Punktar

Ráðvilltir ráðherrar

Punktar

>HALLDÓR ÁSGRÍMSSON lýsti um helgina yfir því, að hann væri ósáttur við túlkun Pálma Gestssonar á sér í Spaugstofunni, einmitt þá túlkun, sem tilnefnd hefur verið til Edduverðlauna. Halldór sagðist vilja, að Pálmi talaði við sig um þetta leiðindamál, væntanlega til að siða Pálma til.

BJÖRN BJARNASON er steinhissa á fyrirspurnum DV og Marðar Árnasonar þingmanns um, hverjir hafi fengið diplómatapassa á Íslandi. Grunur leikur á, að óviðkomandi aðilar hafi fengið slíka passa og einkum hafi Davíð Oddsson dregið slíka passa upp úr konfektkassa, áður en hann lauk skrautlegum ferli.

JÓN KRISTJÁNSSON skilur ekkert í vandræðunum með húsnæði aldraðra, þar sem 20 sentimetrar eru milli rúma og einkaeign hvers er ein hilla. Hann er alltaf í viðtölum að lofa bót og betrun, en gerir svo ekkert í málunum. Hann er algert núll í ráðuneytinu og gleymir jafnóðum því, sem hann lofar.

FRAMMISTAÐA ÞRIGGJA íslenzkra ráðherra síðustu daga sýnir okkur í hnotskurn hvernig er ástand íslenzkra stjórnmála. Einn ráðherrann er að velta fyrir sér útreið sinni hjá skemmtikrafti, annar er mánuðum saman að lofa sama hlutnum og hinn þriðji er andvígur öllum efasemdum um stjórnsýslu.

BJÖRN HEFUR RAUNAR alla tíð verið 100% andvígur öllum sjónarmiðum, sem koma utan úr bæ. Hann líkist sjálfvirkri vél, sem stekkur alltaf upp til varna, ef einhver vill bæta stjórnsýsluna. Hann er maðurinn, sem pakkaði gæludýrum í Hæstarétt og er líklega skýrasta sýnishornið af ráðherra.

ER EKKI RÉTTI vettvangurinn fyrir þessa ráðherra og nokkra í viðbót í Norðurlandaráði, þar sem mest er talað og minnst er gert í heiminum um þessar mundir?

DV

Upphaf endalokanna

Punktar

Þegar þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna tók við forræði samninga við íslenzka utanríkisráðuneytið um landvarnir Íslands og rekstur Keflavíkurvallar, for forræðið frá þeim aðila, sem hefur gælt við gott samband við Ísland, í hendur froðufellandi hægri manns, sem hafnar, að Bandaríkin hendi peningum í erlend sníkjudýr. Því ber nú svo mikið á milli í viðræðunum, að Albert Jónsson og félagar urðu að flýja frá Washington um daginn. Nú dugir ekki að væla í Washington. Herinn fer, af því að Bandaríkin vilja losna við Ísland.

Fjölmenningin

Punktar

Félagslegur rétttrúnaður á Íslandi felur meðal margs annars í sér, að hér skuli vera fjölmenningarþjóðfélag. Eins og annar rétttrúnaður er þetta hugmyndafræði, sem ekki er studd pólitískum ákvörðunum á borð við, að nýbúar fái fría kennslu í íslenzku. Því miður má ekki tala um það, sem mestu máli skiptir, að nýbúar fallist á hornsteina þjóðfélagsins. Meðal þeirra er, að heiðursglæpir séu ekki viðurkenndir, slæður múslimskra kvenna séu ekki viðurkenndar og að leyfilegt sé að móðga Múhameð spámann eins og Jesú. Það er ekki fasismi, að segja fjölmenninguna enda, þar sem lýðræðið byrjar.

Bíómyndakvótarnir

Punktar

Frakkar og Kanadamenn hafa unnið sigur á Bandaríkjunum í Unesco, menntastofnun Sameinuðu þjóðanna. Tillaga þeirra um menningarlega fjölbreytni heimsins og verndun tungumála og menningarhefða gegn Hollywood náði fram að ganga gegn atkvæðum Bandaríkjanna og Ísraels. Tillagan heimilar ríkjum að styrkja eigin menningarframleiðslu og skammta aðgang að erlendu efni, til dæmis bandarísku sjónvarpi og bíómyndum. Bandaríkin lögðu fram 28 tillögur til breytingar, en þær voru allar felldar. Talið er, að þessi útkoma sé til þess fallin að einangra Bandaríkin enn frekar í Unesco.

Ríku Rússarnir

Punktar

Hér á landi hefur ríkt fólk ekki safnazt saman í sérstökum hverfum. Í Bandaríkjunum hins vegar býr það í víggirtum hverfum með vopnuðum vörðum til að halda plebbunum í burtu. Í Rússlandi eru þarfir nýríkra meiri. Þeir hafa í nágrenni Moskvu skipulagt heila 30.000 manna borg, Rublyovo, þar sem reistar verða miklar villur. Allar eru þær með aðgangi að skurðum, er liggja út í Moskvuá, sem umlykur borgina á þrjá vegu. Byggingarstíllinn á að sögn BBC að minna á Prag og Amsterdam. Milljarðamæringum hefur fjölgað meira í Rússlandi en í öðrum löndum og eru þar mafíósar fremstir í flokki.

Birtir rugl í kippum

Punktar

NEW YORK TIMES er í miklum vanda í annað skipti á skömmum tíma. Í fyrra var blaðið staðið að því að birta skáldaðar greinar eftir Jayson Blair. Nú hefur komið í ljós, að blaðið hefur líka haldið verndarhendi yfir Judith Miller, sem skrifaði margar upplognar fréttir frá stjórnvöldum.

HÚN SKRIFAÐI meðal annars fréttir úr varnarmálaráðuneytinu um meint atómvopn í Írak samkvæmt heimildum heimsfrægs glæpamanns frá Írak, Amad Chalabi, svo og róg úr embætti varaforsetans um starfsmann leyniþjónustu Bandaríkjanna. Sá rógur er talinn jaðra við landráð Cheney varaforseta.

MILLER FÓR í fangelsi, að því að hún vildi ekki segja, hverjir voru heimildarmenn hennar. Yfirmenn hennar skrifuðu greinar henni til varnar. Nú hefur hið sanna komið í ljós og einstakir yfirmenn blaðsins eru farnir að biðjast afsökunar, þótt blaðið hafi ekki enn mannað sig upp í að gera það.

BILL KELLER ritstjóri, Maureen Dowd dálkahöfundur og Byron Calame, umboðsmaður lesenda, hafa beðist afsökunar, en Judith Miller hefur ekki verið rekin enn og blaðið hefur ekki birt afsökunarleiðara, eins og búist hafði verið við. Voldugt goð fjölmiðlunar riðar nú til falls af stalli.

MÁLIN SÝNA slaka ritstjórn blaðsins, sem leyfir vafasömum aðilum að valsa um síður blaðsins og er svo lengi að koma sér að verki við að reka þá, þegar bent er á vinnubrögð, sem ekki samræmast góðri venju. Ritstjóri tímarits ritstjóra, Greg Mitchell, hefur því gagnrýnt New York Times harðlega.

MÁL ÞESSI eru sérstaklega vandræðaleg fyrir þá sök, að fréttir Miller um atómvopn Saddam Hussein voru mikilvægur liður í tilraunum Bandaríkjastjórnar til að komast í stríð gegn Írak á upplognum forsendum. Eftir fall NYT er spurt, hvaða miðlum sé yfirleitt hægt að treysta í Bandaríkjunum.

DV

Dómgreindarskertir ráðherrar

Punktar

ÞORGERÐUR Katrín Gunnarsdóttir og Árni Mathiesen ráðherrar slettu 150 milljónum króna í víkingasetur í Reykjanesbæ, þótt slíkt setur sé á fullu í Hafnarfirði, einkarekið. Nær hefði verið að efla víkingaferðaþjónustu í Hafnarfirði.

ÞETTA KALLAR á fjárfestingu einkaaðila í Reykjanesbæ í samkeppni við fjárfestinguna í Hafnarfirði og rýrir verðgildi fjárfestingarinnar á síðari staðnum. Ráðherrarnir eru að nota ríkið til að trufla gangverk einkaframtaksins.

ÞEGAR ÞORGERÐUR Katrín kemur með tíu þumalputta og fjögur handabök inn á markaðinn, er það auðvitað ekki frjálshyggja og ekki heldur markaðshyggja. Það er gamla ríkisforsjáin, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur raunar rekið frá ómunatíð.

EF RÍKIÐ HEFUR ráð á að sletta 150 milljónum í víkingaþátt ferðaþjónustunnar, áttu peningarnir auðvitað að fara á þann stað, sem kominn var fyrir löngu í gang, í Hafnarfjörð. Þar eiga að koma innviðir, sem einkaframtakið ræður illa við.

SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN hefur margsannað, að hann er ekki flokkur einstaklingsframtaks, heldur flokkur embættismanna, sem taka ríkisforsjá fram yfir einkaframtak. Afskipti ráðherranna eru skýrt dæmi um þennan hornstein flokksins.

ERFITT ER AÐ flokka þessa stefnu flokksins. Hún er ekki beinlínis kommúnismi og ekki heldur beinlínis fasismi, þótt hún fari nálægt hvoru tveggja. Þetta er sérstök ríkisdýrkun, sem hefur verið einkenni yfirstéttar landsins um aldabil.

HITT ER SVO athugunarefni, hvort ríkisdýrkunin sé ekki í þessu máli blönduð dómgreindarskorti. En kannski gleyma Hafnfirðingar fljótt kveðjunni frá ráðherrunum. Það væri Hafnarfjarðarbrandari.

DV

Lággjaldaflugið

Punktar

Gott er, að Iceland Express fari úr sæng Flugleiða. Það kann ekki góðri lukku að stýra, að lággjaldaflugfélag sé í slagtogi með hefðbundnu flugfélagi, sem rekur flug á sömu leiðum. Um þetta gilda markaðslögmálin. Slagtogið eykur fáokun og þrýstir lágum fargjöldum upp. Þannig reyndi BA að reka Go og seldi það síðan til Easyjet, þar sem það átti heima. Nú er Iceland Express til sölu og fær vonandi góðan kaupanda, því ekki er gott að treysta á, að erlend flugfélög af slíku tagi hafi þolinmæði til að halda úti Íslandsflugi til Kaupmannahafnar og London tvisvar á hverjum degi.

Einkalífið

Punktar

Það er sérstakt áhugamál dólga af ýmsu tagi að víkka hugtak einkalífsins og láta það ná yfir opinber mál, þar á meðal hneyksli. Þannig telur utanríkisráðuneytið, að útgáfa þess á diplómatapössum sé einkamál viðkomandi gæludýra. Stefnan nýtur stuðnings Persónuverndar, sem eindregið stefnir að minna gegnsæi í þjóðfélaginu og um leið að minna lýðræði. Þessi einkalífsstefna er líka stutt af blaðamannafélaginu, sem hefur sér siðanefnd, er leggur alla áherzlu á, að allir séu góðir við alla og að enginn verði sár af fréttum, en kærir sig kollótta um, hvort fjölmiðlar segi rétt frá.

Jólahlaðborðin

Punktar

Nú er Airwaves búið og síðustu útlendingarnir farnir. Eftir standa auð veitingahús borgarinnar, því að Íslendingar eru tregir til að fara út að borða, án þess að boðið sé upp á tómatsósu og sinnep. Gamalreynd aðferð veitingamanna við að bæta stöðuna er að bjóða á þessum tíma upp á jólahlaðborð, þar sem Íslendingar geta étið á sig gat fyrir fast verð. Eftir mánaðamótin verður leitun að hefðbundnu veitingahúsi, sem býður eitthvað annað en jólahlaðborð. Þangað flykkjast klúbbar og starfsbræður. Því er fyrirkvíðanlegur tími framundan hjá þeim, sem telja sig eiga betra skilið í mat.

Leynilegir diplómatar

Punktar

DIPLÓMATAPASSAR eru ekki leyndó hér á landi, af því að biskupinn yfir Íslandi og aðstoðarmaður forsætisráðherra hafi slíka passa. Utanríkisráðuneytið og útlendingaeftirlitið væru ekki í keng út af málinu, ef eingöngu slíkir menn hefðu sloppið gegnum nálarauga skilgreiningar á diplómötum.

ÖNNUR ÁSTÆÐA er fyrir því, að utanríkisráðuneytið lofaði fyrst og neitaði svo að afhenda DV lista yfir fólk, sem hefur annað hvort diplómatapassa eða þjónustuvegabréf. Það er sama ástæðan og er fyrir því, að utanríkisráðuneytið og útlendingaeftirlitið vísa hvort um sig á hitt í málinu.

Í UNDANBRÖGÐUM ráðuneytisins er vísað til þess, að það höggvi nærri einkamálum fólks að upplýsa, hvort það hafi diplómatapassa. Af öllum langsóttum túlkunum á einkalífi fólks, þar með töldum túlkunum Persónuverndar, er þetta lengst sótti skilningurinn á mikilli viðáttu einkalífsins.

KENGUR RÁÐUNEYTISINS stafar af, að óviðkomandi einstaklingar hafa fengið diplómatapassa, pólitísk gæludýr úti í bæ, sem telja henta sér að hafa slíka passa, ef þeir lenda í erfiðleikum í útlöndum. Málið er viðkvæmt, af því að á listanum eru nöfn, sem eiga ekkert efnislegt erindi á hann.

DV HEFUR KÆRT neitun utanríkisráðuneytisins til úrskurðarnefndar upplýsingalaga. Sú nefnd veltir því nú fyrir sér, hvort útgáfa diplómatapassa til óviðkomandi aðila sé einkamál þeirra, eða hvort það sé opinbert mál, sem varði opinberar stofnanir og samskipti Íslands við erlend ríki.

SVONA ER ÍSLAND í dag, í árslok 2005. Löngu eftir að fundið var upp lýðræði og gegnsæi í pólitík, þurfa opinberir aðilar að velta því fyrir sér, hvort utanríkispólitískt mál sé einkamál gæludýra úti í bæ.

DV

Gamalt fólk mætir afgangi

Punktar

GÍSLI Sigurbentsson dó einn og yfirgefinn í Bjarnaborg og hafði verið látinn í tvær vikur, þegar menn áttuðu sig. Eins og svo margt gamalt fólk var hann utanveltu í þjóðfélaginu, vingjarnlegur maður, sem átti ekki ættingja á svæðinu.

GAMALT fólk er afgangur í þjóðfélaginu. Á Sólvangi eru sums staðar 20 sentimetrar milli rúma. Þangað kemur fólk úr íbúðum og húsum og fær bara til ráðstöfunar rúm og hillu. Við erum langt frá því markmiði, að hver hafi sitt herbergi.

EFTIR áratug verður ástandið betra. Þá verður þorri fólks búinn að safna sér bærilegum ellilaunum í lífeyrissjóði. Nú eru margir, sem verða að láta sér nægja ellistyrkinn frá ríkinu, sem dugir alls ekki fyrir neinu sjálfstæði í lífinu.

ALLIR þurfa reisn, líka gamla fólkið. Það á ekki að búa við eina hillu undir eigur sínar í sambýli eða að þurfa að deyja í einsemd í eyðimörk borgar, sem vill verða heimsborg og hefur hvorki pláss né tíma fyrir fólk frá liðinni öld.

VIÐ ERUM nógu rík til að brúa bilið fyrir fólk, sem ekki hefur safnað í sjóði eða á erfitt með að nálgast hjálp, sem stendur til boða. Við erum líka nógu fá til að samþykkja, að hver einstaklingur komi okkur við, þótt hann sé utangátta.

HRÆSNIN stjórnar samt gerðum okkar og stjórnmálaflokkanna. Fínir herrar semja ályktanir um skipun velferðarnefnda og fara síðan og rækta ágirndina, sem er orðin sú dauðasynd, sem við ræktum hvað ákafast í hagkerfi hins villta vesturs.

DV

Verðbólgan er víst 10%

Punktar

ÞAÐ ER RANGT, sem fræðimenn og fjölmiðlar segja, að verðbólgan sé 4%. Það er rangt, ef litið er til þriggja síðustu mánaða. Þá er verðbólgan 10%, en ekki 4%. Lága talan finnst með því að reikna heilt ár aftur í tímann.

Í FLESTUM vestrænum löndum færi allt á hvolf, ef þriggja mánaða verðbólgustig næmi 10%. Ekki hér. Seðlabankinn reynir að vísu að andæfa með sífellt hækkuðum stýrivöxtum, en hættir því sennilega, þegar Davíð Oddsson tekur stjórnina.

RÍKISSTJÓRNIN talar bara um velmegun og þenslu. Víst er rétt, að fullur gangur er á þjóðfélaginu, meðal annars vegna framkvæmda við orkuver og álver. Skuggahliðin á þessum árangri er, að verðbólgan hefur farið úr skorðum.

GÓÐ ER SÚ hagstjórn talin, sem heldur verðbólgu innan við 2% á heilu ári. 10% verðbólga er himinhátt yfir þeirri góðu hagstjórn. Hún sýnir úfinn haus sinn á greiðsluseðlum húsnæðislána, þar sem vextir hækka og höfuðstóllinn hækkar.

ÖNNUR MYNDBIRTING verðbólgunnar er, að kjarasamningar verða lausir um áramótin, af því að ríkisstjórnin hefur ekki staðið við sinn þátt, hefur leyft verðbólgunni að fara af stað í skjóli þess, að atvinnuástand sé gott.

FÓLK Á MIÐJUM aldri man eftir verðbólgunni, sem skekkti allt verðskyn fyrir nokkrum áratugum. Það var vondur tími, sem fæstir vilja kalla yfir sig aftur. Þess vegna verður ríkisstjórnin að grípa þegar í taumana á verðbólgunni.

jonas@dv.is

DV

25% þak á eign

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn hefur rofið sátt þingflokka um 25% þak á eignaraðild fjölmiðla. Í kjölfar herskárrar ræðu greifans á landsfundi flokksins hafa nýr formaður og varaformaður heimtað lækkað hámark. Mikill hvellur varð á Alþingi út af þessari stefnubreytingu. Hins vegar er ekki ljóst, hver er töfraprósentan, sem að mati þjóðfélagsins á að vera bezt fyrir notendur fjölmiðlanna. Verða þeir betri vegna sértækra laga um eignarhald, verða þeir beztir við 25% eða við aðra tölu? Allt eru þetta tölur, sem dylja þá staðreynd, að gæði fjölmiðlunar fara ekki eftir prósentureikningi pólitíkusa.

Keflavíkurvöllur

Punktar

Samningar Bandaríkjanna og Íslands um skiptingu kostnaðar við Keflavíkurflugvöll hafa siglt í strand. Svo mikið ber á milli, að samninganefnd Íslands treysti sér ekki til að ræða bandarískar tillögur og neitaði að mæta á fund. Það er gott, að embættismenn vorir séu harðir í horn að taka. Á endanum er þó ekki til nema ein lausn á þessu máli. Hún verður að hafa tvennt í huga. Annars vegar hefur hernaðarlegt gildi vallarins horfið. Hins vegar er sanngjarnt að hvert ríki borgi sinn kostnað. Það getur aldrei gengið til lengdar, að við getum sníkt hluta rekstrarkostnaðarins af öðru ríki.