Punktar

Lítil hætta á Íslandi

Punktar

Íslenzk hætta hefur ekki aukizt úr lítilli í miðlungs, þótt ríkislögreglustjóri ímyndi sér það. Öryggi okkar stafar einkum hætta af sérsveitum lögreglunnar og af innlendum rónum. Vegabréfslausum eða eftirlýstum útlendingum ber að snúa við í Leifsstöð, þegar þeir koma til landsins. Einkum ef þeir eru með óráði. Efla má eftirlit í Leifsstöð. Að öðru leyti er fráleitt að sinna sífrinu í Haraldi Johannessen um peninga, morðtól og njósnir. Við þekkjum það frá nágrannalöndum, að auknar heimildir, einkum forvirkar, eru ævinlega gróflega misnotaðar. Helzt beinast þær gegn öldnum góðborgurum á borð við Ómar Ragnarsson og Eið Guðnason.

Náttúruhatrið

Punktar

Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir skera fjármagn til friðlýsinga niður í núll til að tryggja, að friðun minnki ekki svigrúm til virkjana. Því verður dráttur á friðlýsingu Látrabjargs, Flateyjar og Varmárósa. Stjórnin og flokkarnir tveir sauma líka að náttúruminjasafni til að takmarka náttúruvitund fólks. Nú síðast hefur safninu verið sparkað út á gaddinn. Þótt náttúruminjasafn sé nauðsynlegur gluggi að landinu fyrir erlenda ferðamenn, sem koma einkum vegna náttúrunnar. Flokkarnir tveir hata náttúruna, einkum Sjálfstæðis. Frá Birni Bjarnasyni til Illuga Gunnarssonar hafa menntaráðherrar flokksins hindrað náttúruminjasafn.

Varið ykkur á Apple

Punktar

Farið varlega í skammir um forseta og forsætisráðherra fyrir að hunza bréf frá Apple. Við höfum slæma reynslu af fyrirtækjum, sem vilja fá fyrirgreiðslu til að efna til rekstrar. Apple er alræmt fyrir hörku í kröfum um skattaafslætti, undanþágur og aðra ölmusu frá skattgreiðendum. Ég hef enga trú á, að viðræður við Apple skili neinu. Þótt gott sé að selja orku, er engin ástæða til að selja hana á tombóluverði. Sem hefur því miður verið gert hér í samningum við álver, kísliver og gagnaver. Hér hugsa menn bara um að fá upp í jaðarkostnað og bara smávegis af atvinnutækifærum. Sá tími á að vera liðinn, nú má anda með nefinu.

Veiðir í grugginu

Punktar

Kannanir sýna, að Framsókn hefur 10% fylgi. Borgarstjórnarkosningarnar sýndu, að flokkurinn getur tvöfaldað fylgið með því að spila út rasistakerlingum. Í þjóðfélaginu er mikil þjóðremba og slæðingur af útlendingahatri. Með auknum berserksgangi öfgamúslima má búast við, að múslimahatur aukist næstu misseri. Framsókn er þjóðrembdasti flokkurinn og þarf ekki að hafa mikið fyrir því að innbyrða alla útlendingahatara. Ég hef enga trú á, að flokkurinn láti færið úr greipum renna. Í flestum löndum Evrópu eru öflugir flokkar þjóðrembu og haturs á múslimum. Léttúðug Framsókn mun fiska vel í slíku gruggi. Hæfir skel kjafti.

Þveröfugar skoðanir

Punktar

Viðskiptaráð predikar: „Viðskiptaráð leggur til að Ísland hætti að bera sig saman við Norðurlöndin enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum.“ Ásdís Halla Bragadóttir predikar: „Albanía er ljósárum á undan okkur í valfrelsi og samkeppni í heilbrigðisrekstri.“ Við sjáum þankagang öfgahópsins, Albanía bezt, Ísland í milli og Norðurlönd verst. Fleiri hafa skoðun, til dæmis þeir, sem taka til fótanna. Flestir hælisleitendur á Íslandi koma frá Albaníu. Og héðan frá Íslandi er stríður straumur fólks til Norðurlanda. Þeir, sem greiða atkvæði með fótunum, telja nefnilega Norðurlönd bezt, Ísland í milli og Albaníu versta.

Grikkir hefti auðgreifa

Punktar

Deila Grikklands og Evrópu er ekki svart-hvít, heldur hafa hvorir tveggja sumt sér til málsbóta. Vaxtabyrði Grikklands er of há, samfélagið stendur ekki undir henni, hún er óraunhæf. Á hinn bóginn hafa Grikkir trassað að draga úr lúxus, sem þar er óeðlilega mikill. Starfsævi er þar of stutt og ríkisgeirinn er of bólginn. Alvarlegra er þó, að auðgreifar komast hjá sköttum og skyldum í skjóli gerspillts ríkisvalds. Grikkjum ber að hreinsa spillinguna. Syriza er bezt til þess fallið og hefur völdin til að gera það. Aðalatriðið er að hlífa fátækum, öfugt við það, sem gert er á Íslandi. Vonandi nær Grikkland sáttum við Evrópu.

200 króna auðlindarenta

Punktar

Kvótasvangar útgerðir borga kvótagreifum um 200 krónur á kíló í kvótaleigu. Það segir nokkuð vel, hver auðlindarentan til þjóðarinnar eigi að vera. Hún á að vera um 200 krónur á kíló. Það er álagið, sem kvótinn kostar á frjálsum markaði í dag. Séu menn fylgjandi frjálsum markaði, geta þeir ekki verið á móti notkun hans. Auðvitað mætti komast betur að raun um verðgildi kvótans með því að setja hann á opið uppboð. Það er viðskiptavenja markaðshagfræðinnar. Skrítið, hversu illa hægri mönnum er við markaðshagfræði og frjálsa verðmyndun. Það er vegna þess, að Sjálfstæðisflokkurinn er í rauninni séríslenzkur kommúnistaflokkur.

Tvö fífl í síma

Punktar

Aldrei hafa tvö fífl átt afdrifaríkara símtal en Davíð og Geir sex klukkutímum fyrir „guð blessi Ísland“ sjónvarpsræðu Geirs. Ákváðu að afhenda Kaupþingi afganginn af gjaldeyrissjóðnum. Tveir fávísir pólitíkusar gerðu mestu mistök í fjármálasögu landsins og ollu ríkissjóði 35 milljarða tjóni. Skiptir þá minna máli, hver sagði hvað í þessu samtali. Þeir tóku ákvörðun á ábyrgð þáverandi seðlabankastjóra, Davíðs Oddssonar. Allur ferill Davíðs hefur síðan snúist um að falsa fjármálasöguna. Til þess hafa kvótagreifar afhent honum Moggann. Gegn því, að hann passi upp á, að greifarnir þurfi ekki að borga auðlindarentuna.

Grænmeti plús kjúklingur

Punktar

Grænmetisstaðir hafa verið frá ómunatíð í þessu húsnæði á annarri hæð á horni Laugavegs og Klapparstígs. Fyrst var hér Matstofa náttúrulækningafélagsins. Nú er kominn hingað einn fimm birtingarstaða veitingahúsakeðju Sollu og heitir Gló eins og hinir. Innrétting er kunnugleg, bætt við þversöguðum trjábolsþynnum til skrauts á veggjum, einkennistákni keðjunnar. Hér er boðinn kjúklingur auk hins hefðbundna grænmetis. Valið er milli fimm rétta, sem breytast daglega. Ég fékk mér teriyaki kjúkling með vali meðlætis af hlaðborði grænmetis. Þetta var gott í hádegi, stór skammtur, en ekki þungur í maga. Sönn grænmetisæta hefði fremur valið sér lasagna eða böku dagsins. Solla hefur ítrekað fengið fyrstu verðlaun í árlegri samkeppni alþjóðlegra samtaka um þessa tegund heilsumatreiðslu.

Rassvasa- og símtalabókhald

Punktar

Sem Seðlabankastjóri gat Davíð Oddsson ekki afsalað sér skyldum sínum sem Seðlabankastjóri. Þótt hann hafi í símtali gert Geir H. Haarde samsekan, gat hann ekki fríað sig með því. Hann bar ábyrgð á gjaldeyrissjóðnum og verður að standa og falla undir þeirri ábyrgð. Með sex ára þögn um símtalið kom Davíð í veg fyrir, að Landsdómur fengi rétta mynd af víðtækum þætti Geirs í hruninu. Báðir fóru greinilega á taugunum, ófærir um að taka skynsamlegar ákvarðanir. Þetta er staða lýðræðis á Íslandi. Tveir dólgar kasta fjöreggi þjóðarinnar sín í milli í símtali, sem enn telst vera leyndarmál. Og hvergi er bókað um ferlið.

Davíð sakar Geir

Punktar

Davíð Oddsson segir, að ríkisstjórnin, það er Geir H. Haarde, hafi ákveðið að Seðlabankinn lánaði Kaupþingi gjaldeyrisforða okkar kortéri fyrir hrun. Skýring hans á síðbúinni uppljóstrun, er, að hann hafi sjálfur aldrei verið um þetta spurður! Nú á Geir H. Haarde eftir að afneita þessu og við munum þá enn klóra okkur í höfðinu. Spurningin er auðvitað: Hver sagði hvað í hinu fræga símtali erkivinanna. Davíð hefur þegar fórnað Geir. Ef Geir maldar ekki í móinn, verður hann talinn sekur, unz samtalið verður birt. Þetta er gott dæmi um fáránleika þess, að lykilmenn þjóðar geti haldið leyndri orsök gjaldþrots Seðlabankans.

Hófsamir verjast

Punktar

Hófsamir múslimar átta sig margir á hættu af öfgum. Kennimenn múslima í Evrópu gagnrýna hryðjuverkin í París og Kaupmannahöfn. Predika hófsemi úr ræðustólum moska. Ungir múslimar í Osló mynda varnarkeðju um sýnagógu gyðinga. Í löndum múslima fordæma klerkar og erkiklerkar hryðjuverk af trúarástæðum. Íslam hefur fjölþætt innihald eins og kristni. Múslimi er ekki sama og múslimi. Íslam hefur þó aldrei lagað sig að veraldarhyggju vesturlanda. Múslimar í Evrópu þurfa að skilja, að þar fara ríki og trú ekki saman. Fornri ritningu múslima verður ekki teflt gegn kirkjulausri siðfræði vesturlanda. í Evrópu verður sharia að víkja.

Yfirburðir ganga lausir

Punktar

Sitt sýnist hverjum um, að þrír af sjö nefndarmönnum haftanefndar séu frá MP banka. Bankinn hefur því forskot á aðra í fréttum af fyrirhuguðum breytingum á umhverfi banka. Pólitíkusar bófaflokkanna hafa dálæti á þessum minnsta banka landsins. Bjarni Benediktsson segir nefndarmennina þrjá vera „yfirburðamenn“, minna má það nú ekki vera. Ég hef meiri áhyggjur af veru bankamanna yfirleitt í þessari ótrúlega seinvirku nefnd. Yfirmenn í bönkum eru siðblindingjar, annars væru þeir ekki í þeirri stöðu. Nær er að fela slíka í fangelsi en að láta þá ráðskast með framtíð þjóðarinnar. Nóg hefur verið af slíku undanfarinn áratug.

Dáleiddi Ólaf Ragnar

Punktar

Vladimir Pútín sækir fram til áhrifa í Evrópu. Rússland fjármagnar jaðarflokka til vinstri og hægri í senn. Lánaði þjóðrembuflokki Marin Le Pen í Frakklandi hálfan annan milljarð króna. Reisti atómver í kyrrþey í Ungverjalandi fyrir Viktor Orban, forsætisráðherra og formann hægri öfgaflokksins Fidesz. Spýtir fé í kosningabaráttu Evrópusambands-hatara til vinstri og hægri í senn. Er í góðu sambandi við báða stjórnarflokkana í Grikklandi. Þótt hagkerfi Rússlands sé minna en Ítalíu er Pútín leiðandi afl í Evrópu. Veikir stefnu Evrópusambandsins í málum Úkraínu og Grikklands. Dáleiddi líka þjóðrembuna Ólaf Ragnar Grímsson.

Róttækur jaðarflokkur

Punktar

Þjóðareign á kvóta stendur föst í ríkisstjórninni. Framsóknarmenn vilja nánast óbreytt núverandi ástand, sem byggist á ákvæði stjórnarskrár um þjóðareign. Sjálfstæðismenn vilja hins vegar þynna það, færa greifum meiri ráðstöfunarrétt og festa veiðigjaldið til langs tíma. Þeir eru einir um þá skoðun. Aðrir flokkar styðja þjóðareign. Og þjóðin valdi eindregna þjóðareign í þjóðaratkvæði um stjórnarskrána. Sjálfstæðisflokkurinn er róttækur einkavæðingarflokkur, sem er handan hvers konar þjóðarsáttar um auðlindirnar. Þetta verður vafalítið stóra málið í næstu alþingiskosningum. Þá einangrast róttæklingarnir vonandi.