Punktar

Fórnum bara Steingrími

Punktar

Steingrímur Sigfússon er farinn að æpa út af IceSave. Hann um það, hann getur bara sagt af sér. Hefur keyrt sig út á yztu nöf og núna fram af henni. Hann laug, að samingurinn væri frábær, sem reyndist svo vera ömurlegur. Við skulum leggja Steingrím til hliðar. Við skulum heldur semja um, að Alþingi viðurkenni IceSave samninginn með einu skilyrði. Að ársgreiðslur skaðabóta og vaxta fari ekki yfir 2% af landsframleiðslu. Slíkt mun ekki valda hvelli erlendis og ekki frysta opinber lán. Við munum ekki fá nein lán að sinni á frjálsum markaði hvort sem er. Fórnum bara Steingrími og lífið heldur áfram.

Tortryggni og trúgirni

Punktar

Gunnar Birgisson bæjarstjóri kvartar í sunnudagsmogga yfir tortryggni fólks. Hún magnast og trúgirni rýrnar. Er heilbrigðara ástand en hið fyrra, þegar spilling dafnaði í skjóli pukurs og leyndar. Nú vefengja menn landsfeðurna, sem eiga erfitt með að laga sig að þessum aðstæðum. Pukrið um IceSave samninginn sýnir það. Engin ástæða er til að verða trúgjarn á nýjan leik. Valdhafar og yfirstétt lagast ekki á skömmum tíma tortryggni. Fyrst eftir langvinna tortryggni fara pólitíkusar, skriffinnar og braskarar að haga sér almennilega. Enn skilja þeir ekki, að glóðir elds safnast að höfði þeirra.

Galdrað upp úr hattinum

Punktar

Tryggvi Þór Herbertsson er mesti sölumaður snákaolíu á landinu. Fer létt með að galdra tugmilljarða upp úr hattinum. Til dæmis með því að skattleggja lífeyri, þegar hann kemur inn, en ekki þegar hann er greiddur út. Hann telur þannig verða til milljarðar úr engu. Þessa göldruðu peninga vill hann nota til að afskrifa húsnæðisskuldir 20%. Hann opnar ekki munninn öðru vísi en með hókus-pókus. Ég er sérfræðingur, segir hann bara, þegar menn hafa hann í flimtingum. Þegar hann var aðstoðarmaður Geirs Haarde, fannst honum allt í lagi að ábyrgjast IceSave. Núna finnst honum slík ábyrgð vera fráleit.

Hræfuglarnir hnita hringi

Punktar

Hræfuglarnir eru farnir að hnita hringi. Það táknar, að stjórnarsamstarf Samfylkingar og Vinstri grænna er orðið þreytt, hangir á bláþræði. Jaðrar við uppreisn í þingflokki Vinstri grænna út af IceSave-samningnum. Þekktir samfylkingarmenn blogga um nýja stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Um hvað veit ég ekki. Þekktir sjálfstæðismenn blogga um stjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gegn IceSave og Evrópusambandinu. Af þessu tvennu er það síðara líklegra. Stjórnarflokkarnir eru orðnir þreyttir, enda ástandið erfitt. Er ekki bara bezt að setja IceSave á ís á Alþingi?

Atvinnuleysið er plat

Punktar

Raunverulegt atvinnuleysi er mjög lítið í byggingaiðnaði, þótt margir séu á skrá. Mikið af því tengist svartri vinnu. Hún étur upp sjóði, sem eiga að nýtast hinum raunverulega atvinnulausu. Alkunnugt er, að erfitt er að fá fagmenn til vinnu, þrátt fyrir meint atvinnuleysi. Í raun leystist kreppan í byggingaiðnaði með brottför áttaþúsund erlendra manna. 8000 manns hurfu. Atvinnuleysið í greininni var hreinlega flutt út. Nauðsynlegt er að kanna veruleikann að baki meintu atvinnuleysi og beita menn tilfinnanlegum sektum, ef upp um þá kemst. Við höfum ekki efni á að borga gervi-atvinnuleysi.

Notið Hjallastefnu á greifana

Punktar

Margrét Pála Ólafsdóttir segir íslenzk börn þurfa meiri aga. Efnahgasástand þjóðarinnar stafi af agaleysi, regluleysi og eftirlitsleysi. Ég held, að við þurfum meira af Hjallastefnu á æðstu stigum vitleysunnar. Margrét Pála þarf að taka Bjöggana í bóndabeygju. Og halda þeim þar, þangað til þeir lofa bót og betrun. Þá væri gott, ef Margrét Pála vildi hrista Wernerssyni svolítið, þó ekki svo, að það verði sárt. Ennfremur væri gott, að Margrét Pála hótaði Hannesi Smárasyni, banna honum að gefa út yfirlýsingar. Svo má ráða hrossa- og hundatemjara til að fást við víkinga og bankastjóra og eftirlitsmenn.

Við erum sigruð þjóð

Punktar

Sammála túlkun Sigurðar Líndal prófessors. IceSave-plaggið er skilyrðislaus uppgjöf sigraðrar þjóðar. Höfum tapað stríði við Evrópu. Hún hefur ákveðið að leggja á okkur byrðar, sem við getum ekki staðið undir. Ekki frekar en Þjóðverjar eftir fyrra heimsstríðið. Við þurfum að borga á hverju ári meira en sem nemur tekjum af sjávarútvegi. Það gengur ekki upp, við skulum viðurkenna það strax. Þetta eru Versalasamningar. Þótt ríkisstjórnin hafi samþykkt málið, er brýnt, að Alþingi afgreiði það öðruvísi. Alþingi þarf að álykta, að það líti á plaggið sem úrslitakosti í garð sigraðrar þjóðar.

Innihaldslaust samþykki

Punktar

Alþingi getur afgreitt IceSave ruglið með þessari þingsályktunartillögu: “Alþingi Íslendinga hefur kynnt sér boðaða ábyrgð ríkissjóðs vegna IceSave samningsins við Bretland og Holland. Alþingi telur þetta vera úrslitakosti af hálfu Evrópu eins og Versalasamningarnir voru 1917. Þeir voru umfram greiðslugetu Þýzkalands. IceSave ábyrgðin er umfram greiðslugetu Íslands. Sem þing sigraðrar þjóðar í máli þessu samþykkir Alþingi umrædda ábyrgð. Það á enga aðra kosti. En tekur fram, að ábyrgðin verður aldrei innheimtanleg og innheimtist aldrei, því að þjóðfélagið mun alls ekki standa undir henni.”

Hrun svokallaðra lögmanna

Punktar

Lögmannafélagið er orðið frægast af orðalaginu “svokallað bankahrun”. Sýnir firringu ráðamanna félagsins. Fyrst varð félagið frægt í vetur af andstöðu við sannleiksnefnd Alþingis og við afnám þagnarskyldu. Síðan varð það enn frægara af andstöðu við afskipti Evu Joly af hruni Íslands. Lögmenn hafa lengi verið helztu púlsmenn græðgisvæðingarinnar, ásamt endurskoðendum. Óttast að verða eltir og látnir svara til saka. Fyrir aðstoð við lagakróka og skattsvik græðgisvæðingar í tengslum við banka, krosseignarfélög, útrás. Ef Lögmannafélagið ályktar um eitthvað, finnum við siðleysið leggja um allt.

Þar sem menn hata kúnnann

Punktar

Segafredo við Lækjartorg hefur látið á sjá. Í vetur fékk ég sjálfkrafa sykur og vatnsglas með espresso-kaffinu. Eins og á Ítalíu. Nú verð ég að koma að diskinum og ná í sykur, hella vatni í glas, taka servéttu. Minni þjónusta fyrir sama verð. Þó er verra, að starfsfólk er skapverra en áður. Ég benti á, að ég hafði fengið lítinn kaffiskammt, þótt ég hefði borgað fyrir stóran. Þjónustan setti upp á sig svip, baðst ekki afsökunar, og hreytti síðan í mig rétt mældu kaffi. Segafredo fær sjálfkrafa slæðing af túristum á sumrin. En hræddur er ég um, að innlendum fastagestum fækki, ef menn hata kúnnann.

Sáttmáli eymdarinnar

Punktar

Sáttmáli um stöðugleika jafngildir friði á vinnumarkaði. Annað gagn gerir hann ekki, en mikill skaði fylgir honum. Aðilar vinnumarkaðarins gæta ekki hagsmuna almennings, heldur sérhagsmuna. Til dæmis þeirra, sem betur eru settir. Alþýðusambandið er eins og spegilmynd af Samtökum atvinnulífsins. Þar ríkir sama eymdarhagfræði frjálshyggju. Á báðum stöðum ráða ferðinni hagfræðingar eymdarinnar. Alþýðusambandið hefur óbeit á sköttum og vill heldur skerða þjónustu við þá, sem minna mega sín. Samtök atvinnulífsins reyna svo að troða inn banni við frekari hugmyndum um fyrningu aflakvóta.

Herfangið á landsbyggðinni

Punktar

Þótt 70% af tekjum ríkisins af umferðinni komi frá höfuðborgarsvæðinu, renna bara 3% þangað til baka. Veruleg breyting til hins verra. Hvorki þingmenn svæðisins né bæjarfulltrúar hafa lagt sig fram um að fá þetta lagað. Enginn þeirra hefur mótmælt opinberlega. Pólitíkusar höfuðborgarsvæðisins eru gerólíkir starfsbræðrunum á landsbyggðinni. Þar mælist pólitísk velgengni í herfanginu, sem menn ná heim í hérað. Á höfuðborgarsvæðinu láta kjósendur sér vel líka, að pólitíkusar nái engu herfangi. Grafin eru rándýr göng á afskekktustu stöðum, en umferðarteppur látnar viðgangast í Reykjavík.

Stjórnin er andvíg gegnsæi

Punktar

Ríkisstjórnin er sannkölluð pukurstjórn, alger andstæða þess gegnsæis, sem boðað var við stofnun hennar. IceSave samningurinn er bezta dæmið. Stjórnin hugðist hvorki láta þing né þjóð fá að vita um innihald hans. Valdi þætti til að birta, en hélt öðrum leyndum. Smám saman var efnið kreist út úr henni, alltaf með semingi. Enn er ekki vitað um innihald hliðarbókana hans. Stjórnin þóttist í upphafi fylgja hinni nýju stefnu gegnsæis. En hefur í raun stundað meira pukur en fyrri stjórnir. Pukrið er í senn ósiðlegt og ópraktískt. Því að ríkisstjórnin kemst ekki upp með gamalgróið siðleysi.

Orðin tóm eru innantóm

Punktar

Varðar lítið um, hvað Björgólfur Thor Björgólfsson hugsar á degi hverjum. Langar hins vegar að vita, hvað hann endurgreiðir þjóðinni. Þarf ekki að lesa mærðartexta, sem Ásgeir Friðgeirsson semur fyrir hann. Yfirlýsingar um góðan vilja ná skammt. Yfirbót felst eingöngu í endurgreiðslum. IceSave var svindl af hálfu banka, sem Björgólfur átti. Hann komst yfir þann banka með klækjum Davíðs Oddssonar og Sjálfstæðisflokksins. Þeir aðilar þurfa nú að taka saman höndum. Um að sýna Björgólfi fram á, að innantóm orð friða ekki lengur neinn. Meðan hann endurgreiðir ekkert á hann að hafa hægt um sig.

Hýðist við höfuðkirkjur

Punktar

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins eiga að taka sér frí frá pólitík. Klæða sig í sekk og ösku og ganga milli höfuðkirkja landsins. Láta hýða sig við hverja kirkju eins og Sturla Sighvatsson. Syndir þeirra eru ofboðslegar. Þeir bjuggu til loftbóluna, sem nú hefur sprungið í andlit þjóðarinnar. Þeir seldu börn okkar og barnabörn í ánauð. Vegna pólitísks fíflaskapar þingmanna, sem höfðu tekið trú á græðgisvæðingu. Þar með talið einkarekið og eftirlitslaust bankakerfi. Þeir færðu okkur þjóðaróvinina mestu, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. Og eiga núna ekki að rífa kjaft.