Punktar

Skjólstæðingar forsetans

Punktar

Forsetinn studdi ríkisstjórnina eins og við var búizt. Lítur enda á forsætis sem sérstakan skjólstæðing sinn. Báðir eru þeir þjóðrembd framsókn og báðir óvenjulega ósvífnir. Forsetinn hefur einnig löngum stutt auðgreifa, fyrrum einkum útrásargreifa og síðar einkum kvótagreifa. Ekki stoðaði að leita í fyrri ákvörðunum hans sjálfs um þjóðaratkvæði. Fjöldi áskorenda í bænarskrám skiptir hann engu. Forsetinn finnur bara orðhenglana, sem henta honum hverju sinni. Enda veit hann, að fólkið hans stendur ekki við óskir sínar, þegar á reynir. Vesalingarnir lyppast niður í þjóðlindarentu eins og í stjórnarskrá.

Einfaldan kjósanda takk

Punktar

Mér er sagt, að þjóðremburáðuneyti Sigmundar Davíðs snúist um eitthvað lítið og sætt á borð við þrjár undirhökur. Feli í sér dálæti á öllu séríslenzku, svo sem offitu. Sigrún Magnúsdóttir framsóknarþingmaður nefnir sérstaklega pönnukökur, sem þó eru betri í Amsterdam en í Reykjavík. Líklega hefði hún heldur átt að nefna íslenzka matarkúrinn, sem felst í að éta fitu. Hann ætti að heita forsætis-kúrinn. Svo verður séríslenzka kokteilsósan sennilega niðurgreidd að hætti Framsóknar. Tvöfaldur asni hét þjóðrembdur drykkur, er ég var yngri. Hann mætti endurvekja og kalla hann bara Einfaldur kjósandi.

Borgarar og þegnar

Punktar

Hinn þögli meirihluti er þungur á metunum í kosningum. Hann er margs konar, pólitískir fávitar eru fjölmargir. Einnig alls konar þegnar, sem engan áhuga hafa á pólitík og fylgjast lítið sem ekkert með. En fara á kjörstað af ýmsum ástæðum. Til dæmis af gömlum vana, af fylgni við pólitík vinnuveitanda eða til að gleðja vini og ættingja. Álitsgjafar hreyfa lítið við þessu fólki. Pólitískt þroskaðir borgarar eru minnihluti, líklega innan við þriðjungur. Raðast á flokka með ýmsum hætti, en fylgist nógu vel með til að verða fyrir áhrifum. Pólitísk barátta snýst um þann þriðjung, borgara fremur en þegna.

Reiknilist verkfræðinga

Punktar

Til skamms tíma ætluðu Orkuveita Reykjavíkur og HS Orka að virkja jarðhita til raforku út um allar trissur. Skálduð orkugeta hvers svæðis var notuð í samlagningu. Nú kemur í ljós, að orkan fjarar út. Hellisheiðarver þarf að fá orku Hverahlíða. Verkfræðigreyin segja, að þetta hafi alltaf verið vitað. Ævinlega þurfi að bora meira og meira til að halda óbreyttri orku. Einmitt. Þegar búið er að nota orkuna frá Hverahlíðum sem varadekk undir þverrandi orku frá Hellisheiðarveri, hvaðan á þá að fá orku í Hverahlíðaver í stóra dæmið? Og svo framvegis? Bara Framsóknar-Höskuldar trúa, að rugl gangi upp?

Sama gamla Ísland

Punktar

Þótt Framsókn hafi tapað stuðningi frá kosningum, hefur fylgi Sjálfstæðis aukizt að sama skapi. Í heild hefur ekkert breytzt. Þótt ríkisstjórnin hafi gefið greifum forgang fram yfir almenning, styðja fíflin hana enn. Meira að segja eru tvöfalt fleiri kjósendur ánægðir með Sigmund Davíð en þeir, sem eru óánægðir. Fólk hefur einfaldlega fengið það, sem það kaus, og er sátt. Varla þriðjungur þjóðarinnar hugsar. Mikill meirihluti er sauðfé, sem er fráhverft pólitík og kýs bara eins og því er sagt. Því finnst eðlilegt, að fé sé fært frá aumingjum til greifa. Svona er Ísland og hefur ætíð verið.

Réttur gallabuxnalitur

Punktar

Gott hjá Elínu Hirst að niðurlægja siðameistara alþingis. Upplýsir, að fólk megi vera í rauðum eða svörtum gallabuxum, en ekki í bláum. Af hverju taka alþingismenn yfirleitt mark á Helga Bernódussyni. Ætlar hann að kalla í vini sína í löggunni, ef þingmenn mæta í gallabuxum og með opið í hálsinn. Meðan Helgi hleypur um og mælir pilsasídd þingmanna hefur virðing alþingis þorrið niður í nánast ekki neitt. Hún lagast ekki, þótt hann standi vaktina sem siðameistari. Þingmönnum ber að fara eftir þingsköpum, en ekki eftir neinu prívatrugli úr skrifstofustjóra. Hann setur sig á hlægilega háan hest.

Kerfiskarlaflokkur

Punktar

Áður þóttist Sjálfstæðisflokkurinn styðja einstaklingshyggju gegn ofurvaldi ríkisins. Fyrir löngu gleymt. Sjálfstæðis er núna mesti kerfiskarlaflokkur landsins. Styður ríkið gegn einstaklingnum. Er flokkur ríkisdýrkunar. Í stað frjáls framtaks skríða menn undir pilsfald ríkisins. Reyna að gera sér aur úr misnotkun á aðstöðu. Með forgangi að auðlindum, með fáokun, með misnotkun sjóða. Sjálfstæðis neitar að styðja Snowden, fylgismann hins hægri sinnaða Ron Paul forsetaframbjóðanda gegn ríkisvaldi, sem lítur á fólk sem óvini. Flokkur að hætti ríkisdólganna Obama og Pútíns, næsti bær við Stalín.

Ógeðsleg tvöfeldni

Punktar

Framkoma Vestur-Evrópu er ógeðsleg. Annars vegar væla stjórnvöld hástöfum út af ofurnjósnum Bandaríkjanna vegna upplýsinga Edward Snowden. Samt dettur þeim ekki í hug að veita honum hæli. Svörtust er samvizka Frakklands, sem ætíð röflar um mannréttindi, en hafnar þeim, er á reynir. Leyfði ekki einu sinni yfirflug forseta Bólivíu af ótta við Obama, svei Frakklandi. Snowden er einn mesti velgerðarmaður mannkyns á öldinni. Er þar við hlið Bradley Manning, sem upplýsti um stríðsæði Bandaríkjanna. Okkur ber að bjóða báðum ríkisborgararétt, þótt hvorugur sé frjáls ferða sinna. Er ekki þeirra sök.

Illugi puðar enn

Punktar

Illugi Gunnarsson ber hugsjónabyrðar, sem komu sér illa fyrir þjóðina, þegar hann stjórnaði Sjóði 9. Það kostaði okkur milljarða. Í stað þess að hætta afskiptum af pólitík er Illugi orðinn ráðherra. Hann lærir ekkert af biturri reynslu. Á sama tíma og fólk hristir hausinn yfir afskiptum pólitíkusa af rekstri Íbúðalánasjóðs endurvekur hann afskipti pólitíkusa af ríkisútvarpi. Við höfðum þó reynslu af slíku í gamla daga og hún var ekki góð, ekki frekar en hjá Íbúðalánasjóði. Og svo treður Illugi flokksdindlum sínum inn í stjórn Lánasjóðs íslenzkra námsmanna. Vandræðamaður gefur út ávísanir á vandræði.

Gott skúbb Guardian

Punktar

Það var ekki íslenzkur fjölmiðill, sem skúbbaði fréttinni af heimskuhjali Ban Ki-Moon á fundi utanríkismálanefndar alþingis. Guardian birti fréttina fyrstur fjölmiðla og sagði frá áminningu Birgittu Jónsdóttur. Sameinuðu þjóðirnar eru kontórista-stofnun, sem hefur ímugust á flautublásurum á borð við Edward Snowden. Frægt er hneykslið, þegar framkvæmdastjórn Sameinuðu þjóðanna ofsótti flautublásarann James Wasserstrom, sem sagði frá spillingu sendisveitar Sameinuðu þjóðanna í Kosovo. Ætla mætti, að þær hremmingar yrðu Ban Ki-Moon áminning. Bjánalegt er að bjóða bjána. Gott skúbb hjá Guardian.

Afleit bylting

Punktar

Afleit er bylting egypzka hersins gegn Mohamed Morsi, lýðræðislega kjörnum forseta landsins. Slíkar byltingar valda fólki ævinlega vonbrigðum. Morsi reyndi að vísu að hrifsa til sín völd, sem forsetinn hefur ekki. Forsetar reyna það víðar, til dæmis á Íslandi. Með mótmælum var Morsi þá neyddur til að draga hallarbyltinguna til baka og það hefði átt að duga. Þótt hann hafi afturhaldssamar skoðanir, þá er hann löglega kjörinn í frjálsum kosningum. Lýðræðissinnar á Tahir-torgi fagna núna falli hans. En munu fljótlega sjá, að ekki tekur betra við hjá hernum, sem hefur ímugust á öllu lýðræðislegu.

Hættulegar skammstafanir

Punktar

Í þessu þjóðrembda ríki hafa ráðleggingar erlendra “skammstafana” á borð við AGS og OECD lengi verið hunzaðar. Til dæmis var Íbúðalánasjóður gerður að meiriháttar þjóðarböli. Stjórnvöld og sjóðstjórar tóku nefnilega ekki mark á árvissum og ítarlegum viðvörunum erlendra stofnana. Aðeins þegar Steingrímur J. Sigfússon var fjármála, var tekið mark á AGS. Hann hlaut af því ákúrur fyrir óþjóðlega þjónustulund við erlenda aðila. Nú er kominn til valda ungur og vitgrannur bófi, sem segist ekki taka mark á ráðleggingum “skammstafana”. Þjóðremba Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á eftir að verða okkur dýrkeypt.

Ég biðst afsökunar

Punktar

Þegar hinn skelfilegi sannleikur kemur í ljós, sést oftast, að ég hef farið of mildum orðum um ástandið. Hef kallað stjórnmálaflokka bófaflokka, þegar við hæfi væri að nota sterkara orðalag. Hef sagt kjósendur heimska, þegar við hæfi væri að kveða fastar að orði. Staðreyndin er, að Ísland er ónýtt ríki. Kann ekki fótum sínum forráð vegna yfirgengilegs sinnuleysis kjósenda og raðsvika pólitískra bófaflokka. Skammstafanir í útlöndum vita ætíð betur en við. Samt freistast ég til að tala um ástandið eins og það sé stórgallað fremur en algert ógeð. Ég biðst afsökunar á, að hafa beitt of vægum orðum.

Hringekja fáráðlinga

Punktar

Af rannsóknarskýrslunni um Íbúðalánasjóð sjáum við raðtengt ógeð Framsóknar. Árni Magnússon ráðherra réði Guðmund Bjarnason, fyrrum ráðherra, sem réði Hall Magnússon flokksgæðing. Úr þessu varð tímasprengja, sem kostaði þjóðina hundruð milljarða. Við sjáum í skýrslunni fleiri raðsprengjur. Sjálfstæðis raðaði sínum í eftirlit án eftirlits, Davíð Oddssyni í Seðlabankann, Jónasi Fr. Jónssyni í Fjármálaeftirlitið. Einnig var Illugi Gunnarsson settur yfir sögufrægan Sjóð 9 með hræðilegum afleiðingum. Nú er Illugi ráðherra og setur Jónas Fr. yfir Lánasjóð námsmanna. Hringekja fáráðlinganna komin aftur af stað.

Evrópa skandalíserar

Punktar

Vestur-Evrópa bítur seint úr nálinni, eftir að hafa stöðvað heimflug Evo Morales, forseta Bólivíu, frá Sovétríkjunum. Frakkland, Portúgal, Ítalía og einkum Spánn bönnuðu yfirflug forsetans. Hann sat fastur í Vínarborg í nótt. Náttúrlega meiriháttar diplómatískur skandall. Evrópuríkin eru stimpluð til langframa sem varðhundar bófaflokkanna, er stjórna Bandaríkjunum. Verst er þó útkoma Frakklands, sem stundum þykist rífa kjaft, þegar það er óhætt, en hagar sér eins og kjölturakki, þegar í harðbakkann slær. Í morgun var áfram allt fast, því Spánn neitaði enn að virða alþjóðlegar reglur um diplómatíu.