Punktar

Vandræðin eru samtengd

Punktar

Var ritstjóri áratugum saman, þegar kerfið var lokaðra en nú. Þótti fremur ódæll og var stundum rekinn. Samt vann ég innan kerfisins og efaðist ekki um grunnstoðir þess. Skrifaði iðulega leiðara um það, sem betur mætti fara, og var oft hvass. En gerði samt sjaldan ráð fyrir, að vandamálin væru hluti af stærri vanda. Það var ekki fyrr en upp úr aldamótum, að sýnin fór að skána. Smám saman kom í ljós, að vandamál þjóðarinnar voru og eru samtengd. Stóra vandinn er, að okkur er stjórnað af vaxandi græðgi bófaflokka sérhagsmuna. Um tíma voru útrásargreifar öflugastir, en núna eru það kvótagreifar.

Fjölþjóða í felum

Punktar

Óvinsældir fjölþjóðastofnana vaxa. Fólk elskar ekki Nato, Ebe eða Ags. Sumar slíkar stofnanir eru ruslakistur aflóga pólitíkusa. Anders Fogh Rasmussen er í Nato og Árni Mathiesen í Fao. Fólki finnst líks ólíklegt, að það hafi nokkuð gagn af slíkum stofnunum. Þær séu fremur til að vernda sérhagsmuni. Spurt er, hvað Nato sé að gera í Afganistan og Ags í Grikklandi. Við því fást lítil nothæf svör. Slíkar stofnanir geta ekki einu sinni haldið fundi nálægt almenningi án þess að allt logi í óeirðum. Til dæmis Nato í Chicago þessa dagana. Helzt þyrfti Nató að halda fundi í afskekktu flugmóðurskipi.

Tvíeggjað hrós

Punktar

Gaman er fyrir Steingrím J. Sigfússon að fá óformlegt tilboð um að verða fjármálastjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins í Grikklandi. Um leið lúmskt gaman fyrir þá, sem þekkja fyrri afstöðu Steingríms til sjóðsins. Tilboðið sýnir, að sjóðurinn telur Steingrím hafa staðið sig vel við að endurreisa hagkerfi landsins eftir hrunið. Segir þó tæpast alla söguna, því að sjóðurinn situr ekki inni með alla vizku endurreisnar. Joseph Stiglitz var aðalhagfræðingur sjóðsins og skrifaði síðan bók um bresti hans. Hér hefur líka verið kvartað yfir, að bankarnir voru ekki siðvæddir. Hrósið til Steingríms er tvíeggjað.

Dapurt lið Framsókn

Punktar

Væri Sigmundur Davíð Gunnlaugsson flokksformaður í nágrannalandi, væri búið að hlæja hann út úr pólitík. Fyrst gerir hann nýja stjórnarskrá að höfuðmáli síðustu kosninga. Svo þegar ferlið liggur fyrir á Alþingi tekur flokkurinn þátt í ósiðlegu málþófi gegn stjórnarskránni. Auðvitað getur Sigmundur verið ósammála þáttum í tillögu Stjórnlagaráðs. Hver er það ekki, mér finnst hún ganga of skammt. En það eru smámunir í samanburði við það kraftaverk ráðsins að vera samhljóða um eina tillögu. Þá sneri Sigmundur Davíð bara við blaðinu og reyndi með málþófi að hindra framganginn. Ótrúlega dapurt lið Framsókn.

Ótraustir vísindamenn

Punktar

Áslaug Helgadóttir, prófessor í búvísindum, segir það áhyggjuefni, ef fólk treysti ekki vísindum. Hún er þar að tala um andspyrnu gegn erfðabreyttum matvælum. Þótt virðulegur listi vísindamanna sé þar í flokki. Ég hefði orðað vandann svona: Áhyggjuefni er, þegar sumum vísindamönnum er ekki treystandi. Við höfum séð ótal dæmi um ofurvald lyfjafyrirtækja og líftæknifyrirtækja í háskólabransanum. Monsanto er frægasta dæmið, enda sennilega verst þokkaða fyrirtæki heims. Ég mundi ekki treysta Áslaugu og öðru ofstækisfólki út í sjoppu, hvað þá fyrir vísindum. Treysti ekki Áslaugu og það er hennar vandi.

Rekstrarvandi Grikkja

Punktar

Vandi Grikklands er fremur rekstrarvandi en greiðsluvandi. Ríkið hefur nú þegar fengið afskrifaðan meira en helming skuldanna. Fari ríkið þar á ofan á hausinn, strikast yfir restina. Þá mæta Grikkir þeim vanda, að ríkið er ekki sjálfbært. Stendur ekki undir sér, þótt vextir og afborganir hverfi. Til dæmis eru ríkisjárnbrautirnar þannig reknar, að ódýrara væri að leigja taxa undir farþegana. Ríkisgeirinn er troðinn af óvinnufærum kvígildum flokkanna. Um leið fæla Grikkir frá sér einu auðlind landsins, ferðamennina. Er Grikkir í afneitun brenna líkön af Angelu Merkel, þora Þjóðverjar bara ekki að koma.

Ótrúlega sterk evra

Punktar

Evran stendur ótrúlega sterkum fótum, þrátt fyrir sviptingar í Grikklandi og víðar við Miðjarðarhafið. Gengi hennar helzt stöðugt í samanburði við dollar og pund. Grikkir hamstra evrur af ótta við, að teknar verði upp drökmur að nýju. Asíumenn voru áður búnir að skipta út dollurum fyrir evrur og láta það nú sumpart ganga til baka. Í raun er evran kraftaverk, því að hún hefur ekki að baki sér alvöru seðlabanka og alvöru ríkisábyrgð. Henni var ýtt á flot af taumlausri bjartsýni. Samt hefur hún í tímans rás risið á kostnað dollars. Grikkir vita núna, að evra er betri en drakma. Og ekki taka þeir upp krónu.

Vefengdar álitsgerðir

Punktar

Aðvörunarbjöllur klingja í hvert sinn, sem lögð er fram greinargerð í máli. Fyrst spyrja menn: Er það lögfræðistofa eða endurskoðun eða hagfræðistofa, sem gefur álitið? Sé svo, væla brunalúðrarnir. Ekki er nokkur minnsta ástæða til að taka mark á neinu, sem kemur frá slíkum stofnunum. Þær taka ævinlega afstöðu með umbjóðanda sínum, jafnvel hagfræðistofnun háskólans. Er Deloitte gefur út álit, taka fjölmiðlar það kannski upp, því að þeir fatta fátt nú orðið. Fólk veit af fyrri reynslu, að þetta er marklaust. Sérhagsmunaaðilar eiga sérfræðistofur og sérfræðinga með húð og hári. Svo einfalt er það.

Sultarólinni hafnað

Punktar

Hótanir bíta ekki á Grikki. Þeir spyrja, hvað geti versnað, þegar ellilaun hafa minnkað um fjórðung og helmingur ungra er atvinnulaus. Brottrekstur úr evru-hópnum virkar ekki lengur sem hótun. Sama er að segja um Spánverja, sem fóru þó gætilegar í fjármálum. Þeir spyrja, hvað geti versnað, þegar allt er hvort sem er í skralli. Róttækir flokkar hafna sultarólinni. Smám saman munu skuldarar eflast svo, að ekki verður lengur hægt að líta á lán sem heilagan sáttmála. Eigendur fjármagns verða að gefa eftir. Peningar flýja af markaði og kreppan dýpkar. Við þurfum að hafna pólitík, þar sem peningar einir ráða.

Þegar það hentar honum

Punktar

Ólafur Ragnar Grímsson getur gætt hagsmuna þjóðarinnar. Þegar það hentar honum. Hann gætir líka hagsmuna útrásarbófa, er það hentar honum. Auglýsti þá og krossaði eftir hentugleikum. Hann gætir líka hagsmuna kvótagreifa, er það hentar honum. Getur hótað að sprengja kvótafrumvarp, verði það að lögum. Hann getur verið í Framsókn eða Alþýðubandalagi eftir þörfum hans sjálfs hverju sinni. Stundum þarf hann á þjóðinni að halda, stundum ekki. Táknorð hans er: “Ég um mig frá mér til mín.” Þannig hefur það verið í hálfa öld. Sem forseti er hann ekkert öðruvísi en ævinlega áður. Grófari með aldrinum.

Sofandi amatörar

Punktar

Framboð Þóru Arnórsdóttur til forseta hefur rekið á reiðanum í tvær vikur. Enginn virðist passa sjoppuna meðan hún er í fæðingarfríi. Forsetaefni getur aldrei verið i fríi af neinu tagi. Frumkvæði þarf að vera hjá kosningastjóra og ráðgjafanefnd. Ekki dugir að bíða eftir, að eitthvað gerist. Fréttir og skoðanir eru ekki lengur í hægum takti hefðbundinna fjölmiðla. Á vefnum er straumurinn sívirkur og þungur. Í senn þarf að hafa frumkvæði og getu til að mæta frávikum. Svo sem þegar Ólafur Ragnar þjófstartaði baráttu sinni. Síðan hefur framboð Þóru rekið á reiðanum. Þið þarna, rífið ykkur upp af rassinum.

Tsjillað með álfum

Punktar

Þingmaður hyggst drekka te með sjö álfum í garðinum sínum og ráðherrabróðir telur álfana þurfa aðstoð gegn áfallastreituröskun. Það er von, að útlendir telji Íslendinga vanta eitthvað í toppstykkið. Ekki eru skrifaðar ritgerðir um, hvað komi Vestmannaeyingum til að kjósa sér þingmann beint úr grjótinu. Né um, hvað komi þjóðkirkjunni til að samþykkja smíði lélegrar stælingar á gömlum lager nánast utan í Skálholtskirkju. Fróðlegt væri að kanna ofan í kjölinn fávitavæðingu Íslands um þessar mundir. Það getur verið afslappandi að spila fífl, en stundum breytast fávitalæti í sorglegan raunveruleika.

Fyrir rangri sök

Punktar

Ólafur Ragnar Grímsson og Herdís Þorgeirsdóttir hafa Ríkisútvarpið fyrir rangri sök. Það hossar ekki Þóru Arnórsdóttur. Viðskiptablaðið reiknaði út, að Ólafur fékk 51 frétt meðan Þóra fékk 31 og Herdís 26. Aðrir fengu 29-21 frétt, nema Andrea Ólafsdóttir, sem kom síðar til skjalanna. Ríkisútvarpið leitaði ráða hjá norrænum sjónvarpsstöðvum um meðferð mála af þessu tagi, er starfslið fjölmiðils er grunað um stuðning við samstarfsmenn. Ríkisútvarpið lýsti yfir, að það mundi taka á kosningunum af fagmennsku. Ég treysti því. Tölurnar sýna þó, að sjónvarpið má passa að hossa ekki Ólafi Ragnari um of.

Ljúkum málinu fljótt

Punktar

Sammála Svandísi Svavarsdóttur. Kjósum um Evrópusambandið á kjörtímabilinu. Verði samningur ekki tilbúinn, þarf að kjósa um, hvort halda skuli áfram viðræðum. Þær hafa staðið lengi og þjóðin hefur á þeim tíma fjarlægzt aðild. Eyðum ekki meiri tíma í mál, sem þjóðin mun hvort sem er fella. Jóhanna er með bandalagið á heilanum. Hún eitraði stjórnarsamstarfið frá upphafi með þrákelkni sinni. Ég styð aðildina, en veit um skoðun meirihlutans og virði hana. Hættum bjölluati í Bruxelles. Gefum stjórninni eitt ár í það og felum henni að vinna betur að framfaramálum, sem ekki fara þvert í samfélagið.

Kjósa sig úr vandanum

Punktar

Grikkir halda sig geta kosið sig út úr vandanum. Kusu um daginn og það gekk ekki upp. Ætla að kjósa aftur í júní. Kannski gengur betur þá. Kannski kjósa þeir bara mánaðarlega, þangað til vandamálin hverfa, kannski. Þeir eru eins og Íslendingar. Við töldum okkur geta kosið okkur út úr vandamálum IceSave. Við getum kosið aftur og aftur um IceSave, verið stolt af okkur. En IceSave fer ekki neitt, ekki frekar en vandræði Grikkja. Sum mál eru þess eðlis, að þau verða ekki kosin út úr heiminum. Af því að þau snúast um samskipti við umheiminn. Þennan stóra, vonda umheim, sem við kennum um okkar mörgu ófarir.