Birtir rugl í kippum

Punktar

NEW YORK TIMES er í miklum vanda í annað skipti á skömmum tíma. Í fyrra var blaðið staðið að því að birta skáldaðar greinar eftir Jayson Blair. Nú hefur komið í ljós, að blaðið hefur líka haldið verndarhendi yfir Judith Miller, sem skrifaði margar upplognar fréttir frá stjórnvöldum.

HÚN SKRIFAÐI meðal annars fréttir úr varnarmálaráðuneytinu um meint atómvopn í Írak samkvæmt heimildum heimsfrægs glæpamanns frá Írak, Amad Chalabi, svo og róg úr embætti varaforsetans um starfsmann leyniþjónustu Bandaríkjanna. Sá rógur er talinn jaðra við landráð Cheney varaforseta.

MILLER FÓR í fangelsi, að því að hún vildi ekki segja, hverjir voru heimildarmenn hennar. Yfirmenn hennar skrifuðu greinar henni til varnar. Nú hefur hið sanna komið í ljós og einstakir yfirmenn blaðsins eru farnir að biðjast afsökunar, þótt blaðið hafi ekki enn mannað sig upp í að gera það.

BILL KELLER ritstjóri, Maureen Dowd dálkahöfundur og Byron Calame, umboðsmaður lesenda, hafa beðist afsökunar, en Judith Miller hefur ekki verið rekin enn og blaðið hefur ekki birt afsökunarleiðara, eins og búist hafði verið við. Voldugt goð fjölmiðlunar riðar nú til falls af stalli.

MÁLIN SÝNA slaka ritstjórn blaðsins, sem leyfir vafasömum aðilum að valsa um síður blaðsins og er svo lengi að koma sér að verki við að reka þá, þegar bent er á vinnubrögð, sem ekki samræmast góðri venju. Ritstjóri tímarits ritstjóra, Greg Mitchell, hefur því gagnrýnt New York Times harðlega.

MÁL ÞESSI eru sérstaklega vandræðaleg fyrir þá sök, að fréttir Miller um atómvopn Saddam Hussein voru mikilvægur liður í tilraunum Bandaríkjastjórnar til að komast í stríð gegn Írak á upplognum forsendum. Eftir fall NYT er spurt, hvaða miðlum sé yfirleitt hægt að treysta í Bandaríkjunum.

DV