Punktar

Eilíf illindi

Punktar

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra er ekki maður sátta og samninga. Hann þrífst þvert á móti á illindum. Ef hann á kost á sáttum, velur hann alltaf stríðið. Nýjasta dæmið um þetta er vændið. Hann leggur fram um það sérstakt frumvarp, meðan þverpólitískt nefnd er að búa til annað frumvarp. Bloggsíða hans einkennist af hundalógík og hroka. Hann telur, að hans menn hafi ætíð rétt fyrir sér og allir aðrir alltaf rangt, þar á meðal Framsókn. Winston Churchill sagðist þó vera heppinn, ef hann hefði rétt fyrir sér í annað hvert skipti.

Án útboðs

Punktar

Samningur Hveragerðis við verktakann Eykt um að afhenda honum án útboðs lungann úr byggingarlandi bæjarins er hrokafyllsti gerningur vetrarins. Haldnir hafa verið borgarafundir um málið og vinstri meirihluti bæjarstjórnar hvattur til að bera samninginn undir bæjarbúa við kosningar í vor. Ekkert hefur bitið á honum. Í gærkveldi staðfesti hann samninginn við Eykt. Markaðslögmálin segja, að svona mikil verðmæti eigi að bjóða út og fá hæsta verð, en ekki afhenda einum allt gotteríið. Svona vinnubrögð hvetja til spillingar.

Krossferðin

Punktar

Gamli álitsgjafinn Greenway segir í Boston Globe í morgun, að uppþotin gegn dönsku teikningunum af Múhameð stafi meðal annars af reiði múslima yfir aukinni aðild Evrópu, einkum Danmerkur, að ofbeldi Bandaríkjanna í löndum múslima. Evrópusambandið hefur hreytt ónotum í Hamas fyrir að sigra í kosningunum í Palestínu, Atlantshafsbandalagið er að taka við hernámi Afganistans, með aðild Íslands. Þótt almenningur í Evrópu sé andvígur þessu stríðsbrölti, hafa ríkisstjórnir í Evrópu beint og óbeint stutt krossferð Bandaríkjanna.

Frí símtöl

Punktar

Í gær samdi Skype við gemsafyrirtækið 3 um samstarf um rekstur talþjónustu á netinu víða um Evrópu, þar á meðal í Bretlandi. Brezka blaðið Guardian segir í dag, að þetta muni þýða ókeypis símtöl í Bretlandi, innan lands og utan, eftir tvö ár. Eftir það borgi menn bara hóflegt fastagjald, sem feli í sér ótakmörkuð símtöl. Fagmenn hafa notað Skype, svo sem íslenzkir, en almannanotkun byggist á einfaldari meðferð þessara símtala. Gemsafyrirtækin hafa forskot fram yfir gömlu símafyrirtækin, þurfa ekki að greiða niður gömul staðarnet.

Langa stríðið

Punktar

Bandaríska stríðsráðuneytið hefur gefið út stóra skýrslu og endurskilgreint baráttuna gegn skæruliðum, sem áður átti að vera stutta stríðið. Nú heitir hún “langa stríðið” og gerir ráð fyrir árásum út um allan heim, einkum á lönd múslima. Donald Rumsfeld stríðsráðherra telur Osama bin Laden stefna gegn bandarískum lífsgildum, en ekki bara gegn bandarískum her og leppum í löndum múslima. Þar með er búið að setja Laden á stall með Hitler og Stalín og staðfesta um leið, að bandarísk stríð séu krossferðir nútímans, barátta menningarheimanna.

Abbas svindli

Punktar

Svindlið miðast við að fá Mamúd Abbas forseta, sem er úr Fatah, til að misbeita valdi til að skipa sjálfur stjórnlagaþing og taka sjálfur við stjórn hersins, þótt ekki sé gert ráð fyrir því í stjórnarskránni. Þannig er ætlunin að gera Abbas að leppi fyrir Ísrael og Vesturlönd. Athyglisvert er, að stjórnarskrár í þriðja heiminum eru lítils virði að mati Evrópu og Bandaríkjanna, ef þær flækjast fyrir ráðagerðum frá gamla nýlendutímanum. Hætt er við, að einhvers staðar á þessari leið fatist flókin samsæri og komi vesturlöndum í koll.

Evrópa spili með

Punktar

Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið eru flækt í ráðagerðir Ísraels og Bandaríkjanna, því að Evrópu líkar ekki heldur við frjálsar kosningar, nema niðurstöðurnar séu passlegar. Rætt er um, að Abbas forseti geti misbeitt valdi sínu til að bregða fæti fyrir meirihluta Hamas. Evrópa ætlar að minnka stuðning sinn við Palestínu, þótt Hamas sé miklu minna spillt en Fatah var. Einnig er stefnt að því að komast yfir peninga, sem reynt er koma til Palestínu eftir öðrum leiðum. Það á að svelta Palestínumenn til að kjósa rétt.

Kosningar ógiltar

Punktar

Samkvæmt New York Times eru Bandaríkin og Ísrael að ræða leiðir til að ógilda frjálsar kosningar í Palestínu, sem Hamas vann. Stefnt er að nýjum kosningum eftir nokkra mánuði. Blaðið segir, að rætt sé um að frysta skatta, sem Ísrael innheimtir fyrir Palestínu og að frysta samskipti Palestínu við umheiminn. Við sjáum af þessu, að Bandaríkjastjórn telur frjálsar kosningar því aðeins góðar, að réttir aðilar vinni þær. Að þessu leyti er hún sama sinnis og harðstjórarnir í Alsír, sem ógiltu óþægilegar kosningar þar í landi.

Kína í fjórða sæti

Punktar

Kína er komið í fjórða sætið í heimsframleiðslu, hefur rutt Bretlandi og Frakklandi niður fyrir sig. Það er kannski ekki mikið miðað við ógnarlegan íbúafjölda Kína. En það er gott dæmi um, að þriðji heimurinn er farinn að láta til sín taka. Indland er ekki langt á eftir Kína með feiknarlegan hagvöxt ár eftir ár. Ásamt Malasíu eru þetta löndin, sem minnst mark tóku á ráðleggingum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans, sem boðuðu stórt stökk fram á við að hætti Maós formanns og rústuðu þar með námfús ríki á borð við Rússland og Argentínu.

Bandarískur halli

Punktar

Innflutningshalli á vörum og þjónustu nam í fyrra 6% af landsframleiðslu Bandaríkjanna. Þetta er fjórða ár vaxandi viðskiptahalla í röð. Ein afleiðingin er skuldasöfnun gagnvart útlöndum, sem síðan eykur hættu á kauphallarhruni. Dollarinn hefur þó ekki veikzt undanfarið, en hefur lengi haft lágt gengi gagnvart evru. Þótt hann hrynji ekki, eru Bandaríkjamenn að velta skuldavanda inn í framtíðina, fela börnum sínum og barnabörnum að borga eyðsluskuldirnar. Það er einkum Kína, sem heldur Bandaríkjunum á floti með því að safna dollurum.

Rítalín drepur

Punktar

Í Bandaríkjunum hafa rúmlega fimmtíu manns látizt af völdum rítalíns, geðlyfs, sem hér á landi er notað til að halda óþægum skólabörnum í skefjum, svo að hægt sé að halda uppi kennslu. Þetta voru fullorðnir og börn, sem dóu úr hjarta- eða heilabilun. Ráðgjafanefnd landlæknis í Bandaríkjunum hefur mælt með, að svartur viðvörunarmiði verði settur á pillubox með rítalíni. Þetta lyf er í rauninni amfetamín og ætti því að kveikja á aðgæzluljósum, þegar menn freistast til að gefa óþekktarormum pillur til að fá frið.

Einkarekinn sími

Punktar

Kostnaður við símtöl hrynur, þegar þau verða flutt á internetið. Hjá Telio í Noregi er farið að bjóða fólki ótakmörkuð símtöl innanlands og tvær og hálf klukkustund milli landa á mánuði fyrir samtals 1.500 krónur. Hér er netþjónusta fyrir síma þegar í boði hjá litlum fyrirtækjum og stórlaxarnir eru að setja sig í stellingar. Hrun símakostnaðar verður meiri háttar lífskjarabreyting án launahækkunar. Frelsun okkar frá ríkisrekstri í síma er að verða gleðileg andstæða við dýrseldan ríkisrekstur á rafmagni úr vatnsorku til heimilanna.

Ríkisrekið rafmagn

Punktar

Álið hefur ekki orðið að hluta atvinnulífsins hér á landi. Pottagerðinni í Þorlákshöfn var lokað. Allt ál er flutt út óunnið. Enginn markaður ræður útþenslu áliðnaðar, heldur byggist hann á ríkisrekinni hugsjón, leifum af gömlum sósíalisma. Ríkisrekin stofnun tekur ákvarðanir um að bjóða rafmagn til álvera undir markaðsverði og í síðasta tilviki, Kárahnjúkum, undir kostnaðarverði. Ríkið skuldsetur skattborgara og okrar á rafmagni til fólks til að geta boðið álinu ódýrara rafmagn en aðrir, án gjalds fyrir mengun og náttúruspjöll.

Skelfilegt blogg

Punktar

Fleiri en Reynir Traustason hafa áhyggjur af nafnlausi bloggi á vefnum. Washington Post hefur lokað fyrir slíkt blogg hjá sér, eftir að trylltir bloggarar misnotuðu aðstöðu sína síðari hluta janúar. Lýsingar blaðsins á ástandinu á vef þess slá út það ógeðfelldasta, sem sézt hefur hér á landi. Blogg á netinu er orðið að samkomustað trylltra geðsjúklinga, sem ná engum tengslum við veruleika og rökfræði, garga bara ókvæðisorð. Engin lausn er á þessum vanda önnur en að banna nafnlaust blogg og gera bloggsíðueigendur ábyrga fyrir eitrinu.

Ljótur leikur klerka

Punktar

Fogh Rasmussen sagðist telja, að islam geti samrýmzt lýðræði. Hins vegar sé nauðsynlegt fyrir múslima í Danmörku og almennt í Evrópu að fallast á lýðræði þess landsins, sem þeir gera að sínu heimalandi. Hann sagði, að Danmörk krefjist þess, að múslimar virði danska siði og reglur, svo sem málfrelsi, jafnrétti kvenna og algeran aðskilnað ríkis og trúar. Hann benti á þann ljóta leik, að múslimskir klerkar frá Danmörku fóru um lönd múslima með falsaðar teiknimyndir til að æsa ríki og þjóðir miðausturlanda upp gegn Dönum.