Punktar

Rautt Sjálfstæði

Punktar

“Hver er sinnar gæfu smiður” hefur ætíð verið stefna Sjálfstæðisflokksins. Við sjáum þessa stefnu í kröfum ungliðanna um, að hver borgi fyrir sig í leikskóla og leikhúsi án stuðnings hins opinbera. Þetta er gömul og gróin stefna, sem veldur því, að Sjálfstæðisflokkurinn er talinn til hægri í pólitík. Þar sem þetta er frambærileg stefna, er skrítið, að flokkurinn skuli ekki kannast við hana fyrir kosningar og flaggar í staðinn loforðum um frían leikskóla og aukinn sósíal í borginni. Er það skoðun almannatengla flokksins, að vinstri sósíalismi einn sé seljanleg pólitík?

Vilfreð nýrra tíma

Punktar

Vilfreð heitir nýr meirihluti í Reykjavík að sögn gárunga, semsettur úr nöfnum Alfreðs og Vilhjálms. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðís og Framsóknar hafa komið upp ríkisstjórnarmynztri í borgarstjórn til að gera Alfreð kleift að gauka 25 milljónum króna að gamla félaginu sínu. Fram á þetta skilið, en svona sértæk afgreiðsla framhjá Íþróttaráði hét fyrirgreiðslupólitík löngu fyrir daga Alberts Guðmundssonar. Það felst í að gera ákveðnum mönnum greiða, sem öðrum eru ekki gerðir. Þannig mun nýr Sjálfstæðismeirihluti í Reykjavík starfa, með eða án hjálpar Framsóknar.

Sukkað til einskis

Punktar

Reykvíkingar eru ekki heillum horfnir, virðast ekki láta blekkjast af gegndarlausum fjáraustri Framsóknar í Reykjavík. Fylgi flokksins er komið niður fyrir 4% og spannar nú aðeins óvinnufæra utanbæjarmenn, sem hafa fengið vinnu hjá ríkinu fyrir að styðja Framsókn. Á tíma þessa hruns hefur Framsókn eytt meira fé í kosningabaráttu en allir aðrir flokkar samanlagt. Kjósendur virðast átta sig á, að Framsókn er rekin á illa fengnu fé og er þar á ofan óvinur höfuðborgarinnar, hefur áratugum saman reynt að níða niður skóinn af Reykjavík.

Einokunarmatur

Punktar

Samkvæmt nýrri könnun stafar hátt matarverð hér á landi einkum af háu verði á einokunarvörum landbúnaðarins, kjöti og mjólkurvörum, osti og eggjum. Næststærsta ástæðan er hár tollur og vörugjald. Hvort tveggja kemur engum á óvart, enda er þetta í hundraðasta sinn, sem sama útkoman kemur. Óþarfi er að tala um þetta undir rós. Það er stjórnvaldsákvörðun, að matur er tvöfalt dýrari hér á landi en hann þarf að vera. Ég hef vitað það í hálfa öld.

Fín Hringbraut

Punktar

Þegar líður á vorið og brekkurnar grænka, sést betur, að Hringbrautin fer vel í Vatnsmýrinni og léttir umferð úr Vesturbæ og Miðbæ inn á Miklubraut. Það verður ekki þessi framkvæmd, sem ryður arfaflokkum Reykjavíkurlistans frá völdum, heldur stríð þeirra gegn einkabílismanum. Það kemur fram í aukinni gjaldtöku á bílastæðum og í þvergirðingshætti gegn mislægum mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.

Færa vandann

Punktar

Heilbrigðisráðherra hyggst losa Landsspítalann við fólk, sem bara þarf hjúkrun, með því að gefa því forgang inn á slíkar stofnanir. Það er mikil Framsókn í þessari lausn, af því að hún fjölgar hjúkrunarplássum ekki neitt. Aðrir verða að víkja á biðlista fyrir þeim, sem koma af spítalanum. Alvöruráðherrar mundu búa til fleiri pláss, en okkar ráðherrar sortera þau bara og færa vandann milli biðlista. Í sirkusnum heitir það sjónhverfing.

Vond landkynning

Punktar

Sjötíu þúsund Íslendingar féllu á prófinu. Baulað var á fulltrúa þeirra í Evróvisjón. Silvía Nótt var firnavond landkynning. Útlendingar neita að láta hafa sig að fífli, þótt 70.000 Íslendingar hafi gert það. Dónaskapur þarf að hafa innihald til að vera marktækur, hæðast til dæmis að Evróvisjón eða París Hilton eða fjallkonunni. Dónaskapur Silvíu gerði það ekki, var stirður og máttlaus eins og bauluð sýningin. Svo notað sé hugtak ímyndarfræðinga og almannatengla, þá selur Silvía Nótt ekki. Nema í fásinninu.

Fleinn Persónuverndar

Punktar

Reykjavíkurborg vill, að sérfræðingar í þjónustustofnunum í borgarhverfum geti unnið saman að velferðarmálum. Hún vill, að rýmkað verði flæði upplýsinga milli sérfræðinga, til dæmis tengt einelti barna í skóla við drykkju foreldra. Hin fræga einveldisstofnun Persónuvernd hafnar þessu og vill upplýst samþykki viðkomandi fátæklinga. Það fæst auðvitað, af því að þeir óska aðstoðar. En þröskuldur Persónuverndar tefur framgang mála. Að þessu leyti eins og svo mörgu öðru er Persónuvernd fleinn í gangverki lýðræðislegs velferðarsamfélags.

Lyfsala brást

Punktar

Einkarekin lyfsala hefur brugðist þjóðinni. Tvö fyrirtæki hafa einokun á lyfsölu í landinu. Hjá þeim fást ekki mikilvæg samheitalyf, sem eru mun ódýrari en sérlyf og gera sama gagn. Landlæknir hefur gefið í skyn, að farsælast verði að endurvekja Lyfjasölu ríkisins til að koma lyfjaverði í landinu niður í það, sem er meðal siðaðra nágrannaþjóða. Það er auðvitað saga til næsta bæjar, að einkaframtak sé lakari en ríkisrekstur, en það er þó staðreynd í lyfsölunni. Varnir málsaðila í fjölmiðlum hafa verið léttvægar. Einkarekstur í lyfsölu fær núll í einkunn.

Ólæti hrukkudýra

Punktar

Hrukkudýrin létu illa. Tveim þeirra var hent út af virðulegum borgarafundi vegna óláta. Þeim fannst stjórnvöld fara illa með gamlingja. Eins og þau fara illa með öryrkja og sjúklinga, einstæðar mæður og fíkla af ýmsu tagi. Með niðurskurði velferðar ofsækja Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur alla þá, sem miður mega sín. Það er mikil þverstæða, að þeir sigla síðan í sveitastjórnir undir gunnfána mikillar og vaxandi velferðar, sérstaklega í Reykjavík. Halda þeir, að kjósendur séu fífl? Eða vita þeir, að kjósendur eru fífl?

Líbía í náðinni

Punktar

Líbía er aftur í náðinni, þótt lítið hafi breytzt þar. Bandaríkin hafa tekið upp stjórnmálasamband eftir að hafa í aldarfjórðung sakað Gaddafi einræðisherra um skipuleg hryðjuverk á Vesturlöndum, meðal annars Lockerbie flugslysið. Fyrir tuttugu árum gerðu Bandaríkin meira að segja loftárásir á borgir í Líbíu. Hin raunverulega ástæða fyrir hinum nýja friði við Líbíu er, að landið hefur mikla olíu og Bandaríkjunum veitir ekkert af vinveittu múslimaríki. Þess vegna faðmar George W. Bush að sér einræðisherrann og gerir hann að “our son-of-a-bitch”. Vegir diplómatíunnar í heiminum eru órannsakanlegir.

Vit í fólki

Punktar

Notkun greiðslukorta hefur minnkað um 8% innanlands á einu ári. Það stafar af, að Íslendingar eru farnir að halda að sér höndum í kaupæðinu. Þeir eru að spá í, að allur sé varinn góður, þegar ríkisstjórnin hefur sofnað á verðinum og verðbólgan er farin úr böndum. Fólk sér fram á lakari krónu og aukna vaxtabyrði, steypir sér síður en ella í nýjar skuldir. Hummer-bílar rykfalla óseldir á bílasölunni. Þegar fólk dregur saman seglin um 8%, má búast við, að það geti mætt vandanum og verðbólgan reynist vera skot, sem hjaðnar aftur mjúklega með næsta vetri.

Róttækt vikublað

Punktar

Áratugum saman var ég áskrifandi að Economist, sem var vel skrifað vikublað fyrir aldamótin síðustu og hefur verið kallað virðulegt vikublað í kynningu á íslenzku málþingi þess. Það er ekki rétt lýsing, enda gafst ég upp á blaðinu. Á þessum áratug hefur Economist orðið að róttæku hægra blaði, öldnum málsvara Chicago-skólans og Washington-samkomulagsins í hagfræði, hnattvæðingar í þágu stórfyrirtækja og andstöðu við stéttarfélög, stuðningi við stríð gegn Írak og helzt víðar. Enda hélt blaðið málþing fyrir sitt yfirstéttarfólk, sem þykist eiga Ísland.

Lögregluríki Egypta

Punktar

Egyptaland er hratt að breytast úr venjulegu einræðisríki í eindregið lögregluríki, þar sem fólk er ofsótt fyrir að mótmæla aðgerðum stjórnvalda. Lögreglumenn nauðga konum, sem safnast á mótmælafundi og dómarar eru reknir fyrir að reyna að fara að lögum. Mubarak forseti er fylgislaus í landinu, orðinn einn af einræðisherrum Bandaríkjastjórnar, sem hún flokkar undir sæmdarheitið “our son of a bitch”. Mannréttindabrot Mubaraks í skjóli Bandaríkjanna fara vaxandi með viku hverri.

Huglausir Hollendingar

Punktar

Hollenzka ríkisstjórnin hótaði í gær að afnema borgararétt Ayaan Hirsi Ali, konu frá Sómalíu, sem flúði þaðan fyrir fjórtán árum og er orðin þingmaður í Hollandi. Hún hefur lengi gagnrýnt ofbeldi á borð við morð múslima á hollenzkum kvikmyndamanni, Theo van Gogh. Stjórnin notar það gegn Hirsi Ali, að hún var með falskt nafn, þegar hún kom til landsins. Hefur hún þó marglýst yfir, að hún var á flótta undan ættingjum. Huglaus stjórnin er að þagga niður í Hirsi Ali til að friða múslima. Hollendingar eru sérdeilis huglausir, hermenn þeirra horfðu á fjöldamorðin í Srebrenica án þess að vernda fórnardýrin.