2008-2011 Hestaferðir og stóra bókin

Starfssaga

Við hjónin fórum 1991 í fyrstu hestaferðina. Með Reyni Aðalsteinssyni. Síðan fórum við á hverju sumri, oft tvær-þrjár á sumri. Með Einari Bollasyni. Fararstjórum Fáks. Og mörgum fleirum. Einkum þó með Bjarna E. Sigurðssyni. Sérstæðu náttúrubarni, sem las landið eins og lófann á sér, án korts og áttavita. Í fyrstu áningu horfði hann á atferli okkar hjóna og sagði: “Þið hugsið eins og hestarnir, þið verðið fín í hestaferðum.” Við urðum svo rekstrarstjórar hjá honum. Síðan varð ég leiðsögumaður og fararstjóri hjá Fáki og í eigin hestaferðum. Þessar ferðir urðu helzta áhugamál okkar.

Bjarni Eiríkur Sigurðsson var hestaferðamaður af guðs náð. Sem unglingur fór hann sem leiðsögumaður með erlenda ferðamenn um Sprengisand norður í land og suður aftur. Hafði hvorki kort né áttavita, en vissi alltaf, hvar hann var staddur, fann vöð á stórfljótum af hyggjuviti sínu. Fór yfir Héraðsvötn við skelfingu heimamanna, sem þustu á vettvang. Hann var lengi fararstjóri hjá Eldhestum og síðan í eigin ferðum, þar sem ég tók síðar við af honum sem fararstjóri. Af engum hestamanni hef ég lært meira um hestaferðir. Af nærgætni við hestahófa kaus Bjarni frekar að ríða í skurðum en uppi á vegum.

Við hjónin vorum húsbóndaholl sem rekstrarstjórar hjá Bjarna. Einu sinni dróst hestur aftur úr hópnum vestan við Geysi. Við reyndum að reka hann áfram, en ekki gekk. Hann vildi ekki heldur láta taka sig. Að lokum þjösnuðum við honum ofan í skurð, þar sem ég lagðist á hann og tróð á hann múl. Tók hann síðan í tog og Kristín rak hann áfram. Eftir tvo kílómetra komum við að ferðafélögunum í rétt. Þar sat Bjarni á vegg, reri sér og hló. “Ég á ekki þennan hest”, sagði hann. Við höfðum í atganginum gleymt að taka eftir, að þetta var járnalaus heimahestur, sem hafði flækzt út á veginn.

Af öðrum hestaferðamönnum lærði ég líka. Reynir Aðalsteinsson hugsaði eins og hestur, vissi alltaf hvert hestar vildu fara. Vissi, hvaða túnhliðum þyrfti að loka og hver mættu eiga sig. Ég lærði af Þormari Ingimarssyni, sem passaði vel upp á skeifurnar, Valdimar Jónssyni, sem jafnan var í góðu skapi. Ég lærði af Þórði Ólafssyni, sem með harðfylgi kom upp vínbanni í Fáksferðum. Það hélzt árum saman og var svo í minni fararstjóratíð. Þórður gekk hreint til verks. Eitt sinn tók Þórður einn svolann, stakk honum niður í svefnpoka og lagðist ofan á hann, þangað til hann sofnaði sínum víndauða.

Álmur var fyrsti hesturinn, sem ég eignaðist. Fyrir tilviljun. Hann var sendur sem varahestur með hesti, sem ég hafði keypt til ferðalaga. Keypti hesturinn heltist daginn fyrir ferðina og Álmur hljóp í skarðið. Í einum rykk frá Kalmanstungu upp í Álftakrók. Hann taldi sig jafnsettan mér í goggunarröðinni. Hann skyldi ráða gangtegund, sem var tölt. Hann skyldi ráða hraðanum, sem var yfirferð. Ég mátti ráða áttinni. Ekki þoldi hann, að aðrir hestar færu framúr sér. Ég hef aldrei síðar eignazt annan eins öðlingshest. Hætti næstum í hestamennskunni, þegar fótarmein kom honum á elliheimilið.

Hestaferðir eru sérstæð og forn tilvist í undirvitund hesta og sumra manna. Menn skipa sér í forreið og eftirreið og hafa lausu hrossin milli hópanna. Forfeðurnir lifðu svona, komu í nýtt vatnsból og nýjan haga á hverju kvöldi og lögðu upp aftur að morgni. Föst búseta var engin, hesturinn var heimilið.  Þannig lifðu heilu þjóðirnar á sléttum Síberíu og Rússlands. Þannig reið Gengis Kahn 7000 kílómetra frá Ulan Bator til Vínarborgar. Á aðeins þremur mánuðum. Þetta flökkulíf blundar í sálarlífi hesta, þeir magnast upp á ferðalögum. Bikkjur verða að gæðingum, teygja sig og fara að ganga fallega.

Þegar ég var útgáfustjóri Eiðfaxa fór ég að safna GPS-punktum reiðslóða. Var mikið í hestaferðum á sumrum og tók ferlana upp. Einnig tók ég reiðleiðir upp eftir kortum og öðrum heimildum. Mest notaði ég hundrað ára gömul herforingjaráðskort. Þar voru ýmsir gæðaflokkar reiðleiða samvizkusamlega skráðar. Einnig tók ég reiðleiðir eftir útivistarkortum, sem hafa mörg verið gefin út síðustu árin. Allt þetta efni setti ég á heimasvæði mitt á vefnum árið 2007. Þetta er langstærsti reiðleiðabanki landsins. Hann er sérstaklega mikilvægur fyrir þá sök, að herforingjaráðskortin voru einstaklega vönduð.

Reiðslóðabanki minn nær eftir uppfærslu yfir 764 reiðslóðir. Nánar tiltekið 666 reiðleiðir (routes) og 98 reiðferla (tracks). Nýju ferlarnir eru einkum úr Þingeyjarsýslum, sem eru feikna gott reiðland. Var þar í hestaferðum í tvö sumur. Allir hafa ókeypis aðgang að bankanum. Geta séð leiðirnar og ferlana á korti, ef þeir eru með GPS Íslandskort í tölvunni. Geta líka hlaðið þeim í Garmin-vasatæki með slíku korti. Safnið hefur siðferðilegan stuðning Landssambands hestamannafélaga og aðstoð félagsins Glaðs í Dölum. Ég er auðvitað afar stoltur af framtaki mínu, sem er sennilega einsdæmi.

Hestastússið kom mér í kynni við gáfumenn, suma sérstæða. Ég tók viðtöl við þá þekktustu um góðhesta og stóðhesta fyrri áratuga. Mest gagn hafði ég af kynnum af Brynjari Vilmundarsyni fiskverkanda og bónda á Feti. Hann reis hvað eftir annað gegn kerfinu, barði dómhús utan með staur, er dómar fóru út af kortinu. Kunningsskapur okkar gekk svo langt, að við buðum saman í jörð, en fengum ekki. Af umgengni við slíka, svo og af hestaferðum, ræktaði ég með mér skrítnar skoðanir á hrossarækt. Þær hafa stundum komið fram í blogginu. Vil fjölga gangtegundum hesta í sex og dæma með tækjum, ekki með dómurum.

Ég vil leggja niður hestadómara og taka í staðinn upp tvenns konar mæla. Fyrst og fremst lófastóran jarðskjálftamæli, festan í hnakknef. Hann sendir skilaboð í tölvu í dómhúsi. Mældur er hristingur á öllum gangi. Því minni hristingur, þeim mun hærri einkunn. Síðan þarf hljóðmæli, þegar hesturinn er látinn hlaupa á trépalli. Því réttari sem taktur hljóðsins er fyrir þá gangtegund, þeim mun hærri einkunn. Dómar úr þessum tveimur mælum verða réttlátari en dómar manna. Þeir komast nær því að veita íslenzka hestinum þá mýkt, sem á að gera hann frægan. En gerir ekki meðan hopp fær hæsta dóma.

Næsti kafli