Punktar

Sagan endalausa

Punktar

Skrítið með þessa sjálfstæðismenn. Sagan endalausa heldur áfram. Hver vika leiðir í ljós nýja aflendinga og nýjan harm. Jafnvel fjölskylduharm. Eru þeir allir svona siðblindir? Hverjir kjósa þessa sýkkópata? Í stjórnarformennsku, í sveitarstjórn, á Alþingi, jafnvel á Bessastaði? Er þriðjungur þjóðarinnar svo brenglaður, að hann skilur ekki mörk góðs og ills? Sögur aflendinga koma hver á fætur annarri, aflendingar segja ekki einu sinni af sér. Áróðursvélar segja skattaskjól ekki vera skattaskjól. Hversu lengi láta kjósendur bjóða sér þetta afland siðblindu, græðgi, fjárglæfra, auðhyggju og almennrar Mammons-dýrkunar.

Af mannavöldum

Punktar

Loftslagsbreytingar af mannavöldum felast ekki í hlýnun á öllum mælingastöðum. Veður getur kólnað á Íslandi, þótt það hitni á meirihluta mælingarstaða. Fyrst og fremst felast þessar loftslagsbreytingar í aukinni mengun, sem hefur aukinn veðurofsa í för með sér. Einmitt sá ofsi er víða orðinn plága. Við sætum örari og dýpri lægðum með tilheyrandi stormi og samgöngutruflunum. Hastarlegri veðurskipti lýsa sér í hvirfilbyljum, stórflóðum og gríðarlegu manntjóni. Vísindasamfélagið er sammála um vanda loftslagsbreytinganna. Hefur greinilega ekki viljað taka trú á órökstutt röfl efasemdamanna á íslenzku fésbókinni.

Óþekkjanlegur flokkur

Punktar

Sjálfstæðisflokkur Davíðs Oddssonar er allt annar flokkur en Sjálfstæðisflokkur Bjarna Benediktssonar eldri, Gunnars Thoroddsen og Geirs Hallgrímssonar. Reyndi þá að vera „flokkur allra stétta“. Með misjöfnum árangri að vísu, en reyndi þó. Á þingi voru verkalýðsmenn eins og Pétur Sigurðsson og Guðmundur H. Garðarsson. Þetta breyttist smám saman, þegar Davíð tók völdin í þjóðfélaginu. Er enn við völd, yfirtók flokkinn aftur á landsþingi 2009, kúgaði Bjarna Benediktsson yngri til hlýðni. Stjórnar flokknum með harðri hendi úr Hádegismóum. Gerði flokkinn að skrímsli, sem sogar fé frá fátæklingum til kvótagreifa og annarra auðgreifa.

Excel er marklaust

Punktar

Áróður brauðmolatrúboða snýst um, að ýmis kaupmáttur sé núna meiri en hann var einu sinni. Þeir eru að segja þetta fólki, sem fær minna en 500.000 krónur á mánuði. Líklega sér hálf þjóðin betur á eigin skinni þann veruleika, sem hagstofur og greiningadeildir sjá ekki. Af einhverjum ástæðum telja trúboðar, að þetta fólk sé móttækilegt fyrir línuritum um það efni. Hægt sé að telja fólki, sem hvorki getur leigt né keypt né farið til tannlæknis, trú um, að það hafi það helvíti gott. Eigi bara að halda kjafti, hlýða og éta panodil. Ég held samt, að margir sjái á eigin skinni, að lítið samband er milli línurita úr excel og veruleika.

Þrælar vernda kvalara

Punktar

Fátt raskar ró íslenzkra stjórnmála. Fari Framsókn niður, fer Sjálfstæðis upp. Samanlagt fylgi bófaflokkanna rambar kringum 35%, þriðjung kjósenda. Þótt allt leiki á reiðiskjálfi vegna uppljóstrana um aflendinga í skattaskjóli, raskar það ekki fylgi bófanna. Raskar ekki rónni að frétta af meginfjárhæðum, sem stolið er og falið í fjarlægum eyjum. Ekki heldur, þótt þetta séu alls þúsund milljarðar. Líklega of ferleg tala til að skiljast. Þessi þriðjungur kjósenda hindrar okkur í að koma hér upp norrænu fyrirmyndarsamfélagi. Flækist fyrir stjórnarskrá og siðvæðingu stjórnmála; þrælahjörðin myrka, sem stendur vörð um kvalara sína.

Siðblinda sjóðabraskið

Punktar

Tólf lífeyrissjóðir stéttarfélaga ráðast gegn hagsmunum félagsmanna. Með aðild að fyrirtækjum, sem brjóta niður kjarasamninga með ráðningu fólks í verktöku. Með aðild að fyrirtækjum, sem brjóta niður norræna módelið í heilsukostnaði. Ítrekað hafa þessir sjóðir fjárfest í bralli, sem kennt er við Albaníu-Ásdísi. Í Ármúla 9 var rekið sjúkrahótel þeirra, sem var svo afleitt, að fólk grét sig í svefn á hverju kvöldi. Ekki dró það úr áhuga lífeyrissjóðanna. Þeir reka þar heimahjúkrunina Sinnum. Húsið eiga þeir veðsett fyrir 3,3 milljarða. Einnig reka þeir á sama stað einkasjúkrahús. Allt er þetta undir hatti móðurfélagsins Eva Consortium. Braskið með lífeyri grefur undan almennri heilbrigðisþjónustu.

Enginn hættir sjálfráður

Punktar

Fæstir kunna með vald að fara, það heltekur fólk. Eitt versta einkennið er, að valdhafar telja sig ómissandi. Þótt sýnt hafi verið fram á hið gagnstæða, að þeir skaða valdið og fólkið. Ólafur Ragnar taldi sig svo ómissandi, að hann bauð sig fram í sjötta sinn. Hætti ekki fyrr en fylgið streymdi burt. Sigmundur Davíð taldi sig ómissandi. Hætti ekki fyrr en hann varð athlægi um allan heim. Davíð heldur þjóðina enn elska sig, þrátt fyrir linnulaus mistök. Vill verða forseti. Bjarni Ben hættir ekki, þótt hann sé augljós fjárglæframaður. Erlendis hætta valdamenn, en hér þarf að draga þá emjandi og veinandi úr valdastólum.

Of hógvær í orðum

Punktar

Langt er síðan ég var síðast sagður orðljótur. Sýnilegur veruleiki er nefnilega orðinn ljótari en orðin, sem ég nota. Tala um bófaflokka, fífl og fól. Sumum þótti í fyrstu langt til seilst. Nú er hins vegar komið í ljós, að valdamesta fólk landsins er yfirgengilega gráðugt og spillt. Hópar sig saman í bófaflokka með fíflum og fólum. Hundruð manna eiga aflandsreikninga í skattaskjólum. Þar á meðal fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi fjármálaráðherra. Í framboði  til forseta er einn af 25 heimsins svörtustu hrunvöldum. Er studdur til þess af þúsundum siðblindra kjósenda. Veruleikinn er miklu grófari en lýsingarorð mín.

120 milljarða tjónagreifi

Punktar

Bjarni Benediktsson var stjórnarmaður, stjórnarformaður eða hluthafi í fjölda gjaldþrota fyrirtækja, sem fengu milljarða afskriftir:

BNT móðurfélag N1, 4,3 milljarða gjaldþrot.
Umtak fasteignafélag N1, 20 milljarða afskrift.
Máttur, 21 milljarða afskrift.
IAG Holding áður Naust, 3,5 milljarða gjaldþrot.
Földungur áður Vafningur, 48 milljarða tap.
Þáttur International, 24 milljarða afskrift.

Mér er ekki ljóst, hvernig slíkur 120 milljarða fjárglæframaður á kostnað okkar getur verið fjármálaráðherra. Og hvað þá átt aflandsreikninga í skattaskjólum og tafið fyrir skattrannsókn þeirra. Furðulegt er, að Bjarni Benediktsson hefur ekki enn sagt af sér.

Þrotlaus eyðilegging

Punktar

Fyrst eyðilagði hann Sjálfstæðisflokkinn. Breytti honum úr virðulegu íhaldi í auðgreifa-skrímslið, sem nú er bófaflokkur Bjarna Ben. Eyðilagði svo eftirlit hins opinbera, lét það þjónusta sig eða lagði það niður, sjá Þjóðhagsstofnun. Einkavæddi ríkisbanka og lét þá leika lausum hala. Fór svo í Seðlabankann. Skóf hann innan að gjaldeyri til að fleygja í gjaldþrota einkabanka. Gerði bankann tæknilega gjaldþrota, svo að skattgreiðendur voru látnir hlaupa undir bagga. Endaði á því að eyðileggja Morgunblaðið. Þar er ránsfé kvótagreifa notað til að borga dúndrandi tap. Og nú telur hann við hæfi að verða forseti Íslands.

Evrópa ein er fyrirmynd

Punktar

Bandaríkin færast jafnt og þétt til auðræðis á herðum láglaunaþræla. Rússland færist hratt til þjóðrembu og fasisma með landvinninga á oddinum. Kína færist jafnt og þétt til auðræðis án lýðræðis. Af efnahagsöflum heims er það Evrópa ein, sem heldur uppi merki lýðræðis, jafnréttis og bræðralags. Fyrirmyndirnar eru tvær, norræna módelið og þýzka módelið, sem raunar eru svipuð. Ísland ráfar frá Evrópu misþroskaðs lýðræðis til bandarísks þrælakerfis auðræðis. Ríkisstjórnin leiðir þá villuferð, studd af ótrúlegri þjóðrembu innræktaðra eyjarskeggja. Við eigum að stinga við fótum og byrja að læra af Norðurlöndum og Þýzkalandi.

Valkvíði minn

Punktar

Lízt bezt á Andra Snæ sem forseta. Deili gildum hans, áherzlu á stjórnarskrá og náttúru Íslands. Horfðist þó um tíma í augu við að freistast til að kjósa Guðna Th. til að bregða fæti fyrir Davíð. Vildi bíða eftir nokkrum könnunum og meta stöðu mína í kjörklefanum. Guðni hefur önnur gildi, er gamaldags íhaldsmaður. Af þeim skóla, sem ríkti áður en Davíð og eftirmenn hleyptu græðgisvæðingu á flug. Guðni mun ekki hjálpa pírötum við að fá nýja stjórnarskrá, en heldur ekki bregða fæti fyrir hana. Álít hann óhlutdrægan og heiðarlegan, kjósanlegan. Ekki ávísun á stórslys eins og Davíð. En Andri Snær er og verður áfram mitt val.

Gríski harmleikurinn

Punktar

Ekki frekar en íslenzk hafa grísk stjórnvöld lært nokkuð af hruninu. Þau hugsa bara um að halda fast í kjötkatlana, lofa öllu fögru og efna ekki neitt. Heilar hagtölur eru skáldaðar til að vinna tíma. Allt er þetta til að verja hagsmuni sína og sinna, yfirstéttar Grikklands. Að undirlagi Angelu Merkel gerði Evrópa þau mistök að hefna sín á alþýðunni fyrir glæpi grísku auðgreifanna. Wikileaks hefur komið upp um samsærisviðræður í Alþjóða gjaldeyrissjóðnum um að framleiða vandræði til að þrýsta á ný loforð. Það er galið. Ef bera á saman svik grískra greifa og heimsku evrópskra valdamanna, þá sker það síðarnefndu meira í augun.

Engan afslátt hér

Punktar

Við lifum í veraldlegum vestrænum heimi, þar sem trúarbrögð eru á jaðrinum. Við viðurkennum ekki, að karlar sé konum æðri. Að gifta megi stúlkubörn. Að refsa megi eftir trúarlögum. Að breyta þurfi siðum og venjum til að þóknast sérvizku trúaðra. Að blæjulausar konur séu vændiskonur. Að hommar og lessur séu haldin kynvillu. Að trúarbrögð njóti virðingar án þess að þurfa að vinna fyrir henni. Að bannað sé að lasta einhverja guði og gera grín að spámönnum þeirra. Komi hingað fjölmennir hópar öfgatrúaðra, verður að gera þeim nána grein fyrir, að samfélagið sé veraldlegt. Allt öðru vísi en í miðaldaríkjunum, sem það flúði.

Norræna kerfið er bezt

Punktar

Ríki, eftirlit og skattar eru hornsteinn friðsællar mannúðarstefnu Norðurlanda. Það kerfi er mun betra en kerfið í Bandaríkjunum. Ég tel skatta á láglaunum og miðlungslaunum vera við hæfi. Vil hins vegar leggja skatt á auðlegð eins og var hér á fyrra kjörtímabili. Mestu máli skiptir þó að taka upp markaðsbúskap í auðlindarentu. Með uppboði á leigu veiðiheimilda í fiskveiðum, ferðaþjónustu og orku, þar sem takmarka þarf nýtingu. Tel, að það muni duga til að koma hér upp norrænu ríkiskerfi í heilsuþjónustu og velferð. Eftirlit með fjármálum þarf að vera strangara en hér. Því að hinir gráðugu reyna sífellt að finna nýjar leiðir til að komast undan samfélagsábyrgð. Samanber skattaskjólin á aflandseyjum.