Punktar

Botn ósvífninnar

Punktar

Davíð Oddsson og Ólafur Ragnar Grímsson eru svipaðir að gerð, með afbrigðum ósvífnastir allra pólitíkusa. Þannig hefur það verið um áratugi. Eru mér staðfesting þess, að mikill hluti íslenzkra kjósenda stígur ekki í vitið. Nú er Ólafur Ragnar í baráttu, þar sem hann skeytir engu um staðreyndir. Fyrst biður hann skriflega um skilning á, að hann þurfi hugsanlega að hætta í embætti áður en kjörtímabilinu lýkur. Síðan segir hann fréttir af þessu vera haugalygi. Þreytandi rógberi er hann. Við þurfum að losna við alla þá fugla úr pólitík. Ólafur er næstur í röðinni. Síðan fara Jóhanna og fleiri að ári.

Fullrædd þingmál

Punktar

Hvað þarf að tala lengi um eitt mál á Alþingi til að það teljist fullrætt? Ég tel ekkert mál svo flókið, að það sé ekki fullrætt á 24 klukkustundum. Enda sést, að þingmenn tala stíft um formsatriði á borð við fundarstjórn og fundartíma, en minna um málið sjálft. Ég tel ekki heldur, að þingmönnum beri að sitja í þingsal og hlusta, þegar menn þvaðra út um víðan völl í andsvörum við andsvör við andsvör. Slík umræða má gjarna fara fram á nóttunni. Heimild til stöðvunar umræðu og til atkvæðagreiðslu á að beita, þegar umræðutíminn er kominn í 24 tíma. Og halda ber þingfundi um nætur og helgar eftir þörfum.

Trúin sem á bágt

Punktar

Byltingin vann stríðið í Líbýu, en tapaði friðnum. Allt er þar að færast í fyrra horf einu ári eftir stjórnarskipti. Á sama veg fer í Egyptalandi, þar sem frambjóðendur hers og trúar berjast um forsetavöld. Nútímafólk hefur þar engan séns, þótt Egyptaland sé eitt menntaðasta ríki múslima. Sama verður uppi á teningnum í Sýrlandi, verði Assad hrakinn burt. Í löndum múslima er ekkert hreyfiafl í átt til vestræns nútíma. Mannréttindi verða áfram virt að vettugi og siðir smám saman færðir í átt til miðalda. Nútíminn hentar ekki Múhammeð. Ekki heldur raunvísindi, kvenréttindi, ekki einu sinni gamansemi.

Reynir hallarbyltingu

Punktar

Munur stjórnarbyltingar og hallarbyltingar er, að það síðara er bylting, sem fer fram innan hallarveggja valdakerfisins. Hér á landi felur Höllin í sér fjórflokkinn og pólitíkusana, sem hafa skipzt á völdum frá ómunatíð. Mestur þeirra er Ólafur Ragnar Grímsson, er setið hefur sextán ár sem forseti eftir óralangan flokkapólitískan feril. Tilraun hans til stjórnarbyltingar má því kalla tilraun til hallarbyltingar. Hann teygir og togar stjórnarskrána til að gera sig að forvirku löggjafarvaldi. Samanber hótun hans um að stöðva frumvarp um kvótann. Reynir að breyta þingbundinni stjórn í alræði forseta.

Skrítinn flokkur

Punktar

Vinstri grænir eru ekki óskiptur flokkur, heldur safn ýmissa sjónarmiða, sem hafa átt sögulega samleið. Dálítið af gamlingjum úr sósíalistaflokknum, sem sumir eru stóriðjusinnaðir. Þjóðernissinnar, sem voru í Alþýðubandalaginu, því að hersetan á Keflavíkurvelli sameinaði vinstri menn og þjóðernissinna. Fjölmennir eru þeir, sem eru sveitarómantískir á gráu svæði milli Framsóknar og Vinstri grænna. Og þar hafa líka lent græningjar nútímans, sem oft eru á öndverðum meiði við gömlu sósíalistana. Flokkurinn heldur næstum saman, því að fáir bjóða þessum sjónarmiðum betri kosti. Til dæmis ekki Samfylkingin.

Ógeðfelld söngvakeppni

Punktar

Þótt Azerbaijan sé í Mannréttindaráðinu og Evrópuráðinu, eru mannréttindi þar fótum troðin. Það er til hneisu evrópsku ríkissjónvarpi að halda þar vinsæla söngvakeppni. Og fráleitt, að Íslendingar láti teyma sig í þeirri för. Svíar eru þeir einu, sem hafa haldið reisn. Atkvæðatölur kosninga eru falsaðar í Azerbaijan. Þar er ekki skoðanafrelsi og ekki tjáningarfrelsi og ekki fundafrelsi. Pyndingar eru daglegt brauð og fólk hverfur sporlaust. Virkilega andstyggilegt glæparíki, sem ekkert siðað fólk kemur nálægt. Páll Óskar er eini íslenzki músíkantinn, sem hefur bent á fáránleika þáttökunnar.

Þráhyggjunni linni

Punktar

Evrópusambandið er orðið svo óvinsælt, að meirihlutinn vill kjósa um, hvort viðræðum verði fram haldið. Jóhanna Sigurðardóttir og Samfylkingin geta ekki endalaust hunzað vilja fólks. Sá vilji er að vísu vitlaus, en það er eigi að síður lýðræðislegur vilji. Kominn er tími til að taka endasprett í viðræðum um aðild. Jóhanna getur fengið tíma til áramóta til að sjá, hvort eitthvað kemur út úr viðræðunum fyrir þingkosningar. Séu þá ekki horfur á því, ber að kjósa á þessu kjörtímabili um framhaldið. Í síðasta lagi samhliða næstu þingkosningum, liggi samningur þá ekki fyrir. Nóg er komið af þráhyggjunni.

Kraftaverkið gerðist

Punktar

Nánast er kraftaverk, að kaupmáttur launa sé aðeins 7,6% lægri núna en hann var í blöðrunni miklu fyrir hrun. Engum hafði dottið slíkt í hug, þegar Geir H. Haarde ákallaði guð almáttugan í sjónvarpinu. Einnig er kraftaverk að atvinnuleysið skuli aðeins vera 6,5% þremur árum eftir hrun. Tölurnar sýna, að atvinnulífið gengur á fullum dampi, þótt það nái ekki hæðum blöðrutímans. Þetta kemur heim og saman við það, sem ég sé í búðinni, þegar fólk gerir innkaup. Það sóar peningum í ótrúlegustu hluti, sem engin þörf er fyrir. Um 90% þjóðarinnar hafa það harla gott og hafa því ekki yfir neinu að kvarta.

Óbeitin á þingræði

Punktar

Þingræði er orðið svo óvinsælt á Íslandi, að margir fagna alræði forsetans. Telja hann hafa dularfullt samband við þjóðarviljinn. Geti veitt viljanum farveg framhjá hindrunum gerspillts þingræðis. Nákvæmlega eins og fólk taldi Franco og Mussolini endurspegla hinn sanna þjóðarvilja, framhjá hinum rotnu stofnunum. Þannig hefur forsetinn endurholdgazt. Er ekki lengur klappstýra útrásarinnar og fremstur í bófahasar pólitíska sandkassans. Getur teygt og togað stjórnarskrána úr lýðræði yfir í alræði að hætti danska arfakóngsins. Lamin, kúguð og sliguð þjóð fagnar endurholdgun hins íslenzka Juan Perón.

Feimnismál lífeyrissjóða

Punktar

Eðlilegt er, að ljósmyndara fjölmiðils sé kastað út af aðalfundi Bakkavarar. Fyrirtækið er nefnilega feimnismál lífeyrissjóðanna. Þeir keyptu hræið af bankanum og afhentu Bakkabræðrum það að nýju. Skuldir útrásargreifanna voru fyrst afskrifaðar og svo lögðu þeir til fjóra milljarða í hlutafé. Ekki blankir eftir afskriftirnar. Fyrst létu lífeyrisbófarnir greifana stjórna fyrirtækinu og nú eru þeir orðnir með stærstu eigendum. Greifarnir komnir aftur til skjalanna, hvítskúraðir eftir hrunið. Þetta gera lífeyrisbófarnir við peninga gamla fólksins um leið og þeir rýra léleg lífeyrisréttindi þess.

Þjóðarhetjurnar

Punktar

Allt er að verða eins og það var fyrir hrunið. Helztu bófar landsins sitja ekki á Litla-Hrauni, heldur taka þeir við gömlu fyrirtækjunum. Bankastjórar hafa gefið bófunum eftir tugi milljarða og þeir taka til við fyrri iðju. Mér sýnist Samskip komið í fyrri eigu, sömuleiðis Bakkavör og Lyf og heilsa. Fyrri eigendur Bónusveldisins eru að hasla sér völl í verzlunarkeðjum. Eftir afskriftir er útgerð enn í höndum greifa, er borga milljarð á ári í Moggann. Þessu ráða bankastjórar, sannfærðir um, að engir séu betri kaupsýslumenn en einmitt þeir, sem settu fyrirtækin á hausinn. Þetta eru okkar þjóðarhetjur.

Ekki leiðum að líkjast

Punktar

Íslendingar líkjast Grikkjum í stóru og smáu. Góðir heim að sækja og getum verið skemmtilegir og tryggir vinum okkar. Lítum á lög og reglur sem æskileg viðmið, sem gott væri að fara eftir, ef við þyrftum á að halda. Þjóðrembdir með afbrigðum og hlaupum eftir þeim, sem hæst garga í lýðskrumi. Allar aldir ófærir um að stjórna okkur sjálfir og endurtökum sömu villurnar í gríð og ergi. Rökhyggja er fjarri hagsmunum og eðli okkar, kjósum heldur staðlaðar yfirlýsingar. Í afneitun um eigin sök og kennum öðrum um ófærir okkar, helzt útlendingum. Að langfeðgatali afkomendur siðblindingja. Eins og Grikkir.

Stöðvið málþóf bófanna

Punktar

Stjórnarflokkarnir og Hreyfingin hafa skýran meirihluta til að stöðva málþóf bófaflokkanna á Alþingi. Annað hvort beita þeir ákvæði laga um tillögu til dagskrár. Eða þeir opna inn á þinghald til hausts. Stjórnarflokkarnir eru búnir að vera, ef þeir svíkja þjóðina um stjórnarskrána. Allt annað en harka verður túlkað sem leynilegt samsæri með bófaflokkunum. Stjórnarflokkar geta ekki kennt bófum um sína eigin vangetu. Bófaflokkar ná ekki heljartökum á ræðustól nema með þegjandi samþykki meirihlutans. Fnykinn af Flokknum og Framsókn er farinn að leggja um samfélagið og eitra okkur. Mál er að linni.

Forseti sameinar fólk

Punktar

Er mjög sáttur við lýsingu Þóru Arnórsdóttur á forsetaembættinu eins og hún vill hafa það. Hún segir í bréfi til stuðningsmanna, að forseti geti ekki rækt einingarhlutverk sitt, ef hann rekur eigin stjórnmálastefnu. Hins vegar megi forsetinn taka í taumana, ef brýna nauðsyn krefur. Þannig ætti Þóra sem forseti að geta sett IceSave samninga í þjóðaratkvæði, ef víðtækur vilji er til þess hjá þjóðinni. Hún vill hins vegar ekki grípa forvirkt fram í störf Alþingis. Þannig vill hún málskotsrétt, en ekki forvirk afskipti af pólitík. Það er nákvæmlega svona forseti, sem við þurfum á erfiðum tímum ósættis.

Fullur sigur kvótagreifa

Punktar

Þingflokkar ríkisstjórnarinnar hafa gefizt upp í kvótamálinu. Niðurstaða þessa mikla hugsjónamáls verður neikvæð. Kvótagreifar fá kvótann til tuttugu ára í stað eins árs í senn, sem áður var. Þar á ofan fá þeir milljarða í sinn hlut. Fara í að kaupa einkaþyrlur, safna í reikninga á Tortola og Kýpur og fjármagna útgerð erlendis. Fara ekki í endurnýjun sjávarútvegs hér heima fyrir, ekki frekar en fyrri daginn. Alþingi er að gera ósæmilegt frumvarp ríkisstjórnarinnar enn verra. Nú á Alþingi bara eftir að gefast upp fyrir málþófi um stjórnarskrá til að öll stóru framfaramál þjóðarinnar séu dauð.