Punktar

Staðreyndir og hjáreyndir

Punktar

Trump er verri en svartsýnastir spáðu. Hefur safnað að sér fólki, sem býr í eigin loftbólu, My Truth – your truth. Hans hjáreynd eða mín staðreynd. Ef talningavél sér eina milljón manns við innsetningu forsetans, sér blaðafulltrúi Trump sex milljónir. Segir svo við blaðamennina: „My Truth“. Hjáreynd er tekin fram yfir staðreynd. Trump boðar, að stríð séu gagnslaus, nema hægt sé að ræna olíu. Ljóst er, að stórglæpamenn hafa náð völdum í Bandaríkjunum og veröldin verður erfið næstu fjögur ár. En á sama tíma munu fleiri sjá staðreyndirnar að baki hjáreynda og taka völdin á næstu fimm-tíu árum. Repúblikanar munu hverfa hér eins og í Kaliforníu.

Heimska vor vex

Punktar

Síðustu 75 ár hefur heimska Íslendinga aukizt örlítið í hverri kynslóð, samkvæmt mælingum Íslenzkrar erfðagreiningar. Fjallað er um það í grein í tímaritinu Proceedings of The National Academy of Sciences of The USA. Vafalaust er þetta hluti af langri breytingasögu um aldir, þegar selspik, frekar en grúsk í fræðum, hélt hita á þjóðinni. Nú er ástandið svo slæmt, að þjóðin kýs hvað eftir annað yfir sig bófa, sem ræna hana árlega tugum milljarða með hækkun í hafi. Þriðjungur þjóðarinnar hefur um langt skeið kosið flokkinn, sem er í þungamiðju arðránsins. Að þessu sinni urðu slíkir flokkar fleiri, kosnir af nærri hálfri þjóðinni. Fífl.

Fiktað í skýrslunni

Punktar

Gunnar Thorberg markaðsráðgjafi bendir á, að fiktað hafi verið við skýrsluna um skattaskjólin. Frá því, að Bjarni Benediktsson fékk hana í hendur 14. september og þangað til henni var síðast breytt 6. janúar í fjármálaráðuneytinu. Bendir hann á, að hægt sé að sjá alla breytingasögu skýrslunnar. Spyr, hvort eðlilegt sé, að ráðuneytið fikti við skýrslur, sem það fær. Ekkert hefur komið fram um, að unnið sé að skattheimtu í samræmi við hana. Flest ríki Vestur-Evrópu eru á kafi í samstarfi um að grafa upp skattsvik góðborgara og fyrirtækja. Hér ypptir Bjarni Ben bara öxlum, enda er hann nefndur í skýrslunni. Hann er með öllu siðblindur.

Vægari þjóðremba hér

Punktar

Þjóðrembdir flokkar hafa náð yfir 20% fylgi víða í Vestur-Evrópu. Voru lengi ekki taldir húsum hæfir, en eru nú komnir í ríkisstjórnir, til dæmis í Danmörku og Noregi. Slíkum nýjum flokkum hefur ekki vegnað vel hér á landi. Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur telur það stafa af, að heldur vægari tegund af þjóðrembu sé byggð inn í íslenzka flokkakerfið. Meðan evrópskir pólitíkusar forðuðust þjóðrembu eftir síðari heimsstyrjöldina, belgdu íslenzkir pólitíkusar sig út af þjóðrembu í ræðum sínum. Aðeins Alþýðuflokkurinn var fjölþjóðlega sinnaður. Meira að segja kommar blésu sig út í þjóðrembu. Yngri kynslóðir láta sig þjóðrembu litlu skipta.

Leiðrétt til ríkra

Punktar

Komin er í ljós niðurstaða gamals kosningaloforðs Framsóknar og Sjálfstæðis um 300 milljarða LEIÐRÉTTINGU. Tilfærslu fjármagns frá erlendum hrægammasjóðum til íslenzkra húsnæðisskuldara. Tilfærslan nam þó bara 72 milljörðum og var ekki frá hrægömmum, heldur íslenzkum fátæklingum. Samanlögð skerðing barna- og vaxtabóta nemur um 57,7 milljörðum króna á núvirði. Leiðréttingin rann ekki til almennings, heldur 86% til hærri tekjuhópa. Niðurfærsla verðtryggðra fasteignalána var að mestu millifærsla frá tekjulágum til tekjuhárra, studd af helmingi kjósenda. Leiðrétting til ríkra kallast jafnrétti á máli tjúllaðra nýfrjálshyggjugaura.

Pólitískir bófaflokkar

Punktar

Kaupmáttur er undarleg vísitala, sem nær ekki yfir húsnæðiskostnað, og segir því lítið um lífskjör. Af öðrum vísitölum sjáum við, að þjóðartekjur á mann eru þær sömu hér og á Norðurlöndum. Lífskjör hér eru hins vegar miklu lakari en þar. Það stafar af langvinnum völdum pólitískra bófaflokka. Þeir hafa lækkað skatta á háum tekjum og fyrirtækjum. Þeir hafa skipulagt eftirlitsleysi eftirlitsstofnana. Þeir hafa á hverju ári falið tugmilljarða í skattaskjólum. Þeir hafa afskrifað skuldir skjólstæðinga bófa og hundelt fátæka íbúðarkaupendur. Þeir hafa gert ítrekað kennitöluflakk að hefðbundnum þætti í rekstri. Þeir hafa blóðmjólkað samfélagið.

Bylting gistiverðs

Punktar

Þessa daga gerist bylting í ferðamálum Reykjavíkur. Í fyrra var sama verð hér á gistingu og í öðrum höfuðborgum Norðurlanda. Á þessu ári verður hótelverðið hér næstum tvöfalt hærra en í hinum borgunum. Frá því segir í Aftenposten og í Lonely Planet. Nýja frægðin er hættuleg. Tölurnar eru ekki bara hrikalegar, heldur valda því, að ferðatímarit draga úr frásögnum af Íslandi. Skyndigróði er hverfull, eins og við höfum áður kynnzt í loðdýrum og fiskeldi. Græðgisfíknina íslenzku skortir gangráð. Snýst bara hraðar og villtar unz allt fer á hausinn. Við þurfum opinbert regluverk og eftirlit með gistiverði, betri opinbera innviði, fyrir okkur sjálf.

AFTENPOSTEN

Neitar að mæta

Punktar

Panamisti Engeyinga neitar að koma fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til svara um földu skýrsluna um skattaskjól á aflandseyjum. Ber því við, að hann sé ekki lengur fjármála, heldur forsætis, eins og það skipti máli. Skýrslan um málið kom fram í haust, en var falin niðri í leyniskúffu hjá Bjarna Ben fram yfir kosningar og stjórnarmyndun. Nú vilja píratar og vinstri græn ræða ferlið, en Bjarni segir pass. Er þó sjálfsögð krafa, að ráðherra sinni lögbundnu hlutverki sínu fyrir þingmönnum og að þeir sinni eftirlitsskyldu sinni. En það mun lenda á frændanum í fjármálaráðuneytinu að svara fyrir hrokafullan formann bófaflokksins.

Hættulegi maðurinn

Punktar

Morgunblaðið bullar, að Egill Helgason sé vinstri sinnaður álitsgjafi. Hann hefur alltaf verið borgaralegur miðjumaður eins og margir voru í Sjálfstæðisflokknum fyrir þremur áratugum. Ætíð andvígur Sovétríkjunum sálugu og núna einnig andvígur nýfrjálshyggju. Ekkert er athugavert við, að álitsgjafi sé andvígur þekktum öfgum í nútímasögunni. Svo vel vill til, að Egill er áhrifamesti og kunnasti álitsgjafi landsins og langsamlega bezti sjónvarpsmaðurinn. Nú er hann blessunarlega að koma aftur með Silfur Egils í ríkissjónvarpið. Fulltrúum nýfrjálshyggjunnar þykir þó tryggara að hafa hægri sinnaða Fanneyju Birnu Jónsdóttur honum til mótvægis.

Jafnvægi og heilindi

Punktar

Píratar sækjast eftir jafnvægi í samfélaginu. Sé því stjórnað óhæfilega öfgakennt til hægri, vilja Píratar færa jafnvægið inn á miðjuna. Sé því stjórnað óhæfilega öfgakennt til vinstri, vilja Píratar færa jafnvægið inn á miðjuna. Píratar eru alltaf í miðjunni. Í núverandi umhverfi hægri öfga virðast þeir vera til vinstri. Í umhverfi vinstri öfga mundu þeir virðast vera til hægri. Öfgar eru til ýmissa átta, en Píratar eru alltaf inni á miðjunni, fylgjandi jafnvægi og heilindum í samfélaginu. Út á það hafa þeir fengið 15% atkvæða. Þurfa að fara upp í 30% til að hafa marktæk áhrif. Því þurfa ungir að kjósa og gamlir að segja upp gömlum flokkum sínum.

Tveggja turna slagur

Punktar

Könnun MMR, sem ég sagði ykkur frá í morgun, sýnir þrjú atriði utan skekkjumarka. Sjálfstæðis og Viðreisn tapa 3,5 prósentustigum hvor, Vinstri græn vinna 8 stig. Óvenjulegt er, að kjósendur rambi svo margir svo langt milli jaðranna, frá hægri til vinstri. Án viðkomu í miðflokkunum Samfylkingunni og Pírötum. Sérstaklega er athyglisvert, að ekkert af þessu lausafylgi skilar sér til baka í sína gömlu Samfylkingu. Af þessu má ráða: 1. Vafasamt er, að ofur-lygin Viðreisn sé tveggja kjörtímabila flokkur. 2. Logi má hafa sig allan við að lífga við Samfylkinguna. 3. Hafinn er tveggja turna slagur Sjálfstæðis (26%) og Vinstri grænna (24%).

Stjórnarflokkar hrynja

Punktar

Fylgi ríkisstjórnarflokkanna hefur hrunið, samkvæmt skoðanakönnun MMR í fyrri hluta þessa mánaðar. Alls um 7,4 prósentustig frá kosningunum. Fallið úr 46,7% í 39,3 prósentur. Sjálfstæðis hefur tapað 3,5 stigum, Viðreisn 3,6 stigum og Björt framtíð 0,9 stigum. Vinstri græn hafa hirt lungann úr þessari sveiflu, hafa farið úr 15,9% í 24,3%, aukning um 8,2% stig. Aðrir flokkar hafa nokkurn veginn staðið í stað. Alls hefur stjórnarandstaðan hækkað úr 47,6% í kosningunum upp í 56,2% í könnuninni. Þannig er ríkisstjórnin komin í minnihluta um leið og henni er ýtt af stað. Fimm flokka stjórn hefði verið í betra samræmi við þjóðarviljann.

MMR

Andsnúnir ójafnvægi

Punktar

Hugsum okkur samfélag, þar sem verkafólk hefur öll tögl og hagldir á hagkerfinu. Atvinnurekendur séu kúgaðir til að borga of há laun og of há gjöld til ríkisins. Það væri samfélag í ójafnvægi. Píratar mundu vera því kerfi andsnúnir sem eins konar hægri flokkur. Hér á landi er samfélagið í annars konar ójafnvægi. Hinir ríkustu hafa tögl og hagldir á hagkerfinu. Borga of lág laun og koma tekjum undan sköttum með hækkun í hafi, sem endar í skattaskjólum. Hér eru þjóðartekjur sömu og á Norðurlöndum, en velferð mun lakari, samanber húsnæðisleysi ungra, veikindi, örorku og öldrun. Píratar eru þessu ójafnvægi andsnúnir, eins og sumir vinstri flokkar. En sú stefna fer eftir aðstæðum í sérhverju samfélagi.

Ójöfnuður vex

Punktar

Átta auðjöfrar eiga jafnmikið og helmingur mannkyns. Gæfu þeir fé sitt, væri hægt að útrýma fátækt í heiminum. Þetta ójafnvægi sýnir vel, hversu lítið er að marka meðaltöl á borð við þau, sem Hagstofa Íslands gefur út. Þau geta verið frekar há á heimsvísu. En segja ekkert um þá, sem eru á jaðrinum, efst eða neðst. Til dæmis ekki um stöðu lægstu 10%. Vitum hins vegar án hjálpar Hagstofu, að tugþúsundir lifa undir fátæktarmörkum. Í ferðabransanum eru algeng laun 250 þúsund á mánuði. Mikill hluti aldraðra og öryrkja hefur undir 180 þúsundum. Ójöfnuður hefur aukizt frá 2013 undir hægri stjórn. Salek-samkomulag á vinnumarkaði mun gera illt verra.

Að óskum viðskiptavina

Punktar

Icelandair ætlar að minnka farangursheimildir í Ameríkuflugi um eina tösku. Í tilkynningu fyrirtækisins er þetta kallað að bæta og einfalda þjónustuna og koma til móts við óskir viðskiptavina. Gott dæmi um, að í almannatengslum er svart hiklaust sagt vera hvítt. Fólk er orðið svo vant lyginni, að margir eru alveg hættir að gera greinarmun á réttu og röngu. Góð reynsla af lygi í viðskiptum smitar auðvitað inn í pólitíkina og til baka aftur. Í kosningunum í nóvember var logið meira en nokkru sinni fyrr. Pólitískir flóttamenn stofnaðu stjórnmálaflokk um botnlausa lygi í stefnuskrá og komust þannig beina leið upp í ráðherrastóla.