Punktar

Ögmundur hrunverji

Punktar

Núna skil ég, hvers vegna Ögmundur Jónasson ráðherra vill friða Geir Haarde. Þeir eru báðir hrunverjar. Ögmundur var stjórnarformaður lífeyrissjóðsins, sem mestu tapaði í hruninu, yfir hundrað milljörðum. Því er ekki skrítið, að Ögmundur telji yfirstétt hrunsins enga ábyrgð bera. Hún hafi bara fengið hrunið í hausinn, án þess að hafa neitt til saka unnið. Ögmundur hafi bara óvart tapað hundrað milljörðum á kostnað þjóðarinnar, rétt eins og Geir H. Haarde tapaði nokkur hundruð milljörðum þjóðarinnar í aðdraganda hrunsins. Þeir eru fóstbræður í skuld sinni við okkur, sannir hrunverjar báðir tveir.

Dapurt veganesti

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn verður auðvelt skotmark í næstu kosningabaráttu. Lýtur hugmyndafræðilegri forustu dýrasta hrunverjans á Morgunblaðinu. Og herstjórn annars hrunverja, sem pikkfastur er í Vafningi á kostnað almennings. Hálfur þingflokkurinn er markaður græðgi hrunverja, allt frá kúlulánadrottningunni yfir í hrunbankastjórann. Flokkurinn neitar að biðjast afsökunar á aðild sinni, stefnu sinnar og ráðamanna flokksins að hruninu. Talar í þess stað um Svokallað hrun. Á þingi berst öfgaflokkurinn heiftarlega fyrir sérhagsmunum kvótagreifa. Þetta verður dapurt veganesti, þegar kosningabaráttan byrjar.

Fljúga fleiri lengra?

Punktar

Sævar Gunnarsson segir, að Gæzlan þurfi fjórar þyrlur. Skýring hans er sú, að tvær þyrlur dugi ekki í 20 mílna flug frá ströndinni. Hvernig fjórar þyrlur geta flogið lengra en tvær þyrlur er skilningi mínum ofviða. Enda er Sævar einn af þessum gamalkunnu frekjudöllum verkalýðsrekenda, sem kann sér ekki hóf í málflutningi. Minnir á þá, sem vilja ekki bara, að ríkið fjarlægi brjóstastækkanir einkaframtaksins. Heimta þar á ofan nýjar stækkanir á okkar kostnað. Frekja og yfirgangur gefa tóninn í samfélaginu heilum þremur árum eftir hrun: “Ég um mig frá mér til mín” gætu verið einkunnarorð þjóðarinnar.

Íslenzkur Tobin-skattur

Punktar

Ríkið á bara tvo kosti, ef það vill losa landið við gjaldeyrishöft. Annar er að leggja niður krónuna og þá tekur evran við. Sem hefur staðið sig vel í evrópskum ólgusjó undanfarin misseri. Hinn er að taka upp svonefndan Tobin-skatt á gjaldeyrisviðskipti. Hann dregur mjög úr gróða af gjaldeyrisbraski, stöðutöku og spákaupmennsku. Leiðir til traustari utanríkisviðskipta og jafnar sveiflur á gengi krónunnar. Meginland Evrópu er að sigla inn í Tobin-skatt til að ná betri tökum á braski bankabófa. Geir Zoëga hagfræðiprófessor mælir með þessum skatti og fjármálaráðherra hefur tekið undir tillögu hans.

Glæframenn borgi glæfra

Punktar

Rökrétt afgreiðsla ábyrgða á rekstraröryggi banka er, að þeir myndi með sér ábyrgðarsjóð. Leggi í hann hluta af veltu sinni. Eftir því sem sjóðurinn stækkar eykst geta hans til að fjármagna nýtt óðagot og bankahrun. Ekkert náttúrulögmál segir, að ríkið eigi neitt að koma þar að máli. Af hverju ættu skattgreiðendur að borga tap af bönkum, en bankaeigendur að hirða gróða? Við höfum fengið upp í kok af slíkri hagfræði. Fjárglæframenn eiga sjálfir að borga sína glæfra. Ríkisrekstur á tapi er bara enn ein birtingarmynd þess pilsfalda-kapítalisma, sem peningavaldið hefur löngum troðið upp á þjóðina.

Sjóðstjórum sé fleygt út

Punktar

Skýrsla rannsóknarnefndar um lífeyrissjóðina segir mér, að forstjórar þeirra og stjórnarmenn létu sem snarbilaðir og augafullir árum saman. Töpuðu 479 milljörðum árin 2008-2010, meiru en sem nemur útgjöldum ríkisins þessi ár. Þetta voru peningar gamlingjana, sem þeir stálu og brenndu til agna. Allir eiga bófarnir að fara í fangelsi, en enginn hefur samt gert það enn. Þjóðin þarf að brjótast inn á kontórana, kasta þessum snarbiluðu og augafullu bófum út á stétt. Þeir hafa rústað lífeyriskerfi þjóðarinnar og þeim ber að sæta ábyrgð. Ef ónýta dómskerfið ræður ekki við þá, getur dómstóll götunnar það.

Ísland er ónýtt

Punktar

Eftir vetur endalausra frétta af vangetu íslenzkrar stjórnsýslu spyr Margrét Tryggvadóttir þingmaður í bloggi sínu: Er Ísland ónýtt? Nýjasta dæmið er yfirgengilegt klúður lögreglunnar í viðbrögðum við sprengju á Hverfisgötu. Og klúður Reykjavíkurborgar í rekstri öryggismyndavéla, af sama tilefni. Í fréttum voru áður Matvælastofnun, embætti Landlæknis, Útlendingastofnun, Persónuvernd, Fjármálaeftirlit, Umhverfisstofnun og Úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Ég er sammála Margréti. Alls konar stofnanir eru settar á fót til málamynda til að koma óvinnufærum kvígildum stjórnmálaflokkanna á kaup.

Formaður spyrji ráðherra

Punktar

Steingrímur Sigfússon flokksformaður skrifar með fleiri norrænum formönnum grein í Fréttablaðið. Efni hennar snýst um, að ríki og skattgreiðendur eigi ekki að borga hrun banka. Gaman væri að vita, hvort flokksformaðurinn hafi borið þetta undir Steingrím Sigfússon fjármálaráðherra. Þá hefði hann fengið upplýsingar um, hvað Ísland hafi gert í þriggja ára embættistíð hans til að hindra þetta. Hefur hann tryggt, að næsta hrun lendi ekki á okkur eins og fyrra hrunið? Honum hefði verið í lófa lagið að hafna ríkisábyrgð á bönkum. Sú ákvörðun hefði án efa haft pólitískan stuðning og stuðning almennings.

Blair-istar í þingliði

Punktar

Mér finnst óþægilegt, að sumir þingmenn Samfylkingarinnar hafa lítinn áhuga á brýnustu umhverfismálum. Standa í vegi friðunar á ýmsum náttúruperlum, sem hagsmunaaðilar vilja virkja. Oftast eru þetta sömu þingmenn og þeir, sem sjá eftir samstarfi flokksins við Sjálfstæðisflokkinn í hrunstjórninni. Kalla má þetta frjálshyggjuliðið í Samfylkingunni. Leifarnar af Blair-ismanum, sem hélt innreið sína í flokkinn með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Þingmenn þessir hafa ekki lært af reynslu hrunsins. Vissulega ber þó að þakka það, sem vel er gert. Við losnuðum við Árna Pál Árnason úr sessi bankaráðherra.

Galdrar duga ekki

Punktar

Losaðu þig við hugmyndir um að láta ofátið hverfa með göldrum. Nánast allir matarkúrar byggjast á göldrum, einföldum slagorðum um ævintýralegan árangur á stuttum tíma. Höfundar matarkúra eru sölumenn snákaolíu, arftakar þeirra, sem fyrr á öldum fóru milli markaðstorga með glös í pússi sínu. Enginn sítrónukúr eða steinaldarkúr mun flytja þig yfir til fyrirheitna landsins. Að vísu borgar sig að taka út örfáar matartegundir, en að öðru leyti felst verkefni ofætunnar í að breyta persónu sinni. Að gera sig að persónu, sem veit, hvenær hún má borða og hvenær hún á að stöðva átið hverju sinni.

Villurnar vaða uppi

Punktar

Ýmsar villur leika lausum hala í umræðu um fjármál. Hvatt er til hagvaxtar í formi aukinna viðskipta, en ekki aukinnar framleiðslu. Ímyndaður hagvöxtur. Talað er um, að verðbólgan án fasteignabólgu eftir hrunið sé fordæmalaus. En hún er það ekki. Menn hafa áður og ítrekað veðjað á að skulda í steypu og ítrekað farið illa út úr því. Ekki bara eftir hrun. Ríkið getur ekki ábyrgzt tap af slíku frekar en öðru braski. Krafan um leiðréttingu fasteignalána er komin út í öfgar. Talað er um að prenta seðla til að fjármagna sukk. En það leiðir til enn meiri verðbólgu. Sölumenn hagfræðilegrar snákaolíu vaða uppi.

Sukkarar verði reknir

Punktar

Sigmundur Ernir Rúnarsson þingmaður spyr Steingrím J. Sigfússon um viðurlög við ítrekuðum brotum forstöðumanna á fjárlögum. Sumir yfirmenn opinberra stofnana fara ár eftir ár yfir á fjárlögum, án þess að hróflað sé við þeim. Sigmundur Ernir segir þetta ólíðandi og ég tek undir það. Þeir eiga raunar sjálfkrafa að taka pokann sinn. Fjárlög eiga að vera heilög. Ef þau eru það ekki, fer allt úr böndum. Raunar ætti líka að vera bannað að hafa halla á fjárlögum, því slíkt stuðlar að fjármálakreppu. Við sjáum af misjafnri stöðu ríkja Evrópu, að nauðsynlegt er að hafa strangan ramma á ríkisfjármálunum.

Fjöldamorð eða þjóðarmorð

Punktar

Deilurnar um þjóðarmorð Tyrkja á Armenum snúast um keisarans skegg. Enginn vafi er á, að Tyrkir frömdu fjöldamorð á Armenum í fyrri heimsstyrjöldinni. Spurningin er bara, hvenær fjöldamorð eru skilgreind sem þjóðarmorð. Tyrkir ættu að skammast sín á illverkum feðranna og biðjast afsökunar fremur en að berja hausnum við steininn. Hins vegar er líka fáránlegt, að vestræn ríki ákveði með lögum að stjórna, hvernig sé talað eða skrifað um þessa atburði. Algerlega er fáránlegt að reyna að banna rangar skoðanir, svo sem á morðum á gyðingum í síðari heimsstyrjöldinni. Og að fangelsa menn fyrir að hafa þær.

Bjarni í fjárglæfrum

Punktar

Ekki hef ég hugmynd um, hvort formaður Sjálfstæðisflokksins framdi lögbrot í braskinu. Hitt veit ég, að hann er siðferðilega með allt niðri um sig. Kom eign sinni út úr Glitni, þegar útvaldir fengu að vita, hvert stefndi. Var þannig dæmigerður hrunverji. Æfingar hans í stuttbuxna-kapítalisma í Sjóvá lentu síðan á herðum skattgreiðenda upp á nokkra milljarða króna. Bótasjóður tjónþola var hreinsaður upp í þessu braski hans. Fyrir Flokkinn er dæmigert, að hann skuli geta notað siðvilltan og gráðugan fjárglæframann sem formann. Það kemur því ekkert við, hvort hann hefur brotið hriplek landslög eða ekki.

Gagnslausar kannanir

Punktar

Við þurfum enga skoðanakönnun til að segja okkur, hvað meirihlutanum finnst um Evrópusambandið. Meirihlutinn vill halda áfram viðræðum og ljúka þeim. Meirihlutinn vill síðan þjóðaratkvæði um útkomuna. Meirihlutinn vill fella aðild í þessu þjóðaratkvæði. Þetta þrennt vitum við öll, þótt öfgamenn til beggja átta birti pantaðar tölur frá Capacent og MMR. Pantaðar kannanir um einstaka þætti málsins eru lítils virði, oft með leiðandi texta viðkomandi öfgahóps. Taktu ekki mark á neinum slíkum könnunum, hvort sem þér geðjast fremur að öðrum öfgahópnum heldur en hinum. Heilbrigð skynsemi er farsælli.