Punktar

Vandinn er afmarkaður

Punktar

Tíu prósent íslenzkra heimila eru í miklum fjárhagsvanda. Helmingur þeirra var kominn í slíkan vanda í góðærinu fyrir hrun. Slíkum verður seint bjargað með peningum skattgreiðenda og gamla fólksins. Gera á þeim kleift að skila húslyklunum og komast þannig fjárhagslega upp á núll. Eftir standa um fimm prósent heimila, sem komust í vandann vegna hrunsins. Einkum vegna misræmis tekna og vísitölu. Hæstiréttur hefur linað vanda sumra með gengisdómum, þótt við eigum eftir að sjá útfærsluna. Hinir sitja eftir, sem voru með vísitölu á lánum. Til greina kemur að skila þeim helmingi af vísitölubólu hrunsins.

Langsótt foringjafælni

Punktar

Foringjafælni er ein afleiðinga hrunsins. Í pólitíkinni vilja margir forðast áherzlu á foringja og setja málefni frekar í efsta sæti. Gott svo langt sem það nær. Getur þó snúizt upp í fullkomna andhverfu sína. Sjáið til dæmis Kópavogslistann. Þar var óþekktur frambjóðandi settur í efsta sætið. Hann fór um daginn í U-beygju og sveik höfuðmálefni listans til að verða memm í nýjum meirihluta. Meiri styrkur hefði verið að þekktum frambjóðanda, sem fólk hefði vitað meira um. Raunin er nefnilega, að jafnvægi verður að vera milli manna og málefna. Ofuráherzla á annað atriðið leiðir bara til ógæfu.

Bófarnir ekki að verki

Punktar

Ég kaupi ekki þá skoðun, að Gunnari Andersen hafi verið bolað úr starfi af umboðsmönnum útrásarbófa. Held ekki, að Sigurður G. Guðjónsson lagatæknir sé svo öflugur, þótt klár sé. Held ekki, að brottför Gunnars úr eftirlitinu verði bófunum til framdráttar. Áttatíu mál fjármálaeftirlitsins eru komin í hendur Sérstaks saksóknara. Þaðan munu kærurnar koma. Og þar er sú seinkun, sem þjóðin engist yfir. Gunnar var einfaldlega vanhæfur til starfsins vegna fyrri aðildar að aflandsfélögum Landsbankans. Meðferð hans á máli Baldurs Guðlaugssonar ráðuneytisstjóra var líka slöpp. Hafði næstum klúðrað málinu.

Frumvarp Stóra bróður

Punktar

Valdakerfið hyggst banna birtingu skoðanakannana á kjördegi og daginn fyrir kjördag. Þetta fasistíska frumvarp er samið að vilja allra flokka á Alþingi. Skoðanakannanir eru samkvæmt frumvarpinu skoðanamyndandi. Svo er raunar um allar fréttir. Valdakerfið ætti þess vegna að banna þær allar. Einfaldara en pikka burt einmitt þær fréttir, sem hingað til hafa hindrað lygar spunakarla flokkanna. Samþjöppun eignarhalds er líka nefnd, en hún er vandamál allra frétta, ekki bara þessara. Annað efni frumvarpsins er rugl, svo sem bann við hatri og hörku í fréttum. Stóri bróðir belgist út og tjáningarfrelsi rýrnar.

Baldursdómur vekur vonir

Punktar

Fangelsisdómur Baldurs Guðlaugssonar ráðuneytisstjóra vegna innherjasvika vekur vonir. Samkvæmt honum mun Hæstiréttur ekki bila í málum fjármálabófa, sem nú eru í vinnslu hjá Sérstökum. Minnkað hefur óttinn um, að dómstóllinn muni láta menn njóta þess, að þeir eru peningafurstar eða yfirstéttarfólk. Ef lög ná yfir ráðuneytisstjóra, ná þau væntanlega líka til bankastjóra og fjárglæframanna. Hingað til hafa margir talið tvær þjóðir vera í landinu. Annars vegar Jón og hins vegar refsilaus Séra Jón. Þetta er fyrsti dómurinn á Íslandi um innherjasvik, sem eðli málsins samkvæmt eru glæpur innvígðra.

Síðbúinn brottrekstur

Punktar

Aldrei átti að ráða Gunnar Andersen sem forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Fram að þeim tíma var ferill hans skrautlegur. Fór á hausinn með verðbréfasölu sína í Wall Street. Gekk illa að reka Cosmos skipamiðlunina og var sagt þar upp. Eftir nokkurra ára hvarf dúkkaði hann upp sem yfirmaður alþjóðadeildar Landsbankans, þar sem hann var viðriðinn vafasamt brask. Þrátt fyrir þennan feril réði þáverandi ráðherra Gylfi Magnússon hann yfir Fjármálaeftirlitið. Æ síðan hafa verið uppi efasemdaraddir. Kannski er hann ekki óhæfur, aðeins vanhæfur, en það á að vera nóg. Handvömm Gylfa er nú lokið með harmkvælum.

Vísitalan lækki um 20%

Punktar

Júlíus Sólnes verkfræðingur vill reikna lánskjaravísitöluna upp á nýtt. Taka úr henni óviðkomandi liði, svo sem hækkanir skatta og gjalda. Slíkir liðir eru enda verðbólguhvetjandi. Júlíus telur, að væri slík vísitala reiknuð frá 1995, mundi hún núna vera 20% lægri en núverandi vísitala. Þetta væri sátt, sem tæki tillit til skuldara, ekki bara til lánveitenda. Þar sem afturvirkni er bannorð eftir nýjan dóm Hæstaréttar, yrði slík vísitala aðeins framvirk. Með lögum væri eigi að síður hægt að setja sama afslátt á húsnæðisskuldir. Til frambúðar væri samt bezt að taka upp evru. Hugmyndir Júlíusar er ágætar.

Sérfræði líkamstjáningar

Punktar

Björn Óskar Vernharðsson er virkur félagi í Sjálfstæðisflokknum. Heldur því samt leyndu, þegar hann flaggar meintri þekkingu á túlkun líkamstjáningar. Sem slíkur kemur hann stundum fram í fjölmiðlum. Erindi hans þar er að túlka líkamstjáningu andstæðinga Sjálfstæðisflokksins sem hvikula og undirförula. En líkamstjáningu oddvita Sjálfstæðisflokksins sem merki um hreinskilni og heiðarleika. Fjölmiðlar eru orðnir svo rúnir greind og getu, að blaðamenn lepja upp áróður Björns Óskars. Þeir flagga honum sem sérfræðingi í hátterni fólks. Og segja okkur ekki frá, að hann er málsvari Sjálfstæðisflokksins.

Brengluð sýn dómara

Punktar

Þrír dómarar við Hæstarétt virðast mér hafa kynferðis-brenglaða sýn. Telja frambærilegt, að starfskona sé látin fara í vinnuferð í sumarbústað, þar sem yfirmaður hennar hleypur um allsber og hegðar sér óviðurkvæmilega á ýmsan hátt. Þegar Hæstiréttur úrskurðar í svona máli, hafa dómarar ekki annað á bak við sig en persónulegt mat á aðstæðum. Engin lög segja, að fólk þurfi að þola þessa tilgreindu hegðun yfirmanna sinna. Mér finnst dómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Gréta Baldursdóttir sýna brenglaða dómgreind í úrskurði sínum. Þarna var um að ræða skýrt kynferðislegt áreiti yfirmanns.

Frægðarferill hins frábæra

Punktar

Fyrirtæki á vegum Bjarna Benediktssonar flokksformanns skulda samfélaginu 150 milljarða króna. Stjarnfræðilega summu. Þetta eru félög, þar sem Bjarni sat í stjórn, eða voru í eigu félaga, þar sem hann sat í stjórn. Víða var hann stjórnarformaður. Af 150 milljörðunum hafa 66 milljarðar þegar verið afskrifaðir og restin verður líklega afskrifuð. Bjarni er ekki borgunarmaður fyrir því, sem hann nefnir frábæra stjórn sína á fyrirtækjum. Eftir þennan afrekaferil var hann gerður formaður Sjálfstæðisflokksins. Og þjóðin bíður með öndina í hálsinum eftir tækifæri til að gera hann að forsætisráðherra.

Okkur skortir kverúlanta

Punktar

Jámennska var ein af merkustu orsökum hrunsins. Glæframenn komust upp með ótrúlegasta athæfi í skjóli stuðnings hinna þöglu áhorfenda. Áræðnir menn höfðu frumkvæði og undirmálsfólk kinkaði kolli. Á bóluárunum var sár skortur á kverúlöntum og leiðindaskjóðum. Þeim fáu, sem eru á móti öllu og öllum og gagnrýna allt og alla. Fáir vildu spilla gleðinni í mesta partíi sögunnar. Vildu ekki fá þá umsögn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, að þeir þyrftu að fara í endurhæfingu. Það er til marks um getuleysi íslenzks samfélags. Fáir hafa kjark og burði til að segja, að keisarinn sé alls ekki í neinum fötum.

Áfall ríkisstjórnar

Punktar

Ómerking Hæstaréttar á afturvirkum gengishagnaðarlögum er mikið áfall fyrir ríkisstjórnina og meirihluta hennar á Alþingi. Lögin voru samin á vegum Árna Páls Árnasonar, þáverandi bankaráðherra. Hann ætti að segja af sér, ef ekki væri þegar búið að reka hann. Ríkisstjórnin hefur oft rambað á feigðarbrún og núna nær brúninni en nokkru sinni fyrr. Ólög þessi voru sett til að eyða óvissu, sem kom fram í fyrri túlkun Hæstaréttar í svipuðu álitamáli. Bankar heimtuðu nánari vinnureglur og lögmenn bankaráðuneytisins smíðuðu klúður. Ríkisstjórnin hefur ætíð haldið mjög einfeldningslega á málefnum skuldara.

Lýðskrum Lilju

Punktar

Lilja Mósesdóttir jafnaði met Ögmundar í lýðskrumi á Alþingi í dag. Sagðist hafa verið svo andvíg afturvirkum lögum Árna Páls Árnasonar um gengistryggð lán, að hún hafi gengið úr þingsal. Lilja studdi þó þessi lög og samþykkti þau 2010. Þvert ofan í það, sem hún segir nú. Þingmenn Hreyfingarinnar einir voru andvígir lögunum í atkvæðagreiðslunni. Þetta er svipað eða grófara lýðskrum en hjá Ögmundi Jónassyni ráðherra. Nann segist hafa verið andvígur lögunum, sem leyfðu brask lífeyrissjóða. Í rauninni greiddi lýðskrumarinn atkvæði með lögunum, en Jón Baldvin Hannibalsson einn var andvígur þeim.

Sjálfstraust nægir ekki

Punktar

Traust snýst ekki um, hvort Benedikt Bogason treystir sér til að dæma í máli þar sem bíóvinur hans er verjandi. Gæti verið svo, ef fólk bæri traust til valdastéttarinnar. Traustið væri þá byggt á gamalli og góðri reynslu. Slíku er ekki til að dreifa hér á landi. Meira eða minna vantraust ríkir á allri valdastétt landsins, þar með töldum hæstaréttardómurum. Við þær aðstæður snýst traust um traust almennings, en ekki um traust valdsmanna á sjálfum sér. Þegar Benedikt Bogason og Jón Steinar Gunnlaugsson taka að sér að dæma þann, sem Davíð mikli kallar “valinkunnan sómamann”, er vissulega ills von.

Fátækt er minnihlutavandi

Punktar

Nærri tveir þriðju hlutar þjóðarinnar fóru til útlanda í fyrra. Ég hef áður bent á, að það bendi til meiri velmegunar en fátæktar. Í athugasemdum var haldið fram, að fólk gæti verið fátækt, þótt það færi til útlanda. Ferðir væru mannréttindi. Mér finnst þetta benda til, að sumir hafi brenglaðar hugmyndir um, hvað sé fátækt og hver séu mannréttindi. Ég tel fráleitt, að utanfarar séu svo illa haldnir, að til vandræða megi telja. Fátæklingar spara sér auðvitað utanferðir til að eiga til hnífs og skeiðar. Meirihluti þjóðarinnar lifir góðu lífi. Fátækt er mikill vandi, en samt fárra vandi.