Leynilegir diplómatar

Punktar

DIPLÓMATAPASSAR eru ekki leyndó hér á landi, af því að biskupinn yfir Íslandi og aðstoðarmaður forsætisráðherra hafi slíka passa. Utanríkisráðuneytið og útlendingaeftirlitið væru ekki í keng út af málinu, ef eingöngu slíkir menn hefðu sloppið gegnum nálarauga skilgreiningar á diplómötum.

ÖNNUR ÁSTÆÐA er fyrir því, að utanríkisráðuneytið lofaði fyrst og neitaði svo að afhenda DV lista yfir fólk, sem hefur annað hvort diplómatapassa eða þjónustuvegabréf. Það er sama ástæðan og er fyrir því, að utanríkisráðuneytið og útlendingaeftirlitið vísa hvort um sig á hitt í málinu.

Í UNDANBRÖGÐUM ráðuneytisins er vísað til þess, að það höggvi nærri einkamálum fólks að upplýsa, hvort það hafi diplómatapassa. Af öllum langsóttum túlkunum á einkalífi fólks, þar með töldum túlkunum Persónuverndar, er þetta lengst sótti skilningurinn á mikilli viðáttu einkalífsins.

KENGUR RÁÐUNEYTISINS stafar af, að óviðkomandi einstaklingar hafa fengið diplómatapassa, pólitísk gæludýr úti í bæ, sem telja henta sér að hafa slíka passa, ef þeir lenda í erfiðleikum í útlöndum. Málið er viðkvæmt, af því að á listanum eru nöfn, sem eiga ekkert efnislegt erindi á hann.

DV HEFUR KÆRT neitun utanríkisráðuneytisins til úrskurðarnefndar upplýsingalaga. Sú nefnd veltir því nú fyrir sér, hvort útgáfa diplómatapassa til óviðkomandi aðila sé einkamál þeirra, eða hvort það sé opinbert mál, sem varði opinberar stofnanir og samskipti Íslands við erlend ríki.

SVONA ER ÍSLAND í dag, í árslok 2005. Löngu eftir að fundið var upp lýðræði og gegnsæi í pólitík, þurfa opinberir aðilar að velta því fyrir sér, hvort utanríkispólitískt mál sé einkamál gæludýra úti í bæ.

DV