2006-2008 Háskólakennsla

Starfssaga

Ég sneri mér að kennslu í blaðamennsku. Með hjálp Gunnars Smára, Ara Edwald útgefanda og Blaðamannafélagsins tókst samkomulag við Háskólann í Reykjavík um röð námskeiða í blaðamennsku. Þátttaka var styrkt af útgefendum og Blaðamannafélaginu. Árin 2006-2008 hélt ég nokkur vel sótt námskeið, sem fengu fína útkomu í gæðamati skólans. Þau fjölluðu um rannsóknablaðamennsku, almenna blaðamennsku, fréttaöflun, textastíl, starf ritstjóra, nýmiðlun, framtíð blaðamennsku og sögu hennar. Efni þeirra allra er aðgengilegt á heimasvæði mínu, www.jonas.is. Þar geta menn séð alla fyrirlestra mína.

Frumkvæðið að háskólakennslunni kom ekki frá mér, heldur Gunnari Smára. Ég efaðist um, að talandi starf hentaði mér. Skrifandi starf væri minn stíll. Hann kannaði stuðning við málið hjá Guðfinnu Bjarnadóttur, rektor Háskólans í Reykjavík, og fékk hann. Síðan tók Ari Edwald við málinu af Gunnari Smára og Svafa Grönfeldt rektor af Guðfinnu. Gerðu þau það af myndarskap. Ég hafði samband við Hjálmar Jónsson, framkvæmdastjóra Blaðamannafélagsins, sem síðan studdi málið drengilega. Tók endurmenntunarsjóður félagsins þátt í kostnaði til móts við framlag útgefenda. Námskeið mín fengu því fljúgandi start.

Ég þekkti flestar beztu kennslubækur í blaðamennsku, þegar ég hóf kennslu. Nánast allar voru þær bandarískar, enda er fagmennska lengst komin þar í landi. Tökum rannsóknablaðamennsku sem dæmi. Samtök blaðamanna á því sviði hafa safnað tíuþúsund dæmum um rannsóknablaðamennsku. Frá þeim er sagt í gagnabanka á vefsvæði þeirra. Sumar amerískar kennslubækur um textastíl eru svo góðar, að þær nýtast til kennslu í íslenzku. Reglur um frásagnarmáta ná milli tungumála. Ögrandi fannst mér að tvinna saman íslenzk og bandarísk sjónarmið í kennslu í fréttastíl. Enda kom ég nemendum þar mest á óvart.

Almenn kennsla í grundvallaratriðum blaðamennsku reyndist vera nauðsynleg, einnig kennsla í hreinni fréttamennsku. Kennsla í rannsóknablaðamennsku var líka vinsæl. Kennsla í ritstjórn höfðaði mest til ritstjóra tímarita. Lítill áhugi var á textastíl, alvarlegasta vandamáli íslenzkrar blaðamennsku, líklega af því að blaðamenn fatta ekki stíl. Kennsla í fjölmiðlasögu, framtíðarspám og nýmiðlun naut vinsælda í meðallagi. Eftir því sem ég hef komizt næst, var kennsla af flestu þessu tagi ekki veitt annars staðar á þessum tíma. Háskóli Íslands kennir fjölmiðlafræði, sem er allt annað fag.

Kennslu mína í stíl eimaði ég niður í átta reglur Jónasar um stíl: 1. Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn. 2. Settu sem víðast punkt og stóran staf. 3. Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann. 4. Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni. 5. Keyrðu á sértæku sagnorði og notaðu sértækt frumlag. 6. Notaðu stuttan, skýran og spennandi texta. 7. Sparaðu lýsingarorð, atviksorð, þolmynd og viðtengingarhátt. 8. Hafðu innganginn skýran og sértækan. Auk þess kúgaði ég nemendur til að skrifa engar málsgreinar lengri en sautján orða. Það var rosalega holl lexía.

Tíu siðareglur blaðamanna eru í bók, sem ég kenndi í siðfræði. Hún er eftir Bill Kovach og Tom Rosenstiel, heitir Elements of Journalism. Hljóða svo: 1. Blaðamennska veitir fólki upplýsingar, sem gera það frjálst. 2. Skuldbinding hennar er fyrst og fremst við sannleika. 3. Hollusta hennar er við borgara. 4. Eðli hennar er leit að staðfestingum. 5. Hún er sjálfstæð gagnvart þeim, sem fjallað er um. 6. Hún er óháður vaktari valds. 7. Hún er torg gagnrýni og málamiðlana. 8. Hún reynir að gera það mikilvæga áhugavert og viðeigandi. 9. Hún er víðtæk og í réttum hlutföllum. 10. Hún má beita eigin samvisku.

Um bók og siðareglur Kovach og Rosenstiel fjalla ég í inngangsfyrirlestrum mínum í blaðamennsku. Aðgangur að þeim er á heimasvæði mínu www.jonas.is. Þar er líka hægt að sjá siðareglurnar, sem ég samdi fyrst fyrir Fréttablaðið og síðan fyrir DV. Þær eru enn í notkun í handbókum fjölmiðlanna, en ekki aðgengilegar almenningi annars staðar á vefnum. Í fyrirlestrunum fjalla ég líka um umboðsmenn lesenda fjölmiðla og um símenntun blaðamanna. Þetta er þrenna, siðareglur, umboðsmenn og símenntun. Samkvæmt rannsóknum Philip Meyer (The Vanishing Newspaper, 2004) fer hún saman við velgengni fjölmiðla.

Ekkert getur hindrað, að vefur taki við af pappír sem fréttamiðill okkar. Hefðbundin dagblöð sæta fækkandi áskrifendum, því að ungt fólk kaupir ekki fréttir. Fríblöð standa betur, en munu falla í næstu lotu, er auglýsingar hverfa af pappír yfir á vef. Enn hefur að vísu ekki orðið til frambærilegt viðskiptaumhverfi á vefnum. Fyrr mun umhverfið spillast á pappírnum og millibilsástandið verður erfitt. Fæstir útgefendur átta sig á, hversu alvarlegt málið er. Fréttamennska verður um tíma nöturlegri en áður vegna niðurskurðar útgjalda. Löngu síðar mun vonandi aftur birta. Og þá á vefnum.

Ég hef enga trú á, að Viðskiptablaðinu takist að selja aðgang að fréttum sínum á vefnum. Ég hef ekki trú á, að neinu blaði takist það. Þótt Wall Street Journal hafi náð takmörkuðum árangri á vefnum. Svo mikið framboð er af ókeypis fréttum á vefnum, að það nægir langsamlega flestum. Reynslan sýnir, að fólk grefur ekki dýpra, þótt læstar fréttir kunni að vera betri eða ítarlegri. Þetta er ekki spurning um bezta lestur, heldur skásta ókeypis lestur. Útvarp og sjónvarp kynntu ókeypis fréttir fyrir almenningi, vefurinn kláraði dæmið. Seldir fjölmiðlar á borð við vefdagblöð eiga þar engan séns.

Nánast daglega berast fréttir af samdrætti dagblaða í Bandaríkjunum. Hann er farinn að leita á hornsteina á borð við Los Angeles Times, New York Times og Washington Post. Dagblöð tapa auglýsingum, einkum smáauglýsingum. Unga fólkið les ekki dagblöð og fæst ekki til að gera það. Þetta háir ekki bara dagblöðum, heldur líka sjónvarpinu. Unga fólkið hefur lítinn áhuga á sjónvarpi og engan áhuga á sjónvarpsfréttum. Allt þetta skaðar fréttirnar. Bandaríkjamenn lesa nánast ekkert um utanríkismál og vita lítið um pólitík. Vefurinn kemur ekki í stað fjölmiðla, hann er ábyrgðarlaus og óskipulagður.

Við getum litið á vefinn sem vanda. Og við getum litið á hann sem lausn á vanda, sem við hefðum hvort sem er staðið andspænis. Félagsvefir á borð við MySpace og Facebook, YouTube og Twitter hafa ekki hefðargildi siðareglna í blaðamennsku. Vefurinn hefur magnað ótta í blaðamennsku. Átt þátt í að draga burt auglýsingar. Að magna þéttara eignarhald fjölmiðla. Að draga úr notkun ungs fólks á hefðbundnum fjölmiðlum. Og að minnka traust fólks á fjölmiðlun. En vefurinn kann að hafa komið í tæka tíð til að virkja kynslóðir, sem höfðu yfirgefið dagblöðin. En hvers vegna lesa þær ekki? Hefur ekki verið svarað.

Seattle Post-Intelligencer er dæmi um, að stökk dagblaða af pappír yfir á vefinn gengur ekki upp. Dagblað á vef kemur ekki í stað dagblaðs á pappír. Samt eru dagblöð dauðans matur á Vesturlöndum. Geta ekki keppt við vefinn, sem tók af þeim smáauglýsingar fyrir mörgum árum. Sé flótti á vefinn ekki lausn, hver er hún þá? Sérhæfð blöð eru möguleiki, samanber viðskiptablöð og íþróttablöð. Dagblöðin verða að fara út fyrir kassann, hugsa dæmið upp á nýtt, finna sér nýja hillu eða takmarka sig við þá hillu, sem þau kunna bezt. Fríblöð eru ein leið. Grapevine er hilla. Sunnlenska er önnur hilla.

Með útgáfuhillum á ég við sérhæfingu. Fríblöð eru ein tegund sérhæfingar. Grapevine er fríblað, en hefur um leið aðra sérhæfingu. Er skrifað á ensku, tungumáli framtíðarinnar. Er ætlað að höfða til erlendra ferðamanna, veita þeim upplýsingar um það, sem er að gerast á Íslandi. En um leið er það aðili að íslenzkri umræðu á mörgum sviðum, til dæmis um tónlist unga fólksins. Grapevine er tveggja hillu tímarit. Sunnlenska er dæmi um héraðsfréttablað, sem fæst ekki frítt. Seattle Post-Intelligencer er þriðja dæmið um hillu, það fæst bara á vefnum. Allir útgefendur verða að finna sína réttu hillu.

Fríblöð fara að nokkru leyti framhjá vanda áskriftar- og götusölublaða. Fréttablaðið er vel hannað blað og læsilegt, en gengi þess ræðst einkum af góðri dreifingu. Útburður til allra heimila er sérstaðan í heimi fríblaða. Hann aflar fríblöðum auglýsingatekna. Þá formúlu má vafalaust nota víðar í heiminum. Þegar átti að endurtaka hana í Kaupmannahöfn, komu annmarkar í ljós. Ruslpóstur var bannaður í mörgum fjölbýlishúsum. Aldrei var hægt að dreifa Nyhedsavisen á sama hátt og Fréttablaðinu. Kannski hefði verið hægt að fara öðru vísi í málin. Búa til blað fyrir einbýlis- og raðhúsahverfi.

Nyhedsavisen var líka þeim annmarka háður, að blaðið var hundleiðinlegt. Fullt af langhundum að hætti Politiken. Þar vantaði litlu eindálkana, sem eru aðalsmerki Fréttablaðsins. Danskir yfirmenn ritstjórnarinnar vildu gefa út snobbað dagblað, eins konar Information, og fengu það. Greinarnar náðu yfir heilar og hálfar síður. Slíkt höfðar ekki til almennings. Miklu nær hefði verið að stæla móðurskipið, Fréttablaðið. En lykilstarfsmenn tóku það ekki í mál. Ritstjórn Nyhedsavisen var misheppnuð frá grunni. En það réð ekki úrslitum um gengi blaðsins. Dreifingin var það, sem misheppnaðist.

Starf kennara í blaðamennsku var auglýst laust árið 2008 við fjölmiðlafræði Háskóla Íslands. Sótti um, enda hefði ég átt að vera sjálfkjörinn, en fékk þó ekki. Hefði viljað nota tvö síðustu árin fyrir sjötugsaldurinn til að skipuleggja slíka kennslu. Þannig að hún kæmi verðandi blaðamönnum að gagni. Hingað til hefur kennsla í fjölmiðlafræði verið fjölmiðlum gagnslaus. Fólk úr fjölmiðlafræði hefur þurft meiri stuðning í starfi en fólk af götunni. Kunnátta í stíl er lakari en hjá venjulegu fólki. Og einn umsækjandi úr Háskólanum á Akureyri kunni ekki einu sinni að tala við fólk í síma.

Næsti kafli