Punktar

Búsáhaldabyltingin át börnin sín

Punktar

Borgarahreyfingin gamlaðist snöggt sem stjórnmálaflokkur í gær. Gekk með hótun og tilboð á fund forsætisráðherra. Þrír af fjórum þingmönnum flokksins sögðust hætta við að styðja Evrópuviðræður nema fallið yrði frá IceSave. Buðu kaup kaups. Hreyfingin var stofnuð til að siðvæða pólitíkina, en er nú orðin eins sjóuð í hrossakaupum og gömlu flokkarnir. Notar vinnubrögðin, sem hún hafnaði áður sem klækjastjórnmálum. Hafnaði eigin stefnuskrá og orðum þessara sömu þriggja þingmanna um síðustu helgi. Borgarahreyfingin er orðin spilltur flokkur gamaldags hrossakaupa. Búsáhaldabyltingin át börnin sín.

Ömurleg ríkisstjórn

Punktar

Ríkisstjórnin er óhæf. Hún fór vel af stað, en seig fljótt niður í kviksyndi gamla tímans. Gamlingjar hennar kunna ekki annað en vinnubrögð gamla tímans. Hún er svo forstokkuð, að hún getur ekki lengur birt dagskrár stjórnarfunda. Fyrri stjórnir gátu það samt. Leyndó er alfa og ómega ríkisstjórnar, sem þóttist ætla að efla gegnsæi. Hún heldur gögnum leyndum eins lengi og hún getur. Lætur draga plöggin út með töngum, eitt af öðru. Í hvert skipti þarf hún að hliðra til fyrri lygi, búa til nýja. Samt drullast hún aldrei til að segja sannleikann. Ég man satt að segja ekki eftir ömurlegri ríkisstjórn.

Siðvæðir ekki – rukkar bara

Punktar

Ríkisstjórnin er ekki að siðvæða kerfið, hún er bara að rukka þjóðina. Hún er ekki að hreinsa græðgisliðið og kúlulánafólkið úr bönkunum. Það er þar enn, jafnvel í skilanefndum. Er ekki að slengja ábyrgð á hruninu á herðar skúrka, hún setur allt klabbið á þjóðina. Enn ganga lausir bankastjórar, yfirmenn banka og útrásarvíkingar, sem hreinsuðu hundruð milljarða út úr bönkunum. Stjórnin þjónustar fjölþjóðastofnanir, sem heimta, að saklaust fólk sé hneppt í skuldafangelsi fyrir hönd skúrka. Lætur alla orsakavalda hrunsins ganga áfram lausa og liðuga. Við erum enn á kafi í siðleysinu.

Brennuvargarnir í brunaliðinu

Punktar

Hvert sem litið er sjáum við brennuvarga í brunaliði hrunsins. Við sjáum þá í sannleiksnefnd alþingis, matsnefnd um seðlabankastjóra, fjármálaeftirliti, skilanefndum gömlu bankanna, nýjum bankastjórnum. Ríkisstjórnin getur ekki unnið sér trausts almennings með því að láta þetta viðgangast. Hún þarf að hreinsa út brennuvargana. Þeir eru þekktir, nöfn þeirra hafa ítrekað komið fram. Þeir eru fulltrúar gamla tímans, er embættismenn og lögmenn stjórnuðu öllu. Þeir komu þjóðinni á hausinn og þjóðin vill ekki sjá þá í brunaliðinu. Meðan þeir flækjast fyrir slökkvistörfum segir fólk bara: Við borgum ekki.

Evrópa og IceSave slefa

Punktar

Nú sér fyrir endann á alþingisblaðri um Evrópu og IceSave. Ríkisstjórnin sá að sér í hvoru tveggja málinu. Búin að opna á fyrirvara í þingsályktun um IceSave samninginn. Mikilvægastur er fyrirvari um greiðslugetu ríkissjóðs. Einnig er fyrirvari um endurskoðun samningsins hvenær sem er. Í ályktun um aðildarviðræður eru settir ýmsir rammar, sem takmarka svigrúm til samninga. Hvort tveggja er í samræmi við vilja fólks eins og hann hefur komið fram í bloggi og víðar. Breytingarnar liðka fyrir samþykki beggja mála. Þau slefa gegnum Alþingi. Samþykki er brýnt, svo að lífið gangi áfram sinn vanagang.

Heimalningum er ekki bjargandi

Punktar

Gott er, að Alþingi ætlar að samþykkja viðræður um aðild að Evrópu. Þingmenn geta farið að garga um annað í bili. Viðræður fara í gang og útkoman verður borin undir þjóðina. Fróðlegt verður að sjá, hvað kemur út úr viðræðum. Að vísu skiptir útkoman engu máli. Íslendingar eru forstokkaðir. Taka engum rökum, allra sízt skynsamlegum, trúa á eigin orðhengilshátt. Einangruð eyþjóð telur sig alveg sérstaka, þótt sú sérstaða felist helzt í heimsfrægu getuleysi í fjármálum. Íslendingar munu með eindregnum meirihluta fella útkomuna. Sama hversu hagstæð Evrópa verður. Heimalningum er ekki bjargandi.

Össur á þekktum slóðum

Punktar

Össur Skarphéðinsson ráðherra er á þekktum slóðum. Sakar Bjarna Harðarson, fyrrverandi þingmann, um að gleðjast yfir stórbruna, þar sem líf og limir fólks voru í hættu. Össur reynir stundum að slá ódýrar keilur með hræsni og yfirdrepsskap. Bjarni gladdist, er Valhöll var brunnin, ekki yfir því, að fólk væri í lífshættu. Sá skítur kom frá Össuri. Sem Þingvallanefndarmaður ber hann ábyrgð á stórframkvæmdum við sumarhús innan þjóðgarðsins. Bjarni er bara heiðarlegur, segir sig hafa lengi dreymt um niðurrif Valhallar. Við þá skoðun er alls ekkert að athuga. Hins vegar er skítkast Össurar ógeðfellt.

Skipt um skoðun á umsókn

Punktar

Birgitta Jónsdóttir skipti um skoðun á umsókn um aðild. Fyrir kosningarnar studdi þingmaðurinn viðræður um aðild að Evrópu með þjóðaratkvæðagreiðslu á eftir. Nú er hún andvíg viðræðum án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún segist hafa látið glepjast. Viðræðurnar séu í raun meira en viðræður, þær feli í sér umsókn um aðild. Þær séu ekki bara könnun. Það er laukrétt hjá henni og raunar ekki ný frétt. Birgitta hefur fullt leyfi til að fatta þetta seint og fylgja síðan sannfæringu sinni. En allt málið er dæmigerður orðhengilsháttur Íslendinga. Skauta djarft á túlkun orða sinna og annarra.

Aukið fylgi hrunstjóra

Punktar

Fyrir hrun var ríkissjóður skuldlaus. Nú skuldar hann yfir þúsund milljarða. Sennilega er skuld skattgreiðenda framtíðarinnar komin í fjórar milljónir króna á hvert mannsbarn. Það er skuldafangelsi barna okkar og barnabarna. Ríkisstjórnin setti okkur ekki í fangelsið. Það var Sjálfstæðisflokkurinn, sem gerði það, fyrst með aðstoð Framsóknar, síðan Samfylkingar. Hann bjó til vítahringinn, sem hófst með frjálshyggju og einkavinavæðingu banka, skorti á eftirlitsiðnaði og Davíð Oddssyni í Seðlabankanum, Geir Haarde og IceSave. Dæmigert fyrir botnlausa heimsku Íslendinga er, að fylgi flokksins stígur.

Húmor og háð er list

Punktar

Ég les alltaf Smáfuglana á vefmiðlinum AMX. Ófyrirleitnir og vel skrifaðir með næmri tilfinningu fyrir húmor og háði. Höfundurinn er gamall vinnufélagi minn, Jónas Haraldsson. Ég hef ekkert við Smáfuglana að athuga annað en að BloggGáttin flokkar þá ranglega sem fréttir. Þeir eiga að flokkast sem blogg. Eins og BloggGáttin flokkar Kaffistofuna á Pressunni réttilega sem blogg. Kaffistofan er svipaðs eðlis og Smáfuglarnir, skrifuð af Birni Inga Hrafnssyni ævintýramanni. Hún er hins vegar ekki fyndin, skortir leiftrandi húmor nafna míns á AMX. Húmor og háð eru sönn list, sem ekki er öllum gefin.

Össur var saklaus, ekki Bjarni

Punktar

Mér varð á í messunni í gær, þegar ég sakaði Össur Skarphéðinsson ráðherra um óviðurkvæmileg ummæli um Bjarna Harðarson, fyrrum þingmann. Í raun var það Bjarni, sem sakaði Össur ranglega um að gleðjast yfir bruna. Hefðbundin fljótfærni Bjarna. Ég bið Össur afsökunar á þessari fljótaskrift minni.

Marklaus skráning atvinnuleysis

Punktar

Atvinnuleysi er lítið í landinu um þessar mundir. Erfitt er að fá fólk til starfa. Það er þekkt staðreynd. Mestur hluti atvinnuleysis í byggingaiðnaði fluttist burt, þegar fólk frá Austur-Evrópu fór heim til sín þúsundum saman. Eftir eru menn í svartri vinnu. Sjálfstæðir atvinnurekendur skipta þúsundum á skránni. Það er samkvæmt upplýsingum frá Samtökum atvinnulífsins. Með öllu þessu svindli eru hafðir milljarðar af atvinnuleysissjóði. Og dregið úr getu hans til að sinna þeim fáu, sem raunverulega eru atvinnulausir. Utan um allt þetta á Vinnumálastofnun að halda. Hún hefur alveg brugðizt hlutverki sínu.

Mesta klúður almannatengsla

Punktar

Ríkisstjórnin hefur haldið óvenju illa á IceSave. Í skjóli vanþekkingar okkar var hún drjúg með sig í fyrstu. Upplýsingar voru dregnar með töngum upp úr henni. Smám saman fékk fólk meira og meira að vita. Jafnan kom í ljós, að stjórnin var að ljúga. Neyddist til að ljúga sig úr einu víginu í annað. Sannleikurinn kom henni jafnan í opna skjöldu. Hver ber ábyrgð á þessari ógæfu? Eru ráðherrar svona vitlausir sjálfir eða eru þarna að baki almannatenglar, blaðurfulltrúar, spunakarlar, atvinnulygarar? Hrun á trausti stjórnarinnar vegna IceSave er landsins mesta klúður í almannatengslum.

Pólitísk ráðning stútaði trausti

Punktar

Rugli núverandi ríkisstjórnar í IceSave hófst með pólitískri ráðningu. Í formennsku samninganefndar ríkisins réð Steingrímur Sigfússon flokksbróður sinn. Hann sagðí Svavar Gestsson algeran súpermann. Hann er þó ekki einu sinni samninga-lögmaður. Nefndin gerði afdrifarík mistök í smáa letrinu og Steingrímur situr uppi með ruglið. Síðan hefur hann ítrekað reynt að ljúga sig út úr því með því að halda leyndum upplýsingum. Þær hafa samt komið í ljós ein af annarri. Steingrímur hefur flúið úr einni lyginni í aðra. Þetta leiddi til, að ríkisstjórn annars góðra verka hefur glatað trausti fólks.

Hverfur Evrópa úr augsýn?

Punktar

1. Bezt er að hefja fyrst aðildarviðræður við Evrópu og leyfa þjóðinni síðan að greiða atkvæði um útkomuna. Ekki ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, heldur bindandi. Stjórnarliðinn Þórunn Sveinbjarnardóttir fullyrðir, að ráðgefandi þýði bindandi. Það er rugl. Ef kosning á að vera bindandi, á að standa á blaði að hún sé bindandi, ekki ráðgefandi. 2. Tímafrekt, innihaldsrýrt og óráðlegt er að hafa tvær kosningar, fyrri um viðræður og síðari um aðild. Samt nýtur tvöfalda kerfið nokkurs fylgis þingmanna. Óttast að taka ákvörðun um Evrópu sjálfa. Vilja heldur að hún hverfi úr augsýn af tæknilegri ástæðu.