Punktar

Gagnslausar kannanir

Punktar

Við þurfum enga skoðanakönnun til að segja okkur, hvað meirihlutanum finnst um Evrópusambandið. Meirihlutinn vill halda áfram viðræðum og ljúka þeim. Meirihlutinn vill síðan þjóðaratkvæði um útkomuna. Meirihlutinn vill fella aðild í þessu þjóðaratkvæði. Þetta þrennt vitum við öll, þótt öfgamenn til beggja átta birti pantaðar tölur frá Capacent og MMR. Pantaðar kannanir um einstaka þætti málsins eru lítils virði, oft með leiðandi texta viðkomandi öfgahóps. Taktu ekki mark á neinum slíkum könnunum, hvort sem þér geðjast fremur að öðrum öfgahópnum heldur en hinum. Heilbrigð skynsemi er farsælli.

Aldrei má redda bönkum

Punktar

Gjaldþrot Grikklands verður ekki hindrað, þegar Þjóðverjar eru farnir að heimta, að fjárlagagerð þess heyri undir Evrópusambandið. Grikkir geta ekki samþykkt slíkt. Tillagan endurspeglar uppgjöf Evrópu. Horfir á, að gríska kerfið lyftir ekki litla fingri til að efna loforð um aðhald í ríkisrekstri. Grikkland á að fá sitt gjaldþrot í friði. Ekki er í verkahring Þýzkalands eða Evrópusambandsins að gæta hagsmuna glannafenginna banka. Ég sé ekki, hvað það þurfi að koma Evrópu eða evru við, að Grikkland rúlli. Evrópu þarf að læra meira af þessari reynslu: Að hlaupa aldrei undir bagga með bönkum.

Sjónhverfingar kosta

Punktar

Hagsmunasamtök heimilanna neita alveg að ræða fjármögnun tillagna um meiri afslátt af íbúðaskuldum. Þegar talið berst að þessu, fara talsmenn þeirra að tala um annað. Skárra væri þó að taka undir hugmynd um að láta Seðlabankann prenta fleiri seðla. Það er að minnsta kosti hugmynd að senda fólki seðla í pósti, þótt það sé ekki góð hugmynd. Einhver verður að borga brúsann fyrir rest. Fólk vill tæpast láta Landspítalann borga. Og hvorki skattgreiðendur né lífeyrisþegar vilja borga. Annað hvort yrði þó ríkið að spara meira eða hækka skatta; og lífeyrir mundi lækka. Allt kostar, líka sjónhverfingarnar.

Niðurgreiddur lífeyrir

Punktar

Marinó G. Njálsson birtir athyglisvert blogg um, að þegar sé hafin tilfærsla fjármagns í lífeyrissjóðum frá ungum til gamalla. Uppsafnaður greiðslur nægi ekki fyrir útgreiðslum. Gamlingjarnir hafi árum saman fengið niðurgreiddan lífeyri. Og það séu hinir ungu, sem taki á sig skerðinguna. Þetta þarf að fá kannað betur. Þá er ég ekki að tala um Hagfræðistofnun háskólans eða aðra stofnun, sem enginn tekur mark á. Fremur einhverja óháða fræðinga, ef þeir fyrirfinnast. Sé þetta rétt hjá Marinó, hafa verkalýðsrekendur þagað yfir þessu eins og mannsmorði. Og auðvitað þarf þá að laga misréttið sem fyrst.

Klikkaðir frambjóðendur

Punktar

Annar hver forsetaframbjóðandi repúblikana er svo klikkaður, að hann væri á geðdeild á Norðurlöndum, jafnvel á Íslandi. Sumir jafnvel á réttargeðdeild. Hafa má það til marks um afvegaleidda bandaríska þjóð, að Newt Gingrich er orðinn vinsælasti frambjóðandinn. Fór upp fyrir Mitt Romney vegna grunsemda almennings um, að Romney kynni frönsku. Slíkir eru þar kallaðir “osta-étandi uppgjafa-apar”. Það er dauðasök þar vestra. Romney náði sér niður á Gingrich með því að kenna honum um bann í Kína við fleiri en einu barni á fjölskyldu. Klikkið í kosningabaráttunni slær allt út, sem Vigdís Hauksdóttir segir hér.

Útvarpsstjóri í stuði

Punktar

Páll Magnússon lætur Davíð Oddsson heyra það. Og þar er hvert orð satt. Hinn goðumlíki leiðtogi hrunsins er að skrifa sig blóðlausan frá ábyrgð á því, sem nú heitir Svokallað hrun. Páll kallar þetta sjálfsréttlætingar-þerapíu fyrrum seðlabankastjóra, sem áður gaf fjárglæframönnum Landsbankann og þar á ofan Búnaðarbankann. Sá, sem síðan leyfði bófum að stíga Hrunadansinn og tæma Seðlabankann, stundar nú svartagallsraus að sögn Páls. Sakar Davíð um mannfyrirlitningu, forheimskun og heift. Er þar hvergi ofsagt. Ritstjóri Morgunblaðsins sé í senn að tapa lestri þess, sölu þess og trausti þess.

Yfirhilmingarstofnun

Punktar

Heldurðu, að Matvælastofnun geri athugasemdir við fölsun skráargatsmerkisins á vörum Mjólkursamsölunnar? Kannski eftir tvö ár og þá aðeins ef forstjóri Matvælastofnunar hefur á meðan verið geymdur í búri á Lækjartorgi með þessa einu undankomuleið. Heldurðu, að þú fáir að vita um framgang samskipta út af misnotkun þessa norræna merkis? Aldeilis ekki, það er stefna stofnunarinnar, að matvæli komi almenningi alls ekkert við. Heldurðu, að Matvælastofnun geri eitthvað? Biddu fyrir þér, eftir tvö ár sendir hún samsölunni tuðbréf, sem samsalan mun ekkert mark taka á. Matvælastofnun er yfirhilmingarstofnun.

Metsölubækur næstu jóla

Punktar

Þverbrestur varð í óopinberri bókaútgáfu Sjálfstæðisflokksins, þegar sjálfir gulldrengirnir brugðust á jólavertíðinni. Hannes Hólmsteinn seldist ekki og fastur sat í hillum bókabúða sjálfur gúrú íslenzkra karlmannasiða í umgengni við konur. Gilzenegger er útbrunnin vara. Þá brá bókaútgáfan Öld efh á það ráð að kalla til helztu sérfræðinga hrunsins. Milljónir í bókaforlagið lögðu Baldur Guðlaugsson hinn víðfrægi ráðuneytisstjóri, Kjartan Gunnarsson mestur bankaráðsmanna og Ármann Þorvaldsson fyrrum ofurstjóri Singer & Friedlander. Á næstu vertíð gefa þeir líklega allir út bækurnar: “Ég varð fyrir einelti”.

Tilvistarkreppa karla

Punktar

Erfitt er að vera ungur karlmaður í dag. Siðferðilegt leiðarljós hárlausrar karlmennsku nútímans sætir einelti fésbókar og bloggheima. Nærri fjórðungur tegundarinnar getur ekki lesið sér til gagns. Háskólar fyllast af hálærðum blómarósum. Fyrir strákunum liggur að leggjast á atvinnuleysisbætur og láta setja á sig síðgotneskt tattú. Varla munu þeir hafa efni á að borga fyrstu útborgun í Harley Davidson. Nútíma þjóðfélag er orðið of flókið fyrir fyrrum ofurtegund, sem senn lendir í útrýmingarhættu. Loks reiðir Sóley Tómasdóttir svipuna hátt til höggs, þegar talsmenn úreltrar tegundar gráta tilvist sína.

Falsaðar undirskrifir

Punktar

Undirskriftasöfnun Ólafs Ragnars forseta fullnægir engum kröfum um slíkar safnanir. Menn geta setið daga og nætur við að skrá inn Mikka mús, Ara fróða og Ívan grimma á fölsuðum kennitölum. Menn geta skráð inn alla þjóðskrána. Auðvelt væri samt hægt að gera þetta vel. Þá er skráð nafn og kennitala. Hún er yfirfarin og metin rétt samkvæmt staðli. Athugaður er kosningaaldur og hvort kennitalan er til í þjóðskrá. Og hvort kennitalan var áður skráð í sömu könnun. Sendur tölvupóstur til að fá undirskriftina staðfesta. Ólafur Ragnar gætir þess að gera þetta rangt. Til að fá út töluna, sem hann vill.

Refsilaus fjöldamorðingi

Punktar

Fjöldamorðinginn Frank Wuterich mun ekki sæta fangavist fyrir að hafa myrt 24 óbreytta borgara í Írak. Hann fór fyrir flokki bandarískra hermanna, sem létu morðæði renna á sig. Sambærilegt við My Lai stríðsglæpinn í Víetnam. Bandarískur herdómstóll fékk þá niðurstöðu, að lækka bæri Wuterich í tign, en hann fengi þó að halda óbreyttum launum. Ítrekað hefur komið fram, að stríðsglæpir Bandaríkjahers eru orðnir refsilausir. Til dæmis hefur enginn verið dæmdur fyrir pyndingar í Abu Ghraib fangelsinu. Refsileysi Wuterich er skelfilegur áfellisdómur yfir bandaríska hernum og Bandaríkjunum í heild.

Þá verður fjör á Fróni

Punktar

Þótt bankarnir skuldi enn rúma fimmtíu milljarða í uppgjöri við almenning, hjálpar það ekki skuldurum Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna. Sem keyptu ekki kröfur sínar fyrir slikk úr gömlu bönkunum. Að baki Íbúðalánasjóðs er ríkið. Og bak við ríkið eru annað hvort niðurskurður, svosem á Landsspítala, eða skattgreiðendur, sem eru lítt kátir. Að baki lífeyrissjóðanna alræmdu eru gamlingjar, sem eru sízt kátari. Spurning er, hvort Hagsmunasamtökum 400 fermetra heimila takist að fá hjálp forseta Íslands til að hafa peningana af Landsspítala, skattgreiðendum og gamlingjum. Þá verður sko fjör á Fróni.

Öfugmæli Ögmundar

Punktar

Samkvæmt kenningu Ögmundar Jónassonar eru réttarhöld Landsdóms yfir Geir H. Haarde tilraun til að hvítþvo stjórnmálin! Hvers vegna vill flokkur Geirs þá draga réttarhöldin til baka? Kenning Ögmundar er þvættingur eins og annað, sem hann hefur sagt undanfarið. Um daginn sagði hann of dýrt að reka mál til að komast að, hver sagði hvað við hvern. En það er einmitt kjarni málsins, sá sem fólk á að fá að vita. Ögmundur segir uppgjörið við hrunið hafa þegar farið fram með núverandi ríkisstjórn. Ég sé samt gömlu Samfylkinguna enn við völd og litla stefnubreytingu frá fyrri stjórn. Ótrúleg öfugmæli Ögmundar.

Bankarnir hafa svigrúm

Punktar

Þótt ég hafi stundum agnúast út í Marinó G. Njálsson, trúi ég honum betur en alræmdri Hagfræðistofnun Háskólans. Reikningar Marinós sýna, að bankarnir eiga enn eftir að nota 52-53 milljarða af svigrúmi til að létta skuldabyrði almennings. Svigrúmið fengu þeir, þegar þeir keyptu skuldirnar með afslætti út úr þrotabúi gömlu bankanna. Hafi þeir notað svigrúmið til að gefa vinum sínum meðal útrásarbófa og kvótabófa stórfellda afslætti, er það þeirra mál, en ekki skattgreiðenda. Gera þarf kröfu um, að bankarnir verði neyddir til að fullnýta svigrúmið, sem þeir fengu í uppgjöri sínu við gömlu bankana.

Óbærilegir ráðherrar

Punktar

Þegar í harðbakkann slær, vefja bandarískir stjórnmálabófar um sig fánanum og kyrja þjóðsönginn. Svo segja mér menn þar vestra. Hafi menn eitthvað að fela, flýja þeir í þjóðrembu. Gömul saga lýðskrumara um allan heim, þar á meðal hér. Jón Bjarnason var staðinn að óbærilegri stjórnsýslu sem ráðherra. Varði sig og ver sig enn með því, að Evrópusambandið ofsækti sig. Ögmundur Jónasson er á sömu vegferð í óbærilegri stjórnsýslu. Hrunið er ekki lengur Flokknum að kenna, heldur Evrópusambandinu. Kontóristar ánetjast því, segir hann, tína upp glerperlur þess og drekka eldvatn þess. Segir lýðskrumarinn.