2005-2006 DV eftirmáli

Starfssaga

Gunnar Smári hefndi sín á mér snemma árs 2005 með því að bjóða mér starf ritstjóra DV við hlið Mikaels Torfasonar. Mikael rak blaðið sem hreint götusölublað að hætti nokkurra norrænna slíkra: Extrabladet, BT, Verdens Gang, Expressen, Aftonbladet. Hafði verið ritstjóri DV frá því að Gunnar Smári lyfti því 14. nóvember 2003 upp úr gjaldþrotinu eftir Óla Björn Kárason. Fyrst var Illugi Jökulsson ritstjóri með honum. En Mikael hafði einn verið ritstjóri um skeið, þegar hér var komið sögu. Ég velti boði Gunnars Smára ekki fyrir mér, sagði bara strax OK. Vildi komast í hasar.

Ég fékk vægt sjokk, þegar inn var komið. DV snerist eingöngu um dugnað og persónu Mikaels. Hann var einstakur dugnaðarforkur, vann myrkranna milli og lét blaðamennina gera það líka. DV var eins manns handafl. Hann skrifaði fréttir, hannaði blaðið, rak menn áfram með harðfylgi. Nánast kraftaverk var, að blaðið kom út á hverjum degi. Blaðamenn voru greindir og duglegir, en þeir voru öðru hvoru megin við stúdentspróf og höfðu enga reynslu af samfélaginu. Þeir þekktu varla valdamenn. Engin sagnfræði hafði safnast í hugum þeirra. “Gaurinn sagði, að …” sögðu þeir eftir samtal við ráðherra.

Milli okkar Mikaels tókst strax hið bezta samstarf. Hann tók að sér að lemja blaðið saman á hverju kvöldi. Ég tók að mér að vera afi á blaðinu, reyna að kenna fólki undirstöðuatriði í blaðamennsku. Ég sagði þeim, að skyldur þeirra væru við sannleikann einan. Ég varaði þá við lygum valdamanna. En mér tókst ekki að hliðra blaðinu í átt til bítandi samfélagsrýni. Blaðamennirnir höfðu ekki burði til slíkra frétta. Fyrir bragðið einkenndist það um of af fréttum af fræga fólkinu, einkum af ýmiss konar skandal. Slíkar fréttir voru einfaldari í vinnslu, náðust inn fyrir lokunartíma frekar en þyngri fréttir.

Með starfinu sinnti ég líka flæðistjórn fyrir prentmiðla 365. Það fólst í að samræma vinnslu DV, Fréttablaðsins, Ísafoldarprentsmiðju og Pósthússins. Markmiðið var að búa til færiband, sem tryggði fólki blaðið sitt á réttum tíma á hverjum morgni. Skil á síðum og prentformum voru tölvuskráð, svo og upphaf og lok prentunar, ennfremur kvartanir um dreifingu blaðanna. Árni Hauksson forritaði formin, sem notuð voru. Tímamælingarnar skrásettu frávik og staðsettu vandamál á færibandinu. Færðu vinnubrögð þar til betri vegar. Ég átti hugmyndina að þessu færibandakerfi og fylgdi því eftir á leiðarenda.

Þessi vinna var einkum mikilvæg Fréttablaðinu. Það er hvorki textadrifið né auglýsingadrifið, heldur dreifingardrifið. Dreifingin ræður úrslitum um, hvert snertiverð auglýsinga er metið vera. Það ræður síðan auglýsingafjölda og auglýsingaverði. Lesendur eru spurðir í lestrarkönnunum, en að öðru leyti eru þeir ekki frumafl í samanburði við dreifinguna. Morgunblaðið er hins vegar lestrardrifið og mörg tímarit eru auglýsingadrifin. Við minnkandi áhuga lesenda á dagblöðum má reikna með, að góð dreifing geti haldið uppi fríblöðum umfram áskrifendablöð. Framtíð Fréttablaðsins ræðst af dreifingu.

Ég samdi siðareglur DV, nánast orðrétt eins og siðareglur Fréttablaðsins. Reglur DV voru örlítið betri, því að þær voru nokkrum árum yngri. Og af því að þær voru slípaðar af reynslu DV af tilveru sinni á götublaðakantinum. Ég held, að DV noti enn þessar siðareglur, en flaggar þeim ekki frekar en Fréttablaðið. Einnig hvatti ég Gunnar Smára og Ara Edwald útgáfustjóra til að stofna embætti umboðsmanns notenda 365-miðla. Ýmsir erlendir fjölmiðlar hafa umboðsmann lesenda til að auka gegnsæi og efla aðgang almennings. Þeir féllust ekki á tillögu mína, enda hefði hún auðvitað kostað fjárútlát.

Umboðsmenn lesenda hafa gefizt misjafnlega. Þekktastir hafa þeir verið á Washington Post, þar sem þeir hafa töluverð völd. Þegar einn blaðamanna varð uppvís að upplognum fréttum af barnungum dópista, fór umboðsmaðurinn í málið. Margra síðna greinargerð hans var öll birt í blaðinu nokkrum dögum síðar. Framtak umboðsmannsins veitti lesendum gegnsæi inn í galla á rekstri ritstjórnarinnar. Það varð til þess, að traust blaðsins hélzt þrátt fyrir mistökin. Í Bandaríkjunum hafa siðareglur, umboðsmenn og símenntun á ritstjórn reynzt öflugustu aðferðirnar við að hamla gegn fækkun lesenda.

DV var í lítilli sölu og nánast engri áskrift um þessar mundir og naut ekki mikils álits. Samkvæmt bókinni átti blaðið að höfða til unga fólksins. Því miður var kominn sá tími, að ungt fólk vildi ekki kaupa fréttir. Fólk undir fertugu keypti ekki dagblöð, ekki einu sinni Moggann. Með hörðum fréttum af skandala í pólitík og viðskiptum hefðum við kannski náð í gömlu kaupendurna, sem væntanlega voru um þessar mundir komnir langt yfir fertugt. En við náðum aldrei neinu magni af slíkum fréttum. Fjárhagsdæmi blaðsins var því vitlaust frá grunni, það sóttist eftir lesendum, sem vildu ekki kaupa dagblöð.

Smám saman færðist DV samt nær því að ná jöfnu í rekstri. Það byggðist mest á ótrúlegri ósérhlífni Mikaels og dugnaði strákanna umhverfis hann. Við ritstjórarnir féllum svo í febrúar 2006 á frétt um perra á Ísafirði. Hvert orð var rétt í fréttinni, enda voru fórnardýrum perrans löngu síðar greiddar skaðabætur. Við féllum ekki á að fara á mis við sannleikann, enda hafði ég  margtuggið mikilvægi hans á fundum. Við féllum á óviðurkvæmilegri fyrirsögn og frásagnaranda að mati öflugs hluta þjóðarinnar og málsmetandi álitsgjafa. Þúsundum saman skrifuðu menn á veraldarvefnum undir gagnrýni á okkur.

Það er ekkert prívatmál, að lögreglan yfirheyri mann vegna gruns um óeðli í garð drengja. Það er ekkert prívatmál, að nokkrir drengir fái skaðabætur frá ríkinu fyrir tjón vegna þessa óeðlis. Ef gerandinn fremur sjálfsvíg, er það hans ákvörðun, sem hann ábyrgist einn. Að saka ritstjóra dagblaðs um að hafa drepið manninn er í sjálfu sér óeðli. Hver er sinnar gæfu smiður. En það hentaði nokkrum lýðskrumurum í stétt presta og alþingismanna að reyna að slá ódýrar keilur út á sjálfsvígið. Þeir mundu ekki reyna slíkt núna, eftir það sem komið er fram í málinu. Eftir alla sjáanlega galla þöggunarstefnunnar.

Ég var alveg sáttur við afsögnina. Fyrir mér var aðalatriðið, að fréttin var rétt. Tónninn í blaðinu var hinn hefðbundni tónn norrænna síðdegisblaða. Hins vegar var hræsni álitsgjafanna nógu mikil til að kynda undir óánægju í samfélaginu. Sannleikanum er hver sárreiðastur. Fólk kennir sögumanni um ótíðindi. Við vorum of opinskáir um eitt tabú í samfélaginu. Meira að segja Össur Skarphéðinsson skrifaði hjartnæma minningargrein um perrann. Við Mikael tókum þá ákvörðun að leggjast á höggstokkinn til að skapa frið um framtíð blaðsins. Sálir Íslendinga voru of krumpaðar fyrir götusölublað.

Að mínu viti snúast einkamál um það, sem fólk gerir heima hjá sér. Ekki um það, sem gerist í bílum úti á götu, í fjármálastofnunum og í fyrirtækjum. Ef Bubbi reykir í bíl, þá er tekin mynd af því. Ef Bubbi tapar fé á myntkörfu, er því slegið upp.  Fé og skuldir hafa ekkert einkalíf. Þannig held ég, að skilningur dómstóla hafi til skamms tíma verið á einkalífi. Allra síðustu árin hefur hagsmunaaðilum tekizt að víkka hugtak einkalífs. Að verki hafa verið stofnanir á borð við Persónuvernd og Úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Einnig lögmenn víkinga í bankarekstri og útrásum. Það er óheillaþróun.

Íslenzka fjármálahrunið sýndi okkur, að áherzlan á einkalíf er komin út í öfgar. Í skjóli bankaleyndar var alls konar glæfrum haldið leyndum fyrir þjóðinni. Blaðamenn voru lögsóttir fyrir að komast í og birta gögn, sem sýndu glæfra græðgisstéttanna. Lögmenn reyndu að bola hagfræðingi út úr sannleiksnefnd Alþingis fyrir að segja það, sem allir vissu. Þeir töldu það gera hagfræðinginn vanhæfan. Þá loksins áttuðu menn sig á ruglinu, sem komið var í gang. Eitthvað meira en lítið var orðið rotið í Danaveldi. DV var blað, sem hafnaði þessu einkamálarugli og var auðvitað hatað fyrir bragðið.

Mér finnst skattar mínir ekki vera einkamál, ekki fasteignir og bílaeign mín, ekki lán og lánakjör. Skattskrár, fasteignaskrár og bifreiðaskrár eiga að vera aðgengilegar á vefnum allt árið. Lán og lánskjör fólks og fyrirtækja mega ekki heldur vera einkamál, svo sem berlega kom í ljós í bankahruninu. Einkalíf peninga er rugl. Hugtökin einkalíf og bankaleynd eru varasöm, en urðu samt að hornsteinum ofsatrúar græðgisvæðingarinnar. Þetta skilur milli fylkinga í siðrofi Íslands.  Meira að segja eftir bankahrun halda margir áfram dauðahaldi í ofsatrúarhugtök á borð við einkalíf og bankaleynd.

Séríslenzka tabúið gegn nafn- og myndbirtingum nær aðeins til Íslendinga. Um útlendinga má skrifa hvaða bull sem er, þótt þar sé ekki satt orð. Þegar málið snýst um Íslendinga, segja menn hins vegar: Þurfti nú endilega að birta nafnið, hvaða tilgangi þjónar það, er nokkur bættari fyrir það. Þetta er einfaldasta birtingarmynd þöggunarstefnunnar. Fólki finnst óþægilegt, að persónur séu að baki frétta af því, sem miður fer. Eftir bankahrunið hefur samt fækkað stuðningsmönnum þöggunarstefnu. Mín skoðun er einfaldlega, að jafnan eigi að birta nöfn og myndir, nema við sérstök, upptalin skilyrði.

Fyrir efnahagshrunið fengum við að vita, að margir Íslendingar eru haldnir óeðli af ýmsu tagi. Fyrir daga DV var þagað um allt slíkt. Eftir hrunið fengum við að vita, að margir Íslendingar voru fjárglæframenn, fífl, sauðir, þjófar, lygarar, gerspilltir. Áður var þagað um allt slíkt. Allt fram á síðustu ár hefur almannarómur krafizt þöggunar. Almannarómur taldi, að hér á landi gerðist ekkert ljótt, allir væru góðir og klárir. Nú hefur seint og um síðir komið í ljós, að svo er ekki. Sem betur fer áttar fólk sig á, að margt er í skralli hér á landi. Og veit, að til eru ágæt orð, sem lýsa ástandinu.

Siðareglur DV á þessum tíma höfðu kafla um nafnbirtingar. DV birti jafnan nöfn og myndir fólks, sem var í fréttum blaðsins, ef blaðið komst yfir þessar upplýsingar. Stundum var frestað birtingu nafna um tíma, einkum fólks, sem látizt hefur óvænt. Þetta gerði blaðið í samráði við aðra aðila, sem komu að málinu. Undantekningar byggðust einkum á hagsmunum brotaþola. Slík frestun birtingar kom síður til greina, ef hún gat valdið óþægindum hjá aðstandendum fólks, sem af komst í slysum. Ekki voru birt nöfn þolenda kynferðisbrota. Ég hélt þá og held enn, að þetta séu góðar siðareglur.

Útrásarvíkingar eignuðust fjölmiðlana á fyrsta áratug nýrrar aldar. Þess vegna fór bankaránið 2008 framhjá hefðbundnum fjölmiðlum. Þeir voru of önnum kafnir við að birta sögur af snilli víkinganna. Komið var upp markaðssíðum og viðskiptasíðum í þessu skyni. Björgólfsfeðgar voru eitraðastir. Þeir ritskoðuðu bækur og reyndu að kaupa DV til að leggja það niður. Þeir voru gersamlega siðlausir og skildu eftir sviðna jörð. Á Mogganum og á Eddunni. Mogginn tapaði milljörðum króna og hefur ekki borið sitt barr síðan þá. Þegar útgáfu er blandað við annan rekstur spilltan, verður úr afleit blanda.

Ég vann eitt ár á DV, þegar það var komið í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Allan þann tíma hafði hann aldrei samband við mig. Enga tilburði hafði hann til ritskoðunar. Ekki heldur gegnum Gunnar Smára útgáfustjóra, sem aldrei flutti okkur neina ritskoðun. Einu sinni hafði ég samband við Jón Ásgeir vegna upplýsinga um kappakstur í útlöndum. Annað var það ekki. Hins vegar gerði Ásgeir Friðgeirsson blaðafulltrúi Björgólfsfeðga oft vart við sig, ef hann taldi á feðgana hallað. Ásgeir þessi hafði tekið þátt í að setja vefinn Visir.is af stað og forðaðist mig þá alltaf, þegar hann kom á ritstjórn DV.

Næsti kafli