1995-2001 Hrun DV

Starfssaga

Árið 1995 urðu ýmsar mannabreytingar í lykilstöðum. Sveinn R. Eyjólfsson keypti Hörð Einarsson út úr fyrirtækinu. Einnig keypti hann mitt hlutafé og ýmissa annarra. Hörður hætti sem framkvæmdastjóri 22. febrúar 1995, Ellert B. Schram hætti sem ritstjóri 18. september 1995. Breytingarnar náðu svo hámarki í upphafi árs 1996. Eyjólfur Sveinsson varð framkvæmdastjóri 11. janúar það ár. Var mjög afgerandi og sjálfsöruggur, hafði verið blaðamaður hjá mér á námsárum og þekkti vel til verka á ritstjórn. Hann var menntaður hagverkfræðingur og vildi gera ýmsar breytingar á rekstri fyrirtækisins.

Sumt af því var af hinu góða, en annað miður. Vandamál stöfuðu einkum af tilraunum til að líta á ritstjórn sem hverja aðra deild í fyrirtæki. Hún hlyti að lúta sömu lögmálum og aðrar deildir. Sem hún gerir raunar ekki. Þetta var þá orðið þekkt vandamál í Bandaríkjunum, þar sem nýir forstjórar fokkuðu upp ritstjórnum. Þannig var Los Angeles Times rústað á skömmum tíma. Ritstjórnir lúta nefnilega allt öðrum lögmálum en aðrar deildir fyrirtækja. Lítið þýddi að benda á þetta, en ég þæfðist þó gegn ýmsum af breytingunum. Til dæmis minnist ég broslegs hópeflisfundar á Leirubakka í Landssveit.

Hópefli milli ritstjórnar og annarra deilda endar með, að ritstjórnin fer að taka tillit til hagsmuna auglýsingadeildar. Slíkt getur endað með skelfingu. Einnig geta kröfur um aukin afköst haft hættuleg áhrif á ritstjórn. Þar er unnið skapandi starf, sem seint verður tímamælt af skynsemi. Ég held, að slík mál hafi truflað ritstjórnina og gert hana minna hæfa til að gegna hlutverki sínu. Þetta var ekki ætlun Eyjólfs, en var óbein afleiðing þess að beita kennslubókinni á ritstjórnir. Ég held, að mér hafi samt að mestu tekizt að bægja vandræðum frá ritstjórn DV. En bakaði mér ekki vinsældir.

Annar vandi DV var innkoma alls konar sérfræðinga á sviðum, þar sem enginn starfaði áður. Að málum komu markaðsfræðingar, almannatenglar, spunakarlar, atburðastjórar. Allir slíkir voru á háu kaupi og slöfruðu grimmt af tekjum blaðsins. Þetta varð síðar almennt að enn stærra vandamáli fjölmiðla. Í stað fólks, sem framleiddi efni, kom fólk, sem skipulagði ýmiss konar rugl. Ég sá þetta síðar á alvarlegra stigi hjá 365 miðlum. Þar sem áður var forstjóri og auglýsingastjóri voru risnar fjölmennar deildir með allri þeirri sérfræði, sem ímyndunaraflið rúmar. Að mestu voru þetta alls óþarfir starfskraftar.

Alltaf þrengdist daglegur fjárhagur. Að mínu viti stafaðí það af brýnni þörf fyrir peninga í ýmis ævintýri líðandi stundar. Sum voru dýr, til dæmis kaup á litlu dagblöðunum. Dagur, Tíminn, Þjóðviljinn og Alþýðublaðið voru keypt og sameinuð 1995 í endurbættum Degi, sem ekki gekk upp. Þetta voru draumar um fjölmiðlaveldi, sem rákust á við veruleikann. Elías Snæland Jónsson var fenginn til að stýra ritstjórninni. Þar missti DV einn sinn bezta mann. Össur Skarphéðinsson varð meðritstjóri minn 4. nóvember 1997 og var svo í eitt ár. Ég held, að hæfileikar hans hafi nýtzt betur á öðrum vettvangi.

Erfiðleikar DV fyrir og um aldamótin stöfuðu af ýmsum ástæðum. Sumpart var hafinn sá tími, að nýjar kynslóðir keyptu ekki dagblöð. Sumpart var DV staðnað sem stórveldi. Sumpart voru mannaskipti of mikil í lykilstöðum. Einkum var DV þó mjólkað af fjármunum til að borga fyrir stórveldisævintýri. Þetta endaði með, að fyrirtækið varð mjög skuldsett og átti í erfiðleikum með að fá Landsbankann til að lána peninga. Lánabannið var eitt áhugamála Davíðs Oddssonar, sem var andsnúinn blaðinu. Til að friða þann róttæka pólitíska kant var Óli Björn Kárason gerður að meðritstjóra 1. janúar 1999.

Sveinn R. Eyjólfsson fékk ekki fé til að halda áfram rekstri, sem var þó í jákvæðum tölum. Fyrir milligöngu Landsbankans og Björgólfsfeðga seldi hann mjólkurkúna Óla Birni Kárasyni og félögum hans. Verðið var einn milljarður króna, dálagleg upphæð í þá daga. Blaðið var selt í tveimur áföngum. Að loknum síðari áfanganum var mér sagt upp og hætti ég 1. janúar 2002. Tæpum tveimur árum síðar, 5. nóvember 2003, varð það gjaldþrota. Helzta ástæða gjaldþrotsins var, að lesendur kærðu sig ekki um að fá aftur flokkspólitík inn í blaðið. Vildu að minnsta kosti ekki kaupa pólitíkina fyrir eigið fé.

Það kom í hlut Ágústs Einarssonar prófessors að reka mig eftir jól. Kennari í viðskiptafræði og stjórnarmaður í nýju DV. Átti sem slíkur þátt í að kaupa blaðið fyrir tæpan milljarð og setja það á hausinn á tæplega tveimur árum. Dálaglegur viðskiptaprófessor. Nokkru síðar ásældist hann embætti rektors, en fékk ekki. Ágúst hafði ekki vit á að velja hlutlausan fundarstað, heldur boðaði komu sína á skrifstofu mína. Þangað kom hann sveittur og baðaður í svitalykt. Mér skildist hann væri að bjóða mér að segja upp sjálfur. Ég neitaði auðvitað. Síðar um daginn varð hann að senda mér ábyrgðarbréf.

Ég var næstum 62 ára og mér leið eins og frjálsum manni. Allra síðustu árin á DV höfðu verið erfið vegna innrásar undirmálsmanna með stuðningi banka. Hafði komið mér sæmilega fyrir fjárhagslega og hefði getað sezt í helgan stein við þetta tækifæri. Raunin varð þó sú, að ég hélt áfram að atast í blaðamennsku næstu árin. Fyrst á Fréttablaðinu, síðan á hestablaðinu Eiðfaxa og loks aftur á DV. Eftir þann síðasta snúning í faginu sneri ég mér að háskólakennslu 2006. Kenndi blaðamennsku í símennt Háskólans í Reykjavík í tvö ár, unz ég hætti endanlega að vinna fyrir kaupi 68 ára gamall 2008.

Þeir, sem áfram störfuðu á DV þjáðust af pólitískri ritskoðun Óla Björns og hirðar hans. Hún sat inni hjá honum og las fréttir úr pólitíkinni. Þar var rætt, hvort þær væru andsnúnar hagsmunum flokksins eða valinkunnra hópa í flokknum. Hvort hægt væri að breyta þeim eða hvort þyrfti að salta þær. Slík ritstjórn drepur hvaða dagblað sem er. Slík vinnubrögð voru orðin úrelt tveimur áratugum áður. Flokkspólitísk ritstjórn lamar ritstjórnarskrifstofur og fælir lesendur, sem fatta stöðuna. Salan á DV húrraði niður skalann og reksturinn varð fljótt vonlaus. Blaðið fór svo í gjaldþrot haustið 2003.

Fleiri ástæður stuðluðu að hruni DV. Ekki bara, að Óli Björn Kárason reyndi að reka blað, sem hafði pólitíska kantlykt að mati lesenda. Ytri skilyrði versnuðu einnig. Fyrsti áratugur hinnar nýju aldar hefur markað mikinn og varanlegan samdrátt í blaðalestri á Vesturlöndum. Vandamálið hefur ekki síður leikið Morgunblaðið grátt. Það fór á hausinn í ársbyrjun 2009 með milljarðatjóni fyrir Landsbankann. Og okkur öll. Nýjar kynslóðir voru því marki brenndar að hafna dagblöðum sem fréttamiðlum. Líka sjónvarpi. Fólk undir fertugu fær fréttir sínar af netinu, ef það hefur þá áhuga á fréttum.

Sveinn sagði mér síðar, að hann hafi í ársbyrjun 2001 ekki gert sér grein fyrir, hversu slæmt ástandið var á kassastöðu fyrirtækisins. Honum virtist ekki vera kunnugt um sumt af fjármálavafstri sonarins, Eyjólfs Sveinssonar. Sveinn lenti í því sama og margir feður að oftreysta afkvæmum sínum fyrir miklum verðmætum. Líklega hefur hann reiknað með að fá meiri fyrirgreiðslu í bankanum en raun varð á. Bankinn vildi ekki lána Sveini, en tapaði síðan nærri milljarði króna á Óla Birni Kárasyni. Það sem bankinn helzt varast vann, varð þó að koma yfir hann. Ég var þá kominn út úr þessari sögu.

Raunar var sala hlutabréfa minna 1995 ærið tilefni fyrir mig að draga mig í hlé frá amstri blaðamennskunnar. Einhverra hluta vegna mannaði ég mig ekki upp í það og hengslaðist áfram til ársloka 2001. Þessi árin skrifaði ég jafnframt árbækur um hrossarækt, sem komu út á tímabilinu 1989-2002. Þau bættu úr brýnni þörf hrossaræktenda. Fram að þeim tíma, er gagnabankar í tölvum á veraldarvefnum tóku við hlutverki bókanna. Voru þungavigtarbækur í bókstaflegum skilningi, mældust tvö kíló hver bók á vog. En áreiðanlega tóku þær frá mér orku, sem kannski hefði betur átt heima á DV eða í hestamennsku.

Næsti kafli