Punktar

Óvinsælar rannsóknir

Punktar

Rannsóknarblaðamennska náði hástigi, þegar seigla starfsliðs Washington Post 1972 leiddi til afsagnar Nixon Bandaríkjaforseta. Bakslagið kom svo, þegar útgefendurnir áttuðu sig á, að traust blaðsins minnkaði við Watergate. Síðan hefur rannsóknarblaðamennska dalað og er næstum horfin hér á landi. Eigendur fjölmiðla eru hræddir við hana og sjá líka mikinn kostnað. Í stað þess að treysta á fjölmiðla, þarf samfélagið að opnast. Gegnsæi komi í stað leyndar. Ísland á enn langt í land. Sem bezt kom í ljós, þegar Seðlabankinn neitaði að afhenda Alþingi upptöku af símtali Geirs og Davíðs daginn fyrir hrunið.

Þeir ónýta lýðveldið

Punktar

Hæstiréttur hefur tvisvar ógilt innheimtu gengislána hjá Dróma, Spron og Frjálsa fjárfestingarbankans. Samt gera bófarnir ekkert til að verða við dómi Hæstaréttar. Nú er þess krafizt, að slitastjórn bankans verði rekin, en ekkert gerist samt. Réttarríkið hefur verið tekið úr sambandi í fjármálum eins og lýðræðið hefur verið tekið úr sambandi í pólitík. Bankabófar komast upp með að hunza ítrekaða dómsúrskurði. Eins og í Sturlungu. Senn verður fólk að taka lög og rétt í eigin hendur. Fara í bankana og kasta út bófunum. Fara á Alþingi og kasta út jarðálfunum. Yfirstéttin hefur ónýtt lýðveldið.

Grísk morðhótun

Punktar

Svo ruglaðir eru Grikkir orðnir af þjóðrembu, að þeir veittu nýnazistum 21 þingsæti í kosningunum. Eru samt ekki útvatnaðir nazistar, heldur beinlínis farnir að hóta fólki strax. Hóta á heimasíðu sinni að myrða Xenia Kounalaki, blaðakonu þýzka Spiegel. Á síðunni var löng grein um feril hennar og þrettán ára dóttir hennar nefnd á nafn. Á blaðamannafundi flokksins eftir kosningar var blaðamönnum sagt að standa upp til að votta formanninum virðingu. Þeim var kastað út, sem ekki vildu standa upp. Grikkir eru orðnir þjóðrembdari en Íslendingar, telja umheiminn sitja á svikráðum við sig.

Hert verkstjórn Alþingis

Punktar

Brýnt er að taka upp herta verkstjórn á Alþingi. Fari lengd umræðu úr hófi, ber þingforseta að láta greiða atkvæði um, hvort atkvæðagreiðsla verði. En hún má aðeins gera það, þegar nægur fjöldi er í húsinu og verður þar áfram í atkvæðagreiðslunni. Álfheiður Ingadóttir leyfir hins vegar jarðálfunum að hertaka ræðustól og atkvæðagreiðslur. Er of lin eða skortir greind til að fást við pólitíska bófa. Jafnframt þarf að ákveða sumarþing, sem standi meðan mál eru óafgreidd. Einnig þarf að laga afleitan frágang lagatækna ráðuneytanna á frumvörpum. En hert verkstjórn á Alþingi er lykilatriðið.

Elska eyðslu umfram sparnað

Punktar

Pólitískt er jafnan vinsælla að efla eyðslu en sparnað. Fólk vill peninga í veltu, þótt það kosti verðbólgu og gengislækkun gjaldmiðils. Evrópu stynur undir sparnaðarstefnu Angelu Merkel Þýzkalandskanzlara. Francois Hollande mun sem forseti Frakklands víkja frá þeirri stefnu í von um að geta notað startkapal á atvinnulífið. Kannski vilja einhverjir lána Frökkum startkapal, með háum og hækkandi vöxtum. Hins vegar fyrirfinnst enginn, sem vill lána Grikklandi. Þar blasir við upplausn og afturhvarf til tíma hinnar aldagömlu fátæktar og hinnar gömlu drökmu. Kannski má bjóða þeim hina sívinsælu krónu.

Þjóðremba Ögmundar

Punktar

Ríkisstjórnin getur gamnað sér við að setja þjóðrembd skilyrði fyrir leigu Huang Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum. Hún getur bannað, að þar verði grafin út herskipa- og stórskipahöfn. Hún getur bannað, að þar verði reist stórvirkjun jarðvarma. Hún getur bannað, að þar verði reist Kárahnjúkastífla. Og svo framvegis. Ekkert af þessu virðast vera fýsileg verkefni. En með ýmsum hætti slíkum má hindra, að á Grímsstöðum verði valdamiðstöð kínverskra áhrifa. Ég sé ekkert athugavert við, að Nubo fái að æfa ferðaþjónustu í 400 metra hæð yfir sjó. Viðbrögð Ögmundar Jónassonar eru dæmigerð þjóðremba eyjarskeggja.

Tvöfalt hrun

Punktar

Sarkozy féll í Frakklandi og fylgið hrundi af flokkum Samaras og Papandreou í Grikklandi. Forseti Frakklands verður Francois Hollande, sem efast um sparnaðarstefnu Evrópusambandsins. Í Grikklandi eru komnir til skjalanna nýir þingflokkar, sem eindregið hafna samningunum við fjölþjóðastofnanir um meðferð skulda Grikklands. Ríkjandi kerfi Evrópu hefur beðið mikinn hnekki í tvennum kosningum í dag. Erfitt er spá um framvinduna. Ljóst er þó, að efnahagsstjórn færist fjær sparnaði yfir í innspýtingu. Það mun hafa slæm áhrif á gengi evrunnar og draga úr ofurvaldi Þýzkalands í Evrópusambandinu.

Eyru Láka jarðálfs

Punktar

“Ég bauð mig EKKI fram til að sitja í þingsal með fólki sem vaknar á hverjum morgni eins og Láki jarðálfur og reynir að finna nýjar leiðir til að vera vont, til þess að skemma og eyðileggja.” Þannig lýsir Margrét Tryggvadóttir réttilega ástandinu á Alþingi. “Þrír þingmenn stjórnarflokkana eru alvarlega þjakaðir af fráhvarfseinkennum frá ráðherradómnum, í prinsippinu á móti öllu bara til þess að vera á móti því.” Ennfremur: “Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn er í alvarlegri tilvistarkreppu og stjórnast að reiði og hatri. Þingflokksformaður þeirra er ósveigjanlegri en stálbiti í burðarvirki álvers og æsir sig svo að eyrun á henni verða eldrauð ef einhver setur sig upp á móti henni.”

Kvótinn hefur lekið suður

Punktar

Fyrirhuguð auðlindarenta kvótagreifa til þjóðarinnar er sögð vera skattur á landsbyggðina. Landssamtök kvótagreifa hamra á þessu í auglýsingum, er kosta tugi milljóna króna. Sé þetta byggðaskattur, leggst hann þyngst á Reykjavík, höfuðborgarsvæðið og suðvesturhorn landsins. Kvótinn hefur hratt verið að færast til höfuðborgarsvæðisins, enda búa þar flestir stóru kvótagreifarnir. Reykjavík er sjálf komin með 15% kvótans og suðvesturhornið með 36% kvótans. Vestfirðir og Austfirðir hafa látið undan síga á valdaskeiði kvótagreifanna. Við óbreytt ástand mun allur kvóti smám saman leka til höfuðborgarsvæðisins.

Geir aftengdi lýðræðið

Punktar

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur líkir ákvörðun Geirs Haarde um að ræða ekki vanda bankanna í ríkisstjórn við, að forstjóri Almannavarna kallaði ekki saman almannavarnarnefnd í hættuástandi. Gaf bankabófunum með því svigrúm til að koma fjármunum undan. Geir hafi með þögninni sloppið við þrýsting samráðherra og aftengt lýðræðið. Tilraunir til að draga hann fyrir dóm báru síðan lítinn árangur. Landsdómur nennti ekki einu sinni að toga uppúr Seðlabankanum símtal Geirs og Davíðs daginn fyrir hrunið. Niðurstaða Landsdóms verður því talin vera lélegasti kattarþvottur stjórnmálasögunnar.

Skjaldborg um símtal

Punktar

Mér er fyrirmunað að skilja, hvers vegna þjóðin hefur ekki fengið að sjá eða heyra útskrift af símtali hrunsins. Daginn fyrir hrun töluðu Geir H. Haarde og Davíð Oddsson í síma um áttatíu milljarða veð-dapurt lán Seðlabankans í gjaldeyri til Kaupþings. Þetta lán var stærsti skellurinn í hruninu. Búið er að halda skrípa-réttarhöld yfir Geir án þess að þetta lykilsímtal hafi verið leitt í ljós. Sýnir, hversu lítið bit er í viðleitni við að gera upp hrunið. Seðlabankinn ber fyrir sig bankaleynd, sem fyrir löngu ætti að vera afnumin með öllu. Hvers vegna er slegin skjaldborg um alræmdasta símtal landsins?

Gamalkunnugt málþóf

Punktar

Þunnt er að væla yfir, að Sjálfstæðisflokkurinn misnoti fundarsköp Alþingis með sífelldum andsvörum við sjálfan sig. Það eru engar nýjar fréttir. Þess vegna verður ríkisstjórnin að koma í tæka tíð með frumvörp sín. Og nefndir þingsins verða að skila þessum frumvörpum frá sér í tæka tíð. Það eru engar nýjar fréttir. Ríkisstjórn og stjórnarsinnum er fullkunnugt um tímann, sem tekur að ná málum í gegn. Augljóst er, að nokkur helztu málin ná ekki fram að ganga á hefðbundnum þingtíma. Þess vegna þarf sumarþing í júní-ágúst. Enda hafa þingmenn bara gott af að vinna eins og annað fólk í þessu landi.

Tíu eða enginn

Punktar

Enn eru fjölmiðlar að reikna þingmenn á flokka með rangri notkun talna úr könnunum. Aðferðin tekur ekki tillit til óvenjulega margra, sem á einhvern hátt taka ekki afstöðu. Svarhlutfall er 62%, af þeim taka 72% afstöðu. Alls eru það bara 45% kjósenda. Ætla má, að viðhorf hinna séu önnur en þessara, sem hafa ákveðið sig. Þannig er út í hött að reikna tíu þingmenn á nýju flokkana. Samt gerir Ríkisútvarpið svo. Réttara er að segja, að þeir séu enn ekki komnir yfir 5% mörkin. Hafi því ekki enn náð þingmanni inn samkvæmt nýjustu könnun Gallup. Nokkur munur er á tíu þingmönnum og engum þingmanni.

Framleiða hryðjuverk

Punktar

Fyrir nokkrum árum skrifaði John le Carré rithöfundur eina af spennusögum sína, Absolute Friends, um hryðjuverk, sem vestrænar leyniþjónustur bjuggu til. Skáldskapur er stundum sannari en ímyndaður veruleiki fréttamiðla. Nú hefur þó New York Times birt frétt um, að FBI, bandaríska alríkislögreglan, hafi skipulagt 14 af 22 tilraunum til hryðjuverka eftir 11.09.2001. Hún gerði það með því að leita uppi grunlausa kjána, vopna þá og æsa þá upp til að reyna að fremja hryðjuverk, sem FBI stöðvaði síðan. Tilgangurinn var að ófrægja óvinsæla hópa, svo sem múslima, með hjálp grunlausra fjölmiðla.

Samherji rústar fátæka

Punktar

Þorsteinn Már Baldvinsson lætur Samherja stunda stjórnlausa ofveiði við Vestur-Sahara í skjóli hernámsríkisins Marokkó. Siðblindur eigandi Moggans og Sjálfstæðisflokksins brýtur með þessu alþjóðalög og rænir matnum frá fátækum fiskimönnum í Vestur-Sahara. Þarna stundar Þorsteinn skefjalausa rányrkju í þriðja heiminum. Á sama tíma tekur hann áhafnir fiskiskipa og heilu plássin á Íslandi í gíslingu til að tefja þjóðareign íslenzkra auðlinda. Í alvöru þjóðfélagi sæti Þorsteinn á Litla-Hrauni. Í staðinn rífur hann stólpakjaft og gerir út Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkinn til að vernda hagsmuni sína.