Langholtsvað

Frá Varmalæk í Borgarfirði að Varmalandi í Borgarfirði.

Langholtsvað var meginvaðið á Hvítá á síðustu öldum. Því hefur verið spillt með malarnámi á síðustu árum.

Frá Varmalæk að Hvítárbakka, Stafholtsey og Langholti lá leið þvert yfir flóana. Hjá Langholti var þrautavað yfir Hvítá. Sumir telja, að Haugsvað eða Haugsendavað sem getið er í Eyrbyggju og Heiðarvíga sögu, sé sama og Langholtsvað. Þar mættust sinn hvoru megin Hvítár Snorri goði á Helgafelli með 480 manns eftir drápið á Víga-Styr mági hans og Þorsteinn Gíslason bóndi á Bæ í Bæjarsveit með yfir 500 manna lið. Þorsteinn og hans menn voru á suðurbakka árinnar. Njósnarar Borgfirðinga höfðu pata af komu Snorra og héldu þeir vörð við öll vöðin á Hvítá allt til sjávar svo hann kæmist ekki yfir. Snorri þorði ekki annað en að hopa, en sumarið eftir kom hann að næturþeli með 15 manns og drap Þorstein, sem hafði fáa menn heima á Bæ. Förum frá Varmalæk vestur yfir þjóðveg 50 á afleggjara norðvestur að Hvítárbakka og af honum þverleið norður að Stafholtsey. Þaðan austur að Hvítá á Langholtsvaði. Vaðið er því miður ekki lengur fært. Handan þess er örstutt norðvestur með Hvítá að Neðra-Nesi við Þverá, þar sem er vað vestur yfir Þverá og þaðan um Varmaland að Hábrekknavaði á Norðurá. Einnig er hér leið um Buga upp með Reykjadalsá í Reykholt.

8,5 km
Borgarfjörður-Mýrar

Ekki fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Ámótsvað, Bugar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort