Punktar

Völdin gufa upp

Punktar

Bandaríkin eru að hætta að vera heimsveldi. Noam Chomsky rithöfundur bendir í Guardian á, að hvarvetna sé þriðji heimurinn að hafna forskriftum frá Bandaríkjunum. Suður-Ameríku er að mestu leyti stjórnað af vinstri sinnuðum andstæðingum þeirra. Venezúela hefur olíuna og er komið í viðskiptaklúbbinn Mercosur. Fín sambúð er milli Venezúlea og Kúbu, sem sendi flesta lækna til Pakistan eftir jarðskjálftana. Sambúð Írans og Kína er vaxandi og Kína hefur rýtinginn á hálsi Bandaríkjanna, því að ríkið heldur dollarnum á floti og getur hætt því fyrirvaralaust.

Þjóðerni á uppleið

Punktar

Þjóðarflokkurinn í Danmörku er kominn með 17% fylgi í skoðanakönnun, án efa af því að hann hefur harðasta afstöðu danskra flokka gegn innflutningi útlendinga. Umræðan um teiknimyndir af Múhameð spámanni hefur eflt hann, því að Danir kæra sig ekki um, að múslimskir klerkar rægi landið úti um heim. Svipuð þróun hefur verið í ýmsum öðrum Evrópuríkjum, svo sem Hollandi, þar sem valdamenn voru linir í málum útlendinga að mati fólks. Innflutningur nokkurra Litháa á fíkniefnum mun hafa svipuð áhrif hér. Þessi mál eru réttnefnd sprengiefni.

Höguðu sér illa

Punktar

Stóru bankarnir á Íslandi, einkum Kaupþing, eru í vanda staddir, af því að ýmsir fjölmiðlar og ýmsar fjármálastofnanir hafa varað við þeim. Aðrir fjölmiðlar og fjármálastofnanir segja þetta vera ýkt viðbrögð. Þegar sé gert ráð fyrir stöðu bankanna í lánskjörum þeirra erlendis. En umræðan skaðar þá, því að hún leiðir til verri kjara bankanna. Uppruninn er sálrænn, íslenzkir bankastjórar kunni ekki að haga sér innan um fólk, komi fram eins og gróðafíknir yfirgangsmenn. Þeir virðast geta það í fámenninu, en ekki í útlöndum.

Stríðsglæpamaður

Punktar

Háskóli Íslands fékk bandaríska stríðsglæpamanninn Michael Rubin til að flytja erindi í gær. Rubin er einn af mönnunum, sem laug upp ástæðum til að fara í stríð gegn Írak. Einkum laug hann, að Írak ætti gereyðingarvopn, sem væru hættuleg Bandaríkjunum, og að þar væri verið að skipuleggja sveitir hryðjuverkamanna, sem ættu að fara til Bandaríkjanna. Hvorugt reyndist rétt, þegar á hólminn var komið. Enda hafði eftirlit Sameinuðu þjóðanna áður komizt að hinu rétta. Óskiljanlegt er, að Háskóli Íslands flaggi bandarískum stríðsglæpamanni.

Leyniprófkjör

Punktar

Við talningu í prófkjörum var áður talið rétt að segja ekki bara, hver fékk flest atkvæði í 1. sæti, í 1-2. sæti, í 1-3 sæti og svo framvegis, heldur einnig hver fékk næstflest atkvæði. Þá sáu menn, hvort mjótt var á mununum eða ekki. Í vetur hefur hins vegar verið til siðs að gefa ekki slíkar upplýsingar í fréttum. Það er hluti af þeirri stefnu, að almenningi komi mál ekki við, í þessu tilviki hvaða frambjóðendur voru næstir því að komast inn í hvert sæti. Þetta er röng hugsun hjá flokkum og fréttamiðlum, af því að hún felur í sér óbeit á almenningi ogg fréttum.

Orkuveitufrekja

Punktar

Ekki er líklegt, að eigendum hitaveitna þyki framvegis fýsilegt að semja við Orkuveitu Reykjavíkur um að selja henni hitaveitur. Hún hefur höfðað mál gegn 36 bændum, sem áttu Austurveitu, af því að einn þeirra er farinn að nota vatn úr eigin borholu. Orkuveitan telur slíkt vera samningsbrot. Hitt er nær sönnu, að stjórnendur Orkuveitunnar hafi samið sig að frekju og yfirgangi, sem er í tízku hjá forstjórum nútímans. Orkuveitunni er vansæmd í að reyna að lemja 36 bændur. Nær væri að senda yfirmenn hennar á námskeið í mannasiðum, þau eru mörg í boði.

Furðufrumvarp

Punktar

Ef vatnalögin fyrirhuguðu breyta litlu sem engu, eru þau óþörf. Feli þau hins vegar í sér einkavæðingu, eru þau vond, því að þjóðin lítur á vatn sem mannréttindi eins og loft. Hvort sem frumvarpið er óþarft eða vont, þá hefur flokkum ríkisstjórnarinnar ekki tekizt að selja hugmyndina. Úti í bæ eru allir á móti frumvarpinu, þar á meðal fjórtán samtök, sem hafa ályktað um málið. Það má hafa til marks um, að ríkisstjórn hafi misst samband við veruleikann, þegar hún reynir að keyra slíkt furðufrumvarp fram með löngum fundum um nætur og helgar.

Þeir skulu kjósa rétt

Punktar

Ekki er nóg með, að stjórn Bandaríkjanna fyrirskipi kosningar í fátækum ríkjum, sem ekki hafa innviði lýðræðís, heldur fyrirskipar hún einnig, hvernig skuli menn kjósi. Ef menn kjósa ekki rétt, er ofbeldishneigða heimsveldinu að mæta. Bandaríkin lofa herinn í Alsír fyrir að neita að viðurkenna úrslitin þar í landi. Þau beita fjárhagslegum þrýstingi til að hindra valdatöku sigurvegaranna í Palestínu. Og í Írak hafa þau komið upp samstarfi kúrda og súnníta til að hindra valdatöku sjíta. Málið er, að Bandaríkin vilja ekki, að menn kjósi, heldur að menn kjósi rétt.

Múslimar afsaki sig

Punktar

Kominn er tími til, að Anders Fogh Rasmussen krefjist þess, að ýmsir múslimar, samtök múslima og stjórnir múslimskra ríkja biðjist afsökunar á framferði sínu gegn Dönum. Forustumenn danskra múslima hafa rægt Dani og hvatt til ofbeldis. Sama er að segja um klerka múslima víða um heim, svo og stjórnvöld, sem hafa setið auðum höndum meðan klerkar hafa æst lýðinn til óhæfuverka. Danir eiga ekki að biðja neina afsökunar, heldur eru það lýðæsingamenn Múhameðs spámanns, sem eiga að biðjast afsökunar, en gera það ekki, af því að þeir kunna ekki að skammast sín.

Í vinnu hjá guði

Punktar

Tony Blair sagði um helgina, að guð mundi dæma um stríðið gegn Írak. Enn einu sinni hefur hann vikið frá þeirri grundvallarhefð, að forsætisráðherra sæki vald sitt til þings eða þjóðar. Það voru einveldiskonungar fyrri alda, sem þóttust sækja vald sitt sitt til guðs, eins og Tony Blair og George W. Bush gera nú. Þetta stílbrot félaganna skapar þeim og öðrum skúrkum gott svigrúm til að afsaka gerðir sínar með því, að þær séu guði þóknanlegar, þótt þær séu fólki það ekki. Með uppgangi kristinna sértrúarsafnuða hefur færst í vöxt, að ofbeldismenn feli sig bak við guð.

Heilbrigði fyrir mig

Punktar

Ef nefndin á hins vegar við, að skorið verði niður við alla jafnt, þurfa allir að fá sér einkatryggingu fyrir heilbrigðiskostnaði. Þá væri stigið skref frá núverandi velferðarstefnu að norrænum hætti yfir í einkarekið tryggingakerfi að bandarískum hætti. Við vitum af tölum, að norræna kerfið er ódýrara og skilvirkara en það bandaríska. Nauðsynlegt er hins vegar að ræða þessi mál, frekar en að þegja um þau. Verið getur, að tímabili hinnar norrænu jafnaðarmennsku sé lokið, en þá verða menn að tala hreint út um, hvað þeir eiga við. Á hver að vera sinnar gæfu smiður?

Frítt fyrir fátæka

Punktar

Að svo miklu leyti sem ríkisvaldið og heilbrigðisráðuneytið geta ekki haft stjórn á þessum málaflokki koma brestir í þá stefnu, að heilbrigðisþjónusta sé ókeypis fyrir alla. Nú þegar verða menn að borga fyrir lyf, mismunandi mikið eftir flóknu kerfi mismununar. Ef það kerfi væri útvíkkað, mundu menn borga meira fyrir aðra þjónustu, sjúkrahúsvist og uppskurði, ef þeir væru taldir stöndugir. Þá væri haldið í ókeypis þjónustu fyrir þá, sem taldir væru fátækir eftir einhverju flóknu útreikningskerfi, en hinir betur stæðu gætu tryggt sig prívat fyrir sínum aukakostnaði.

Borga aukalega

Punktar

Nefnd á vegum heilbrigðisráðuneytisins hefur hvatt til umræðu um, að menn geti fengið betri heilbrigðisþjónustu en aðrir með því að borga aukalega fyrir það. Nefndin var skipuð fyrir hálfu þriðja ári til að kanna, hvernig hægt væri að mæta sívaxandi kostnaði í heilbrigðiskerfinu. Þar er innbyggð verðbólga, sem eykur kostnað fyrir óbreytta þjónustu og gerir heilsukostnað þjóðarinnar smám saman óviðráðanlegan. Hann er nú kominn upp fyrir 10% af þjóðarbúskapnum og fyrirsjáanlegt er, að hann muni enn hækka hlutfallslega á næstu árum.

Of háir vextir

Punktar

Margt er umdeilt í umræðum um krónu og evru, fullveldi og Evrópusamband. Eitt eru menn þó sammála um. Vextir á Íslandi mundu lækka um tvö stig eða meira í prósentum við innreið evrunnar. Ódýrara yrði að reka skuldir á Íslandi en verið hefur. Þar sem vextir eru óeðlilega háir hér á landi, miklu hærri en í öðrum vestrænum ríkjum, skiptir þetta miklu máli fyrir alla, sem þurfa að skulda. Vextir af húsnæðislánum mundu falla úr meira en 4% niður í 2% eða minna. Mörgum, sem eru í basli með lánin sín, mundi koma vel að fá hingað evru í stað krónunnar.

Árás á krónuna

Punktar

Gallinn við krónuna er, að hún er svo lítil og þarf samt að bera mikla byrði. Það gerir hana viðkvæma fyrir árásum á borð við þá, þegar George Soros felldi brezka pundið árið 1992. Menn hafa verið að reyna að tala krónuna niður undanfarin misseri. Innlendir hagsmunaaðilar hafa gert það í nokkur misseri með vaxandi þunga. Nú hafa erlendar skoðunarstofnanir bætzt í kórinn, svo og fjölmiðlar á borð við Börsen í Danmörku. Það vantar bara kræfa skúrka til að fella krónuna og græða mismuninn. Þetta er annar stóri vandinn við að hafa litla krónu sem gjaldmiðil.