Punktar

Trúarlin Evrópa

Punktar

Þegar Póllandi losnaði undan oki kommúnismans árið 1989 báru 92% Pólverja
traust til kaþólsku kirkjunnar. Það hefur nú fallið niður í 46% og lækkar
enn. Þetta þýðir, að ofurtrúuð Bandaríkin hafa þar minna fylgi en þau
héldu. Austur-Evrópa er að verða eins vantrúuð og Vestur-Evrópa. Í
Frakklandi og Hollandi er íslam að verða útbreiddasta trúin. Því er von, að
mönnum í Evrópu hætti að verða um sel og vilji stöðva stefnu fjölmenningar.
Gjá er milli trúarofstækismanna í Bandaríkjunum og múslima annars vegar og
hins vegar Evrópumanna, sem vilja leiða trúarbragðadeilur hjá sér.

Brezku fjöldamorðin

Punktar

HVORKI STALÍN né Hitler eiga metið í fjöldamorðum, ekki heldur Maó formaður. Stalín og Hitler komust hvor um sig upp í 17 milljón manns. En þeir eiga samt ekki heimsmetið og enn síður Djengis Kan eða Tímúr halti eða Mustafa Kemal Atatürk.

MESTI FJÖLDAMORÐINGI heimsins er Benjamin Disraeli, sem var forsætisráðherra Bretlands árin 1874-1880, þegar brezki herinn drap 27 milljón manns í Indlandi með því að þröngva hungursneyð upp á landið, samkvæmt fyrirmælum frá Disraeli.

MIKE DAVIS hefur skrifað bók um þessa hungursneyð. Lytton lávarður kom henni af stað með því að gera allt korn í Indlandi upptækt og koma því til Bretlands. Þegar bændur fóru að deyja úr sulti, var hernum beitt gegn hjálparstarfi.

ÞEGAR MILLJÓNIR voru dauðar úr hungri, var restin af fólkinu rukkuð um ógreidda skatta hinna hungurdauðu. Lífsbjörgin var tekin af því, svo að það gæti líka dáið úr hungri. Þarna voru ekki Stalín og Hitler að verki, heldur brezkur lord.

ÞAÐ ER SVO fróðlegur eftirmáli, að hungursneyðir voru árvissar í Indlandi á valdatíma Breta. Þær lögðust síðan niður, þegar landið varð sjálfstætt, því að Indland er í sjálfu sér ríkt land með frjósömum landbúnaðarhéruðum.

ÉG VAR Í DELHI og hlustaði á nóbelshagfræðinginn Amartya Sen ræða um hungursneyðir í heiminum. Niðurstaða hans af dæmum frá fjölda landa var, að þar sem er frjáls pressa, þar verður ekki hungursneyð. Enda eru slíkar enn á ferð í Kína.

Í BÓK DAVIS er fjallað um tuttugu mismunandi fjöldamorð brezkra stjórnvalda, svo sem í Kenía, Tasmaníu, Malaja, Oman og Norður-Jemen. Um þau var auðvitað ekki fjallað í brezku heimspressunni. En Bretar eru heimsmeistarar fjöldamorða.

DV

Undirballans

Punktar

Heimsveldi fyrri alda hrundu, þegar herkostnaður varð hærri en tekjur af herfanginu. Róm blómstraði, meðan það sigraði Hellas og Egyptaland, en hrundi, þegar ekkert var að hafa af fátækum villimönnum. Sumir stjórnmálaskýrendur segja, að nú sé sama uppi á teningnum. Hernaðarævintýri Bandaríkjanna í þriðja heiminum eru orðin margfalt dýrari en hugsanlegur ávinningur í aðgangi að olíu. Bandaríkin halda uppi dátum og dóti um allan heim, borga eftirlaun og örorku, fitla við að endurreisa sprengdar borgir, en geta ekki stolið mikilli olíu upp í kostnaðinn. Á þessu er hrikalegur undirballans.

Blautt konfekt

Punktar

Máttarvöld svefnbæja umhverfis Reykjavík eru í vanda við að gleðja starfsfólk leikskóla án þess að hækka það í launum eins og Reykjavík. Gunnar Birgisson í Kópavogi sendi sínu blautt konfekt og Jónmundur Guðmarsson á Seltjarnarnesi sendi sínu gjafakort í Kringluna. Ekki verður þess vart, að skap starfsfólks hafi mildazt við gjafirnar. Á Nesinu heimtaði annað starfsfólk bæjarins að fá líka slík kort, svo að Jónmundur lenti í vandræðum með málið. Ekki er tekið út með sældinni þessa dagana að vera með blautt konfekt á vegum Sjálfstæðisflokksins í forsvari fyrir sveitarfélög.

Umburðarlyndi

Punktar

Lögreglan sýnir ofbeldi vaxandi umburðarlyndi, telur sig sennilega ekki ráða við þekkta flokka, sem fara sínu fram án þess að óttast viðbrögð lögreglunnar. Fazmo er ein af þessum klíkum, sem hossar sér á veraldarvefnum. Kannski er ráð, að taka löggæzluna af löggunni og fela hana Fazmo. Þar virðast menn ekki hafa spillt umburðarlyndi löggunnar, lemja til dæmis Sveppa í götuna fyrir að vera með stjörnustæla og frekju á almannafæri. Kannski verður almenningi fært um miðborgina að næturlagi eins og um aðrar miðborgir heimsins, ef Fazmo og aðrar klíkur fá að taka við af andvana löggunni.

Gleyma afrekum sínum

Punktar

HEILSÍÐU auglýsing Framsóknarflokksins segir okkur, að flokkurinn fylgi okkur frá vöggu til grafar, allt frá hönnunarmiðstöð um vaxtarsamninga til lýðheilsu, hvað sem öll þessi hugtök þýða. Stóri bróðir hefur ætíð séð um þig.

LISTI AFREKA Framsóknarflokksins er þó ekki tæmandi. Þar vantar ein mestu tímamót Íslandssögunnar, þegar Halldór Ásgrímsson ákvað með samþykki Davíðs Oddssonar að fara í beint stríð gegn Afganistan og óbeint stríð við Írak.

ENGINN VAR í tæka tíð spurður álits á afreki Halldórs og ekki var neinn spurður, er hann ákvað að láta fínimannsleiki sína erlendis ná hámarki í sendiherrum í öðru hverju krummaskuði og í vonarsæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

KANNSKI VILL Framsókn ekki kannast við afrek formanns síns í útlöndum. En einnig vantar helztu afrekin hér heima fyrir, þegar Framsókn með Halldór og Valgerði Sverrisdóttur í broddi fylkingar ákváðu að virkja friðland Þjórsárvera.

ENGUM BLÖÐUM er um það að fletta, að Kárahnjúkavirkjun var landráð, sem fleiri komu að en ráðherrar Framsóknar, til dæmis Samfylkingin og Reykjavíkurlistinn. Enn verri eru þau landráð, sem Framsókn fyrirhugar í heimsfrægum Þjórsáverum.

EKKI SKULU nefnd mörg fleiri afrek, sem hvergi eru talin upp í auglýsingu flokksins, aðeins nefna, að ekki er þar minnst á, að frá upphafi til dagsins í dag hefur Framsókn tekið þrönga sérhagsmuni í landbúnaði fram yfir almannahagsmuni.

KOSNINGABARÁTTA Framsóknar er hafin með auglýsingu þessari, þótt hálft annað ár sé til næstu þingkosninga. Nokkuð snemmt er að telja fólki trú um, að Framsókn sé aðeins í sætum smámálum á borð við hönnunarmiðstöð og vaxtarsamninga.

NÆGUR TÍMI verður til að rifja upp fínimannsleiki Halldórs í útlöndum og landráð hans við Þjórsárver.

DV

Þorskurinn er að hrynja

Punktar

NÆSTUM ER búið að eyða botnfiski í Norður-Atlantshafinu samkvæmt fjölþjóðlegri rannsókn, sem sagt er frá í nýjasta hefti Nature. Síðan þorskveiðar fóru að gefa sig hefur áhugi sjávarútvegs beinzt að öðrum tegundum, með sömu afleiðingum.

BREZKA BLAÐIÐ Independent minnir á nokkrar tölur í þessu samhengi. Hlutfall þorsks, sem er yfir fimm ára, er 0.5% og hlutfall þorsks, sem er minna en tveggja ára, er 90%. Þetta segir okkur, að við erum smám saman að útrýma þorskinum.

SAMKVÆMT rannsókninni er allur botn Norðursjávar skrapaður að minnsta kosti einu sinni á ári. Þannig vinna togarar með botnvörpu. Þeir skrapa botninn og spilla heimkynnum fiska. Þetta hefur lengi verið vitað, en menn vilja ekki ræða það.

ÞORSKAFLI í heiminum hefur minnkað á hálfri öld úr 2,1 milljón tonna í 0,6 milljón tonn. Á íslenzkum miðum er ástandið ekki eins vont, en stefnir í sömu átt. Kvótakerfi og aflatakmarkanir hafa ekki bjargað íslenzka þorskinum.

HÉR Á LANDI hafa kvótakóngar og hafrannsóknastofnun, talsmenn sjávarútvegs í pólitík og sjávarútvegsráðherrar montað sig af öryggiskerfum, sem eiga að hindra hrun fiskistofna. Þorskfiskarnir eru samt farnir að hrynja.

SEM BETUR FER lifum við ekki lengur á fiskveiðum og þurfum til dæmis ekki lengur að falsa gengi krónunnar til að gefa kvótakóngum aukapening. Samt tuða þeir og talsmenn þeirra enn um of hátt krónugengi og of litlar aflaheimildir.

REYNSLAN VIÐ austurströnd Kanada sýnir, að séu þessir aðilar of aðgangsharðir við þorskinn, hrynur stofninn og nær sér ekki upp aftur, þótt miðin séu friðuð. Eins getur sagan orðið hér á landi. Við vitum þá, hverjum var um að kenna.

DV

Grínast með þig

Punktar

Fyrsta gjaldskrá hinna sjálfstæðu og óháðu fyrirtækja í orkudreifingu hefur litið dagsins ljós. Orkuveitan í Reykjavík býður 2000 kílóvattstundir á ári á 8068 krónur, Hitaveita Suðurnesja býður sömu orku á 8093 krónur, Orkuveita Húsavíkur á 8010 krónur og Rafmagnsveitur ríkisins á 8093 krónur. Önnur tilboð eru örlítið hærri. Þetta virðist vera enn minni munur en er á benzíni í fáokun olíufélaganna. Markaðsvæðing rafmagnsins virðist lúta sama lögmáli og olíunnar, verið er að gera stólpagrín að almenningi. Fáokunin á báðum sviðum er alveg eins og einokunin var.

Meðtekið af fortíð

Punktar

Morgunblaðið er meðtekið af fortíð sinni og tengslum hennar við sögu þjóðarinnar. Blaðið hefur ekki náð sér eftir nóbel Hannesar, afsakið Halldórs Laxness. Blaðið er enn að velta vöngum yfir, hvort Gunnar Gunnarsson hefði ekki átt að fá nóbel, til dæmis með Halldóri Laxness. Einkum reynir blaðið að velta upp þeim fleti, að nokkrir rætnir Íslendingar hafi rekið áróður fyrir því, að Halldór yrði tekinn fram yfir Gunnar. Meðal þess, sem sérfræðingur blaðsins telur Gunnari til ágætis, er, að Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson mundu heldur hafa kosið þá útkomu. Allt er þetta lítt áhugavert.

Sanngjörn laun

Punktar

Mér finnst í lagi, að forsætisráðherra hafi milljón krónur á mánuði og þingmenn hálfa. Mér finnst í lagi, að forsetinn hafi hálfa aðra á mánuði og launaðir forstjórar bezt reknu fyrirtækjanna fari upp í tvær milljónir á mánuði. Þessi stuðningur er þó háður því, að ellilaun og örorkubætur séu hundrað þúsund á mánuði og lágmarkslaun tvöhundruð þúsund krónur. Tölur umfram þessar upphæðir skera í augu, einkum starfslokasamningar fólks, sem fyrirtækja telja sig þurfa að losna við. Beinlínis er ósiðlegt að forstjóri fái milljón á mánuði til æviloka fyrir fimm mánaða forustuhlutverk.

Öld umhverfis

Punktar

Umhverfisógn verður langtímavandi heimsmálanna á nýja árinu og í auknum mæli á hverju ári þessarar aldar. Mannkynið stefnir að því að útrýma sjálfu sér eins og frændur okkar Grænlendingar útrýmdu sjálfum sér með því að þrjózkast við að stunda þar kvikfjárrækt. Kyoto-bókunin um skorður við útblæstri gróðurhúsalofttegunda hefur gert nokkuð gagn, þótt ýmis Evrópuríki séu 5% frá markmiðum sínum. Á því sviði leikur Ísland lausum hala með hverju álverinu á fætur öðru. Verra er þó ástandið í Bandaríkjunum, sem eiga fjórðung af öllum skítnum og Bush segist ekki hafa ráð á mengunarvörnum.

Ár Persíu

Punktar

Persía verður brýni vandi heimsmálanna á nýja árinu. Vinir hennar og trúbræður hafa unnið kosningarnar í Írak. Þeir munu byggja upp ofstækisríki í suðurhluta landsins, svipað ríki og Amadinejad forseti hefur verið að efla í Persíu. Hann er leynt og ljóst að gera ríkið að kjarnorkuveldi, sem mun auka spennuna í Miðausturlöndum, þar sem Persía verður mótvægi við Ísrael. Amadinejad neitar að viðurkenna helför Gyðinga. Bandaríkin munu enn síður ráða við Persíu en Írak, því að landið er stærra og fjölmennara og ágreiningur í trúmálum nánast enginn, öfugt við flokkadrættina í Írak.

Vetur Íslams

Punktar

Múslimar hafa hátt víða í Evrópu á þessum vetri. Eftir dráp þeirra á hollenzka kvikmyndastjóranum Theo van Gogh, virðast þeir hafa fært sig upp á skaftið. Þeir mótmæltu birtingu skrípamynda af Múhameð spámanni í Jyllandsposten, þótt vestrænar hefðir heimili, að gert sé grín að trú manna, til dæmis að Jesú Kristi. Menningarritstjóri Jyllandsposten fer nú huldu höfði í Florida til að forðast tilræði múslima. Þetta ferli gengur ekki lengur. Ef múslimar vilja búa á Vesturlöndum, verða þeir að sætta sig við siði og venjur vestrænna ríkja. Þeir verða annars að vera heima hjá sér.

Bezt og mest um áramót

Punktar

GÁFAÐASTA kenning stjórnmála liðins árs er, að Davíð Oddsson hafi dáið út úr pólitíkinni eins og Kristur á krossinum til að friðþægja fyrir syndir Sjálfstæðisflokksins. Eftir standi flokkurinn og nýr formaður hans syndlaus og forkláraður.

MERKASTA uppgötvun áramótanna er, að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra hefur síðastur allra Íslendinga uppgötvað, að hátt matarverð sé á Íslandi og ætlar að skipa nefnd í málið. Við hin höfum vitað um verndun búvöru í áratugi.

LENGSTA kosningastríð í sögunni er hafið. Ráðherrar, sem leynt og ljóst hafa ofsótt gamalmenni og öryrkja með hugvitsamlegum hætti í meira en áratug ætla nú að finna, hver sé vandi þeirra og laga það fyrir næstu kosningar.

LEIÐINLEGASTA kryddsíld sögunnar var háð í sjónvarpinu á gamlársdag. Allur vindur er úr pólitík skekinn, síðan Davíð Oddsson kýldi menn út og suður. Nú voru allir formenn meira eða minna í sama flokki og hrósuðu hver öðrum í hástert.

FRUMLEGASTA stjórnmálakenning liðins árs er skipting Matthíasar Johannessen ritstjóra á auðvaldi landsins í gott og vont. Gott auðvald var Kolkrabbinn, sem elskaði Matthías á hans tíma og vont auðvald keppir nú við Morgunblaðið.

SKEMMTILEGASTA ritdeila ársins er ágreiningur Hallgríms Helgasonar rithöfundar og Egils Helgasonar álitsgjafa um stöðu Moggans í tilverunni. Þar tókust á þeir tveir, sem bezta stjórnmáladálka skrifa um þessar mundir. Meira, takk.

DV

Í faðmi handrukkarans

Punktar

ÉG BÝ Á Seltjarnarnesi. Þar grípur fólk til sinna ráða, ef það líkar ekki gangur mála. Menn fara úr flokkspólitískum álögum og taka saman höndum um að gera bæinn betri. Við mundum reka af okkur glæpamenn, ef þeir settust þar að.

ÞANNIG VAR endur fyrir löngu stofnað ofnavinafélag til að knýja bæjaryfirvöld til að taka á saltvanda í hitaveitunni. Þar var stofnað félag til að stöðva byggð á óbyggðum svæðum á Valhúsahæð og við Nesstofu og nú síðast við Valhúsaskóla.

ÖNNUR VIÐHORF eru í Vogunum, þar sem almenningur virðist ánægður með að hafa þar verst ræmda handrukkara landsins. Með oddvitann í broddi fylkingar hafa íbúarnir selt sér þá firru, að þeir hvíli þar í öruggum faðmi Annþórs Karlssonar.

TIL GLÖGGVUNAR fólki er rétt að minna á, að Annþór vílaði ekki fyrir sér að misþyrma sjúklingi í rúmi með járnröri og tók fjölskyldu í gíslingu af því að sonurinn þekkti mann, sem Annþór taldi skulda sér fé. Fyrir þetta var hann dæmdur.

MUNURINN Á þessum tveimur sveitum er, að á Seltjarnarnesi ríkir eins konar “zero tolerance”, algert umburðarleysi gagnvart vandamálum, meðan í Vogunum ríkir þetta spillta umburðarlyndi, sem stundum er talið íslenzkt þjóðareinkenni.

MÉR FINNST skelfilegt að vita til þess, að oddvitinn í Vogunum sé þingmaður Samfylkingarinnar. Ég vildi ekki bera með atkvæði mínu ábyrgð á þingsetu hans. Ég held, að hann sé firrtur með sama hætti og umburðarlyndir íbúar í Vogunum.

ÞJÓÐFÉLAG GROTNAR að innan, ef menn taka upp á því að hugsa eins og Jón Gunnarsson oddviti og sveitungar hans þeir, sem trúa, að refurinn skíti ekki við grenið, og telja sig geta flutt vandamálið í aðrar sveitir með búsetu handrukkarans.

VOGAR HAFA skipulagt lóðir fyrir aðflutta. Ég efast um, að nokkur Seltirningur vilji fara þangað í faðm Annþórs. Og mér dytti sjálfum aldrei í hug að flytja í slíkt samfélag.

DV