Gamalkunnugt málþóf

Punktar

Þunnt er að væla yfir, að Sjálfstæðisflokkurinn misnoti fundarsköp Alþingis með sífelldum andsvörum við sjálfan sig. Það eru engar nýjar fréttir. Þess vegna verður ríkisstjórnin að koma í tæka tíð með frumvörp sín. Og nefndir þingsins verða að skila þessum frumvörpum frá sér í tæka tíð. Það eru engar nýjar fréttir. Ríkisstjórn og stjórnarsinnum er fullkunnugt um tímann, sem tekur að ná málum í gegn. Augljóst er, að nokkur helztu málin ná ekki fram að ganga á hefðbundnum þingtíma. Þess vegna þarf sumarþing í júní-ágúst. Enda hafa þingmenn bara gott af að vinna eins og annað fólk í þessu landi.