Punktar

Hver byrjaði?

Punktar

Erfitt verður um svör, þegar Gallup spyr, hvort Ísrael eða Hezbolla hafi átt upptökin að stríðinu í Líbanon. Það magnaðist stig af stigi, byrjaði sem mannrán og endaði með klasasprengjum á smábörn. Málið snýst ekki um, hvaða atburður er talinn vera upphafspunktur atburðanna. Það snýst um siðlausa framgöngu hryðjuverkaríkis. Hún er metin siðlaus af öllum nema Bandaríkjunum og Framsóknarflokknum, sem hefur tekið upp á sína arma ofstæki bókstafstrúarmanna Gamla testamentisins. Sameinuðu þjóðirnar segja framgöngu Ísraels siðlausa. Það er rétt lýsing.

Aumt Kastljós

Punktar

Hallærislegt var hjá Ríkissjónvarpinu að láta Valgerði Sverrisdóttur ráðherra kúga sig til að hrekja Steingrím J. Sigfússon úr Kastljósinu, svo að hún gæti verið þar ein að ráðast á Steingrím. Bréf Páls Magnússonar og Þórhalls Gunnarssonar um efnið segir lítið annað en: Af því bara. Engin verðbólga á orðum er að kalla þetta niðurlægjandi valdþjónkun. Það æsir frekjuna upp í ráðherrunum að leyfa þeim að hrekja stjórnarandstöðuna úr þætti. Teygja þarf ímyndunaraflið til að kalla þetta ritstjórnarlega ákvörðun. Það var bara eymdin eins og ég sá hana fyrir fimmtíu árum.

Forgangur og biðlistar

Punktar

Formaður samninganefndar bæklunarlækna segir í fjölmiðlum, að það sé “eins og fólk með stoðkerfissjúkdóma verði alltaf útundan” í heilbrigðiskerfinu. Það er eins og hann sé að tala um veðrið eða náttúruöflin. Auðvitað gerist það ekki af sjálfu sér, að bæklað fólk þurfi að þjást og bíða í hálft ár eftir þjónustu. Það er meðvituð ákvörðun lækna og opinberra aðila. Þessir aðilar hafa búið til biðlista og forgang á biðlistum, meira eða minna án þess að þolendur kerfisins séu spurðir neins. Einn tíu milljón króna sjúklingur er tekin fram yfir tíu milljón króna sjúklinga.

Vilja matartolla

Punktar

Hluti verkalýðshreyfingarinnar er andvígur lækkun matartolla, því að það geti tekið vinnu frá innlendum matvinnslufyrirtækjum. Sautján formenn félaga á landsbyggðinni gáfu yfirlýsingu um þetta. Hjarta þeirra slær nær landbúnaðinum en umbjóðendum þeirra. Þetta er árekstur meiri og minni hagsmuna. Hinir víðtæku hagsmunir launafólks í landinu verða að víkja fyrir sérhagsmunum í matvinnslu. Verkalýðshreyfingin er klofin í málinu og getur því ekki beitt sér fyrir framförum, sem bezt eru til þess fallnar að bæta lífskjör félagsmanna. Heilir sautján formenn vilja halda uppi matartollum.

Afsökun Samfylkingar

Punktar

Mér finnst Samfylkingin fara nokkuð geyst í stífluna við Kárahnjúka. Flokkurinn samþykkti stífluna á sínum tíma og fæst ekki til að segja, hvort leyndar upplýsingar hefðu breytt afstöðu flokksins, ef þær hefðu komið fram í tæka tíð. Ef Samfylkingin ætlar að skafa af sér landníðslustimpilinn, á hún annað hvort að segjast mundu hafa verið andvíg á alþingi eða biðjast afsökunar á framgöngu sinni þar í málinu. Hún getur ekki kastað málinu svona létt aftur fyrir sig. Hún þarf að gera upp sakirnar við fortíðina, annars verður litið á æsing hennar þessa dagana sem slátt á pólitískum keilum.

Tilraunatofan

Punktar

H.D.S. Greenway bendir í Boston Globe á, að stefna Bandaríkjanna í málum miðausturlanda felist í hugmyndafræði Nýja-Íhaldsins, sem þekkir ekkert til fólksins á því svæði. Mistekizt hafa aðgerðir hugmyndafræðinganna við að móta heimshlutann í bandarískri mynd, til dæmis með kosningum, af því að þeir virðast ekki hafa hugmynd um, að þar býr fólk, sem hefur allt önnur viðhorf til lífsins og tilverunnar. Greenway segir, að stjórn Bandaríkjanna skilji ekki erlent þjóðerni, erlenda trú, erlenda ættflokka. Tilraunastofa Nýja-Íhaldsins í Írak hefur því farið út um þúfur. Fólkið var ekki spurt, bara sprengt.

Frambjóðandinn

Punktar

Í fjarveru Ólafs Ragnars Grímssonar gátu handhafar forsetavalds, Geir H. Haarde, Gunnlaugur Claessen og Sólveig Pétursdóttir tekið Flokksákvörðun um að veita Árna Johnsen uppreisn æru, að ósk Björns Bjarnasonar, ráðherra hermála. Flokksákvörðunin er utan við lög og rétt, því að forseti má ekki veita sakamönnum uppreisn æru fyrr en fimm árum eftir að hann hefur tekið út refsingu sína. Aðeins tvö ár eru liðin hjá Árna. En Flokkinn vantar góðan frambjóðanda og því eru lögin brotin af hermálaráðherra og staðgenglum forsetans. Eins og að drekka vatn. Í bananalýðveldinu.

Óskipulögð alfræði

Punktar

Wikipedia er óskipuleg alfræðibók á vefnum, samin af ókeypis áhugafólki. Hún er orðin ein bezta heimildin á vefnum, mikið notuð af blaðamönnum. Þegar vel gengur, koma skemmdarvargar auðvitað á vettvang, búa til brenglaða texta til að hossa öðru og lasta hitt. Nú er svo komið, að stýrimenn Wikipedia eru að haga svo málum, að nýjar upplýsingar fari um nálarauga umsagnaraðila, áður en þau eru sett í alfræðibókina. Áður hafði ákveðnum skráningum verið lokað til að hindra skemmdarvarga í verki. Hætt er við, að sjálfboðavinna við gerð Wikipedia dofni eftir breytinguna.

Gegn þróunarkenningunni

Punktar

Ratzinger nazistapáfi í Róm hefur tekið upp andstöðu við þróunarkenningu Darwins, sem er undirstaða náttúruvísinda nútímans. Hann er í flokki með trúarofstækismönnum í Bandaríkjunum, sem ritskoða kennslubækur og banna kenninguna í skólum. Hún var fyrir tíu árum óbeint samþykkt af forvera hans, Jóhannesi Páli páfa. Að undirlagi Ratzingers, sem nú heitir Benedikt páfi, er í þessari viku haldin ráðstefna kaþólskra róttæklinga til að undirbúa harðara afturhald Páfastóls í ágreiningsmálum trúar og vísinda. Meginþáttur afturhvarfsins felst í að falla frá þróunarkenningunni.

Klasasprengjur gegn börnum

Punktar

Ísrael notaði bandarískar klasasprengjur í stríðinu gegn Ísrael. Þetta eru sprengjubúnt, sem springa ekki við lendingu, heldur dreifast um stórt svæði. Þar finna börn þær, skoða þær og örkumlast eða deyja. Klasasprengjur má aldrei nota á þéttbýlum svæðum. Það eru aðeins illmenni, sem gera slíkt, þar á meðal herinn í Ísrael. Bandaríkin bera hálfa ábyrgð, því að þau afhentu fólum sprengjurnar. Tímafrekasta og erfiðasta verk frönsku friðargæzluliðanna í Líbanon er að finna þessa sprengjur og gera þær óvirkar áður en börnin finna þær.

Auðveld ævisöguritun

Punktar

Við munum eiga náðuga daga í ellina við að rita ævisögu okkar. Google hefur frá upphafi safnað allri leit okkar á veraldarvefnum. Þar er hægt að sjá, hvað við keyptum, hvað við sögðum, um hvað við spurðum. Þetta komst upp fyrir tilviljun í marz, þegar AOL netþjónustan birti fyrir mistök leitarferla 650.000 viðskiptamanna sinna. Hún tók þá út aftur, en þá voru óprúttnir aðilar búnir að ná afritum af öllu gumsinu, sem nú má finna á fjórum stöðum á vefnum. Persónuvernd hefði áreiðanlega gaman af að tala við Google með tveimur hrútshornum, en hún má ekki við ofurefli heimsleitarkerfisins.

Íslenzk leyniþjónusta

Punktar

Patrick Gray játaði fyrir bandarískri þingnefnd að hafa eytt gögnum til að verja Nixon Bandaríkjaforseta falli. George J. Tenet gerði það sama fyrir George W. Bush forseta, en var frægastur fyrir að segja það vera “piece of cake” að finna gereyðingarvopn í Írak. Þetta eru frægustu forstjórar CIA, ágæt dæmi um, að leyniþjónustur fara úr böndum, þótt þær séu vel meintar. Hið sama mun gerast með leyniþjónustu Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherrra. Hún mun gefa rangar upplýsingar, verða staðin að svínaríi og hafa afskipti af innlendum stjórnmálum, til dæmis með njósnum um stjórnarandstæðinga.

29 punda hótel

Punktar

Samlokukóngurinn Sinclair Beecham er að opna hótel rétt norðan við City í London, þar sem nóttin á að kosta 59 pund. Þar á símtalsmínútan ekki að kosta 2 pund, heldur 2 pens. Þar á Mars-stöngin ekki að kosta 2 pund, heldur sama og úti í búð. Þægindi eru hin sömu á hótelherbergjunum og menn eru vanir, netsamband er frítt og kaffi sömuleiðis. Tom Robbins sagði í gær í Observer, að herbergin væru bæði stór og fín. Hótelið heitir Hoxton, síminn er 020 75450 1000, vefsíðan www.hoxtonhotels.com. Það verður opnað á föstudaginn. Þá verður loksins komið hótelverð af viti í London.

Hættulegir hlutir

Punktar

Í Observer í gær sagði Ruaridh Nicoll frá viðbrögðum sínum við fréttum af grunsamlegum hlutum í vörzlu 11 manna, sem taldir voru undirbúa hryðjuverk. Hann leit í kringum sig og sá þar fullt af grunsamlegum hlutum. Þar var pennahnífur; þrjú kort af Afganistan; handbók um eiturefni; loftbyssa; bók með mynd af manni að henda Mólótoff-kokkteil inn í skriðdreka; Stóra bókin um leynda staði; tölva með Google Earth forritinu; The Times Atlas of the World. Samtals voru þetta fleiri terroristahlutir en hinir ellefu höfðu hjá sér. Nicoll sá fyrir sér sefasjúkar fréttir löggunnar af húsleit hjá sér.

Far vel sauðfé

Punktar

Ég reið í gær í fyrsta sinn í sumar hjá Torfdal í Kaldbakslandi. Unun er að sjá, hvernig uppblástursflög hafa dregizt saman á sumri hverju síðan sauðfé var aflagt. Þau eru orðin græn og verða orðin vel gróin næsta sumar. Víða er kominn víðir, sem áður sást ekki. Kvisturinn bindur moldina og ver landið gegn uppblæstri. Þúsund hektara jörð er að breyta um svip. Þyngst er að verjast sauðfé, því að landlitlir menn láta girðingar sínar grotna niður, svo að sauðfé þeirra komizt í grænni haga á Hrunaheiðum. Það á að vera skotleyfi á sauðfé, sem ferðast milli jarða á riðusvæði.