Punktar

Langdýrast í heimi

Punktar

Kunningi minn vestra hefur farið víða á vegum olíuleitar, notar símann mikið og veit, hvað það kostar. Hann borgar 5-18 sent á mínútuna fyrir símtöl til þróunarlanda. Eitt land sker sig úr. Það er Ísland. Þangað kostar 50 sent að hringja, hjá AT&T, MCI og Sprint, þrefalt meira en til nokkurs annars lands. Hann notar sjálfur Voice-over-IP tölvusíma, en félagar hans álpast til að nota síma til að ná í hann á Íslandi. Auðvitað stafar verðið af einokun. Hún er á ábyrgð Póst- og fjarskiptastofnunar, sem lætur okur viðgangast og á þó að hafa eftirlit með símafélögum.

Ráðast á eigin mann

Punktar

Repúblikanar í Bandaríkjunum verja 70 milljón krónum til að ráðast á hinn hægri sinnaða Stephen Laffley, sem ætlar að velta Lincoln Chafee úr sessi sem öldungadeildarmanni fyrir Rhode Island. Höfuðstöðvar flokksins telja Laffley vera svo róttækan, að ekki sé hægt að sýna hann í þingkosningum. Þær telja Laffley munu tapa þingsætinu fyrir demókrötum og því sér skárra að hafa Chafee þar. Samt er hann nærri demókrötum, studdi aldrei stríðið gegn Írak og kaus ekki George W. Bush síðast. En vegir stjórnmálanna eru órannsakanlegir víðar en í Vestmannaeyjum.

Tónlistarmenn frystir

Punktar

Heimskunnir tónlistarmenn eru í vanda vegna streituviðbragða Bandaríkjanna og Bretlands við hryðjuverkum. Þeir geta ekki flutt með sér hljóðfærin, þótt þeir kaupi sæti undir þau. Engum dettur í hug að setja verðmætan Stradivarius í farangursgeymslu. Þess vegna hefur ferðum tónlistarmanna yfir Atlantshafið snarfækkað og innan Evrópu eru tónlistarmenn aftur farnir að nota lestar. St.Lúkasar hljómsveitin í New York hætti við að leika á Edinborgarhátíðinni. Nú verða Bandaríkjamenn að spila í Bandaríkjunum og Evrópumenn í Evrópu. Segið svo, að bin Laden nái ekki árangri.

Boltafólk hrellir okkar

Punktar

Páll Magnússon útvarpsstjóri hefur beðist afsökunar á, að meirihluta þjóðarinnar voru veittar sjónvarpsfréttir á réttum tíma og hagsmunum hans ekki fórnað fyrir háværan 30% minnihluta þeirra, sem vildu sjá boltaleik í fréttatímanum. Þetta er gott dæmi um, hversu illa kúgaður almenningur er af boltafólki. Ég held, að leitun sé að sjónvarpsstöð, er láti fasta fréttatíma víkja fyrir sérhæfðu áhugamáli, sem kannanir sýna í algerum minnihluta. Ég held líka, að hvergi í heiminum telji sjónvarpsstjóri sig þurfa að biðja boltafólk afsökunar.

Minningargreinin

Punktar

Germaine Greer skrifaði í Guardian minningargrein um krókódíla-Irwin, sem var stunginn til bana af stingskötu. Hún fletti þar ofan af ferli hans sem dýrakvalara og segir mörg dæmi úr ævinni því til staðfestingar. Greer er greinilega vel kunnug smáatriðum í ævi Steve Irwin, sem lifði á því að fíflast með dauðhrædd dýr. Meginkosturinn við grein hennar er þó sá, að hún víkur frá þeim félagslega rétttrúnaði, að allir séu góðir, þegar þeir eru dauðir. Ég sé fyrir mér, hvílíkur hvellur yrði hér á landi, ef farið væri að segja sannleikann í minningargreinum.

Þjóðernissinnar eflast

Punktar

Mikill stuðningur við framboð Nicolas Sarkozy til forseta í Frakklandi, sýnir, að fólk í Frakklandi er orðið þreytt á stækkun Evrópusambandsins og vill til dæmis alls ekki fá Tyrki inn. Þetta er eitt dæmið af mörgum um vaxandi ótta við útlendinga, einkum áhangendur Íslams. Þar með minnka líkur á sögulegum sáttum milli menningarheima. Ef Tyrkland gerðist aðili að sambandinu og fjölmörgum reglum þess um frelsi og lýðræði, mundi heimur íslams hafa eitt dæmi um aðlögun trúarinnar að nútímanum. Þjóðernissinnum í Evrópu virðist munu takast að hindra þá merkilegu tilraun.

Grátbiður um meira

Punktar

Bandarískur yfirmaður Atlantshafsbandalagsins í Afganistan grátbiður ríki bandalagsins um að senda sér fleiri og betri vopn og menn til að stríða við talíbana. Þeir hafa fært sig upp á skaftið og hrella bandalagið, er hefur tekið við af önnum köfnum Bandaríkjunum, sem stynja undir hermámi Íraks. Talíbanar urðu frægir fyrir nokkrum árum fyrir að afnema ræktun eiturlyfja í landinu. Sú ræktun er aftur orðin meiri en fyrr, undir stjórn villtra herstjóra og bandalagsins. Því má spyrja, hvað hálfdautt bandalag úr Evrópu sé að gera þarna austur frá. Hefur það ruglast í landafræðinni?

Dagleg afbrot í viku

Punktar

Liður í daglega lífinu í borginni eru hamfarir ungmenna, sem kerfið hefur vanið á dagleg afbrot. Í stað þess að loka þau inni, eru þau látin leika lausum hala. Í sjö daga í júní var sami maður tekinn fastur oftar en einu sinni á dag og jafnharðan látinn laus aftur. Aldrei var maðurinn settur í síbrotagæzlu. Samt var hann á skilborði og sat ekki af sér glæpi, sem hann hafði áður framið. Löggan mat málin svo, að ekki væri þörf á slíkri gæzlu. Hún telur sennilega, eins og Hverfisráð Miðborgar, vandann ekki felast í glæpum, heldur í fréttum af glæpum.

Fréttir eru vandinn

Punktar

Fínt apparat, sem heitir Hverfisráð Miðborgar, leitar leiða til að standa vörð um öryggi fólks í miðbæ Reykjavíkur. Í því skyni þykir ráðinu brýnast að bæta ímynd borgarinnar með því að draga úr neikvæðum fréttum fjölmiðla, sem segja frá ölæði og barsmíðum. Þótt ofbeldi hafi aukizt í borginni og harðnað að mun, þykir ráðinu happasælast, að okkur sé talin trú um, að ofbeldi fari samt minnkandi. Stutt er í, að ráðið krefjist banns á neikvæðar fréttir úr miðborginni, svo að ferðafólk og fólk utan af landi verði síður hrætt. Gott er að vita, að Hverfisráð Miðborgar hafi eitthvað fyrir stafni.

Nánast frítt rafmagn

Punktar

Í fréttabréfi sínu ráðleggja Stansberry & Associates fjárfestum að kaupa hlutafé í álverum, sem hyggist reisa verksmiðjur á Íslandi. Þar sé nefnilega nánast frítt rafmagn í boði hjá Landsvirkjun. Steve Sjuggerud segir í fréttabréfinu, að þetta sé ávísun á mikinn gróða bandarísks álfyrirtækis, sem hafi komið sér fyrir á Íslandi, væntanlega Alcoa. Álverð muni hækka og verið sé að loka álverum víða um heim vegna þungaverðs á rafmagni. Því sé ekki til að dreifa á Íslandi, því að þar sé rafmagnið nánast frítt. Enda fréttum við áður frá Alcoa, að verðið hér sé hálft brazilíuverð.

Skrítni formaðurinn

Punktar

Hinn sérkennilegi formaður Framsóknar telur hæfa kjósendum að segja þeim, að stóriðjustefnan sé liðin. Ríkisstjórninni komi þessi stefna ekkert við, því að það séu alls konar aðrir aðilar, sveitarfélög og einkafyrirtæki, sem reki stefnuna. Landsvirkjun ragar ríkisstjórnina alls ekki neitt. Það á semsagt að reisa þrjú risaver til viðbótar Reyðarfirði án þess að það komi stjórninni neitt við. Valgerður Sverrirdóttir hefur ekki verið að reka neina stóriðjustefnu fram á þennan dag, heldur er hún bara að rækja samkvæmislífið í heimi álfursta og Landsvirkjunar. Er formaðurinn á lyfjum?

Auðir ratsjárstólar

Punktar

Landið hefur þegar verið varnarlaust í þrjá mánuði. Ratsjárstöðvunum fjórum var lokað í maí. Varnarliðið stóð þá upp úr stólunum og hvarf á brott. Við töldum þær vera hlekk í keðju ratstjárstöðva um alla álfu Natós norðan frá Grænlandi suður til Tyrklands, en það var þá bara misskilningur. Þetta er bara dót, sem Bandaríkin nenna ekki að nota. Stólarnir við skjána eru auðir. Án ratsjárstöðva er ekkert eftirlit með leyndu flugi og án þeirra er ekki hægt að stjórna herþotum, þótt þær kæmu hingað aftur til varna. Þetta segir allt, sem segja þarf um hernaðarlega stöðu Íslands.

Stríð er ekki lausn

Punktar

Fjölþjóðleg skoðanakönnun sýnir, að beggja vegna hafsins ríki vaxandi ótti við hryðjuverk, 79% í Bandaríkjunum og 66% í Evrópu. Jafnframt hefur minnkað traust manna í Evrópu á forustu Bandaríkjanna í heiminum. Fyrir þremur árum höfðu 64% evrópumanna jákvæða afstöðu til stjórnvalda í Bandaríkjunum en núna aðeins 37%. Í Bandaríkjunum sjálfum er meirihluti fólks orðinn andvígur utanríkisstefnu stjórnvalda, 58%. Fæstir hafa trú á hernaðarlegri lausn deilnanna við Íran, aðeins 15% í Bandaríkjunum og 5% í Evrópu. Fólk er ekki eins vitlaust og við höfum sumir haldið.

Fangi þriggja kvenna

Punktar

Sidney Blumenthal segir í Guardian, að þrjár konur einangri George W. Bush frá umhverfinu, haldi honum í blöðru vanþekkingar á stöðu mála. Þær séu Condoleezza Rice utanríkisráðherra, Karen Hughes almannatengill hans og Harriet Miers, lögmaður hans. Hann segir Rice ganga harðast fram, haldi frá honum öllum neikvæðum fréttum og segi honum að hunza gagnrýni. Ennfremur segi hún honum, að hann sé einn af mestu mönnum mannkynssögunnar. Samkvæmt þessu er Bush fangi í búri, sem hann hefur búið til. Konurnar þrjár spinna honum stríð, þótt engin áætlun sé til um árangur þess, segir Blumenthal.

Minnkandi stuðningur

Punktar

Fjölþjóðleg könnun sýnir aukna andstöðu Evrópubúa við hernaðarstefnu Atlantshafsbandalagsins. Stuðningur við bandalagið hefur fallið úr 69% árið 2002 í 55% á þessu ári. Í Póllandi, einu helzta stuðningsríki Bandaríkjanna og bandalagsins, hefur stuðningurinn fallið úr 64% í 48%. Meirihluti Evrópubúa vill nú sjálfstæðari afstöðu álfunnar til öryggismála. Stjórnarskipti á Spáni og Ítalíu hafa fært Miðjarðarhafið pólitískt fjær Bandaríkjunum. Í Tyrklandi, sem lengi hefur verið einn af hornsteinum bandalagsins, hefur stuðningur við það minnkað úr 53% í 44%.