Punktar

Tilfærslur á fylgi

Punktar

Davíð hefur engu gleymt og ekkert lært. Reynir að leiða kosningabaráttuna aftur til fortíðar. Smjörklípurnar virka bara ekki lengur, verða eins og bjúgverpill. Fólk áttar sig á, að hann er búinn að vera. Atkvæði munu því dreifast meira. Til dæmis gætu Andri Snær og Halla farið upp fyrir Davíð. Andri Snær er bezta forsetaefnið, fulltrúi Nýja Íslands. Guðni er fremur fulltrúi þess hluta Gamla Íslands, sem vill endurheimta siðferðið í pólitík og viðskiptum. Ekkert bendir til, að hann muni hjálpa til við að breyta Gamla Íslandi í grundvallaratriðum. Það væri þó í samræmi við stjórnarskrána, sem bíður fullbúin niðri í skúffu.

Viðskiptablaðið segir bú-hú

Punktar

Viðskiptablaðið hefur tekið að sér að fæla kjósendur frá Pírötum. Að venju fer blaðið mikinn í skáldskap. Sakar pírata um þá vinstri villu að setja heilsuna í forgang. Hækka framlögin um tugi milljarða. Getur þess ekki, að það á að gera í samræmi við markaðslögmál með uppboði á kvótum og öllum lönduðum afla. Með því að láta eðlileg viðskiptalögmál auðlinda ráða ferð. Sakar pírata um að undirbúa borgaralaun handa óverðugum. Staðreyndin er hins vegar, að píratar vilja skoða erlendar tilraunir með borgaralaun. Ekki er meiningin að framkvæma neitt án fjárhagslegra stoða. En Viðskiptablaðinu hentar bezt að reyna að hræða fólk.

Tölurnar hríðlækka

Punktar

Vísindavefurinn birtir nýjar tölur Hersis Sigurgeirssonar um misjafnan kostnað við helztu áfanga IceSave samninganna miðað við útkomuna. Nýjustu tölur segja, að Svavar I og II hefðu kostað ríkið 140 milljarða og Buchheit 46 milljarða. Ýmsar tæknivillur í eldri tölum hafa þá verið leiðréttar. Þó gera tölurnar enn ekki ráð fyrir líklegum mótaðgerðum ríkisins, sem hlytu þó að hafa orðið. Við vitum ekki, hvort tölurnar muni enn minnka. Ljóst er þó, að þær eru orðnar mun lægri en annar hrunkostnaður, sem ríkið varð fyrir. Svo sem vegna 300 milljarða gjaldþrots Seðlabankans og endurfjármögnunar bankans á kostnað ríkisins okkar.

17. júní blásinn af

Punktar

17. júní er búinn að vera sem þjóðhátíðardagur Íslendinga. Austurvöllur girtur af. Gamlingjarnir, sem klæða sig upp fyrir daginn, gátu ekki grýtt forsætis með eggjum og banönum. Það var semsagt lokað inn á Austurvöll og lögreglan sá um að ýta bíl forsetans í gang. Gamla Ísland kvaddi sjálft sig þennan 17. júní. Nýir tímar eru að koma. Sigurður Ingi var ekki að tala við Íslendinga, hann var bara að tala við aflendingana í kring. Sagði þeim frá, að allir hefðu nóg að bíta og brenna á auðlindalandinu Íslandi. Lögreglugirðingin víðfeðma var hinsta kveðja aflendinganna til þjóðarinnar. Öryggislöggan var miðlæg í stóra hvíta tjaldinu.

Hafið ekki áhyggjur

Punktar

Í ljósi velgengni pírata er eðlilegt, að spurt sé, hver verði forsætisráðherra. Fyndið er, að málgögn Sjálfstæðisflokksins nefni bara þau, sem beinlínis hafa hafnað áhuga á því. Birgitta Jónsdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson hafa önnur áhugamál. Ég sé fyrir mér, að Birgitta yrði frábær utanríkisráðherra. Hún mundi láta hræsnisfulla kollega súpa hveljur, til dæmis á fundum í Nató eða í samtökum hjá Sameinuðu þjóðunum. Þeir gætu engu svarað nema gömlum klisjum. Hjá pírötum eru nefnd fleiri, sem gætu verið forsætisráðherra, til dæmis Smári McCarthy. Það eru aðrir flokkar, er þjást af andverðleikum, ekki píratar. Hafið ekki áhyggjur.

Blessaðar kannanir

Punktar

Skoðanakannanir þekktust ekki hér á landi fyrr en á seinni hluta síðustu aldar. Áður höfðu almannatenglar flokkanna skrítna vitneskju, sem þeir komu á framfæri í flokksblöðum. Svo komu atkvæðagreiðslur á vinnustöðum, sem einnig gáfu færi á skrítnum fullyrðingum. Smám saman komu þó til skjalanna vísindalegar kannanir, sem notuðu svipaðrar aðferðir og erlendis. Við sjáum í fjölmiðlum, hversu góð fylgni er í útkomum slíkra stofnana undanfarið. Við erum orðin frjáls af lygum pólitískra almannatengla. Getum notað tölur, sem er treyst. Fásinna er að banna vísindalegar kannanir í viku fyrir kosningar. Það býður heim gamalkunnum lygum.

Holskurður á lífeyrissjóðum

Punktar

Sennilega er hægt að setja lífeyrissjóðum mörk án þess að kaupa eignir þeirra.
1. Reka alla núverandi stjóra og stjórnarmenn og banna slíkum að koma að svona rekstri í náinni framtíð.
2. Kjósa beint meðal sjóðfélaga og lífeyrisþega um stjóra og stjórnarmenn.
3. Sameina sjóðina í fimm stóra sjóði, sem keppa frjálst sín á milli um hylli sjóðfélaga.
4. Gera brask saknæmt.
5. Skipta hverjum sjóði í þrjár deildir,
a) safnbauk sparifjár,
b) fjárfestingar og
c) íbúðalánasjóð félagsmanna.
6. Setja strangasta ríkiseftirlit með framhjáhlaupum bófanna.
7. Slíta samkrulli ríkis og sjóða um þjófnað lífeyris til að spara ríkinu eftirlaun.

Öfgarnar er misjafnar

Punktar

Trúarbrögð geta verið hættuleg, þegar þau ganga út í öfgar. Fátt er um kristna ofsasöfnuði, en valda stundum vandræðum. Flest önnur trúarbrögð eru einnig að mestu meinlaus. Nema íslam. Að vísu er umburðarlyndi útbreitt meðal múslima í Sýrlandi, Tyrklandi og Austur-Asíu. En víða hefur íslam orðið herskárra á síðustu áratugum. Salafídar og Wahabítar hafa lengi ræktað ofsa. Olíufé Sádi-Arabíu hefur óspart verið notað er til að reisa miðaldamoskur víða um heim og kosta öfgaklerka. Einnig hefur hernaður Bandaríkjanna og viljugra fylgiríkja (Davíð) magnað hatur í heimi múslima. Afleiðingar eru Jihad, Talíban, al Kaída og Isis.

Lífeyrissjóðir eru illkynja

Punktar

Lífeyrissjóðirnir eru orðnir eitt mesta samfélagsmein aldarinnar. Þar koma saman atvinnu- og verkalýðsrekendur. Finna ný brögð til að auka tekjur sínar. Samsærið endaði með, að fæstir lífeyrisþegar fá neitt úr sjóðunum. Tapa lífeyrinum krónu á móti krónu í eftirlaunum Tryggingastofnunar. Nú er búið að víkka samsærið yfir í Salek, sem ákveður, hverjar kjarabætur verða. Verða 1-2% hverju sinni, þótt ljóst sé, að með hækkun í hafi er tugum milljarða haldið árlega utan hagtalna. Forstjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna fær þrjár milljónir á mánuði fyrir að rýra útborgaðan lífeyri. Afskaffa ber þetta fáránlega kerfi eftir kosningar.

Fjaðrirnar rytjast

Punktar

Nú rytjast fylgið réttilega af Davíð. Var staðinn að margvíslegum lygum í áburði á helzta keppinaut sinn. Hann sjálfur og skrímsladeild hans á vefnum fóru langt út fyrir allt velsæmi. Í ljós kom, að verkin voru hans sjálfs, en ekki annarra. Varð skelfileg útreið nokkurra manna, sem þekkja ekkert til velsæmis. Slíkir eru að byrja að verða útdauðir í pólitík. Eftirspurn er engin með siðblindingjum, sem valta yfir allt og alla og gleyma engri mótgerð. Tími Davíðs er fyrir löngu liðinn. Þegar hann hannaði óheft bankafrelsi. Þegar hann gerði Seðlabankann gjaldþrota í æðiskasti. En nú fyrst fær þjóðin að segja sitt álit. Það er 15,9%.

Allt með íslam að gera

Punktar

„Þetta hefur akkúrat ekkert með íslam að gera.“ Enn einu sinni er órökstudda mantran þulin. Verður aldrei réttari, þótt faðir fjöldamorðingja eða íslenzkur doktorsnemi þylji hana. Íslam er núna eins og kristni var á miðöldum. Kristni er nú jaðarmál á vesturlöndum. Íslam er þungamiðja lífsins í löndum múslima, meira að segja í Tyrklandi. Ekkert þýðir að kenna einhverju hliðaratriði um óhæfuverk múslima. Til dæmis: Sharia. Öfgaklerkum salafída/wahabíta. Hatri eins á hommum og lessum. Forskriftum um kvenhatur og barnaníð. Reglum um morð á vantrúarfólki. Lágri stöðu múslima í vestrænum heimi. Allt á þetta sínar forsendur í íslam.

Framsókn tapar á furðufugli

Punktar

Sigmundur Davíð nýtur einskis trausts utan Framsóknar og er einnig umdeildur þar í flokki. Framboð hans mun skaða flokkinn enn meira en orðið er. Aflendingurinn verður helzta áróðursefnið gegn flokknum í októberkosningunum. Þar er af nógu að taka. Sigmundur er siðblindur og rökheldur í gegn. Svarar í engu þeim rökum, sem að honum er beint. En sakar öfl um allan heim um samsæri gegn sér. Myndskeiðið fræga úr Ráðherrabústaðnum vakti jafnvel athygli hinum megin á hnettinum. Þegar hann dúndrar fram nýjum rosaloforðum, munu margir muna háðulega útkomu fyrri loforða hans. Framsókn hefur ekki efni á að flagga aftur þessum furðufugli.

Verstu gaurarnir hverfa

Punktar

Við erum að losna við verstu gaura gamla Íslands á þessari öld. Ólafur Ragnar hættur og Davíð Oddsson fær ráðningu við hæfi. Sigmundur Davíð er á útleið og allur hans armi flokkur. Geir H. Haarde hangir í óverðskulduðu fínimannsstarfi. Hanna Birna öllum gleymd. Kristinn L. Möller og Ögmundur Jónasson láta sig hverfa, en Steingrímur J. Sigfússon ætti að læra af þeim. Núllin og nixin hjá Framsókn og Sjálfstæðis hætta flest eða falla. Í staðinn verður pláss fyrir  fólk nýja Íslands, sem væntanlega innleiðir lýðræði og heiðarleika í pólitík. Við eigum enn eftir að losna við þjóf-ræðið og aflendinga stóra bófaflokksins.

Guðmundur afétur gamlingja

Punktar

Greiðslur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna til gamla fólksins hafa ekki hækkað árum saman, þrátt fyrir almennar launahækkanir. Furði fólk sig á þessu, má það líta á, hvernig laun framkvæmdastjóra sjóðsins hafa bólgnað á þessum tíma. Árið 2009 voru framkvæmdastjórar þriggja stærstu sjóðanna með sömu laun, 18 milljónir eða 1,5 milljón á mánuði. Guðmundur Þ. Þórhallsson hjá sjóði verzlunarmanna hefur síðan blómstrað upp fyrir 3 milljónir króna á mánuði árið 2015. Þetta er gott dæmi um siðblinduna, sem hrjáir yfirstétt þjóðfélagsins. Við þurfum byltingu, er sópar burt öllu þessu græðgisliði, sem afétur unga sem gamla. Pírata til valda.

Framboðskostnað á borðið

Punktar

Eðlilegt er, að kjósendur krefjist upplýsinga um framboðskostnað, bæði þegar fram kominn og heildaráætlun. Þar þarf að vera skipting milli helztu þátta. Og framlög í fríðu, svo sem húsnæði, skrifstofubúnaður, svo og hönnun og prentun. Einnig þarf að vera listi yfir hæstu framlög einstaklinga og fyrirtækja. Sögur ganga um óheyrilega aðild auðgreifa að framboðskostnaði. Eina leiðin til að slá á þær er að leggja fram gögnin. Nýja Ísland ætlast til að framboðskostnaður sé sýnilegur, þótt gamla Ísland hafi sætt sig við leyndarmálin. Krafan er núna: Allur framboðskostnaður liggi opinn fyrir á borðinu, áður en kemur að kjördegi.