Punktar

Tíunda hvert barn klikkað

Punktar

Brezka læknafélagið sagði um helgina, að eitt af hverjum tíu börnum á aldrinum 5-16 ára þjáðist af “sífelldum og alvarlegum geðtruflunum”. Í nýrri skýrslu félagsins segir, að lélegt fæði og aukin áfengisneyzla kunni að vera hluti af ástæðunni. Einkum er þó bættur efnahagur tengdur aukinni geðveiki barna samkvæmt skýrslunni. Einnig er þar minnst á aukinn þrýsting á börn í skólum, aukinn þrýsting í aldurshópi þeirra og fækkun á reglum, sem foreldrar setja börnum sínum. Það er greinileg erfitt hlutskipti að alast upp í vestrænum nútíma.

Dýrir gemsar

Punktar

Millilandasamtöl eru of dýr miðað við tilkostnað. Gagnaflutningar í gemsum eru margfalt of dýrir sums staðar erlendis, kostuðu mig 15.000 á viku í Kaupmannahöfn, en þó ekki krónu í Feneyjum. Evrópusambandið hefur ráðizt gegn okri í reikisamningum milli símafyrirtækja og gefið þeim frest fram að október að lækka verðið. Sum fyrirtækin hafa brugðizt illa við. Það er merkilegt í meintri samkeppni og framsókn internetsins, að fyrirtækin geti samt haldið uppi fáokun um fáránlegt verð. Þau eru eins og bankarnir, keppa sín í milli í auglýsingum, en ekki í þjónustu.

Lekar hleranir

Punktar

Símhleranir geta valdið ófyrirséðum vandræðum. Afritanir ítalskra símhlerana hafa lekið í dagblöðin og gert ýmsa valdamenn hlægilega fyrir klám og ljótt orðbragð. Um 100.000 símar eru hleraðir þar í landi, sem virðist ríflegt, þótt ná þurfi tökum á mafíunni. Þar í landi eins og annars staðar freistast menn til að láta tilganginn helga meðalið. En gera menn sér grein fyrir, að freistandi er að leka afritunum, svo sem raunin hefur orðið þar í landi? Hvernig bætir ítalska ríkið það tjón, er það veldur þeim, sem gerðir eru að fífli í afritunum símtala?

Dýrt í Reykjavík

Punktar

Reykjvík er ofarlega á listum dýrustu borga heims. ECA International skráir Lúanda í Angóla dýrasta, Reykjavík næstdýrasta, síðan Kinshasa í Kongó og Osló. Önnur skráningarstofa lætur Afríku liggja, hefur Osló dýrasta og svo Reykjavík. Hin þriðja sleppir Norðurlöndunum og hefur Lúanda og Kinshasa efstar. Svo var að koma listi frá Mercer, þar sem annar tónn er sleginn, Moskva er þar dýrust og Seúl í Suður-Kóreu kemur þar næst á eftir. Aðferðir eru misjafnar, miðast við meintan kostnað kaupsýslumanna, sem þurfa að dveljast skamma hríð að viðskiptum í erlendum borgum.

Sannleikur til vandræða

Punktar

Fréttamennska tekur mið af vandræðum sínum. Smátt og smátt hættir hún að miða við meintar þarfir fólks og fer að miða við þrár þess. Á undanhaldi eru grundvallarforsendur fréttamennsku: Staðreyndir, staðfestingar og rannsóknir. Lýðræðið er því í hættu. Smám saman hafa sjónarmið einkalífs orðið sterkari en sjónarmið almannahags. Fólk vill fá að vera í friði fyrir fréttum. Skúrkar vilja ekki láta hnýsast í sín einkamál. Opinberir aðilar reyna að halda skjölum fyrir fjölmiðlum. Dómarar eru farnir að líta á sannar fréttir sem hrein vandræði í samfélaginu.

Dropinn holar steininn

Punktar

Bak við deyfð og varfærni fólks í umgengi þess við fjölmiðla er markviss áróður spilltra stjórnmálamanna, sem rægja fréttamiðla ljóst og leynt. Þetta byrjaði í Watergate-hneykslinu, þegar Richard Nixon forseti sendi Spiro Agnew varaforseta til að hamast á fjölmiðlum í hverri ræðunni á fætur annarri. Ronald Reagan notaði hvert tækifæri til að sýna fréttamiðla sem froðufellandi villihunda. George W. Bush hefur viðamikið vaktkerfi til að fullyrða, að vitrænar fréttir séu úti á brjáluðum vinstri kanti í pólitík. Þessir dropar hola steininn.

Lyftukurteisi

Punktar

Ísrael er eins lyftan á hótelinu í Jerúsalem. Við hjónin komum að lyftunni um leið og nokkrir Bandaríkjamenn. Allir hófu bugt og beygingar, “after you sir”. Inn í lyftuna komumst við þó. Og aftur hófst sama kurteisin, þegar við ætluðum út. Ísraelsmenn, sem ætluðu þar inn í lyftuna, nenntu ekki að bíða. Þeir ruddust inn í lyftuna, svo að við komumst ekki út og urðum að fara upp aftur. Frekja og yfirgangur eru einkennisorð Ísraels. Mér finnst sjúklegt, að hér sé sjónvarpsstöð, sem daglega mærir þetta ríki. Þaðan slapp ég kalinn á hjarta til Jórdaníu og mér fannst ég vera kominn heim til Evrópu.

Ruddaríki

Punktar

Forseti Íslands hafði bein í nefi til að skamma sendiherra Ísraels fyrir framkomu Ísraelsríkis við frú hans á flugvellinum í Tel Aviv. Ég hafði það líka á sínum tíma til að spyrja embættismenn Ísraelsríkis, hvort þeir afgreiddu aðeins borgara Ísraels. Þá loksins komst afgreiðslan á flugvellinum í lag. Sama var uppi á teningnum við Allenby-brúna. Við sátum þar föst í rútu, unz austurrískur heiðursmaður fór að garga á landamæraverði Ísraels. Þetta er ruddaríki, þar sem menn heyra ekkert fyrr en sparkað er í þá. Vonandi hefur Ólafur Ragnar þó ekki sparkað í Miriam Shomrat.

Gefin orka

Punktar

Þótt Landsvirkjun og orkuráðherra mótmæli, er samt satt, að orkuverð til áliðnaðar er hér ekki nema 15 dollarar á þessu ári, helmingi lægra en í Brazilíu og ýmsum öðrum löndum. Í Kína er orkuverð til áliðnaðar 42 dollarar. Algengt verð í Austur-Evrópu er 36 dollarar. Það er staðreynd, að landsfeður hafa framið gegndarlaus spjöll á ósnortnum víðernum norðan Vatnajökuls til þess eins að gefa útlendingum orku til álvinnslu í þágu byggðastefnu á Reyðarfirði. Það er engin furða, þótt Halldór Ásgrímsson og Valgerður Sverrisdóttir séu fyrirlitin hér í borg.

Niður með óþægindi

Punktar

Raunveruleg ástæða þess, að fólk hafnar fréttum, er, að það vill ekki hleypa óþægindum inn á sig. Það vill hvorki vita af glæpum í nágrenninu né hungri í Afríku. Það vill hvorki vita af svindli auðhringja í miðbænum né af stríði í Írak á fölskum forsendum. Fólk vill, að fjölmiðlar færi sér daglega staðfestingu þess, að allt sé í dag eins og það var í gær, að félagslegur rétttrúnaður hafi ekkert breyzt. Það þekkir nöfn þriggja dómara í Idol, en veit ekki um nafn neins dómara við Hæstarétt. Það talar um bíó sem veruleika, en minnist ekki orði á vaxtabyrði.

Hafna fréttum

Punktar

Helmingur Bandaríkjamanna notfærir sér ekki fréttir fjölmiðla. Þar er komin til sögunnar önnur kynslóð fólks, sem veit ekki, hvað er að gerast. Þetta fólk gefur þá skýringu, að fréttir séu ótraustar, gefnar út af auðhringjum. Samt trúir sama fólk, að raunveruleikaþættir í sjónvarpi séu raunverulegir, en ekki leiknir. Líklega hefur þetta fólk misst af fréttum, sem upplýsa, að þeir eru skáldaðir og leiknir. Það fyndnasta er, að þættirnir, sem blekkja fólk, eru framleiddir af auðhringjum, sem fólk telur sig vera að forðast með að hafna fréttum.

Brennimerking

Punktar

Judy Dempsey skrifaði á fimmtudaginn fréttaskýringu í International Herald Tribune, þar sem hún segir, að heimsókn Bush Bandaríkjaforseta til Ungverjalands gefi því landi aukið vægi í heiminum! Dempsey er dæmigerður Ameríkani, sem heldur, að Bandaríkin geti blessað einstaklinga og stofnanir út um heim. Staðreyndin er hins vegar, að hvarvetna eru Bandaríki nútímans fyrirlitin. Ferð Bush til Ungverjalands skapar bara vandræði stjórnvöldum þar í landi. Samtal við George W. Bush felur ekki í sér blessun, heldur brennimerkingu.

Viðurkenna Ísrael

Punktar

Hamas-flokkurinn í Palestínu hefur brotið odd af oflæti sínu og samþykkt tilverurétt Ísraels sem ríkis. Hingað til hefur andstaða flokksins gegn þessari kröfu skapað gjá milli hans og stuðningsafla Palestínu í Evrópu. Breytingin skiptir máli, því að Hamas hefur meirihluta á þingi Palestínu og skipar ríkisstjórn landsins. Morð í landinu eru nú einkum stunduð af her Ísraels, sem hefur á síðustu vikum drepið 20 manns, að meirihluta smábörn. Rangt er að stimpla Hamas sem hryðjuverkasamtök. Það er Ísraelsríki, sem stundar hryðjuverk í Palestínu.

Sköpun eða þróun

Punktar

Vísindaakademíur 67 ríkja höfnuðu á miðvikudaginn tilgátunni um sköpun jarðarinnar samkvæmt biblíunni, hvöttu skóla til að nota þróunarkenninguna í staðinn. Öll lífvísindi nútímans hvíla á þróunarkenningunni, sem ýmsir skólar í Bandaríkjunum hafa hafnað að kröfu trúarofstækismanna, sem þar í landi eru valdamiklir. Samkvæmt sköpunartilgátunni varð heimurinn og lífið í núverandi mynd þess snögglega til fyrir um 4.000 árum. Þróunarkenningin telur hins vegar, að það hafi gerzt í óteljandi áföngum á 4.600.000.000 árum. Ungt fólk á rétt á sannleikanum, sagði talsmaður akademíanna.

Evrópa nær vopnum

Punktar

Financial Times sagði í gær, að Evrópusambandið sé að ná vopnum sínum í samskiptum við Bandaríkin, sem lengi hafa ekki hlustað á Evrópu. Evrópa sé farin að tala hreint út um, að loka eigi Guantanamo; að hlægilegar séu tilraunir Bandaríkjanna til að breiða út lýðræði í heiminum; að Bandaríkin verði eftir áralangt hlé að vera til viðtals í umhverfismálum; að umræður um aukið viðskiptafrelsi í heiminum séu gagnslausar, ef Bandaríkin gefi ekki meira eftir. Svo er nú komið, að jafnvel George W. Bush er farinn að sjá ljós, talar um lokun Guantanamo.