Innflutningshalli á vörum og þjónustu nam í fyrra 6% af landsframleiðslu Bandaríkjanna. Þetta er fjórða ár vaxandi viðskiptahalla í röð. Ein afleiðingin er skuldasöfnun gagnvart útlöndum, sem síðan eykur hættu á kauphallarhruni. Dollarinn hefur þó ekki veikzt undanfarið, en hefur lengi haft lágt gengi gagnvart evru. Þótt hann hrynji ekki, eru Bandaríkjamenn að velta skuldavanda inn í framtíðina, fela börnum sínum og barnabörnum að borga eyðsluskuldirnar. Það er einkum Kína, sem heldur Bandaríkjunum á floti með því að safna dollurum.