðfram sjónum út í Katanes og í síðan í víkina Leyni. Þaðan norður með Hólmavatni vestanverðu og áfram norður á þjóðveginn.

8,4 km
Borgarfjörður-Mýrar

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Leirárdalur

Frá Leirárgörðum í Leirárdal austan Leirárdals upp á Skarðsheiðarleið.

Gamla reiðleiðin er vestan í Lambagili, en línuvegurinn er austan í því, meira riðinn nú á dögum.

Förum frá Leirárgörðum meðfram Leirá að vestanverðu norður að Leirárdal milli Geldingaárháls að vestan og Snóksfjalls að austan. Við förum línuveg í sneiðingum til norðausturs utan í Snóksfjalli. Hann tengist Skarðsheiðarvegi í Skarði, norðaustan við tind Snóksfjalls.

8,9 km
Borgarfjörður-Mýrar

Jeppafært

Nálægar leiðir: Katlavegur, Skarðsheiði.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Langholtsvað

Frá Varmalæk í Borgarfirði að Varmalandi í Borgarfirði.

Langholtsvað var meginvaðið á Hvítá á síðustu öldum. Því hefur verið spillt með malarnámi á síðustu árum.

Frá Varmalæk að Hvítárbakka, Stafholtsey og Langholti lá leið þvert yfir flóana. Hjá Langholti var þrautavað yfir Hvítá. Sumir telja, að Haugsvað eða Haugsendavað sem getið er í Eyrbyggju og Heiðarvíga sögu, sé sama og Langholtsvað. Þar mættust sinn hvoru megin Hvítár Snorri goði á Helgafelli með 480 manns eftir drápið á Víga-Styr mági hans og Þorsteinn Gíslason bóndi á Bæ í Bæjarsveit með yfir 500 manna lið. Þorsteinn og hans menn voru á suðurbakka árinnar. Njósnarar Borgfirðinga höfðu pata af komu Snorra og héldu þeir vörð við öll vöðin á Hvítá allt til sjávar svo hann kæmist ekki yfir. Snorri þorði ekki annað en að hopa, en sumarið eftir kom hann að næturþeli með 15 manns og drap Þorstein, sem hafði fáa menn heima á Bæ. Förum frá Varmalæk vestur yfir þjóðveg 50 á afleggjara norðvestur að Hvítárbakka og af honum þverleið norður að Stafholtsey. Þaðan austur að Hvítá á Langholtsvaði. Vaðið er því miður ekki lengur fært. Handan þess er örstutt norðvestur með Hvítá að Neðra-Nesi við Þverá, þar sem er vað vestur yfir Þverá og þaðan um Varmaland að Hábrekknavaði á Norðurá. Einnig er hér leið um Buga upp með Reykjadalsá í Reykholt.

8,5 km
Borgarfjörður-Mýrar

Ekki fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Ámótsvað, Bugar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort